Smámunapirringur.

Gleðilegt nýtt ár kæru lesendur.

Einhvern tímann gat ég þess hér á síðunni, að ég ætti auðvelt með að gleðjast yfir litlu. Sem er satt og rétt. En ég á það líka til - svona einstöku sinnum, - að pirrast yfir litlu. Tökum dæmi:

Þegar ég brá mér ofan í heita pottinn í sundlauginni í dag, voru þar fyrir 2 menn. Annar íslenskur en hinn kínverskur (eða af kínversku bergi brotinn). Sá íslenski segir við þann kínverska (sem greinilega var honum ókunnugur): On Iceland we hava little bombs you know, we set them on fire, and they make a big noise you know, and we call them kínverjar. You are kínverji and we call that little bombs kínverji. Hinn er kurteis og reynir að milda dónaskap hins íslenska, með því að segja: I know what you mean. In China we maka lot of fireworks, and that must be why you call some fireworks that name. En sá íslenski lét ekki staðar numið, heldur hélt áfram að hjakka aftur og aftur í orðunum: You are kínverji, and we call that little bombs kínverjar.

Þangað til ofan í pottinn kemur kínversk kona með dóttur sína. Þá spyr íslenski maðurinn strax: Is this your wife? Og fer svo að tala við barnið: What´s your name? Barnið réttir upp 4 fingur, eins og íslensku 4ra ára börnin gera. Ég geri veikburða tilraun til að stöðva dónaskap landa míns, með því að brosa blítt til stúlkunnar og segja: Fjögra ára. Þá snýr sá íslenski sér að mér og fer að útskýra eins og fyrir heimskum krakka, að hann hafi verið að spyrja hvað hún héti, en ekki hvað hún væri gömul. Svo hélt hann áfram að rekja garnirnar úr mæðgunum á sinni lélegu og dónalegu ensku (hann gerði augljóslega ráð fyrir að 4ra ára kínversk stúlka skildi og talaði ensku). Mæðgurnar hristu höfuðin brosandi, skildu greinilega ekki orð. Og fjölskyldufaðirinn gerði rétt í að túlka ekki. 

Um leið og fjölskyldan fór upp úr pottinum, - greinilega búin að fá nóg af yfirheyrslum og öðrum dónaskap, kemur frönsk kona ofan í pottinn. Og íslenski kallinn byrjar á dónalegum og persónulegum yfirheyrslum yfir henni. Ég hugsaði mig um í örfáar sekúndur: Á ég að hella mér yfir kallinn með skömmum, eða yfirgefa pottinn. Kaus það síðarnefnda.

Ef þið kæru lesendur áttið ykkur ekki nú þegar á því, - þá er pirringur minn þríþættur:

Að Íslendingar skuli alltaf að gera ráð fyrir að allir útlendingar tali ensku.

Að sumir Íslendingar skuli gefa sér rétt til að hella sér yfir útlendinga með persónulegum yfirheyrslum - og jafnvel dónaskap (sem viðkomandi íslendingar - fatta oft ekki að er dónaskapur, af því að enskan þeirra er svo léleg).

Æ nú datt úr mér þriðja atriðið (en fúlt, það var örugglega eitthvað greindarlegt).

Ég tek það fram, að mér finnst mjög gaman að taka þátt í almennum umræðum í heita pottinum. En þá erum við ekki að tala um persónulega ágengni við einn eða neinn, heldur blandar sér hver sem vill í almennar umræður. Það er tvennt ólíkt.

Þegar ég er að klæða mig, kemur kona inn í klefann (gæti verið pólsk) og biður nærstadda konu aðstoðar, á nokkuð góðri íslensku. Sú kona fer umsvifalaust að tala við hana á ensku. "Ég bara tala íslensku" segir þá sú (líklega) pólska, - og snýr sér að mér. Ég aðstoðaði hana á einfaldri íslensku og hún brosti blítt og þakkaði mér kærlega með sama hætti.  

Afsakið tuðið elskurnar. Pirringurinn fer að öllum líkindum úr mér um leið og ég er búin að ýta á Vista og birta.

Ef ég iðrast eftir á, - þá segjum við bara að ég hafi verið með jólaneyslufráhvarfseinkenni.

Lifið heil. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

How do you like Iceland

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 4.1.2009 kl. 21:11

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Elsku Laufey mín kallarðu þetta smápirring? ég varð reið við að lesa þetta.  Ætli ég hefði ekki sagt eitthvað fúlt við karlinn svo fólkið heyrði.  Ég hugsa bara að ég hefði gert að.  Það er niðurlægjandi ekki síður fyrir okkur að hlusta á svona dóna en fólkið sem verður fyrir því.  kærleikskveðja til þín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.1.2009 kl. 14:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband