11.1.2009 | 16:43
Ættarmót og vinnsluminni.
Í fyrradag - 9.janúar - voru 100 ár síðan móðuramma mín fæddist. Af því tilefni dreif ég afkomendur hennar og fylgifiska upp í Vatnaskóg á fjölskyldumót yfir helgina. Þetta var þrælgaman og vel heppnað, - enda ekki við öðru að búast. - Þeir sem eru náskyldir mér, hljóta að vera afspyrnuskemmtilegir.
Þið eruð líklega hissa á að ég skuli ekki láta myndir af mótinu fylgja með pistlinum. Skýringin er sú, að allt jólafríið og alla síðustu viku sat ég nokkra klukkutíma á degi hverjum (smá ýkjur - ekki miklar) við að eyða myndum úr tölvunni minni, sem sat á þeim eins og ormur á gulli, - ekki aldeilis til í að sleppa þeim. iPhoto-forritið sem ég nota fyrir myndirnar mínar virðist hafa endalaus backup-kerfi, - þannig að ég þurfti að eyða hverri mynd minnst 17 sinnum (líka smá ýkjur - en ekki miklar). Af og til fór svo allt í baklás og margliti boltinn rúllaði endalaust.
Ég neyddist því til að fara á Epla-verkstæðið og kvarta. Epla-drengurinn sagði að ég þyrfti að kaupa megabæts-kubb og setja í tölvuna, til að auka vinnsluminnið úr 50-eitthvað í 120-eitthvað. Ég spurði auðvitað hvort ég gæti ekki látið 50-eitthvað vinnsluminni duga, ef ég næði myndunum niður í sama fjölda og þegar 50-eitthvað vinnsluminnið var upp á sitt besta.
En Epla-drengurinn sagði að svona gömul tölva þyrfti einfaldlega á meira vinnsluminni að halda en ný tölva. Gömul tölva hvað!?! - Hún er rétt tæplega þriggja ára. Alltaf sama ruglið í ykkur af einnota-kynslóðinni, - langaði mig mest að segja við drenginn. Ákvað þó að hafa hann góðan og gera eins og hann sagði mér. Það er til lítils að ráðfæra sig við til þess gerða sérfræðinga, nema maður brjóti odd af oflæti sínu og taki mark á þeim.
Allar svona einnota-kynslóðar-ráðfæringar fá mig til að hugsa til hennar frænku minnar, sem neitaði að skilja af hverju ekki var hægt að gera við ísskápinn hennar, sem hafði staðið sig eins og hetja allan hennar búskap, - 50 ár eða svo. Að viðgerðarmaðurinn skildi láta sér detta í hug að hann væri bara kominn á aldur.
Best að fara að ganga frá farangri helgarinnar - og taka niður jólaskrautið.
Lifið heil.
Athugasemdir
Frábær ertu.
Ég er ekki af einnota kynslóðinni en gæti verið það. Ég skammast mín.
Bíð eftir myndum.
Jenný Anna Baldursdóttir, 11.1.2009 kl. 17:09
Blessuð og sæl og takk fyrir síðast
Þetta var frábært, það liggur við eftir svona gleði að maður vilji hafa ættarmót á hverju ári. En það gengur ekki alveg. Við Saga komum við fyrsta tækifæri og sækjum bækurnar.
Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 22:24
Hahahaha einnota epladrengur og fimmtíu eitthvað. Þú er prakkari Laufey
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.1.2009 kl. 11:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.