Blómstrandi samkeppni.

Blóm í gluggaNú er vetur í bæ. Þorrinn yfirstandandi og Góan framundan. Akkúrat þessi tími þar sem pottablómin eiga á hættu að fölna og deyja. Þá grípur maður til þess ráðs að dæla í þau "vítamönum" til að forða þeim frá bráðum bana.

Í minni sveit þótti kælt kartöflusoð allra meina bót og upplögð vítamínbomba fyrir blóm og aðrar lífverur í jurtaríkinu.

En hvað gerist núna? Í Þorrabyrjun rifjast það upp fyrir manninum mínum, að þegar þeir bræðurnir voru litlir, dældi mamma þeirra í þá kartöflusoði, til að forða þeim frá kvefpestum. Og það svínvirkaði. Þeir urðu sprækir sem lækir.

Svo nú eru blessuð elsku blómin mín komin með bullandi samkeppni. Á hverju kvöldi (ef kartöflur hafa verið soðnar) horfir eiginmaðurinn á kólnandi soðið í tekrúsinni, setur upp sitt blíðasta bros og spyr hvort hann megi ekki drekka þetta.

Og þar sem ég hef tamið mér að setja virðingu fyrir líðan og heilsufari lífvera í þessa hefðbundnu forgangsröð: Fyrst menn, svo dýr og síðast plöntur, - þá svara ég alltaf játandi.

Frumburðurinn minn hefur lengi sagt það um móður sína, að hún hafi alveg ótrúlegan hæfileika til að telja sér í trú um að allt sem hún ákveður að sé hollt fyrir hana sé gott (þetta sagði hún fyrst þegar hún horfði á mig drekka hitaveituvatnið með bros á vör).

Ég held að eiginmaðurinn sé farinn að smitast af þessum hæfileika mínum. Það er ekki einleikið hvað hann brosir blítt þegar hann kyngir síðasta sopanum af kartöflusoðinu, - fullviss um að nú sé hann orðinn hraustari en ég veit ekki hvað, - og að ekkert muni bíta á honum framar.

Hins vegar horfi ég vandlega framan í hann á hverjum morgni og spyr mig hvort hann sé nokkuð farinn að grænka. Þegar hann kemur heim á kvöldin, er ég ekki frá því að hann sé farinn að blómstra.

Hugsið ykkur bara.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Maðurinn minn segir að ég sé kreppudrottning á sama hátt og þú ert heilsufrík. Hann vill meina að það sé einhver sjálfsdáleiðing á bak við það þegar ég kem heim með það besta úr búðinni, sem fyrir algjöra tilviljun (að mínu mati) var líka langódýrast. Það er sennilega eitthvað til í þessu hjá honum. Ég viðurkenni alla vega að hafa oft snarskipt um skoðun á t.d. fallegum fötum ef verðmiðinn er ljótur.

Frumburðurinn (IP-tala skráð) 11.2.2009 kl. 23:25

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hahaha, þú ert frábær.  Best ég prufi soðið.  Er svo asskoti slöpp upp á síðkastið.

Jenný Anna Baldursdóttir, 12.2.2009 kl. 00:04

3 Smámynd: Guðrún Markúsdóttir

Já, það er nú eins gott að skoða hann vel.  Mér var byrlað kraftmikið grænt te um daginn og klukkutíma síðar (í öðru húsi) var ég spurð hvort ég væri með græna tönn!!! Ég stökk að næsta spegli og gáði, en sá ekkert óvenjulegt. Hvorki fyrr né síðar hefur nokkur haldið að ég væri með grænar tennur.

Guðrún Markúsdóttir, 16.2.2009 kl. 22:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband