Gleði gleði gleði.

Dóra 8Við hjónin skruppum vestur á Ísafjörð um helgina. Sonurinn og tengdadóttirin (sem er hér á mynd - og ætlar að fæða "handa mér" nýtt ömmubarn í byrjun janúar) búa þar, - og mér finnst ekki annað hægt en að heimsækja þau af og til, þó þau búi þarna norður á hjara veraldar (þarna er ég auðvitað að snapa viðbrögð frá ísfirsku lesendunum mínum). Stundum reyni ég að slá tvær flugur í einu höggi. Hin flugan sem ég sló í þetta sinn, var afmælisveisla. Mamma tengdadótturinnar var fimmtug - og hélt 180 manna veislu í Edinborgarhúsinu. Mikið stuð - mikil stemmning. Hljómsveit sonar míns lék fyrir dansi - og ég dansaði auðvitað eins og brjálæðingur. Dansaði af mér nýju rauðu skóna (jæja þá; nýjustu rauðu skóna - ég veit ég á nokkur pör af rauðum skóm).

Um leið og við mættum í málarablokkina (hvar þau búa), sagði sonurinn: Mamma kíktu út á svalir, þar er dáldið sem gleður þig. Ég hafði ekki grænan grun um hvað hann gæti hugsanlega verið að meina. Opnaði svalardyrnar með galtóman huga. Og þá blasti við mér sjón sem fékk mig til að tryllast af meiri gleði en ég hef fundið fyrir í langan tíma:

Rjúpur 8RJÚPUR!!!!!

"Þær eru 7" sagði sonurinn - "er það nóg fyrir þig?" "Fyrir mig?" spurði ég á móti - og gleðikastið ætlaði nú að keyra um þverbak "ætlarðu að gefa mér þær?" "Já auðvitað, - ég var bara að skjóta þær fyrir þig". Eftir að hafa knúskysst hann í bak og fyrir, var ég eiginlega orðin lömuð af gleði, - og tautaði með sjálfri mér: Ja hérna, margur hefur gefið minna og séð eftir því.

"En þú verður að hamfletta þær sjálf" sagði sonurinn þá. Ekki vandamálið, - ég er snillingur í því. Sit í nýþrifnu eldhúsinu eftir möndlugrautinn í hádeginu, hlusta á rás 1 og hamfletti. Ég er strax farin að hlakka til. Finn fyrir mér lyktina, sem loðir svo við hendurnar á mér allt aðfangadagskvöldið, - þó ég skrúbbi vel. Ómissandi partur af mínum jólum.

Lifið heil. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ó hvað þú átt gott.

Núna eru tvö rjúpulaus jól að baki og ég vill ekki trúa því að þau þriðju renni upp.

Til hamingju með væntanlega barnabarnið.

Jenný Anna Baldursdóttir, 10.11.2008 kl. 10:05

2 Smámynd: Harpa Oddbjörnsdóttir

Sonur þinn er með manninum mínum í þessu bandi sem spilaði:) Hlynur minn spilar á bassann

kveðja að Vestan

Harpa O

Harpa Oddbjörnsdóttir, 10.11.2008 kl. 10:23

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Leitt að missa af þér mín kæra Laufey.  Og yndislegt með litla felubarnið.  Janúargjöf hehehe... ég á reyndar tvö svona felubörn sem fæðast í vor  og svo heppin að þau eru bæði hér á krummaskuðinu okkar  á hjara veraldar LAUFEY!!!

En ég er hætt að borða rjúpur, þær eiga alla mína samúð, þessir fallegu fuglar.  Vona bara að veiðimenn skilji ekki við stofnin í rúst.  Knús á þig elskulegust og njóttu vel.  Þær eru hvort sem er dauðar og verða ekki lífgaðar við.  Það er þá þeirra gleði héðan af að sá sem étur þær, njóti þess í botn.   

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 10.11.2008 kl. 10:38

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Til hamingju með þetta tilvonandi. Ég á von á einu í byrjun maí!

Fékk nokrar rjúpur frá mínum fyrrverandi í fyrra, OG hann hamfletti þær fyrir mig líka!  ... að vísu var það fyrir börnin, eða þannig.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 10.11.2008 kl. 23:17

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Úps .. þetta hljómar eins og ég eigi von sjálf, ég á auðvitað von á barnabarni!

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 10.11.2008 kl. 23:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband