Rauður bíll.

Þegar ég var á minni hefðbundnu leið í leikfimi fyrir sléttri viku síðan, - henti það og skeði og kom fyrir og átti sér stað, - að kona á risastórum jeppa sá ekki litla sæta Yarinsinn minn og lét eins og hún ætlaði að keyra í gegn um hann, - bílstjórahliðarmegin.

Henni tókst það sem betur fer ekki alveg, - en hún komst þó það langt áleiðis, að ég komst ekki út um bílstjóradyrnar. - Þurfti að skríða út farþegamegin. 

Það var ekki fyrr en ég var komin út á gangstétt (í leikfimidressinu í frostinu) og konan spurði hvort það væri allt í lagi með mig, - að ég áttaði mig á því hvað hefði auðveldlega getað gerst. Stóri jeppinn hefði auðvitað getað keyrt inn í mig sjálfa, en ekki bara inn í hliðina á bílnum mínum. 

En það var nákvæmlega ekkert að mér. Að vísu gat ég ekki sofnað um kvöldið fyrir verkjum sem þá fyrst komu í ljós, svo ég fór á læknavaktina eftir vinnu daginn eftir. Og í dag fer ég til sjúkranuddara í fjórða skiptið síðan þetta óhapp átti sér stað. En ég hef ekkert þurft að vera frá vinnu, - og er alsæl með að hafa sloppið svona vel.

Ég keyrði beint á verkstæðið, þar sem mér var úthlutaður tími eftir viku (semsagt í dag). En þar sem ég gat ekki opnað bílstjóradyrnar, framkvæmdi verkstæðisformaðurinn bráðabirgðalækningu með risahömrum á meðan ég stóð yfir honum á leikfimidressinu eins og hálfviti.

Í bítið í morgunn fór ég svo með Yarisinn í aðgerð. Ég keypti þessa elsku fyrir 6 árum, þá 3ja ára ódýra týpu (3ja dyra, beinskiptan og það allt). Og hann hefur dugað mér mjög vel.

En þar sem ég átti öngva sök á óhappinu (og nú vil ég ekki sjá neina athugasemd frá börnum eða tengdabörnum um að ég sé ótrúlega "heppin" að vera alltaf í rétti. - Ég er einfaldlega mjög góður ökumaður, eins og alþjóð ætti að vita), - þá beið mín á verkstæðinu bílaleigubíl á kostnað trygginganna.

Bíll þessi er svo nýr að hann er með 3 bókstafi og tvo tölustafi á númeraplötunni. Sjálfskiptur,  5 dyra, með fjarstýringu, rafmagni í rúðum og alls kyns bruðli og fíneríi sem ég á ekki að venjast. Og - haldið ykkur fast - hann er RAUÐUR.

Ég hef einu sinni á æfinni keypt mér splunkunýjan bíl. Að vísu ódýrustu týpu af Daihatsu Charade, og ég keyrði hann í 15 ár - en af því að hann var splunkunýr, þá fékk ég að velja litinn. "Og auðvitað rauðan já ósköp rauðan" söng ég þá eins og segir í vísunni.

Því ég elska rautt. Rauðar flíkur, rauða skó, rauðan bíl.

Matthildur ömmustelpa er ótrúlega hrifin af ömmu sinni. Ég held það sé ekki síst vegna þess að þá sjaldan sem hún (amman) er ekki í rauðum kjól, þá er hún oftast í bleikum. Og Matthildur elskar bleikt, eins og allar 4ra ára stelpur. Í öðru sæti hjá henni er rautt.

Mér þykir samt ósköp vænt um dökkbláa Yarisinn minn.

Legg ekki meira á ykkur.

Lifið heil.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Dúlla.

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.2.2009 kl. 10:00

2 identicon

Ég kann nú alltaf betur við þig á rauðum bíl, helst vínrauðum. Það eru sennilega þessi 15 ár með ykkur rauð sem hafa skilyrt mann í þessa átt :-)

Berglind (IP-tala skráð) 17.2.2009 kl. 19:22

3 identicon

Rauðir bílar eru málið. Ég hef átt tvo, báða japanska og pínulitla. En svo man ég líka eftir appelsínugulu bjöllunni sem þú áttir.

Annars finnst mér það alveg dæmigert fyrir þig að tala bara um litinn á bílaleigubílnum, en ekkert um það hvernig bíll þetta er. Ferrari? Þeir eru margir rauðir.

Það væri óskandi að aðrir 17 ára strákar væru jafn „góðir“ bílstjórar og þú, þá væri ekki svona dýrt fyrir þá að tryggja bílana sína.

Bjarki (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 09:57

4 Smámynd: Laufey B Waage

Takk öll. Afsakið, ég gleymdi að segja að rauði bíllinn er líka Yaris. Fyrir mér er Yaris það sama og bíll - um þessar mundir. Og hjá miðaldra konum er liturinn auðvitað aðalatriði. Svo er ég löngu búin að ákveða að næsti bíll sem ég kaupi verður rauður 5 dyra Yaris. Spurningin er bara hvort hann verður bein- eða sjálfskiptur. Maður er dáldið lengi að ná sjálfskiptum upp í hraða. Hentar ekki alveg bankaræningja á flótta.

Laufey B Waage, 18.2.2009 kl. 13:08

5 Smámynd: Þórdís Einarsdóttir

Er ekki viss um að Yaris henti bankaræningjum á flótta, hvort sem þeir heita beinskiptir eða sjálfskiptir!

Þ

Þórdís Einarsdóttir, 18.2.2009 kl. 15:30

6 Smámynd: Laufey B Waage

Þórdís; Þeir sem búa langt út í óbyggðum, þurfa auðvitað stóran feitan jeppa til að flýja heim, - en við miðbæjarrotturnar erum ótrúlega snöggar á okkar litla Yaris.

Laufey B Waage, 18.2.2009 kl. 17:23

7 identicon

Gott að meiddið var ekki meira á þér - þó tognun sé sko alveg fjandans nóg.

Það á að banna jeppa á götum stórborga - þeir geta bara verið á fjöllum...

Imba

Ingibjörg Þ. Þorleifsdóttir (IP-tala skráð) 18.2.2009 kl. 19:51

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Lán í óláni Laufey mín.  Mikil mildi að ekki fór verr, við hefðum ekki viljað vera án þín hér.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.2.2009 kl. 09:16

9 identicon

Guði sé lof og prís að ekki fór verr. Það getur samt verið bölvanlegt að glíma við tognun,

eigðu góða helgi sæta

Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 16:17

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sjö og einum?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband