Á bílþaki - seinni hluti

ommu-og_afa-lei_i_909255.jpgFyrir rúmum tveimur árum - á fæðingardegi látinnar móðursystur minnar - fórum við mamma í okkar árlega ratleik um kirkjugarðinn í Fossvogi. Þ.e.a.s mamma var ennþá í sínum hefðbundna ratleik, en ég hafði auðvitað haft vit á að hringja í skrifstofu kirkjugarðanna og spyrja um númerin á leiðum ættingjanna. Og ég hef það frá pabba að vera bæði ratvís og flink á súlurit, kort og skemu.

Þennan sumardag var ég að passa barnabörnin. Móðir þeirra hafði harðneitað að ömmustelpan sæti í mínum bíl í barnabílstólnum sem ég hafði keypt þegar heimasætan var lítil - og bróðir ömmustúlkunnar síðan lengi setið í. "Það sér ekkert á þessum stól, hann er nákvæmlega jafn góður og þegar ég keypti hann" hafði ég sagt. "Mamma, plastið í svona stólum verður stökkt með árunum og samkvæmt *$#&*-staðli #$%&-reglugerðar &%$#*-samtaka $%#*-öryggisráðs, þá ábyrgjast þeir ekki öryggi þeirra svona mörg ár.

- Sem þýddi það. að bíll fylgdi barni. Þ.e.a.s til skamms tíma þurftum við mæðgurnar alltaf að skipta um bíl þegar ég var að passa ömmustelpuna, svo að hún gæti ferðast örugg í geimskipinu sínu sem var tryggilega boltað niður í aftursæti Subaru-legacy-station bifreiðar frumburðarins.

"Regnhlífarkerran er orðin dáldið leiðinleg, það gæti orðið basl að smella henni sundur og saman. - Þ.e.a.s. ef þér tekst að ná henni út úr skottinu, - það þarf orðið lagni við að opna það" sagði frumburðurinn um leið og hún kvaddi börn og skipti um bíl.

Mér tókst vel að opna skottið við Fossvogskirkjugarð, en regnhlífarkerran harðneitaði að smella nógu vel í sundur til að ég gæti fest öryggisplasthólkana yfir. Í staðin fyrir að halda í til þess gerð handföng, hélt ég því um öryggisplasthólkana og liðamótin sem þau áttu að loka - og spásseraði þannig milli leiða ættingjanna.

Ég var því orðin dáldið þreytt þegar við komum aftur að bílnum - og tilkynnti mömmu og börnunum að nú myndi ég bjóða þeim upp á ís í uppáhaldsísbúðinni í Fákafeni.

En þá vildi kerran - sem áður hafði neitað að smella sundur - ekki smella saman aftur. Ég hamaðist á henni þangað til börnin voru orðin pirruð, - þá ákvað ég að fleygja henni í þetta stóra station-skott. En þá gat ég ekki með nokkru móti opnað skottið.

Ég neyddist því til að setja kerruna frammí, og troða mömmu - með aðra mjöðmina splunkunýja, en hina ónýta, - á milli barnastólanna afturí.

Þegar við komum í ísbúðina finn ég ekki veskið mitt (handtöskuna). Ég uppgötva ég mér til mikillar skelfingar að í öllum hamaganginum við kerruna og skottdyrnar hafði ég lagt veskið frá mér upp á bílþakið. Og nú lá það auðvitað á bílastæðinu við Fossvogskirkjugarðinn, nema einhver væri nú þegar búinn að nappa því þaðan. Til að fullvissa mig, hringdi ég úr mömmu síma í minn síma - sem lét að sjálfsögðu ekkert í sér heyra, - enda staddur í allt öðru hverfi.

"Ég borga ísinn" sagði mamma, "svo leitum við að veskinu á eftir". Sem við og gerðum. Nema hvað veskið var hvergi á eða í námunda við umrætt bílastæði.

Þegar heim kom, hringdi ég beint í greiðslukortafyrirtækið til að láta loka kortunum, - og svo í lögregluna til að tilkynna veskishvarfið. Lögregluþjónnin sagði mér þá að ég skildi keyra aftur sömuleið og fá einhvern með mér á rúntinn til að svipast um eftir veskinu. - Það væri ótrúlegt hvað hlutir gætu tollað lengi á bílþaki. Veskið gæti verið hvar sem væri á leiðinni inn í Fákafen. (Viðkomandi lögregluþjónn vissi greinilega ekki að undirrituð er þekkt fyrir að keyra eins og bankaræningi á flótta).

Eiginmaðurinn samþykkti að koma með mér á rúntinn. Þegar ég kem út úr húsi, stendur hann við Súba-Rúnu og bendir á veskið mitt sem liggur ofaní spojler (eða hvað hún nú heitir, breiða bríkin aftast á bílþakinu), með ólina krækta um einhvern loftnetstitt á miðju bílþaki.

Hvernig farsímanum tókst að hoppa upp úr lokuðu veskinu og lenda Guð-má-vita-hvar, er mér hins vegar hulin ráðgáta.

Lifið heil.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta gefur ekki bara góða mynd af flumbruganginum í þér, mamma mín, heldur líka hallærisbúskapnum á okkur mæðgunum, hvort sem það eru barnastólar, bílskott eða kerrur. Við erum ekki kreppudrottningar fyrir ekki neitt!

Frumburðurinn (IP-tala skráð) 13.9.2009 kl. 19:20

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Kreppudrottningar  Takk fyrir enn eina frábæra sögu Laufey mín.  Ég skemmti mér vel yfir henni.  Og svo endaði hún vel, sem betur fer.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.9.2009 kl. 10:23

3 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

Það á bara ekkert að stilla þessa síma á titring

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 26.9.2009 kl. 14:03

4 identicon

Hei, þarftu ekki að færa bloggið þitt eitthvert annað núna? Ekki ferðu að blogga undir "þessum Daníel"?

Berglind (IP-tala skráð) 26.9.2009 kl. 23:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband