26.11.2008 | 10:04
Breytt viðhorf.
Ég heyrði nýverið af útvarpsviðtali, þar sem útvarpsmaður tjaldaði viðhorfi sem lengi hefur verið mitt. Hún (útvarpsmaðurinn) kom inn á þá "fáránlegu" staðreynd, að á Íslandi er grænmeti og aðrar hollustuvörur yfirleitt selt á uppsprengdu verði, á meðan súkkulaðikex og ýmsa óhollustu er hægt að fá fyrir töluvert lítinn pening. Staðreynd sem ég hef oft og lengi tuðað yfir.
Þá sagði viðmælandinn, að það væri nauðsynlegt að hafa þetta svona með sætindin, - því það væru svo margar fjölskyldur á Íslandi, sem hefðu hvorki efni né aðstæður til að leyfa sér neinn lúxus. - Vikulegir nammidagar, - oft samfara kósíkvöldi - væri eina tilbreytingin sem mjög margar fjölskyldur geta leyft sér. Og það er jú nauðsynlegt sálarheill hverrar manneskju, að gera sér dagamun, - eða "leyfa sér eitthvað" af og til.
Mín hrökk hressilega við þegar hún heyrði þetta og snarbreytti um viðhorf. Ég tek heilshugar undir ofangreint. Og finnst það þroskamerki hjá hollustufríkinni og óvirka sætindafíklinum mér, - að skipta svo snarlega um viðhorf.
Það sem sló ryki í augu mín til skamms tíma, hefur líklega verið það; að þó ég hafi sjálf lengst af verið fjölskyldumóðir slíkrar alþýðufjölskyldu (og svo sannarlega staðið fyrir æðimörgum nammidögum), þá er ég svo hrikalegur sætindafíkill, - að ég hef aldrei getað notað slíkt stöff í hófi. Ég keypti því - og gúffaði í mig - allt of miklu af þeirri "munaðarvöru". Réttlætti það meðal annars með því að þetta væri svo ódýrt. Sem það var auðvitað ekki í mínu tilfelli, því ég keypti svo mikið (rauðvínskaup voru miklu ódýrari í mínu tilfelli, því það stöff get ég þó notað í hófi).
Ég vona svo sannarlega, að þrátt fyrir breytta tíma sem framundan eru á Íslandi, - getum við öll haldið áfram að gera okkur dagamun. Hvert með sínum hætti. Í hófi.
Myndin hér að ofan er aðeins á ská við umræðuefnið. Ég átti enga mynd af ódýru bónus-nammi, - bara þessu heimagerða gúmmolaði úr rándýru hollustustöffi, - lífrænt ræktuðum döðlum og þvíumlíku.
Lifið heil.
Athugasemdir
Sammála.
Jenný Anna Baldursdóttir, 27.11.2008 kl. 11:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.