2.2.2009 | 11:53
Völd eða þjónusta.
Það fór dáldið fyrir brjóstið á mér að heyra í fréttum í gærkvöldi að ný ríkisstjórn væri KOMIN TIL VALDA. Ekki það að ég sé ósátt við stjórnarskiptin. Ég hefði reyndar helst kosið ópólitíska "fagmannastjórn" fram að kosningum í vor. - En fyrst að bráðabirgðastjórnin þarf endilega að vera flokkspólitísk, - þá er þetta langskársti kosturinn. Svo ég leyfi mér að óska landsmönnum öllum til sjávar og sveita til hamingju með nýju ríkisstjórnina.
En það er auðvitað orðalagið "komin til valda" sem fer fyrir brjóstið á orðhengils-sérvitringnum mér. Ráðherraembættin eru nota bene EMBÆTTI, - og orðið embætti er dregið af orðinu ambátt. Og ekki nóg með það, - heldur er enska orðið yfir ráðherra; minister, - sem þýðir þjónn, eða sá sem ráðinn er til ákveðinnar ÞJÓNUSTU.
Og það er mergurinn málsins: Hlutverk ráðherra er að ÞJÓNA landi og lýð!! - ekki að beita VALDI. Mikið vildi ég óska að þau hefðu það í huga þessar elskur.
Lifið heil.
Athugasemdir
Heyr heyr! Þetta er hverju orði sannara hjá þér Laufey! Ég þoli heldur ekki að sjá þetta eða heyra, og það sem verra er, ég held að talið sé að um völd séu að ræða, amk miðað við partý síðustu 2 ára :)
en svo er önnur pæling, hví eru embættin nefnd herrar? Því eins og þú nefndir hér að ofan er um að ræða þjónustum því ætti réttnefni að vera ráðþjónn eða ráðþerna þó svo að það sé afar þjált.
mbk Tinna
Tinna Óðinsd (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 15:01
Nákvæmlega, mikið er ég sammála þér. Ríkisstjórn á að vera til þjónustu reiðubúin!
Þetta er líka svipað og talað er um að foreldri sé með forræði eða forsjá. Í öðru tilfellinu liggur í orðinu að ráða yfir en í hinu að sjá fyrir.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 2.2.2009 kl. 15:56
Innilega sammála þessu. Þess vegna þarf sennilega að breyta um nafngiftir ekki ráðherra heldur finna upp einhver góð þjónanöfn.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.2.2009 kl. 09:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.