Kreditkort. - Gömul saga og ný.

Þegar kreditkortin hófu innreið sína til landsins, greip ég strax til minnar sígildu andstöðuþrjóskuröskunnar - og harðneitaði að fá mér svona kort. "Ekki nóg með að þessir íslendingar þurfi alltaf að eignast strax allt það nýjasta á markaðinum, - heldur þurfa þeir líka að temja sér að kaupa allt sem þeir mögulega geta, rúmum mánuði áður en þeir eiga fyrir því" tautaði ég - og ætlaði sko ekki að vera ein af þeim. Fannst ég lifa góðu lífi án þess, - gat ótrúlega oft farið með börnin út að borða á námslánunum.

Sumarið 1986 vill svo til að vinkona mín ein er að vinna um borð í Norrænu og má bjóða einum farþega í fría ferð. Var svo elskuleg að bjóða undirritaðri. Ég var ekki lengi að þiggja boðið, var meira að segja svo heppin að eiga aðra góða vinkonu í Noregi, sem var upplagt að heimsækja í viku, áður en ég héldi áfram með skipinu til baka.

En ég átti auðvitað tvö börn sem ég hvorki gat né vildi skilja eftir á Íslandi. Og ef ég notaði alla mína peninga (sem áttu að fara í framfærslu þann mánuðinn) til að borga Norrænu-fargjaldið þeirra, - átti ég auðvitað ekki krónu eftir til að borga mat né nokkuð annað í ferðinni.

"Þetta er ekkert mál, þú færð þér bara kreditkort" sögðu allir, - og bættu því við að í nágrannalöndunum væri ekki bara hægt að nota kortið til að borga allt alls staðar, - heldur væri meira að segja hægt að nota það til að taka peninga út úr banka.

Svo ég braut odd af oflæti mínu og fékk mér kreditkort.

Við fórum í land í Færeyjum, hvar okkur bar að vera frá föstudegi fram á mánudag, meðan skipið skutlaði nokkrum farþegum til Danmerkur. Spennandi. 

Ég var búin að bóka gistingu á farfuglaheimili í Þórshöfn - og þar byrjaði ég á að sveifla kortinu (gistingu helgarinnar bar að greiða fyrirfram). En á þeim bænum höfðu þeir ekki tileinkað sér þennan nútímalega greiðslumáta. Svo ég varð að draga fram afganginn af aleigunni, sem ég hafði verið svo forsjál að skipta í danskar krónur áður en við lögðum af stað, - og þær krónur smellpössuðu fyrir gistingunni.

Þá var að bregða sér í "kauffélagið". Ég hafði hugsað mér að birgja mig upp af hollri og góðri matvöru sem við gætum maulað inn á herbergi eftir þörfum alla helgina. - Þá átti sko ekki að byrja á því að misnota kreditkortið í eitthvert skyndibitarugl. En þetta stóra og nýtískulega kauffélag hafði heldur ekki tileinkað sér nútíma viðskiptahætti, - vildi ekki sjá kortið mitt.

Við röltum áfram niðrí bæ og fórum inn í allar matvöruverslanir sem við sáum, en engin vildi sjá mitt nýja og glæsilega kreditkort. Ég leitaði uppi næsta banka til að taka út peninga, en þá var auðvitað nýbúið að loka öllum bönkum.

Á þessum tímapunkti voru börnin orðin öskrandi af hungri (þau voru að vísu of vel upp alin til að öskra), svo ég ákvað að brjóta odd af oflæti mínu og fara með þau inn á næsta skyndibitastað. En það var alls staðar sama sagan. Færeyingar könnuðust ekkert við kreditkort. Með einni undantekningu þó.

- Við enduðum á Hótel Hafnia. Settumst þar við dúkað borð og létum smókingklædda þjóna með hvítan dúk á handleggnum færa okkur dýrindis steikur.

Veturinn á eftir sagði sonur minn 8 ára af og til: Mamma manstu þegar við vorum í Færeyjum - og höfðum ekki efni á að borða annars staðar en á dýrasta hótelinu. Íróníski húmorinn þroskaðist snemma hjá þessari elsku.

Á bryggjunni í Bergen var markaður sem börnin urðu agndofa yfir og ákváðu að eyða þar norskum krónum sem faðir þeirra hafði gefið þeim. Drengurinn sá þar lukkutröll og spurði mig hvað orðið lukka þýddi. Ég útskýrði.

Ég hélt að Norðmenn væru aðeins forframaðri í nútíma greiðsluháttum, en því var ekki að heilsa. Ég þurfti að komast með börn og farangur að lestarstöðinni (vinkonan bjó í Osló), en gat hvorki notað kortið til að borga strætó né leigubíl. Ég reyndi að útskýra fyrir leigubílstjóra einum góðlegum farir mínar ekki sléttar, á einhverri blöndu af ensku, íslensku og hinum norðurlandamálunum. Hætti ekki að væla fyrr en hann bauðst til að aka okkur endurgreiðslulaust. Þegar við vorum sest inn í bílinn benti sonurinn á lukkutröllið og brosti stoltur. "Nú skil ég, þetta virkar" sagði hann.

Lestarferðin var löng. Ég gat auðvitað ekki keypt neinar samlokur né ávexti til að maula á leiðinni, - heldur var okkur vísað inn í lúxusvagninn, þar sem við borðuðum lúxusmáltíðir greiddar með kreditkorti.

Um kvöldið ætlaði ég að bjóða vinkonu minni upp á drykk á næstu krá, en enn og aftur var kortinu hafnað. Við þvældumst alla leið niðri miðbæ, - en árangurslaust. Komum jafn þyrstar heim.

Morguninn eftir fór ég í norskan banka og tók út böns af peningum sem dugðu mér restina af ferðinni. 

Þessi gamla saga er orðin svo löng, að nýja sagan verður að bíða þangað til á morgunn eða hinn. 

Bíðið spennt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Laufey mín - hvers vegna kannast ég svona vel við þessa frásögn?  Þetta var alveg dásamleg ferð.

Og manstu eftir melónunni?

IÞÞ

Ingibjörg (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 13:47

2 Smámynd: Laufey B Waage

Ójá Ingibjörg, - melónunni gleymi ég aldrei. Takk enn og aftur fyrir þessa frábæru ferð.

Laufey B Waage, 10.6.2009 kl. 14:15

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Við hjónin sátum og borðuðum dýrindis mat í New Orleans í franska hverfinu, þegar kom að því að greiða dró Elli fram visakortið sitt, veitingamaðurinn horfði á það eins og naut á nývirki en tók loks við því og fór innfyrir.  Það leið smá stund svo kom hann aftur og sagði að kortinu hefði verið hafnað.  Við urðum mjög hissa, ég dró samt fram mitt eðal gullkort og rétti honum, hann hvarf aftur og sama sagan endurtók sig, kortinu hafnað.  Þá setti ég hnefan í borðið og sagði að það væri bullshit.  Loks kom svo eigandinn og fór í málið.  Hvað var að?  Jú blókin hafði hring lókal í næsta banka til að spyrja um vild á kortinu  Þeir bugtuðu sig svo báðir og báðust afsökunar og við fengum góðan afslátt af matnum fyrir bragðið. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.6.2009 kl. 08:57

4 identicon

spennandi....

Dóra Hlín (IP-tala skráð) 11.6.2009 kl. 09:35

5 identicon

Hvaðan komu peningarnir fyrir aðgangi í hina dásamlegu sundlaug Þórshafnar? Ég man ekki betur en að við systkinin höfum eytt drjúgum hluta helgarinnar í að hoppa af 5 metra stökkbrettinu, sem var einn af hápunktum ferðarinnar! Þurfti ekki mikið til að gleðja börnin, bara sund og lúxusmáltíðir ;-)

Berglind (IP-tala skráð) 11.6.2009 kl. 23:24

6 Smámynd: Laufey B Waage

Ég beið bara eftir að Berglind kæmi með nákvæmlega þessa spurningu. Meðan ég var að skrifa pistilinn kom þessi spurning af og til upp í hugann; - hvaðan komu peningarnir fyrir sundlauginni? Ég bara man það ekki. Ótrúlegt, - eins og ég er annars minnug.

Laufey B Waage, 12.6.2009 kl. 08:59

7 identicon

Það er nú verið að rífa upp gömul sár á minni sál með því að tala um melónuna. Ég eyddi talsverðum peningum í þessa glæsilegu, og þungu, vatnsmelónu sem ég þurfti svo að henda grátandi í sjóinn af því að hvorki mamma mín né systir vildu hjálpa mér að bera hana.

Bjarki (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 19:22

8 identicon

Hei!!! Ég bar hana sko hluta af leiðinni!! Alveg þangað til mamma sagði okkur að hætta þessu rugli.

Stóra systir (IP-tala skráð) 15.6.2009 kl. 22:25

9 Smámynd: Laufey B Waage

Er búin að lofa drengnum að kaupa stóra og fallega vatnsmelónu um leið og hann mætir í 101 - og bera hana heim. Þá verður veisla. -  Jú auðvitað fyrir stóru systur líka.

Laufey B Waage, 16.6.2009 kl. 20:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband