Hvorki móðursjúk, sjúkdómahrædd né fordómafull.

Nú á haustmisseri hef ég verið alveg ótrúlega frjálslynd og sveigjanleg nýtísku húsmóðir. - Leyfði loksins eiginmanninum að komast að í eldhúsinu og elda kvöldmat einu sinni í viku. - Á fimmtudögum. Það kom að sjálfsögðu til út úr tímabundinni neyð. 

Nema hvað. - Nú á fimmtudaginn var - þ.e. síðasta eldamennskukvöldið hans í þessari lotu, - bauð hann okkur mæðgunum að borða á veitingastað. Og af öllum þeim aragrúa veitingastaða sem í boði eru hér í 101, - þurfti hann endilega að velja Mexíkóskan stað.

Plís ekki halda að ég hafi fordóma gagnvart neinu sem frá Mexíkó kemur. - Ég hef meira að segja farið á þennan stað áður og líkaði mjög vel.

En akkúrat núna fyrir helgi, þegar móðursýkin gagnvart svínaflensunni stóð sem hæst, - fannst mér þetta ekki góð hugmynd. "Geturðu ekki valið einhvern annan stað, bara í þetta eina sinn" spurði ég eiginmanninn. "Heyrðu ég er að bjóða þér á þennan stað, - mjög gott tilboð, - djöst teik it or lív it" svaraði minn.

"Ertu búinn að spyrja hvort einhver úr þjónustu- eða kokkaliðinu sé nýkominn frá Mexíkó" spurði ég þá. "Laufey er ekki í lagi með þig?" spurði minn bara á móti. "Jú jú, ég er alla vega hvorki móðursjúk, fordómafull né sjúkdómahrædd, - en það er kannski óþarfi að stilla manni upp við vegg og láta mann sanna það" hugsaði ég og reyndi að bera mig vel.

Staðurinn var stappfullur af fólki. Það undraði mig mest. "Eins gott ég hringdi í hádeginu og pantaði borð, - þá var allt að verða upppantað" sagði minn. 

Stúlkan sem tók hjá okkur pöntun og færði okkur hnífapör og forrétt talaði ensku, en var alls ekki Mexíkósk í útliti. Þegar við mættum á staðinn tók ég eftir því að þessi sama stúlka var að rúlla hnífapörum inn í servettu.

Sá sem þjónaði á borðunum í kring um okkur var hins vegar mjög Mexíkóskur í útliti. Þegar hann spurði hvort hann mætti taka frá okkur (forréttar-)diskana, fannst mér það hið besta mál.

Þjónninn sem kom með aðalréttinn til okkar var hins vegar ennþá Mexíkóskari í útliti en sá sem þjónaði á næstu borðum. Mjög viðkunnalegur og almennilegur, en á háskólaaldri - og ég gat ekki annað en velt því fyrir mér hvort hann væri nýkominn úr páskafríi frá sínu heimalandi.

Og fyrst ég var nú mætt á staðinn þurfti ég auðvitað að panta mér aðalrétt sem innihélt beikon. "Þeir fara nú ekki að flytja beikonið á milli heimsálfa, þegar nóg er til af því hér á landi" sagði ég um leið og ég kyngdi fyrsta bitanum". En borðfélagar mínir voru sammála um að auðvitað væri beikonið úr Mexíkóskum svínum. Það skiptir engu máli, - flensan berst á milli manna en ekki frá dýrum, - minnti ég sjálfa mig á og reyndi að brosa og njóta matarins sem var jú virkilega góður.

Nú er kominn mánudagur og ég er enn við hestaheilsu.

Meðgöngutími svínaflensunnar er víst nokkur langur og maður getur verið einkennalaus í töluverðan tíma. Þannig að ef þið hættið að heyra frá mér, - þá .... Nei nei, - ekkert rugl. - Eins og ég sagði áðan, þá er ég hvorki móðursjúk, sjúkdómahrædd né fordómafull.

Lifið heil.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ó Laufey

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.5.2009 kl. 09:44

2 identicon

Já, Laufey, það er eins gott að þú ert hvorki móðursjúk, fordómafull eða  sjúkdómahrædd,  ég veit ekki hvernig þetta hefði farið þá hjá þér!

Bára (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 00:02

3 identicon

Jeminn, hvað ég sé þetta allt fyrir mér

Þegar svínaflensan greinist í Reykjavík munum við loka kjálkanum ;)

kveðja

Dóra Hlín (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 11:23

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Þú ert yndisleg Laufey.  Ég er í kasti.

Jenný Anna Baldursdóttir, 9.5.2009 kl. 21:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband