Minningargrein.

_sa_lw_790762.jpgÁsa vinkona mín var jörðuð í dag. Eini "gallinn" við okkar vináttu var akkúrat þetta sem nú er orðin staðreynd: Ef ég ætlaði að standa við það að verða allra kellinga elst, eða svo gott sem, - þá var fyrirséð að yrði Ásulaus í langan tíma, - út af þessum tæpum 40 árum sem voru á milli okkar.

Ég skrifaði minningargrein um hana, sem ég sendi mbl fyrir viku síðan. En það er greinilega verið að jarða óvenjumargt fólk í dag. Alla vega er mikið af minningargreinum - og við þær allar stendur að fleiri greinar birtist síðar. Mín grein er ein þeirra sem bíða. Þess vegna ætla ég að leyfa mér að birta hana hérna í staðin, - á sjálfan jarðarfarardaginn. Hér kemur Mbl.greinin:

Klukkan var að verða hálf níu eitt kvöldið þegar ég trítlaði niður til Ásu og sagðist eiga miða á ákveðna tónleika klukkan níu. "Já þessa tónleika langar mig á! Mig langaði ekkert á tónleikana sem vinkona mín reyndi að fá mig á í gær, en þessa langar mig á" sagði Ása. Nokkrum mínútum seinna var hún komin í rauðu úlpuna og með varalitinn. Við skemmtum okkur vel það kvöld.

Og því fer fjarri að þetta kvöld hafi verið einsdæmi. Ása var nefnilega ekki bara góð vinkona mín, - hún var líka selskapsdaman mín. Við vorum listaspírur með sama smekk. Hvort sem það voru tónleikar, myndlistarsýningar, bókmenntakvöld, bíó eða leikhús, - ég vissi alltaf að Ásu langaði það sama og mig. Og við fórum svo sannarlega oft saman út að skemmta okkur.

Svo var hún næstum alltaf tilkippileg með engum fyrirvara. Ég man bara eftir einu skipti sem hún var það ekki: Ég hringdi einn laugardaginn og sagðist eiga boðskort á myndlistaropnun. "Æ ég er eitthvað drusluleg" sagði Ása. "En ef þú færð miða á danska jazzistann sem spilar í þjóðleikhúsinu á mánudagskvöldið, þá bara ligg ég í bælinu þangað til". Á mánudagskvöldinu var hún eiturhress og við skemmtum okkur konunglega með Nils Henning og félögum.

Það voru ekki bara listviðburðirnir sjálfir sem við nutum saman, heldur naut ég þess alltaf að vera með Ásu. Hún var svo einstaklega skemmtileg. Alltaf að lauma út úr sér gullkornum. - T.d. eitt sinn er við vorum á seinustu stundu á einhvern listviðburðinn - og Ása sveiflaðist til vinstri og hægri þegar ég keyrði hringtorgið á Hringbrautinni: "Þú keyrir alltaf eins og bankaræningi á flótta" sagði mín þá hin rólegasta.

En við vorum ekki bara eins og þeytispjöld út um allar trissur. Við bjuggum lengi í sama húsi - og þá fannst okkur stundum óþarfi að sjóða tvær ýsur í tveimur pottum á sitt hvorri hæðinni. Auk þess var einstaklega dýrmætt fyrir mig að fá að hreiðra um mig í sófanum hjá henni þegar þannig lá á mér, - hún kannski bara að horfa á sjónvarpið - og hvorug í stuði til að spjalla.

En við vorum svo sannarlega oft í stuði til að spjalla. Okkur skorti aldrei umræðuefni. Báðar með sama áhugann á pólitík og öðrum landsmálum og heimsmálum, - náttúrulækningum og ýmsu sem viðkom heilsu og lífsstíl, - listum og menningu, - og bara svo ótal mörgu.

Því miður kynntist ég Ásu ekki fyrr en á efri árum, en mér finnst hún hljóti að vera fremst meðal þeirra sem vaxa að visku með árunum. Hún var einstaklega sterkur karakter og merkileg kona.

Það er svo merkilegt, að við fundum aldrei fyrir þessum tæpum 40 árum sem voru á milli okkar. Við vorum bara vinkonur. Virkilega góðar og nánar vinkonur. Auðvitað breyttust samskiptin á allra seinustu árum þegar minnið og hreyfigetan minnkaði hjá Ásu, en  hún var mér alltaf jafn einstaklega dýrmæt.

Ég sakna hennar og syrgi hana sárt.

Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa kynnst henni og fengið að njóta hennar dýrmætu vináttu.

Guð blessi minningu Ásu vinkonu og styrki alla þá sem hennar sakna.

Laufey Waage. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fallega orðað hjá þér Laufey mín.

Ingibjörg Þ. Þorleifsdóttir (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 20:11

2 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Einlæg og falleg grein sem lýsir skemmtilegu sambandi. Samúðarkveðja vegna fráfalls hennar.

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 10.2.2009 kl. 23:32

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Falleg kona og fallegt samband.

Svei mér þá, það jafnast fátt á við góðar vinkonur - á öllum aldri.

Jenný Anna Baldursdóttir, 11.2.2009 kl. 08:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband