5.2.2009 | 20:26
Hraðakstur.
Það viðurkennist hér með opinberlega, að ég er ein þeirra fjölmörgu Íslendinga sem hafa oftar en einu sinni og oftar en tvisvar framið ákveðið lögbrot. - Við erum hér að tala um brot á reglum um hámarkshraða.
Tökum dæmi:
Á hvítasunnudag fyrir tæpum 7 árum vorum við á leið í fermingarveislu uppi í Borgarfirði. Í miðjum Hvalfjarðargöngunum grípur mig skyndilega sú hugsun; að lögreglan sé örugglega með radarmælingar á þessum slóðum, þessa umferðarmiklu helgi. Hún gæti jafnvel verið komin með eftirlitsmyndavélar í sjálfum göngunum.
Og hvað gerir maður þegar slík hugsun grípur mann? Jú, - maður snarhægir á sér. En ekki Laufey Waage. Það hentaði henni ekki. Á þessu augnabliki var hún nefnilega að leggja af stað upp úr göngunum með stappfullan bíl af fólki og þurfti því að gefa í, svo að bíllinn missti ekki dampinn á miðri leið. Og þá fékk hún auðvitað þennan líka ófagra myndavélaglampa í augun. Og það hvorki með varalit né bros á vör.
Eftir þetta lét eiginmaðurinn ekkert tækifæri ónotað til að gera grín að þessu. Sagði að það væri ekki á valdi nokkurs manns, nema hans elskulegu eiginkonu, að keyra eldgamlan Daihatsu Charade, stappfullan af fólki, á ólöglegum hraða UPP úr Hvalfjarðargöngunum.
Nokkrum vikum seinna fór eiginmaðurinn akandi norður í land. Ég ákvað að fylgja honum úr hlaði, - og heimsækja frænku mína í Borgarfirði í leiðinni. Við vorum því á sitt hvorum bílnum.
Þegar við komum að göngunum, var ég auðvitað á undan. MJÖG meðvituð um radarmyndavélina hugsanlegu. Ég er ekki komin nema rétt hálfnuð niður göngin, þegar ég sé myndavélina. "Ja klókir eru þeir að færa vélina" hugsa ég og tek bílinn úr gír og læt hann renna. Ég var sloppin, - en eiginmaðurinn fyrir aftan mig hafði örugglega ekki áttað sig á þessu. Það hlakkaði því í mér - og vantaði sko ekki bros á vör, - þegar mín rann á fullri ferð niður göngin.
En WHAT!?! Hvaða rosa blossi var þetta allt í einu?!? - Eru þeir með aðra myndavél?!?
Brosið snarhvarf af minni. - Þetta var ekki fyndið.
Svo kom auðvitað í ljós að eiginmaðurinn slapp. Eins og alltaf. Enda leyfi ég honum frekar sjaldan að keyra. Alla vega ef við erum að flýta okkur.
Lifið heil. - Og keyrið varlega.
Athugasemdir
Frussssssssssssssssssssssssssssssssssss
Jenný Anna Baldursdóttir, 6.2.2009 kl. 00:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.