31.12.2008 | 16:13
Afrek ársins.
Ég er svo hrikalega egósentrísk, - að þegar ég velti upp spurningunni; hvað var nú merkilegast á árinu? - þá dettur mér ekki í hug að tilgreina einhverja heimsviðburði eða landsviðburði (enda eru aðal-landsviðburðir ársins bara hundleiðinlegir), heldur koma "míns eigins" persónulegu afrek fyrst upp í hugann.
"Á nú enn einn ganginn að fara að monta sig af hjólreiðunum", hugsa nú einhver ykkar. Nei nei, ég skal alveg sleppa því. Ykkur hinum finnst kannski stórmerkilegt að kona á sextugsaldri skuli hafa hjólað langt út á land, - og það oftar en einu sinni, - en ég er bara svo ótrúlega fitt og flott og í frábæru formi, að ég tel slíkt ekki til stórafreka (já já, hógværðin og lítillætið á sínum stað).
Nei - mitt stærsta afrek er að hafa horft á mína fyrstu og einu "seríu". Á seinni árum hef ég bæði verið sorgmædd en hneyksluð fyrir hönd æsku landsins, sem les sig ekki lengur í svefn á kvöldin, heldur horfir á einn þátt af einni af seríunum sem þau eiga í bókahillunni.
En í vor eignaðist bókabéusinn ég sína fyrstu og einu seríu. 33 þætti (100 mínútur hver) um sjálfan Inspector Morse. Og er búin að horfa á þá alla.
Nú haldiði líklega að ég sé endanlega orðin snarklikkuð, - að telja slíkt og þvílíkt til afreka. En afrekið fólst ekki bara í að horfa sér til skemmtunar. Heldur byrjaði ég síðan upp á nýtt, með orðabók, glósubók og pásutakkann á fjarstýringunni að vopni, - og er hálfnuð með þá umferð. Semsagt mitt prívat og persónulega enskunámskeið.
Þetta hefur verið bráðskemmtilegt. Nema hvað ég verð að viðurkenna, að ég hef sjaldan fílað mig jafn heimska. Ég er að upplifa á eigin skinni, hið forkveðna, - að því yngri sem þú ert, þeim mun betur gengur þér að læra tungumál. Ég er viss um að ef 10 ára barn mundi eyða jafn miklum tíma og ég í tungumálanám á viku hverri, - þá mundi það barn bæta við sig 10 eða 20 sinnum meiri orðaforða en ég er að gera. Ekki beint uppörvandi fyrir konu sem vandist því í grunnskóla að vera alltaf með hæstu meðaleinkun yfir árganginn.
En nú er ég orðin nógu þroskuð til að hætta að rífa mig niður. Ég held ótrauð áfram þó hægt gangi.
Ég biðst forláts á að taka bara eitt persónulegt dæmi út úr öllu því unaðslega sem ég hef upplifað á árinu. Auðvitað er ég þakklátust fyrir allar þær yndislegu stundir sem ég hef átt með góðu fólki, - bæði fjölskyldu og vinum, - nýjum vinum og gömlum. Ástarþakkir öll sömul.
Og ég hlakka til nýja ársins og spennandi tækifæra sem bíða handan við hornið.
Gleðilegt nýtt ár elskurnar. - Takk fyrir allar gerðir af samskiptum á árinu sem er að líða.
Athugasemdir
Varstu nokkuð að slá þetta inn á makka?
Gleðilegt ár.
Þ
Þórdís Einarsdóttir, 1.1.2009 kl. 12:49
Já það er eitthvað skrýtið við innsláttinn elskuleg mín. En gaman að lesa og fallegar myndir sem fylgja. Innilega gleðilegt ár og megi allt blómstra í kring um þig og þína þetta árið.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.1.2009 kl. 13:35
Takk elskurnar og afsakið þetta með íslensku stafina. Ég reyndi að skipta ð-unum út í gær, vissi ekki að þetta væru allir íslensku stafirnir. Sara mín, - ástæðan er sú að ég fór að þínum ráðum og skrifaði fyrst í word og færði allt yfir, - í staðin fyrir að skrifa beint á bloggsíðuna. Það er greinilega ekki að virka betur en þetta. Ég var samt með stillt á íslenska fánann. Já Þórdís, - auðvitað er ég með Makka - og hann er bara góður.
Laufey B Waage, 2.1.2009 kl. 09:25
Dugleg ertu.
Takk sömuleiðis fyrir skemmtileg og gefandi samskipti á liðna árinu.
Við tökum þetta nýja með stæl.
Jenný Anna Baldursdóttir, 3.1.2009 kl. 10:16
Gleðilegt ár - takk fyrir öll þessi liðnu.
Þegar þú ert búin með Morse - þá máttu alveg lána mér þættina . Ég skal lána þér hina dásamlegu dönsku Matadorþætti - .
Bestu kveðjur úr Höfninni.
Ingibjörg
Ingibjörg Þ. Þorleifsdóttir (IP-tala skráð) 4.1.2009 kl. 14:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.