11.9.2009 | 10:15
Á bílþaki.
Fyrir nokkrum árum fór ég ásamt bestu-vinkonu að heimsækja sameiginlega vinkonu okkar á Selfossi. Þetta var árlegur viðburður til skamms tíma og stóðu heimsóknir þessar frá því síðdegis á laugardegi og fram yfir hádegi á sunnudegi.
Þegar ég er ferðbúin, rifjast það upp fyrir mér að í þessum ferðum gerist það alltaf, að ég er að vanda hrókur alls fagnaðar fram að miðnætti eða svo, - en druslast svo á þrjóskunni einni saman við að sitja í sófanum langt fram á nótt, svo ég missi ekki af neinu sem þær eru að segja. - Það tekst misilla, svo aftur og aftur missi ég tökin á vökustaurunum, - og þá fer mig að dreyma framhald á slúðrinu, - og verð svo rosalega hissa þegar ég losa um svefninn og frásagnir þeirra eru ekki í beinu framhaldi af draumunum mínum.
Á morgnana ligg ég svo og læt mér leiðast á meðan B-vinkonurnar liggja og hrjóta langt fram á dag.
Þar sem ég stend þarna ferðbúin fæ ég þá frábæru hugmynd að nú skuli verða breyting á. Í bítið á sunnudagsmorgninum muni ég fá mér góðan göngutúr í Stokkseyrarfjörunni minni áður en The B´s ná að rumska.
Svo ég gríp gönguskóna með mér og dríf mig af stað.
Þar sem ég er stopp á rauðu ljósi í miðbænum og syng hástöfum með skemmtilegri tónlist í útvarpinu, - liggur mér við hjartaáfalli, þegar maður nokkur bankar á rúðuna hjá mér.
"Þú ert með skó á þakinu" segir maðurinn!!
Já hvað er þetta, - ég gat ekki opnað bíldyrnar með báðar hendur fullar.
Stuttu seinna hringdi maðurinn minn í vinnuna til mín og spurði hvort ég ætlaði að borða kjúklingasalat í hádeginu. "Já. - Af hverju?" spurði ég. "Það liggur á bílastæðinu hérna heima", sagði hann. "Þú mátt ekki taka svona harkalega af stað Laufey mín, ef hádegismaturinn þinn á að tolla á bílþakinu alla leið til Njarðvíkur".
Af hverju er ég að rifja þetta upp núna? Jú, vegna þess að nú um daginn var ég að bakka út af bílastæði við Bónus. Hrekk í kút og snarbremsa þegar það er flautað rétt hjá mér. Sé bílstjóra rétt hjá mér horfa á mig með óskiljanlegu handapati. Ég skil ekkert og ætla að halda áfram. Þá flautar hann aftur og handapatar meira. Þegar hann áttar sig á því hvað ég er léleg í táknmálsfræðum, stígur hann út úr sínum bíl, gengur að mínum bíl, opnar bílstjóradyrnar (vá, - þá stóð mér ekki alveg á sama) og rétti mér stóra Cheerios-kassann sem ég hafði skilið eftir uppi á þaki.
Síðasta "á bílþaki-sagan" kemur í næsta bloggi.
Góða helgi elskurnar.
Athugasemdir
Hahaha! Takk fyrir þessa mjög svo upplífgandi færslu! Bíð spennt eftir næstu!
Guðrún Markúsdóttir, 12.9.2009 kl. 12:05
ha ha ha ha ha - krumpist Cheeriosið?
Dóra Hlín (IP-tala skráð) 12.9.2009 kl. 17:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.