Blessuð kreppan.

Það hefur víða verið nefnt, að sköpunarkraftur losni úr læðingi í kreppu. Þegar vinnan minnkar og/eða verkefnin hætta að hrúgast upp í fangið á okkur, þá finnum við hjá okkur þörf til að skapa. Og þegar við höfum ekki efni á að kaupa nýtt, þá búum við til eitthvað frumlegt og flott úr gömlu og/eða ódýru efni. Ég fékk t.d. stórkostlegt listaverk í jólagjöf, sem kostaði viðkomandi listamann ekkert nema vinnuna, en verður örugglega verðlagt hátt, þegar viðkomandi verður orðinn ríkur og frægur. Sjálf tók ég góðar og vel með farnar lesnar bækur úr bókahillunni og gaf í jólagjafir. Svo finnum við föt innst í skápnum, sem við vorum búin að gleyma - eldum nýjar og spennandi naglasúpur - og margt fleira spennandi.

En það er fleira jákvætt við kreppuna:

Ég hef t.d. nokkuð oft í seinni tíð heyrt á tal fólks (t.d. ókunnugt fólk á næsta borði á kaffihúsi), sem segir eitthvað á borð við: "Við erum að spá í ferðast innanlands í sumar. Það eru alveg ótrúlega margir spennandi staðir á landinu, sem við höfum aldrei komið á". Þetta fólk hefur á seinni árum verið svo upptekið við að vinna og vinna - og nota svo þessa fáu frídaga sína í að eyða peningunum sem það vann fyrir í dýrar utanlandsferðir. Nú á fólk minni peninga og meiri tíma og vill þá loksins ferðast innanlands.

Þið hafið væntanlega heyrt um allt þetta fólk sem kaupir árskort í líkamsrækt í janúarbyrjum, fer í 3-4 tíma og svo búið spil. Ónotað kort það sem eftir lifir árs. Ég kannast við þetta í leikfiminni minni. Erfitt að fá bílastæði og skáp í janúar, - þrengsli í sturtuklefanum og í leikfimisalnum sjálfum. Í byrjum febrúar er vanalega allt orðið rúmt og þægilegt aftur. - Nema núna. Það er að koma apríl, - korter í páska, - og ennþá hefur ekkert fækkað í leikfiminni. Ekki það að fleiri hafi keypt sér kort. Nei, - nú hefur fólk bara tíma til að nota kortið sitt. Auk þess sem þú setur ekki lengur peninga í annað en það sem þú nýtir vel.

Læt þetta duga að sinni. Þið megið gjarnan bæta við fleiri dæmum.

Lifið heil. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl frænka.

Það er alveg sama hvort það er kreppa eða ekki maður á alltaf að fara vel með og hugsa vel um aurinn. Það var mér kennt

Ég ætla að ferðast innanlands í sumar en það á ekkert skylt við kreppu.Ég tók nefnileg ekki þátt í bullinu, var bara á hliðarlínunni og hélt mínu striki. Ég er ennþá á hliðarlíunni og held mínu striki. Mér líður líka ljómandi vel.

Bestu kveðjur til allra......................

Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 24.3.2009 kl. 18:19

2 identicon

Sæl mín kæra. Ég verð að viðurkenna að ég fer alltaf í svolitla fýlu þegar talað er um jákvæðar hliðar kreppunnar, vegna þess að þeir eru svo ótalmargir sem tóku ekki þátt í "2007inu" og hafa þurft að vera skapandi og duglegir að fara vel með sitt alla tíð. Auðvitað er fínt ef fólk hættir að eltast við vindinn og fer að meta það sem raunverulega skiptir máli en ég held að við höfum flest verið á hliðarlínunni eins og hún frænka þín kallar það og höldum áfram að vera þar og tökum þátt í timburmönnunum þótt okkur hafi ekki verið boðið í partýið. Kveðja...

Vigdís (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 20:00

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Við verðum að reyna að læra af þessum hörmungartímum.  Láta hana að minnsta kosti gera eitthvað gagn. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.3.2009 kl. 10:35

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Ég tók alveg þátt í bullinu, ég held að allir sem eiga fullar geymslur af dóti og fulla fataskápa af fötum sem þeir þurfi ekki á að halda séu "bullþátttakendur" .. fáir geta sagt "ekki ég" ..

Það sem gefur okkur lífsgæði er yfirleitt ekki það sem við getum keypt, nema þá grunnþarfir eins og matur og húsnæði.

Já, já.. get annars ekki beðið eftir að komast til að sökkva mér betur í Dalai Lama, en það mun ég gera í páskafríinu - en það hefst hjá mér 6. apríl! úje...

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 28.3.2009 kl. 08:39

5 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

En þetta með að ferðast innanlands er sýnd veiði en ekki gefin hjá svo mörgum.

Það er óhugnanlega dýrt að ferðast um Ísland.

Jenný Anna Baldursdóttir, 30.3.2009 kl. 09:19

6 Smámynd: Laufey B Waage

Takk stelpur fyrir kommentin.

Vigdís og Þórunn: Auðvitað var þessi pistill skrifaður sem Pollýönnuleikur fyrir sjálfa mig. Ég tók öngvan þátt í gróðærissukkinu. Hef alltaf verið snillingur í naglasúpugerð og öðrum sparnaði og hélt því áfram í gróðærinu. 

Laufey B Waage, 1.4.2009 kl. 10:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband