13.11.2008 | 20:15
Það liggur í loftinu.
Mikið ofboðslega sem þetta ættu annars að vera yndislegir tímar, ef ekki væri þetta þunglyndisský, sem svífur yfir landsmönnum af gefnu tilefni.
Ég held að aðventan hafi aldrei verið fyrr á ferðinni. Haustlitirnir varla foknir af trjánum þegar borgarstarfsmenninrnir - þessar elskur - eru búnir að kveikja á jólaljósunum í miðbænum. (Já já, ég veit að fyrsti sunnudagur í aðventu er ekki fyrr en 30.nóv.)
Fyrir mér felst unaðurinn í því, að fjögur yndisleg tímabil - ekki bara taka við af hvort öðru, - heldur beinlínis skarast. Ég er að tala um haustlitina, kertaljósatímabilið, aðventuna og jólin. Ég elska þennan kvartett. Ég hef aldrei fengið svigrúm fyrir skammdegisþunglyndi fyrr en eftir áramót.
... Fyrr en núna. Ég hef einblínt á ríkidæmi mitt, sem felst í svo mörgu öðru en beinhörðum peningum, hlutabréfum og fasteignum. Ég hef líka fagnað því að vera ekki alvarlega skuldum vafin. Ég er líka meðvituð um þá staðreynd að ef ég á að eiga möguleika á að verða atvinnulaus, - þá þarf að leggja niður tónlistarskóla, grunnskóla, leikskóla og aðra starfsemi þar sem tónlistar- eða uppeldisfræðimenntunar og reynslu er krafist. Ekki miklar líkur.
... En samt. - Mórallinn í samfélaginu hefur nú daglega í 5 eða 6 vikur verið svo hnausþykkur og þrúgandi, að ég bara kemst ekki hjá því að vera þjökuð af honum.
Kannski er ég bara svona óvenjunæm fyrir alls kyns bylgjum í loftinu. Ég man þegar leiðtogafundurinn var í Höfða. Þá bjó ég í næsta húsi (Samtúni) og var með stöðugan höfuðverk alla vikuna. Ég sem á ekki vanda til að fá höfuðverk. Komst að þeirri niðurstöðu síðasta fundardaginn, þegar ég flúði út úr bænum, - að þetta hlytu að vera útvarpsbylgjurnar. - Fleiri tugir eða hundruðir útvarpsmanna í næsta húsi við mig að senda frá sér bylgjur út um allan heim.
Ég ætlaði ekki að skrifa um núverandi og yfirvofandi kreppuástand. Mér finnst svo margbúið að bera í bakkafullan lækinn þann. Sumt að vísu gott, - og auðvitað allt skiljanlegt. Mér finnst bara dáldið vont að þurfa að viðurkenna, að þetta hefur meiri og verri áhrif á mig en ég hefði haldið. Og verst er að hafa enga hugmynd um hvernig þetta fer og hvenær þessu linnir.
Lífið er samt yndislegt. Plííís, - ekki reyna að leiðrétta mig með það.
Athugasemdir
Okkur var nú bara hent út úr þotunni - án fallhlífa. Andstyggilegt.
Ingibjörg Þ. Þorleifsdóttir (IP-tala skráð) 13.11.2008 kl. 20:55
Lífið er fínt, þrátt fyrir allt. Elska aðventuna, það er minn tími.
Um að gera að kveikja á ljósum og reyna að skapa frið í sálinni.
Jenný Anna Baldursdóttir, 14.11.2008 kl. 08:54
Sammála þér, þetta er yndislegur tími. Þó dimmur sé, en þá koma ljósin til með að skína skærast og kertaljósin. Nei mér dettur ekki í hug að leiðrétta þig með að lífið sé yndislegt. Því það er nákvæmlega eins og við sköpum okkur það sjálf Laufey mín.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.11.2008 kl. 09:56
Lífið er ekki síst yndislegt ef maður kann þá list að gleðjast yfir litlu. Og þá list lærði ég af mömmu minni. Takk fyrir það
Berglind (IP-tala skráð) 14.11.2008 kl. 13:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.