Farir mínar ekki sléttar.

Hjólaði til Hafnarfjarðar í fyrsta sinn nú nýlega. Gerði þann feil að taka mark á þeim sem sögðu að beinn og einfaldur hjólastígur lægi eftir þjóðveginum alla leið. Átti að byrja að kenna rúmum klukkutíma eftir að ég lagði af stað.

Strax við Öskjuhlíðina breyttist sá beini slétti stígur í stórgrýttan malartroðning, sem lá upp snarbratta hlíðina. Ég vildi ekki trúa að leið mín til Hafnarfjarðar lægi eftir þeim stíg, svo ég hélt á hjólinu yfir móa og mela uns ég gat troðið mér á mjóan malarkannt við þjóðveginn. 

Stuttu seinna var sá mjói malarkanntur allur, - og vegna þess að ég var hjálmlaus og staðráðin í að verða allra kellinga elst, - vogaði ég mér ekki út í brjálaða umferðina, - heldur tók ég farskjótann aftur undir arminn og bar hann yfir grasi grónar grundir - yfir á malbikaðan hjólastiginn sem ég hafði eygt álengdar.

Rann blíðlega niður í Fossvoginn og lét reyna á sterku lærin á leiðinni upp Kópavogshálsinn. 

En hvað nú? - Hvert liggur þessi stígur eiginlega? - Ég er á leið til Hafnarfjarðar, - ekki í vesturbæ Kópavogs. 

Enn og aftur tek ég fákinn undir handlegginn og hyggst æða  með hann yfir himinháa grasi vaxna hljóðmön. - En mæti þá grimmum augum fólks, sem vildi greinilega meina að hljóðmön þessi væri hluti af þeirra persónulega húsagarði. 

Sneypt og undirlút snéri ég því við með fákinn og stefndi (eftir stígnum) í átt að Kópavogskirkju, - sem var alls ekki í sömu átt og Hafnarfjörður. 

Svona hélt ferðin áfram. Ég uppgötvaði það á bakaleiðinn, að stígurinn liggur jú alla þessa leið, - en í þvílíkum krókaleiðum, - að þeir sem lögðu hann hafa greinilega verið sannfærðir um að fólk sem ferðaðist gangandi eða hjólandi, væri bara í líkamsrækt, - og vildi því endilega hafa sem brattastar brekkur og svo stóra króka að maður heldur að verið sé að vísa manni langt inn í íbúðarhverfi, sem lengst frá þjóðveginum. Það hefur greinilega ekki hvarflað að þeim að maður vildi einfaldlega komast hjólandi frá Reykjavík til Hafnarfjarðar.

Í Garðabæ liggur stígurinn þannig að maður þarf oftar en einu sinni að fara upp á brú og yfir þjóðveginn, - auk þess sem maður fer svo langt inn í íbúðarhverfi að saklaust fólk í vorverkum hrekkur í kút.

Í Hafnarfirði og víðar á leiðinni liggur stígurinn í mjög stóra króka kringum eitt tré, eða önnur fyrirbæri. Með fullri virðingu fyrir landslagsarkitektúr, - sem mér finnst skipta miklu máli, þá finnst mér mannlífið skipta enn meira máli. Og hluti af mannlífinu er jú að geta leyft sér þann munað að ferðast öðru vísi en á fjórhjólabifreið.

Mestalla leiðina var ég skíthrædd um að ég yrði mér til ævarandi skammar með því að mæta of seint. Ég var það stressuð að ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að stoppa til að líta á klukkuna.

Mér til mikillar furðu var ég mætt í vinnuna 17 mínútum áður en fyrsti tíminn átti að byrja. Eins gott, því það tekur mig 15 mínútur að róta.

Fyrsti nemandinn sem mætti sá ástæðu til að spyrja mig í forundran: Af hverju ertu svona blaut á bakinu?

Í gær hjólaði ég svo aftur sömu leið. Gaf mér töluvert lengri tíma, - tók mark á mömmu hennar Rauðhettu og fór aldrei út af stígnum.

En þegar ég skipti niður í 1.gír á leið upp snarbrattan Kópavogshálsinn, datt keðjan af. Ég hélt að það væri nú lítið mál, hef lennt í því áður. En í þetta sinn hafði hún klemmst fyrir aftan pedalhringinn og ég náði henni ekki þaðan, sama hvað ég reyndi.

Sá þann eina kost í stöðunni að hringja á leigubíl og sækja hjólið síðar á sendiferðabíl. Hugkvæmdist þó að athuga fyrst hvort himnafaðirinn væri ekki til í að hlífa mér við þeim kostnaði og redda mér hjálparhellu. Ég þóttist nefnilega vita að hægt væri mögulega að ná keðjunni með þremur til fjórum höndum, - verkfæralaust. 

Og viti menn, - ég var bænheyrð med det samme. Guð tekur líka mark á hæfilega hégómlegum bænum. Sendi mér ungan og myndarlegan og afar hjálplegan mann, - og í sameiningu tókst okkur að redda þessu fyrir horn.

En þegar ég ætlaði að hjóla af stað, var hjólið fast í bremsu. Ég var fljót að losa bremsuna með því að snúa framhjólinu í hring. En uppgötvaði þá að það var líka fast í bremsu hinu megin. Og það tókst mér ekki að losa. Bremsupúðinn lá eins og klessa upp við dekkið og tók engum fortölum.

Svo ég bara hjólaði áfram til Hafnarfjarðar. - Í bremsu.

Það kom mér mest á óvart að ég var líka sléttan klukkutíma í þessari ferð, eins og þeirri fyrri.

Eftir kennslu hjólaði ég alla leið til baka - í bremsu.

Ég hlýt að fá heimsins sterkustu fætur eftir þennan dag.

Ég á stefnumót við hjólaviðgerðavin minn í næstu götu eftir vinnu í dag.

Lifið heil.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ha, ha, ha!!! Ef mér hefði dottið þessi forsaga í hug þegar við Páll mættum þér í Garðabænum í gær, á okkar Súbarúnu, þá hefði ég nú stoppað og boðið þér far

Berglind, a.k.a. kreppudrottningin (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 11:15

2 Smámynd: Þórdís Einarsdóttir

Ég myndi frekar hjóla með bremsuna á heldur en að þyggja far í Súbarúnu. Það eru allavega meiri líkur á að komast á leiðarenda!

En ég er sammála með hjólastígana. Þeir eru oft ekki nógu skynsamlega hugsaðir. Er alltaf að lenda í að tengingin milli Rey og Kóp sé annað hvort ekki til eða í formi reiðstíga sem eru svo grófir að tennurnar hristast úr manni og ríðandi knapar senda manni illt augnaráð. 

Þú kannski ferð og talar við hjólastígaskipuleggjara höfuðborgarsvæðiðsins og lætur hann heyra það er það ekki?

Kv. Þ (sem á hjól með keðju sem dettur ekki af og bremsur sem virka)

Þórdís Einarsdóttir, 28.4.2009 kl. 13:03

3 identicon

Mér finnast þetta nú ósæmileg ummæli um vinkonu mína hana Súbarúnu. Hún á betra skilið.

Bjarki (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 21:17

4 identicon

Já takk!!!! Ég vissi alveg að það hefði ekki verið alslæm hugmynd á sínum tíma að biðja um lítinn bróður

Berglind (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 23:24

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þú hefur aldeilis staðið í stórræðum Laufey mín.  En þetta hefur örugglega gert þér heilmikið gott eftir allt saman.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.5.2009 kl. 09:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband