Meðgöngufriður.

Dóra 8Ég hef gengið með 3 börn. Frumburðinn í 40 vikur, einkasoninn í 42 vikur (eða rúmlega það) og heimasætuna í 41 viku. Þetta voru yndislegar meðgöngur, fæðingarnar gengu mjög vel og börnin eru hvert öðru stórkostlegra.

Það var bara eitt sem ekki var yndislegt í þessu sambandi, - heldur beinlínis óþolandi. Um leið og áætlaður fæðingartími nálgaðist, varð ekki flóafriður fyrir fólki, sem þótti greinilega ekki gaman að sjá mig af því að ég var greinilega ennþá ólétt. Og það var dembt á mig endalausum leiðindaspurningum á borð við: Hvenær ætlarðu eiginlega að fara að eiga þetta barn?

Þetta var sérstaklega áberandi á 42ja vikna meðgöngunni. Þó drengurinn væri mjög stór og löngu skorðaður niðrí grind, - og þó að ég þyrfti að setjast á hækjur mér til að hvíla mig á leiðinni út í kaupfélag (ca.300 metra leið), - þá leið mér mjög vel. - Alveg þangað til ég kom inn í kaupfélagið. Þá dundu á mér athugasemdirnar.

Og síðustu vikurnar áður en heimasætan fæddist, mætti ég í skólann kát og hress á hverjum degi. En alltaf var mér heilsað með hneykslunartóni í orðunum: Hva!! ertu mætt? - Ekkert að gerast? Hressleikinn snar-rann af mér og ég sagði með uppgerðarbrosi "Gaman að sjá þig líka", þó mig langaði mest að öskra.

Og nú eiga sonur minn og tengdadóttir von á sínu fyrsta barni um þessar mundir. Sónardagarnir voru 6. og 8. janúar, - og strax á síðasta ári var byrjað að spyrja. Ég þori varla að hringja í vini og ættingja, því flestir heilsa mér með orðunum; er barnið fætt? Og sumir bæta við "ég spái því að það fæðist níunda" eða "kannski að það komi fyrir miðnætti" og fleira í þeim dúr.

Og nú erum við bara að tala um árásirnar á mig. Getiði ímyndað ykkur hvernig það er hjá ungu hjónunum sjálfum? Ég hringdi síðast í tengdadóttur mína 2.janúar, - ég bara þori ekki að bætast í hóp þeirra sem eru alltaf að hringja. Ég hringdi reyndar í son minn fyrir helgi og sagðist svona í framhjáhlaupi (erindið var annað) treysta því að ég yrði látin vita þegar fæðingin færi af stað.

Ef ég væri í þeirra sporum, þá væri ég búin að gefa út yfirlýsingu þess efnis; að þeim sem voguðu sér að spyrja, -  yrði umsvifalaust kippt út af listanum yfir þá sem verða látnir vita þegar barnið fæðist (nei ég hafði ekki kjark til þess þegar ég stóð í þessum sporum sjálf).

Afsakið pirringinn, - vonandi fæ ég útrás fyrir hann með þessum skrifum. Ég vil nefnilega ekki láta neitt eyðileggja þessa yndislegu eftirvæntingu, sem fylgir því að eiga von á barni, - eða barnabarni. Ég er löngu farin að elska þetta barn út af lífinu, - og hlakka virkilega til að hitta það, - en ég veit að það væsir ekkert um það í móðurkviði. Og ég vil ekki að þessi ungu hjón búi við álíka árásir og ég bjó við á sínum tíma. 

Ég lofa að láta vita hér á síðunni um leið og barnið er fætt. Ekki spurning. Ooooo ég hlakka svo til Smile.

Lifið heil.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mikið rosalega er ég sátt við þessa færslu hjá þér Laufey mín, þetta er virkilega umhugsunarvert fyrir fólk.  Leyfið vanfærum konum að vera í friði á sinni meðgöngu.  Ég er með tvær tengdadætur og vona að þær fái meiri frið en þetta.  EN af hverju er allt svona ó ó við barnshafandi konur.... ólétt, vanfær þunguð??? Barnshafandi er auðvitað gott og gilt, en allof lítið notað.  Við þurfum að eignast eitthvað fallegt orð yfir þetta fallega tímabil, eitthvað uppbyggilegt og frjósamt orð. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.1.2009 kl. 12:14

2 Smámynd: Laufey B Waage

Takk Ásthildur. Sammála. Einhver með hugmynd að góðu og fallegu orði yfir barnshafandi?

Laufey B Waage, 13.1.2009 kl. 12:16

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Kannast við þetta, hvort ég geri.

Jenný Anna Baldursdóttir, 13.1.2009 kl. 16:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband