20.11.2009 | 11:22
Engin aukaamma
Föstudaginn 20.nóvember 1998 varð ég amma. Frumburðurinn minn eignaðist þá frumburðinn sinn sem á 11 ára afmæli í dag. Þessi mynd er tekin fyrir sléttu ári, þegar hann fékk lifandi töframann í 10 ára afmælisgjöf.
Nú eru ömmubörnin orðin þrjú (ásamt einu 15 ára stjúpömmubarni sem ég fæ með engu móti til að kalla mig ömmu. Hann á svo margar aðrar). Og ég er einstaklega lánsöm amma. Aðalatriðið er auðvitað það að þau eru heilbrigð og yndisleg í alla staði. Og búa hjá frábærum foreldrum, svo ég þarf öngvar áhyggjur af þeim að hafa.
En ekki bara það. - Vér ömmur erum auðvitað eigingjarnar og viljum hafa ungana nálægt okkur. Og ég er svo einstaklega heppin að frumburðurinn hefur þessi 11 ár búið í 105, svo ég get auðveldlega haft mikið og gott samband við börnin hennar. Enda eru þau frábærir vinir mínir.
En fyrir tæpu ári, rétt áður en sonarsonurinn fæddist, helltist yfir mig kvíði yfir því að hann kæmi alltaf til með að búa á Ísafirði og mundi því ekki ná að kynnast mér og tengjast mér náið. Auk þess sem börn hafa oftast meiri samband við fjölskyldu móðurinnar, - og móðuramma þessa drengs býr í næsta húsi við hann þar vestra.
En kvíði minn var sem betur fer ástæðulaus. Morguninn eftir að hann fæddist (14.jan), flaug ég vestur og knúsaði hann stöðugt í sólarhring. Kenndi honum að þekkja snertinguna, lyktina og röddina hennar ömmu í Reykjavík (dóttir mín ljósmóðirin setti upp strangan svip þegar hún heyrði þetta). Og ég er svo heppin að hafa hitt hann í hverjum mánuði nema apríl og september (bý mig undir að desember detti líka út). Og það er gagnkvæm ást á milli okkar. - Ekki spurning.
Ég er því engin aukaamma. Hef verið svo lánsöm að ná að tengjast öllum mínum ömmubörnum nánum tilfinningaböndum. Og öll eru þau einstaklega dýrmætir gleðigjafar, sem sækjast eftir mínum félagsskap. Það er ekkert sjálfgefið.
Vá hvað mér létti þegar frumburðurinn hætti við að flytja með sína fjölskyldu til Hong Kong. Sei nó mor.
Og nú er blásið til veislu!! 11 ára afmælisveislu . Ég hlakka til
Góða helgi elskurnar.
Athugasemdir
Innilega til hamingju með strákinn og öll hin. Jú ég staðfesti að það er yndislegt að vera amma. Og amma á aldrei að vera neitt auka. Hún á að vera alvöru og þau eiga að þekkja lyktina af henni og handtökin frá fæðingu.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 20.11.2009 kl. 11:28
Þú verður alla vega aðalamman næstu vikurnar. Ég held við höfum ekki haft jafn mikið af planaðri pössun framundan síðan frumburðurinn minn var í daglegri pössun hjá þér fyrsta sumarið sitt! Eða alla vega síðan við Páll hættum að vera bæði í kvöld- og næturvinnu
Frumburðurinn (IP-tala skráð) 23.11.2009 kl. 00:18
aldeilis engin aukaamma
Dóra Hlín (IP-tala skráð) 1.12.2009 kl. 10:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.