13.4.2009 | 16:20
Að kjósa sjálfstæðisflokkinn.
Heimsótti vinahjón nú áðan. Skellti á húsbóndann spurningunni: Hvað ætlarðu að kjósa?
Hann horfði á mig glottandi meðan konan hans svaraði fyrir hann: Hann kýs auðvitað sjálfstæðisflokkinn, - hann er sko blár í gegn.
Ég horfði á glottandi andlitið á honum og spurði: Viltu í alvöru vera grýttur hvar sem þú kemur?
Hann reyndi að skafa glottið af andlitinu - og horfa á mig alvarlegum augum um leið og hann sagði: Hafi sjálfstæðisflokkurinn einhverntíman þurft á stuðningi mínum að halda, þá er það núna.
Konan hans fór þá að tala um þá ótrúlegu staðreynd sem ég hef alltaf verið pirruð út í; - hversu fáránlega margir kjósa alltaf sjálfstæðisflokkinn af þrjósku og af-því-bara-ástæðum.
Og þá sagði ég þeim rúmlega 30 ára gamla sögu, sem ég hef sagt oft og víða:
Vorið "78 voru bæjarstjórnar- og alþingiskosningar með mánaðar millibili. A-flokkarnir unnu víða sigur í bæjarstjórnarkosningunum, - meðal annars á Ísafirði, hvar ég bjó þá. Þar á bæ munaði einungis þremur atkvæðum, að sjálfstæðisflokkurinn missti hreinan meirihluta.
Morguninn eftir þær kosningar fór ég í kaffi til konu einnar og spurði: Hvernig líst þér á úrslitin?
"Mér líst bara mjög vel á þau" sagði hún. "Það var alveg komin tími á að íhaldið fengi svona rassskell. Skellurinn hefði bara þurft að vera aðeins meiri. Þeir hefðu haft gott af því að missa hreinan meirihluta. Hugsaðu þér bara, það munaði bara þremur atkvæðum".
"En þú samt kosið þá?" spurði ég.
"Já auðvitað" sagði hún.
Og ég tók kast. Hellti mér yfir hana með þessari líka þrumuræðu. Benti henni meðal annars á að hennar atkvæði hafi nú verið eitt af þessum þremur sem hefði hetað skipt sköpum. "Já það er satt" sagði hún aftur og aftur.
Mánuði seinna var svo kosið til alþingis.
Og ég heimsótti sömu konuna aftur morguninn eftir þær kosningar. - Með sömu spurningu og áður: Hvernig líst þér á kosningaúrslitin?
"Ég er alveg miður mín" sagði vinkonan þá. "Hann Karvel komst ekki inn. - Svei mér þá, - ég hefði kosið hann, ef þetta hefði hvarflað að mér".
"Vildirðu helst af öllu fá Karvel inn, en kaust samt sjálfstæðisflokkinn af gömlum vana" spurði ég þá.
"Já auðvitað" var svarið aftur.
Og því miður má örugglega segja svipaðar sögur af allt of mörgum íslendingum.
Finnst ykkur þetta hægt?
Athugasemdir
ER það svo ótrúlegt að fjöldinn kjósi XD? Ekki er reynsan svo góð þegar vinstri stjórnir hafa verið við völd. Þess vegna er ég mjög undrandi hvað margir ætla að kjósa VG.
haukur gunnarsson (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 16:30
Nei, auðvitað er svona lagað ekki hægt. Furðulegt að fólk skuli eyða atkvæðum sínum svona út í loftið.
Sérstaklega núna, það er hreinn og klár glæpur að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.
Efast um að ég fengi nokkurn til að viðurkenna slík landráð í þessum kosningum. Einfaldlega óverjandi.
PS. Reynslan af síðustu vinstristjórn var bara ágæt. Þá tók hún við eftir að stjórn Þorsteins Pálssonar sprakk eftir aðeins eins árs setu. Vinstristjórnin hélt út kjörtímabilið og kom m.a. verðbólgunni niður, sem þótti afrek á þeim tíma (1988-91).
Auk þess er fáránlegt að tala um "reynslu af vinstristjórn", þegar ekki hefur verið slík stjórn við lýði í næstum 20 ár. Það eru einfaldlega breyttir tímar! - þessvegna duga svona grýlukerti ekki lengur...
Evreka (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 16:41
Skemmtileg og umhugsunar verð saga sem hittir örugglega marga fyrir. Lýðræðið er dýrmætt og hvert atkvæði skiptir vissulega máli.
Einar Karl, 13.4.2009 kl. 16:46
Þessi spurning er góð og afar áleitin núna. Af hverju ætla ég að kjósa þennan flokk? Veit ég hver stefnan er, er ég sammála henni, er ég að hlýða gömlum fyrirmælum, kýs makinn svona eða er þetta bara vani. Svörin geta auðvitað verið miklu fleiri, en þetta eru bara nokkrar prufur.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 13.4.2009 kl. 16:54
"Og því miður má örugglega segja svipaðar sögur af allt of mörgum íslendingum."
Þ.á.m. vafalaust ófáum kjósendum annarra flokka.
Hjörtur J. Guðmundsson, 13.4.2009 kl. 17:10
Ég get borið virðingu fyrir þeim sem eru frjálshyggjumenn af einlægri hugsjón, þó ég sé engan veginn sammála þeim. Af-því-bara-sjallar eru hins vegar að mínu mati krónísk aðför að íslensku lýðræði.
Af-því-bara-vinstri-grænir eru tegund sem ég man ekki eftir að hafa hitt. Kannski þess vegna sem ég finn mig í þeim hópi.
Berglind (IP-tala skráð) 14.4.2009 kl. 13:00
Já, þetta er agalega pirrandi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur svo mikið af hundtryggu fylgi. Og trúið mér, hann fer yfir 30% í kosningunum. Það eru margir hundfúlir út í Flokkinn, en hönd þeirra á eftir að rata skjálfandi yfir á D-ið í kjörklefanum. Þessir menn líta á stjórnmál sömu augum og íþróttir, maður stendur með sínu liði sama hvað á gengur.
Allir alvöru frjálshyggjumenn ættu náttúrlega fyrir löngu að vera búnir að stofna annan flokk. Það hefur þurft töluvert ómerkilegri skandala á vinstri vængnum til slíks.
Bjarki (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 14:35
Sjálfstæðisflokkurinn ber ekki rétt nafn. Og þar eru margir úlfar í sauðargærum - . Og víst ber að stíga varlega til jarðar og segja sem fæst þegar þeir eiga í hlut. Þeir geta refsað fólki grimmilega.
Ingibjörg (IP-tala skráð) 19.4.2009 kl. 20:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.