22.6.2009 | 15:52
Hópslys á heimili
Á fimmtudaginn var kl. 19.00 stóð ég við eldavélina og ætlaði að fara að bera á borð þessa dýrindis rauðsprettu, sem ég hafði verið að elda ásamt ofnbökuðu grænmeti.
Heimasætan hafði látið renna í bað, sem hún ætlaði í fyrir matinn, - en gleymdi sér yfir tölvunni inni í stofu.
Skyndilega hleypur hún æpandi og ó-nei-andi í átt að baðherberginu. Mér snarbrá og tók undir mig stökk til að vita hvað væri eiginlega um að vera.
Það sem ég hafði ekki hugmynd um, var að flætt hafði upp úr baðkarinu - og á þessu augnabliki vantaði aðeins örfáa sentimetra upp á að flóðið næði að eldavélinni. Sem þýddi það, að í fyrsta skrefi - á ullarsokkunum á sleipum flísunum - flaug ég á hausinn í flóðinu - og bar fyrir mig hægri höndina eins og vera ber (ómeðvitað að sjálfsögðu).
Ég fann strax að úlnliðurinn var langt frá því að vera eins og hann átti að sér. Enda kom svo í ljós að hann er brotinn.
En í fluginu heyrði ég dynk, eins og heimasætan væri að hlaupa á vegg. Hún vissi ekki sjálf - í öllu fátinu - hvort sú væri raunin, en nöglin var farin af einni alblóðugri tá (hún hékk reyndar á bláþræði eins og ég veit ekki hvað).
Ég stóð rassblaut og rennblaut við vaskinn og kældi úlnliðinn meðan eiginmaðurinn þurrkaði upp mesta flóðið.
Svo fór hann með okkur á slysó þessi elska. Þetta leit auðvitað mjög illa út fyrir hann.
Þegar ég var komin í gips, horfði ég á fremur óhuggulegar aðfarir við tá heimasætunnar. Það þurfti ekki bara að taka nöglina af, heldur líka sauma naglbeðinn undir nöglinni, sem hafði rifnað í sundur. Hún mætti samt í vinnu daginn eftir - og vann þrjár ellefu tíma vaktir á sínum veitingastað um helgina þessi hetja.
En ég sit bara heima í mínu sumarfríi og hjóla hvorki lang og mikið, né heldur spila ég mikið á mitt píanó, eins og til stóð.
En ég skal verða heil á ný. - Ég skal.
Njótið sumarsins elskurnar.
Athugasemdir
Vó, ekki þinn dagur þarna.
En láttu þér batna.
Þú syngur bara í staðinn fyrir að spila.
Pollýanna biður að heilsa.
Krya på dig.
Jenný Anna Baldursdóttir, 22.6.2009 kl. 16:39
Laufey mín, auðvitað verður þú heil á ný.
En "almáttugsbænum" farðu vel með þig og ekki vera að gera neinar kúnstir með hendina " sem gætu kannske flýtt fyrir" Eigðu góðan dag sæta.
Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 09:57
Ekki gott - ekki gott.
Kveðja,
Imba
Ingibjörg (IP-tala skráð) 24.6.2009 kl. 19:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.