6.1.2009 | 10:04
Erfidrykkja.
Ég var við jarðarför í gær. Fyrsti píanókennarinn minn og náin samstarfskona til margra ára var að missa manninn sinn. Athöfnin var mjög falleg. M.a. voru sungin 3 lög eftir son þeirra hjóna (sem líka var vinnufélagi minn). Falleg lög, mjög vel flutt af Scola Cartorum.
En það sem mig langar að vekja athygli ykkar á er erfidrykkjan. Ég hef alltaf verið mjög svo fylgjandi erfidrykkjum. Það er nánast nauðsynlegt eftir svona athafnir að fólk geti hist og spjallað saman smá stund áður en það fer aftur til síns heima. Og hvað er þá meira viðeigandi en kaffi? Þetta séríslenska félagslega fyrirbæri.
En mér hafa alltaf (já, líka þegar ég var virkur sætindafíkill) ofboðið hnallþóruhlaðborðin í erfidrykkjum. Að aðstandendur (eða e-r þeim velviljaðir) skuli þurfa að kasta vinnu og peningum í þessar ofboðslegu veitingar, sem engum er til góðs að gúffa í sig.
Það sem mér þótti til fyrirmyndar í gær, var að fyrir utan kaffi og vatn (og te að mig minnir), þá var bara boðið upp á konfektmola. Kleinur finnst mér hefðu líka komið til greina, - þá meina ég í staðin fyrir konfektið, ef einhverjir hefðu þurft smá fyllingu í magann (og það þarf ekki tertudisk og gafla fyrir kleinu).
Svo voru engin dúkuð borð, heldur bara slatti af stólum, - en flestir kusu að standa í litlum hópum. Og ég gat ekki betur séð en að allir væru mjög sáttir.
Vildi bara vekja athygli á þessu, til fyrirmyndar fyrir aðra.
P.s. myndin er síðan í sumar, en ekki frá í gær.
Lifið heil.
Athugasemdir
Þetta er ágætis hugmynd Laufey mín. Sammála þér með hnallþórurnar, allof mikið færst í fang þar að mínu mati.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.1.2009 kl. 10:47
Er ekki óhóf komið úr tísku hvort eð er? Bara svooooo góðæris! Líst vel á þessa penu erfidrykkju, og ekki síður það hugarfar sem hún stendur fyrir: að það þurfi ekki alltaf að gera eins og allir hinir hafa alltaf gert. Afþvíbarismi hefur alltaf verið óþolandi fyrirbæri.
Berglind, a.k.a. kreppudrottningin (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 15:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.