Skepnuskapur og dýrasambýli.

gorbatjof_og_regan_855834.jpgÖrverpið mitt hefur oft vælt yfir því að hafa aldrei fengið að hafa gæludýr á heimilinu. "Systkini mín fengu að hafa gæludýr, en ekki ég" var algengasta setningin í téðu væli.

Fyrir utan þá staðreynd að undirrituð kann einfaldlega ekki að meta náin samskipti við dýr, - þá hefur þessi grimmd hennar við örverpið beinlínis með gæludýrahald systkina hennar að gera.

Að gullfiskum frátöldum (sem örverpið fékk jú líka að prófa), þá byrjaði "skepnuskapurinn" með tveimur hömstrum. Þegar annar þeirra dó, varð sorgin hjá einkasyninum svo gífurleg, að móðir hans hafði ekki brjóst í sér til annars en að bæta honum missinn upp með öðrum hamstri. Svo dó hinn hamsturinn - og sorgarsagan endurtók sig, ásamt samskonar sárabótum. Þannig gekk það til uns mér tókst - við fráfall fimmta eða sjötta hamsturins - að sannfæra soninn um að það borgaði sig ekki að kaupa fleiri skammlífa hamstra til að syrgja.

Þá tókst frumburðinum að fá móður sína til að samþykkja kanínuhald. Þegar kanínan sú var búin að naga í sundur uppáhaldspilsið mitt ásamt tveimur uppáhaldsbolunum mínum, - skutlaði ég henni snarlega aftur til síns heima, - til frænda míns í Mosfellsdalnum.

Ekki löngu seinna hringdi frumburðurinn frá Ísafjarðarflugvelli. Það var búið að kalla út í vél - og hún var með kettling í fanginu, sem hún gat með engu móti lagt frá sér. Ég hafði nákvæmlega engan umhugsunarfrest - og tók ekki sjensinn á að stúlkan kæmi ekki heim úr þessu páskafríi, - og sagði henni því bara að drífa sig út í vél med det samme. Tók svo á móti stúlku með kött í fangi á Reykjavíkurflugvelli.

Þegar ég var orðin svefnlaus og taugaveikluð, eftir að kötturinn hafði - auk annarar óæskilegrar hegðunar - nokkrum sinnum stokkið ofan úr gluggakistu og lennt á sofandi mér, - fleygði ég tveimur börnum og einum ketti inn í minn rauða Daihatsu Charade, keyrði eins og bankaræningi á flótta til frænku minnar í Þverárhlíðinni, - og tilkynnti börnunum það skýrt og skilmerkilega á leiðinni að kötturinn yrði skilinn þar eftir, - og að aldrei framar yrði neinn skepnuskapur á mínu heimili. Við það hef ég staðið.

blindur_kottur.jpgEn það er eins og frumburðurinn hafi aldrei jafnað sig á þessari grimmilegu höfnum móðurinnar á köttum og öðrum kvikindum. Hún fékk sé kött um leið og hún byrjaði að búa með sínum eiginmanni, sem er vel að merkja sá mesti exem- og ofnæmisgemlingur sem ég hef kynnst. Og það virðist vera ættgengt, - því bæði sonur hennar og stjúpsonur hafa greinst með kattaofnæmi. Svo köttur var ekki á hennar heimili nema fyrsta búskaparárið.

En hún gefst ekki upp á að bæta sér það upp með öðrum skepnum. Ég hef ekki tölu á öllum hömstrunum, naggrísunum, kanínunum, stökkmúsunum - og hvað öll þessi kvikindi heita sem hún hefur keypt "handa syninum". 

Það næstnýjasta er; að eitt sinn þegar hún fór að kaupa mat handa naggrísnum Lovísu, vakti annar naggrís óskipta athygli hennar. Hún beinlínis soðaðist að honum. Ástæðan fyrir þessu "sogi" kom fljótlega í ljós. Naggrísinn var eiginlega ekki til sölu, þar sem hann var augljóslega greindarskertur og líklegast með einhverjar fleiri fatlanir - og gat því ekki farið á neitt venjulegt heimili. Þessi útskýring bræddi hjarta dóttur minnar gjörsamlega, Henni tókst að sannfæra gæludýraverslunareigandann um að nákvæmlega þessum naggrísi gæti hvergi liðið betur en á hennar heimili. Svo nú búa þar - auk stökkmúsanna Regans og Gorbatjoffs (sjá efstu mynd) - naggrísirnir Lovísa og Díana.

En hún hefur aldrei geta sætt sig við kattaleysið. Eftir endalausan lestur um kattaofnæmi, hefur hún komist að þeirri niðurstöðu að kattaofnæmisgrísir hafa ofnæmi fyrir flestum köttum, en ekki öllum. Og hún hefur að sjálfsögðu einsett sér að finna þennan eina kött, sem hvorki sonurinn, stjúpsonurinn né eiginmaðurinn hafa ofnæmi fyrir.

Þá ber það við, að unglingslæða föður hennar gýtur nokkrum kettlingum. Í ljós kemur að einn kettlinganna er staurblindur ásamt einhvejum fleiri fötlunum. Og að sjálfsögðu ákveður dóttir mín að nákvæmlega þetta eintak af ketti (sjá mynd), sé hinn eini rétti. Í gær kom svo faðir hennar með köttinn og skildi hann eftir til prufu. Ég kom við í Hlíðunum nú áðan - og strákarnir voru allir farnir að klóra sér, hnerra og sjúga upp í nefið. Þegar ég vakti athygli á því, - sagði dóttir mín bara - með óslökkvandi stjörnuglampa í augunum; er hún ekki yndisleg!!

Af mínum alkunnu andstyggilegheitum tautaði ég með sjálfri mér að yndislegheitin hefðu nú kannski eitthvað með fötlun dýrsins að gera. Bætti því við - svona aðeins meira upphátt; hvort ég mætti ekki benda á þetta sambýli fyrir fjölfötluð dýr, ef ég frétti af fleiri eintökum. Hún sagði jú.

Þar hafiði það. Ég get verið milligöngumaður ef ykkur vantar viðeigandi stofnun fyrir andlega eða líkamlega fatlaðar skepnur.

Lifið heil.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Laufey, dóttir mín ætti vel heima í minni fjölskyldu. Við kvenfólkið, semsagt ég og dætur mínar megum helst ekki sjá nein dýr án þess að vilja taka þau að okkur.

Konný (IP-tala skráð) 31.5.2009 kl. 16:35

2 identicon

Já, það hefur því miður ekki farið fram hjá mér hvað sonur minn hefur hnerrað mikið síðasta sólarhringinn eða svo. Þó ég hafi ekki staðið eiginmann eða stjúpson að eiginlegu klóri sýnist mér þeir rauðari á lit en vant er. Þannig að nú reyni ég bara að njóta þess að knúsa þetta dásamlega dýr þangað til ég horfist endanlega í augu við staðreyndir og ferja hana aftur upp á Skaga.

Mér til mikillar huggunar hefur hún líka brætt hjörtu heimilismanna á Skaganum og mun fá að knúsa liðið þar þangað til hún fer til himna af náttúrulegum orsökum, en ekki af völdum dýralækna.

Frumburðurinn (IP-tala skráð) 31.5.2009 kl. 18:01

3 identicon

Laufey mín kisur eru yndislegar. Mig dauðlangar í eina. Hef átt þrjár. Fyrst var læðan Sólveig Sigríður. Hún bjó í Álftamýri 46 á 2.h.t.v. Fékk sjaldan að fara út og var yndisleg. Það var mikil sorg þegar hún var send í eilífðina. Síðan kom Hosa. Yndisleg og ljúf. Hún bjó á Glæsivöllum 11. Eignaðist fallega kettlinga og við nutum hennar lengi. Það var keyrt á hana greyið. Og aftur mikil sorg. Síðastur var Askur. Við létum aldrei gelda hann frekar en hina syni okkar. Hann var því aðal fressinn í hverfinu, mikil slagsmálafress og kom oft mikið slasaður heim. Ég hjúkraði honum auðvitað alltaf og hressti hann við. Askur veiktist og þurfti að fara til Guðs. Ég sakna hans mikið. Hver vit nema ég eignist einn enn. Hér er líka enginn með ofnæmi fyrir einu né neinu. Jú Jóhann er með gróðurofnæmi (alveg rétt).

Þórunn Sigurlaug Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 1.6.2009 kl. 20:05

4 Smámynd: Þórdís Einarsdóttir

Hún er náttúrulega alveg óheyrilega mikið krútt þó hún sé örlítið öðruvísi en flestir kettir. Ég sá svo ekki betur en þeir feðga klóruðu sér eins og þeir fengju borgað fyrir, svona þegar húsmóðirin leit undan í það minnsta. :D

En ég sakna enn feitu kisu. Hún var æðisleg. Blessuð sé minning hennar.

Þ

Þórdís Einarsdóttir, 2.6.2009 kl. 11:16

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Meow ;-)

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 3.6.2009 kl. 14:58

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hahahaha þú kannt að orða hlutina Laufey mín.  Takk fyrir skemmtilegan lestur.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.6.2009 kl. 13:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband