22.5.2009 | 13:48
Sorg og gleði.
Gleði og sorgir skiptast á í þessu lífi. Þessa dagana er ég að upplifa hvort tveggja í einu.
Á þriðjudaginn var lennti 18 ára gamall frændi minn í hræðilegu vinnuslysi, sem dró hann til dauða á rúmum sólarhring. Það ná auðvitað engin orð að lýsa þeirri gífurlegu sorg sem heltekur fólk á slíkri stundu. Þó get ég ekki annað en verið þakklát fyrir þann sálarstyrk sem hans allra nánustu hefur greinilega verið gefið.
En á meðan hann frændi minn lá á milli heims og helju, - fór ég á flugvöllinn að sækja ísfirska ömmudrenginn minn og mömmu hans. Svona yndislegu barni fylgir bara tóm gleði og hamingja. Afkomendunum hér á höfuðborgarsvæðinu var auðvitað smalað saman í ljúffenga fjölskyldumáltíð.
Ömmu í Reykjavík gengur mjög vel að spilla drengnum. Hún bauð honum að sjálfsögðu á huggulegt kaffihús í iðandi mannlífinu í gær. En þegar átti að skella drengnum í vagninn og labba með hann heim, mótmælti hann hástöfum. Amman gat að sjálfsögðu ekki látið hann orga úr sér lungun niður Bankastrætið og vestur Austurstrætið og alla Vesturgötuna, - svo að sjálfsögðu tók hún hann strax upp úr vagninum og hélt á honum alla leiðina heim. Ég meina - hver á að spilla börnum, ef ekki ömmurnar?
Nú í morgunn fórum við svo í sund. Ferlega gaman.
Það er sko á hreinu, að drengurinn verður varla farinn að tala, þegar hann byrjar að hrópa í tíma og ótíma; ég vil fara til ömmu í Reykjavík, ég vil fara til ömmu í Reykjavík.
Góða helgi gott fólk.
Athugasemdir
Laufey mín sem betur fer eru gleðistundirnar í lífinu oftast fleiri en sorgarstundirnar. Og þetta slys var hræðilegt og dauði Kristjáns frænda okkar aldeilis ótímabært.
Og auðvitað eiga ömmur að spilla og dilla ömmukrílunum sínum. Eigðu góða helgi með fólkinu þínu öllu. Við sjáumst fljótlega.
Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 22.5.2009 kl. 16:37
Já Laufey mín, þessi slys gera ekki boð á undan sér og altaf erfiðara þegar ungt fólk og börn eiga í hlut. Samhryggist þér með dauða frænda þíns... Þessvegna er ennþá mikilvægara að njóta þessarra litlu krýla meðan maður getur(og spilla og ofdekra og alt það). Njóttu!!!!! Kveðja frá Bergen....
'Asta Alberts. (IP-tala skráð) 23.5.2009 kl. 21:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.