5.10.2009 | 21:38
Panik á peysunni.
Eftir að vinkonan kvaddi rétt fyrir 11, hafði ég hraðar hendur við minn hefðbundna kennsluundirbúning, fékk mér svo hádegismat og fór síðan í sturtu og hrein föt. Hitamælirinn hafði sýnt eitthvað nálægt frostmarki þegar ég fór á fætur, en sú tala var eins og hver önnur olía á eld minnar andstöðuþrjóskuröskunnar. Ég ákvað semsagt að það væri upplagt að nota þetta síðasta tækifæri hinnar mildu og hlýju haustblíðu til að klæðast þunnum leggings, örþunnri ofurfleginni blússu og ennþá þynnri opinni v-hálsmálspeysu. Að sjálfsögðu var ég svo berfætt í opnum inniskónum. Þannig búin hélt ég á síðustu stundu út í Yarisinn (skammtaði mér semsagt frekar naumt tímann til að keyra að skólanum við Vífilstaðahlíðina, og stilla upp 4 rafmagnspíanóum, ásamt tilheyrandi snúrufargani og fleiri fylgihlutum).
Ég á aldrei eftir að gleyma panikinu sem greip mig þar sem ég stóð úti á gangstétt og mundi eftir bílnum sem ég hafði gleymt að sækja upp í Þingholt.
Ég var eina og hálfa sekúntu að afskrifa hugmyndina um leigubíl. Fyrir utan verðið (að vísu er langt síðan ég hef kynnt mér taxtann) yrði hann allt of lengi að sækja mig og keyra gegn um miðbæinn. Og ekki gat ég látið hann keyra mig beint í skólann, því Yarinsinn var fullur af hljóðfærum og bókum sem ég var búin að lofa nemendunum í dag. Auk þess sem ég þurfti síðar að ferðast á milli skóla á naumt skömmtuðum tíma.
Ég var því án umhugsunar búin að fleygja skólatöskunni ofan í hjólakörfuna og lögð af stað í loftköstum, hjólandi upp í Þingholt. Mér hefur aldrei fundist þessi tæplega tveggja kílómetra leið jafn löng og ÍSKÖLD. Þjótandi á ljóshraða gaf ég mér þó tíma til að velta því fyrir mér hvað ég væri búin að fá marga stöðumælasektarmiða.
Ég komst ekki hjá því að muna - á meðan ég var að læsa hjólinu við ljósastaur í Ingólfsstræti, að ég hafði gleymt að taka asmapústið. Eins gott að ég mundi það ekki á miðri leið, - þá hefði ég líklega fengið banvænt asmakast og ekki komist lengra. Ég finn ennþá til berkjunum.
Ég mætti í kennslustofuna stundvíslega um leið og ég átti að byrja að kenna. Og þá átti ég eftir að róta. En þar sem ég er þaulvanur kennari, auk þess að vera kona sem getur gert a.m.k. þrennt í einu, tókst mér að leiðbeina nemendunum í fyrsta hópnum við skrifleg verkefni á meðan ég var að róta. Já ég leyfi mér að fullyrða að nemendurnir hafi ekki borið nokkurn skaða af þessum ósköpum.
Jú auðvitað dauðskammast ég mín fyrir að segja opinberlega frá þessu. En þar sem ég er nú búin að vera kennari síðan skömmu fyrir Krist - og þetta er bara í annað skiptið sem ég mæti svona seint, þá vona ég að þetta sé og verði fyrirgefið (mér vitanlega tók enginn eftir að ég væri sein).
Bið ykkur að hafa mig afsakaða meðan ég stend upp frá tölvunni, klæði mig í lopapeysu, KRAFTGALLANN, ullarsokka, kuldaskó, húfu, trefil og vetlinga, - og fæ eiginmanninn eða heimasætuna til að skutla mér upp í Þingholt að sækja hjólið.
Lifið heil.
Athugasemdir
Laufey mín þú verður að passa uppá hjartað og blóðþrýstinginn.
Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 5.10.2009 kl. 22:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.