Annáll ársins

hih_i_sofa_juni_09.jpgÉg vil byrja á að biðja mína fjölmörgu aðdáendur nær og fjær innilegrar afsökunar á allt of langri fjarveru minni hér í bloggheimum. Og nú er heldur betur ástæða til að hrista pistil fram úr erminni. - Kominn sjálfur gamlársdagur og þá finnst minni tilhlýðilegt að rifja upp það markverðasta á árinu. Og það eru nokkur atriði sem standa upp úr.

Ég eignaðist þriðja barnabarnið í janúar. Og það var fyrsta barn sonar míns og hans konu. Eins og fram hefur komið á þessari síðu, þá er ég einstaklega þakklát fyrir hvursu ég oft ég hef fengið að njóta samvista við drenginn þann, þar sem þau búa langt úti á landi.

lw_me_hamarinn.jpgAnnað eftirminnilegt frá árinu er úlnliðsbrotið. Stóra spíran í hægri hönd píanókennarans hrökk í sundur alveg við úlnliðinn í afar skrautlegu slysi á heimavelli. Ef svo ólíklega vill til að þið viljið rifja upp ýtarlegri lýsingar á því óhappi, þá bara skrolliði niður síðuna og aftur til 19.júni.

Að öðru skemmtilegra. Jazzhátíðin í Reykjavík var óvenju vegleg og skemmtileg þetta haustið. Ekki bara það að hátíðin stóð óvenju lengi, eða 20 daga vegna 20 ára afmælis hátíðarinnar. Ekki heldur bara það að flytjendur voru óendanlega flinkir og flottir. Heldur líka hitt, - að spilagleði flytjenda var alveg mögnuð. Minnti mig dáldið á Rokk í Reykjavík stemmninguna, nema hvað þessir flytjendur eru auðvitað svo miklu miklu flinkari. Þökk sé FÍH-skólanum sem hefur útskrifað ótrúlega marga bráðflinka jazztónlistarmenn síðustu 10-20 árin. Til viðbótar kom svo líka taumlaus gleði áheyrenda. Það voru sko allir komnir til að skemmta sér. Mér fannst eins og það gæti verið eitt af jákvæðum einkennum "kreppunnar".

grjotstelpa_julladottir.jpgEitt af séreinkennum þessa árs er mjög sorglegt. Það hafa óvenjumargir dáið í kring um mig. Allt of margir. Sumt er auðvitað eðlilegt, eins og með eina af mínum allra bestu vinkonum sem var orðin 91 árs. Það var samt mjög sárt að missa hana og ég sakna hennar mikið. Hitt var öllu skelfilegra hvað mikið af ungu fólki dó mjög skyndilega. T.d. nánasta og besta vinkona bróður míns (48 ára). Og yndislegur ísfirskur vinur minn (og sonur vinkonu minnar) nýlega 40 ára (höfundur listaverksins hér á myndinni). Að ég tali nú ekki um 18 ára frænda minn sem dó í hræðilegu vinnuslysi í maí. Og margir fleiri t.d. fyrrum samkennari, fyrrum nemandi og maki samkennara.

En árið hefur samt verið einstaklega gott að svo mörgu leyti. Mér finnst ég aldrei hafa verið ánægðari og hamingjusamari. Ég er óhemju þakklát fyrir svo margt. Fyrst og fremst alla þessa stórkostlegu einstaklinga í minni nánustu fjölskyldu. Góða heilsu og líðan, góða vinnu og ég gæti haldið lengi áfram.

lw_og_sara_2_ag.jpgSlæ botninn í þennan pistil með því að sýna ykkur mynd sem ég tók af frábæru listaverki sem vinkona mín færði mér í dag. Við tókum helling af myndum af hvor annari þar sem við sátum á kaffihúsi á afmælisdeginum hennar nú í ágúst. Svo "fótósjoppaði" hún 4 þeirra svona bráðskemmtilega saman, prentaði þær út á striga og málaði í kring. Það er ekki víst að ég sé að segja rétt frá aðferðinni, enda er það aukaatriði. Aðalatriðið er að myndin er svo stórkostleg, að ég tylli ekki í jörðina af gleði. 

Vona að nýja árið beri mörg stórkostleg tækifæri í skauti sér. Bið ykkur að hafa augun opin fyrir þeim tækifærum og nýta þau til stórfenglegra hluta.

Gleðilegt nýtt ár elskurnar og takk fyrir það sem er að líða.

Lifið heil.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir árið mamma :) Hlakka til þess næsta!

Ásbjörg Einarsdóttir (IP-tala skráð) 31.12.2009 kl. 03:29

2 identicon

Satt segiru Laufey mín.  Þetta ár er búið að vera gott þrátt fyrir allt og allt.  Við megum ekki missa okkur í volæði þegar við búum við svo margfalt betri kjör en stór hluti mannkyns.  Verum jákvæð og horfum fram á við, en lærum af reynslunni.  Bestu nýárskveðjur til ykkar allra í fjölskyldunni frá okkur Magna

Svana (IP-tala skráð) 31.12.2009 kl. 11:59

3 identicon

Elsku Laufey mín, þú ert bara frábær! Sendi þér og þínu fólki bestu óskir um gleðiríkt komandi ár!

Vigdís (IP-tala skráð) 31.12.2009 kl. 13:22

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk elsku Laufey fyrir þennan pistil og minningu sonar míns.  Ég hlakka mikið til að hitta þig á eftir.  Knús og megi nýja árið verða þér og þínum gleðiríkt. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.1.2010 kl. 10:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband