12.6.2009 | 10:00
Kreditkort - seinni hluti.
Eftir frægðarförina til Færeyja og Noregs (sjá síðustu færslu) tók ég upp fyrri viðskiptahætti með ávísanahefti og reiðufé að vopni. Hef þó alltaf átt kreditkort og gripið til þess á völdum stundum ÁN allrar misnotkunar.
Í fyrra eða hittifyrra tók ég svo eftir því að eiginmaðurinn átti alltaf einhverjar ferðaávísanir uppi í erminni. Ég setti upp öfundarstútinn og spurði af hverju hann fengi svona ávísanir en ekki ég. "Ég skipti við miklu betra kreditkortafyrirtæki en þú", sagði minn.
Eftir örlitla undanlátssemi við nýávanda frestunaráráttuna, skipti ég úr visa yfir í mastercard. En Adam var ekki lengi í Paradís. Mér rétt svo tókst að safna mér fyrir ferð til Ísafjarðar, áður en hringt var frá bankanum - og mér tilkynnt að þeir hjá mastercard væru hættir með ferðaávísanirnar.
"Allt í lagi" sagði ég. "Það vill svo bráðheppilega til að þeir voru að hringja í mig frá amerikan express og bjóða mér kreditkort þar sem maður safnar helling af ferðapunktum. "Kortið sem kemur þér út" var skrifað stórum stöfum utan og innan á skrifstofuna, þegar ég mætti á staðinn til að virkja nýja kortið.
Fer svo með bílinn í skoðun á þriðjudaginn. - "Við tökum ekki amerikan express" sagði afgreiðslustúlkan á þeim bænum. Ég stóð stjörf smá stund. Það hríslaðist um mig einhver hrollur og mér fannst ég allt í einu komin 23 ár aftur í tímann. Var ekki alveg viss um hvort ég væri í Færeyjum eða Noregi. "Af hverju í ósköpunum" stundi ég loks út úr mér á lýtalausri íslensku. "Þeir eru svo dýrir, það eru mörg fyrirtæki sem taka þetta ekki" sagði stúlkan. Og það hef ég sannreynt á þessum þremur dögum.
Svo nú er mín með 1 debit- og TVÖ kreditkort í kortaveskinu. Ekki alveg í stíl við minn karakter. - En ég SKAL safna punktum fyrir ferð til Parísar, Kaupmannahafnar eða Barcelona. - Eða alla vega til Ísafjarðar. Mestu skiptir að hann Bónus vinur minn tekur american express. - Ennþá.
Það liggur við að ég sakni gömlu góðu ávísanaheftanna.
Góða helgi gott fólk.
Athugasemdir
Bónus ? Þú ?
Magnús Waage (IP-tala skráð) 13.6.2009 kl. 00:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.