Braids - Að láta drauma rætast

braids_1.jpg

Ég hef lengi haft mikinn áhuga á hárgreiðslumenningu þeldökkra kvenna (hef að öðru leyti öngvan áhuga á hárgreiðslu). Hvar sem ég sé þeldökkar konur, stari ég með aðdáun á hárið á þeim sem alltaf er "dönn". Og það með margvíslegum hætti. Allt öðrum hætti en hár hvítra kvenna, - enda er hárið þeirra allt annarar gerðar.

Einhvern tíman heyrði ég um bíómynd um konu (þeldökka) sem hafði misst nýfædda dóttur sína í fóstur, en var svo nokkrum árum seinna að berjast fyrir að fá hana aftur. Í miðjum réttarhöldum spyr hún fósturmömmuna (hvíta); og hvað gerirðu við hárið á henni? Sú hvíta var að sjálfsögðu ekki með hagstætt svar á reiðum höndum. Ef einhver ykkar veit hvað þessi bíómynd heitir, látið mig endilega vita, svo ég geti séð hana.

braids_2.jpgÍ brúðkaupsferðinni í París fyrir 8 árum, fórum við hjónin til Sacre Cure. Frá lestarstöðinni að kirkjunni sáum við nær eingöngu þeldökkt fólk. Og það var hárgreiðslustofa í öðru hverju húsi. Ég var algjörlega óviðbúin, en sá seinna eftir að hafa ekki farið inn á eina stofu og beðið þær að gera hvað sem þær helst vildu við hárið á mér. 

Um leið og til stóð að fara til New York, ákvað ég að fara á hárgreiðslustofu í Harlem og biðja dökkar konur um Afró-fléttur (braids) nema þær hefðu betri hugmynd.

Samkvæmt ráðleggingum aðspurðra á götunni á Manhattan fór ég úr við ákveðna götu og leit í kring um mig eftir líklegri konu. "You want braids?" spurði hún alveg hissa og benti mér að koma með sér. Á leiðinni á stofuna sagðist hún hafa gengið í franskan skóla í Togo, hvaðan hún kom fyrir 11 árum. Aðstaðan á stofunni var e-ð sem enginn hefði látið bjóða sér á Íslandi, en konurnar þarna höfðu örugglega ekki hugmyndaflug í allt það pjatt sem við erum vanar. 

braids_5.jpgÞarna unnu milli 10 og 20 konur og annar eins fjöldi sat í stólunum hjá þeim. Ég var eina hvíta konan á staðnum. Einhvern tíman í miðjum klíðum fór ég að hugsa um að kannski færi þetta mér illa. En mér var alveg sama. - Það er svo góð tilfinning að láta drauma sína rætast. Og upplifunin; að sitja þarna í 3 og 1/2 klukkustund og fá þessa menningu beint í æð, - það var stórkostlegra en orð fá lýst.

Hárgreiðslukonurnar voru allar tiltölulega nýkomnar frá Afríku og töluðu saman á einhvers konar afrískri frönsku. Þær voru flestar klæddar í sítt pils og kjól yfir úr sama efni og túrban úr sama efni. Skrautlegur, fallegur sér-afrískur klæðnaður. Þeim virtist vera mikið í mun að það væri ekki litið á þær sem annars- eða þriðja flokks fólk (sbr. t.d. yfirlýsinguna um franska skólann). - Sem þær að sjálfsögðu eru ekki.

Þetta var klárlega toppurinn á annars frábærri ferð til New York.

Ef ég á einhvern tíman eftir að fara aftur til New York, þá verður þessi leikur klárlega endurtekinn.

lw_hja_togo_s.jpg

- Nú ef ekki, - þá á ég líklega eftir að fara aftur til Parísar. Og kem þá pottþétt til með að prófa hárgreiðslustofu í ákveðnu hverfi þar á bæ.

Ef þið viljir sjá fleiri myndir úr umræddri ferð, þá eru þær á facebook.

Missið ekki af næsta pistli, - hann verður um Woody Allen tónleikana.

Lifið heil. 

 


Flókin lýsing á einfaldri fjölskyldu - eða öfugt?

Ég er þrígift. Skil ekki hvað ykkur finnst svona merkilegt við það. - Ég hef einfaldlega aldrei verið mikið fyrir skyndikynni. Get næstum sagt eins og Kristmann Guðmundsson: Ég bara giftist þeim öllum.

Elsti eiginmaðurinn er 6 og 1/2 ári eldri en ég, en samt átti hann engin börn fyrir okkar kynni - svo vitað sé - þannig að ekki er það til að flækja málin. Við eigum 2 börn saman, sem bæði eru gift og eiga börn. Eldri dóttir mín á stjúpbarn sem harðneitar að kalla mig ömmu. Hann neitar líka að kalla eiginkonu líffræðilegs afa síns ömmu, - því þó hann sleppi okkur báðum, ruglast hann alltaf í talningunni á öllum sínum ömmum. Hans fjölskyldusaga er sko töluvert flóknari en mín skal ég segja ykkur.

Milli fyrsta og annars eiginmans átti ég tvo kærasta. Annar þeirra átti barn fyrir og var ég því stjúpmóðir þess barns á því tímabili.

Með mið-eiginmanninum á ég eina dóttur. Sá maður átti einn dreng fyrir, sem var þá stjúpsonur minn og stjúpbróðir eldri barnanna minna. Fyrir tveimur árum tók mið-eiginmaðurinn svo aftur saman við fyrri barnsmóður sína. Það lúkkaði því vel í formála minningargreina þegar móðir þeirrar konu var jörðuð: "maki X er Y - sonur þeirra er Z fæddur 1986". Alveg eins og þau hefðu verið gift í 30 ár eða svo, þó maðurinn hafi búið með mér frá "87 til "97.

Elsti eiginmaðurinn giftist líka aftur og á með seinni konu sinni 2 dætur. En milli þessara tveggja dætra tóku þau sig til og bjuggu til barn handa systur konunnar og hennar manni, sem gátu ekki eignast barn sjálf. Nei nei, ekkert glasa- eða tækni-neitt - allt með gamla laginu.  Dóttir mín af mið-hjónabandi kallaði þessar stúlkur strax stjúpsystur sínar.

- Því var það þegar einkasonurinn varð þrítugur og afmælisviðtal við hann birtist í "Daglegri Vitleysu"; - að hann sagðist eiga 5 systur (sem er auðvitað satt og rétt) - og í upptalningunni kom fram að önnur hvor systir bar sama eftirnafn, en systur númer 2 og 4 báru önnur eftirnöfn. Einkasonurinn varð hálf miður sín og sagði að þetta lúkkaði illa fyrir mig. - Það væri eins og ég ætti öll þessi börn - og hefði alltaf tekið pabba hans í sátt aftur eftir að hafa átt dætur með öðrum mönnum.

Seinni kona elsta eiginmannsinns skildi líka við hann og er nú farin að búa með öðrum. Sá maður á held ég 3 börn fyrir, en hann lítur á stjúpbörn núverandi konu sinnar - þ.e. ömmubörnin mín - sem sín eigin afabörn - og sinnir þeim sem slíkum.

Þegar ég tók saman við þriðja eiginmannin fyrir tæpum 11 árum, var ég orðin löt (enda búin að vera með börn síðan ég sjálf var barn), þannig að við eigum ekkert barn saman. En hann á 2 syni úr fyrra hjónabandi sem eru náttla stjúpsynir mínir og stjúpbræður barna minna. Ég veit þó ekki til þess að þeir telji systkini barna minna til stjúpsystkina sinna.

Fyrri kona þriðja mannsins býr nú með öðrum manni sem á þrjú börn (sem eru þá stjúpsystkini stjúpsona minna, en börnin mín kalla þau ekki stjúpsystkini sín). Þau eiga engin börn saman, en á milli mannsins míns og núverandi sambýlismanns giftist konan öðrum manni og var næstum búin að eignast barn með þeim manni (sem hefði þá verið jafngamalt ömmustelpunni minni). 

Fjölskyldan mín er nú ekki flóknari en þetta. Og við erum bara að tala um "niðrávið"-fjölskylduna. Ekki systkini mín og foreldra eða neitt slíkt (Waage-fjölskyldan þykir mörgum ansi skrautleg).

Áður en tengdadóttir mín kynntist manninum sínum, þ.e. syni mínum, var hún í sumarvinnu með tengdamömmu dóttur minnar. Meðan þær reittu arfa og plöntuðu og snyrtu merkari jurtir var sú yngri alltaf að segja: Segðu mér nú aftur frá fjölskyldunni hennar B, - hvernig var þetta aftur?

- Hvað var hún að meina? - Er þetta eitthvað flókið? 


Ófær Reykjanesbraut

Í tilefni af því að Reykjanesbrautin var ófær í morgunn datt mér í hug gömul saga.

Það var á gamlársdag "82 að börnin voru á Ísafirði og ég ákvað að eyða áramótunum hjá mömmu sem býr og bjó í Keflavík. Sökum skafrennings og slæmrar færðar fékk mamma mig til að taka rútuna (hún hafði ekki sömu ofurtrú á mér og SBK). Sagði að síðasta rúta færi 15.30.

Þegar ég mæti á BSÍ um kl 15.20 kemur í ljós að síðasta rúta fór 13.30. Svo ég náttla legg á brautina á minni gömlu góðu ljósrauðu WW.bjöllu.

Í Engidalnum (á gatnamótum Garðabæjar, Hafnarfjarðar og Álftaness) fauk rúðuþurrkan út í veður og vind, - slíkur og þvílíkur var krafturinn í kára. Sem breytti svo sem ekki miklu, því það sá hvort eð var ekki út úr augum. En við þekktum brautina - ég og bjallan - og héldum því ótrauð áfram.

Það fyrsta sem ég heyrði þegar ég kveikti á útvarpinu (ójú, bjallan var svo vel búin) var að Reykjanesbrautin væri kolófær. En mér datt auðvitað ekki í hug að reyna að snúa við, því einhver ósýnilegur bíll gæti komið úr hinni áttinni og keyrt mig niður. Bað þess bara að mamma væri ekki með kveikt á útvarpinu, því tilkynningin kom aftur og aftur og fólki var mjög ákveðið ráðið frá því að leggja á kolófæra brautina.

Þó þekkingin á brautinni sé þokkaleg, er óráðlegt að keyra hana algjörlega blindandi. Því stökk ég af og til út úr bílnum, hélt dauðahaldi í hann með annarri hendi meðan ég þurrkaði af rúðunni með hinni og reyndi að átta mig á hvort ég væri ekki örugglega á veginum og jafnvel á réttum vegarhelmingi. Stökk inn aftur og keyrði hratt á meðan ég vissi nokkurn vegin hvernig leiðin lá.

Ég var auðvitað dauðhrædd um að einhver keyrði mig niður á þessum úthoppum mínum, því það var ekki möguleiki að eygja mig og bjölluna í þessum staurblindandi skafrenningi. En það vildi mér til lífs að ég var EINI bíllinn á brautinni.

Ég var 2 klst á leiðinni til mömmu (er oftast 35 mín). Mamma var ekkert hissa að sjá mig. Henni hafði ekki hugkvæmst að kveikja á útvarpinu, hún hélt bara að rútan væri svona lengi á leiðinni.

Miðstöðin í bjöllunni var með 2 stillingar; kalt og ískalt. Einungis síðarnefnda stillingin virkaði þennan dag. Ég fór beint í heita og LANGA sturtu hjá mömmu en náði EKKI úr mér hrollinum. Eftir hátíðarkvöldverðinn fór ég undir 2 sængur og 2 teppi fram að skaupi. Fór þá í tvær þykkar peysur af pabba utan yfir sparifötin og vafði 2 teppum um neðri hlutann. Skalf samt fram á nýja árið.

Þreyjum þorrann og þraukum gott fólk.  


Annáll ársins - ekki fyrir töffara

kr-flugeldar_1_1129008.jpg

Stundum er tekið fram að ákveðnar bíómyndir séu ekki fyrir viðkvæma. - Þessi pistill er hins vegar ekki fyrir þá sem nenna ekki að lesa eitthvert kellingavæl.

Árið hófst með þeim ósköpum að ég grét út í eitt allan janúarmánuð, - eða svo gott sem. Ég hef oft átt vanda til skammdegisþunglyndis í janúar - og þessi janúar stóð algjörlega undir nafni að því leyti. Og það sem meira var; heimasætan lagði upp í rúmlega 4ra mánaða heimsreisu til Suður-Ameríku og Asíu 14.janúar, - og ég átti afskaplega erfitt með að beina sjónum mínum frá þeim hugsanlega möguleika að ég væri að kveðja hana í síðasta sinn. Reyndi ítrekað að segja við sjálfa mig að slys, nauðganir og jafnvel morð ættu sér líka stað á Íslandi, en þá æpti alltaf á mig fullvissan um það að t.d mansöl væru töluvert algengari í fjarlægum löndum, - og fallega ljóshærða tvítuga stúlkan mín væri mikil freisting fyrir alla slíka glæpamenn. Svo var líka óþægilegt að hugsa til þess að ef eitthvað kæmi fyrir, þá gæti ég ekki stokkið til og bjargað henni.

Það eina sem ég gat gert var að leggjast á bæn. Hóf bænagjörðina strax og þær byrjuðu að plana ferðina (fóru 3 vinkonur saman). Varð svo yfirmáta hneyksluð þegar þær voru búnar að bóka stóru leggina - og í ljós kom að legginn frá S-Ameríku (Perú) til Asíu ætluðu þær að taka á 4 dögum yfir Atlandshafið en ekki Kyrrahafið. Hvað kom svo á daginn? Meðan þær flugu yfir Atlandshafið varð stóri mannskæði jarðskjálftinn í Japan. Ef þær hefðu farið yfir Kyrrahafið eins og mér fannst liggja beinna við, þá hefðu þær verið nýlentar á austurströnd Japan þegar skjálftinn og flóðbylgjan riðu yfir - og væru líklega ekki til frásagnar í dag. En stúlkan kom heil heim (enda er ég alltaf bænheyrð).

kr-flugeldar_8.jpg

Þá að næsta kellingavæli: Um miðjan júní lét minn eigin líkami mig vita af því að ég væri oðin of gömul til að ofbjóða honum með sama álagi og þegar ég var ung. Hann hafði reynt að benda mér vinsamlega á það, en fannst ég ekki taka það nógu alvarlega, svo hann skellti á mig hressilegri hásinabólgu ofan á slitgigtina, svo ég neyddist til að ánafna heimasætunni leikfimikortinu. Fékk mér árskort í sundi í staðin og rifjaði upp gamla góða bringusundið (töffarinn ég hafði auðvitað bara synt skriðsund fram að því).

Ég byrjaði í kór. Ég sem er með próf í kórstjórn (síðan "86) hafði fram að þessu aldrei haft áhuga á að syngja í kór. Hafði bara sungið í skólakórnum sem var hluti af náminu í tónmenntakennaradeildinni, þ.e. skylda. Eina undantekningin voru 3 helgarnámskeið hjá Óskari Einarssyni gospelstuðbolta (reyndar söng ég líka smá með gospelsönghóp suður með sjó í fyrra). Svo kom að því að ég átti þess kost að syngja með gospelkór sem téður Óskar stjórnar við Lindakirkju. Eini kórstjórinn sem ég hef getað hugsað mér að syngja með. Og þetta er ÆÐI. Þvílík gleði og gaman. Við erum líka ógessssla góð (hraðsuðan á þessum pistli er einmitt af því ég þarf að fara að drífa mig þangað - messa kl 5 - mæting hálf 5).

kr-flugeldar_11.jpg

Ég endurnýjaði kynnin við Fljótavíkina, hvar ég eyddi löngum og góðum stundum á árunum "72-"83, en hafði ekki komið þangað síðan. Var reyndar alveg afspyrnu óheppin með veður (lárétt slydda allan tíman), en lét það ekki eyðileggja fyrir mér.

Ýmislegt fleira markvert átti sér stað, - en það sem upp úr stendur er eins og árin á undan - þakklæti fyrir ánægjulegar samverustundir með öllum þessum frábæru einstaklingum í fjölskyldunni minni, - einum sér eða í smærri og stærri hópum. - Sem og þakklæti fyrir það hvað hversdagslífið mitt er unaðslegt í alla staði.

Vil aldrei strengja áramótaheit, - en ef ég gerði það, - þá mundi ég einfaldlega heita því að njóta lífsins - einn dag í einu.

Gleðilegt ár kæru vinir. Lifið heil.


Bölbænir (og betri bænir) á aðventu

Þegar ég var barn vann pabbi vaktavinnu í mörg ár. Fyrstu jólin fékk hann mjög hagstæða vaktatöflu fyrir jólin, þar sem hann var með börn á ákveðnum aldri. En svo kom að því að ekki var sanngjarnt gagnvart hinum að taka tillit til þess lengur - og þá fékk hann þá óhagstæðustu vaktatöflu sem hugsast gat: Vinna á aðfangadagskvöld og allar þær stundir sem við vildum helst hafa hann heima.

Og hvað gerir góða stelpan ég þá? Jú eftir smá sjálfsvorkunargremjukast lagðist ég á bæn: Bað Guð um að pabbi yrði veikur, svo hann kæmist ekki í vinnu um jólin.

Daginn eftir fékk pabbi - þessi hörkutöffari og hraustmenni sem aldrei varð misdægurt - svo rosalegt brjósklos í bakið, að hann gat engan vegin hreyft sig. Lifði næstu daga á sterkum verkjatöflum en gretti sig samt af kvölum þegar hann var studdur út í bíl og keyrður í sjúkraþjálfun og nudd.

Þið getið rétt ímyndað ykkur samviskubitið sem lítil "saklaus" stúlka fékk. Auðvitað var þetta allt mér að kenna, enda er ég alltaf bænheyrð.

Það var bara eitt að gera í stöðunni: Leggjast aftur á bæn.

Ég vissi að þeir áttu að vera 3 saman á vakt - og yfirleitt var það rólegt á aðfangadagskvöld að undir eðlilegum kringumstæðum hefðu þeir átt að geta skipst á að skreppa heim. En fyrst pabbi var veikur, voru öngvar líkur á að hinir 2 gætu skroppið heim. Ekki nóg með að ég bæri ábyrgð á þessum ægilegu kvölum pabba míns, - heldur var ég líka búin að eyðileggja aðfangadagskvöldið fyrir tveimur öðrum fjölskyldum.

Mér hafði verið tjáð að öngvar líkur væru á að pabba batnaði fyrir jól. En nú var samviskubitið svo stórt að ég bað Guð af öllu hjarta um að honum skánaði nógu mikið til þess að hann gæti skroppið í vinnuna á aðfangadagskvöld til að hinir mennirnir gætu skroppið heim.

Það gekk eftir. Og það sem ég - þessi mikla pabbastelpa - var hamingjusöm, á meðan pabbi - þessi mikli jólakall - var í vinnunni á aðfangadagskvöld.

Njótið lífsins gott fólk.


Sólbaðssaga

Fyrir nokkrum færslum síðan lofaði ég ykkur að koma með gamlar sögur. Nú er komið að því. Segjum að ástæðan sé sú að frú Laufey sé orðin svo settleg, pen og yfirveguð, að frásagnarverður flumbrugangur sé ekki lengur daglegt brauð. - Því þurfi að grípa til eldri sagna.

Mér datt í hug ein góð þegar ég sá á baksíðu mbl í dag mynd af gömlu góðu sólbaðsbekkjunum í Vesturbæjarlauginni. Þar undum við okkur löngum og góðum stundum eftir að við fluttum suður (á Ísafirði var/er bara innilaug). Á sólríkum dögum tókum við með okkur nesti svo við gætum verið lengi. Þess ber að geta að undirrituð var á þessum tíma tágrönn og með snöggan drengjakoll. Þau fáu aukakíló sem stundum komu fóru bara á magann, en ekki á mjaðmir, brjóst og læri, eins og hjá flestum ungum konum. Og að sjálfsögðu sólaði maður sig á skautbúningnum einum saman (geymdi upphlutinn hjá nestinu).

Einkasonurinn var nýlega 4ra ára þegar saga þessi gerðist og frumburðurinn 5 árum eldri. Þau vildu líka fá sólbaðsbekk, en ég vissi að þau yrðu mest í lauginni svo þau fengu einn bekk saman til að skiptast á með. Þið sem notuðuð þessa bekki munið væntanlega að þeir sem vildu hafa hærra undir höfðinu settu annan endann á bekknum upp í gluggakistu.

Þennan dag gerist það að þegar drengurinn kemur upp úr lauginni til að leggjast í sólbað, vill hann að ég taki bekkinn úr gluggakistunni. Ég geri það og hann leggst en líkar það ekki og vill fá bekkinn aftur upp í gluggakistu. Rúmlega sextugur karl sem lá við hliðina á okkur - rís þá upp við dogg og segir: Hvaða vesen er þetta á þér strákur, - ákveddu bara hvernig þú vilt hafa þetta í eitt skipti fyrir öll svo bróðir þinn þurfi ekki endalaust að vera að færa bekkinn fyrir þig.

Það sló spennuþrunginni þögn á alla nærstadda.
"Hvaða bróðir minn?" spurði drengurinn.
"Er þett' ekki bróðir þinn sem er með þér þarna?" spurði karlinn og nikkaði í áttina til mín.
"Nei þetta er mamma mín" sagði drengurinn.

Sólbaðsgestir héldu niðr´í sér andanum.
Sá gamli hikaði eitt augnablik en brölti svo á fætur og hélt orðalaust inn í búningsklefann án þess að líta til hægri eða vinstri.

Um leið og hann var kominn inn um dyrnar sprakk ég úr hlátri.
Sem betur fer fyrir aðra sólbaðsgesti sem þorðu loks - ekki bara að anda - heldur líka skellihlæja.

Fleiri gamlar sögur væntanlegar.

Góða helgi gott fólk.


Át off karakter.

Vissi að það er allt of langt síðan ég bloggaði síðast, - en rúmir 10 mánuðir, það nær náttla ekki nokkurri átt.

Það helsta sem hefur gerst á þessum mánuðum, er að hreyfiæðiði hefur tekið nýja stefnu.

Um miðjan júní fékk vinur minn mig með sér í kvöldgöngu í EilífsDAL. Þetta var liður í svokölluðum miðvikudagsgöngum Útivistar (held ég frekar en FÍ). Ég tók með mér FJALLgönguskóna þó ganga ætti í DAL. Eins gott- því hugmynd mín um DAL hafði verið rangur misskilningur. Við lögðum bílunum við dalsmynnið Eilífa og svo var lagt á brattann. Upp og niður endalausa hóla og hæðir á hraða hins þaulþjálfaða fjallgöngumanns. Og ég gat auðvitað ekki látið látið neinn bilbug á mér finna, þótt mér liði strax í fyrstu brekkunni eins og nú væri komið að hjartaáfallinu sem ég hætti við á aðventunni síðustu.

Morguninn eftir var vinstri öklinn verri en á fílamanninum, stokkbólginn, sár og aumur - og ég gat öngvan vegin gengið eðlilega.

En sumarið er tími hreyfingar og útivistar - og þá sitja hörkutól og hreyfibrjálæðingar ekki heima á sínum rassi. Hálfum mánuði eftir Eilífsdals-fjallgönguna viðraði að vísu illa til útivistar og skellti mín sér því í Tabata-tíma. Í millitíðinni hafði ég hjólað Vatnsleysuströndina, Fossvogs+Elliðaárdalinn og fleira skemmtilegt (ekkert mál að hjóla, þó maður geti ekki gengið ógrátandi milli húsa).

En morguninn eftir Tabata-tímann var hægri ökklinn orðinn ennþá verri en sá vinstri hafði verið eftir gönguna.
Svo nú varð ég að bakka hægt niður stigann til að komast í sjúkranuddið.

Til að gera langa sögu stutta, þá kom í ljós að ég er með slæma hásinabólgu. "Þetta hefur með aldur og álag að gera" sagði sérfræðingurinn. Ekkert verið að hlífa manni með óþarfa kurteisi. Þetta gerist semsagt hjá fólki sem komið er á minn aldur og ofbýður líkama sínum ennþá með sama álagi og þegar það var 18 ára. "Þetta á að lagast á 6-12 mánuðum, en þú átt aldrei eftir að geta boðið ökklunum upp á sama álag og þú gerðir áður" sagði sérfræðingurinn heiðarlegi.

"Þetta er gjörsamlega át off karakter!!" sagði vinkona mín - og ég var henni svo innilega sammála. Af hverju gat þetta ekki komið fyrir einhvern sem virkilega VILL liggja heima í sófa. Væ mí Lord, - ég sem VERÐ alltaf að vera eins og þeytispjald út um allar jarðir. Stakk mér á kaf í ærlega sjálfsvorkunn um skeið, en fékk svo samviskubit, því auðvitað er mér ekki nokkur vorkunn. Hélt reyndar að upphafsorð bókarinnar Víst kann Lotta að hjóla: Það er svo merkilegt með mig, að ég get næstum allt - ættu við um mig. En þó að lítillega hafi dregið úr þeirri getu, sit ég samt eftir með töluvert:

Ég get t.d. hjólað (nokkra kílómetra á jafnsléttu).

Svo hef ég ákveðið að gera sund að nýju reglulegu líkamsræktinni minni. Eftir að ég byrjaði í leikfimi fyrir 12 árum, fór ég bara í sund til að liggja í pottinum (helst í góðum félagsskap) og í gufubaði. Já ég veit, - dáldið svona eins og að fara í bíó og borða bara poppið (horfa ekki á myndina). En nú fer ég til að synda, er meira að segja komin með árskort í sundi.

Ein "típísk ég" sundferðarsaga svona í lokin:

Ég skammta mér oft mjög knappan tíma til að hjóla í sund, synda 800 metra, teygja aðeins í gufunni, hjóla heim (jú auðvitað hátta, sturta, klæða og allt það - látið ekki svona) og fá mér hádegismat áður en ég byrja að kenna. Einn daginn þegar ég kem að að Sundlaug Bestabæjar er hún lokuð vegna viðhalds. Ég ákveð að drífa mig í Sundlaug Seltjarnarness, en er bara búin að hjóla nokkra metra þegar ég átta mig á því að sundkort í Reykjavíkurlaugarnar gilda ekki á Seltjarnarnesi. Hundskamma sjálfa mig fyrir að hafa ekki tekið með mér neina greiðslumiðla - á meðan ég hjóla með hraði heim að sækja þá. "Fer samt í sund" tauta ég við sjálfa mig á leiðinni. "Ég skal ná þessu, ég sleppi gufunni og læt 500 metra duga því nú hjóla ég lengra". Hálf-hleyp upp stigann eftir peningum og æpi í hverri tröppu á niðurleið því ég gaf mér ekki tíma til að bakka. Ég var að verða komin að Nes-lauginni þegar ég mundi eftir því að ég er með sundkort frá þeim í augunum. Notaði ekki peningana sem ég fór heim til að sækja, horfði bara í einhvert tæki sem hleypti mér inn.

Meðan ég synti þessa 500 metra hafði ég miklar áhyggjur af því að nú yrði örugglega sprungið dekk á hjólinu þegar ég kæmi út. Sú var sem betur fer ekki raunin, þannig að ég náði að skella í mig smá hádegismat fyrir kennslu.

Lifið heil.


Um kristni, trú og kirkju

Eftirfarandi forystugrein eftir undirritaða birtist í hálfsársriti Óháða safnaðarins, sem borið var til safnaðarmeðlima í dag:

Skilgreining mín á Kristni, trú og kirkju er þessi: Ef þú trúir að til sé máttur þér æðri, sem getur jafnvel stjórnað lífi þínu betur en þú sjálfur, þá ertu trúaður. T.d. eru flestir 12 spora iðkendur trúaðir, þó sumir þeirra séu hvorki kirkjuræknir né skráðir í trúfélag. Trú hefur ekkert með trúarbrögð að gera. Ef þú leitast við að lifa á þann hátt sem Jesú Kristur boðaði með orðum sínum og gjörðum, þá ertu kristinn. Sú boðun gekk fyrst og síðast út á náungakærleika. Þeir sem sýna náunganum kærleika í orði og verki, eru því kristnir. Svo einfalt er nú það. Því miður er til fólk, bæði hér á landi og erlendis, sem hrópar hátt á torgum að það sé kristið, en hegðar sér í hrópandi andstöðu við það sem Kristur boðaði. Þau dæmi eru sorglega mörg og fæla allt of marga frá kristnum samfélögum. T.d. þegar Bush var endurkjörin forseti BNA. Þá voru fyrirsagnir fjölmiðla á þessa leið: Kristnin í heiminum hefur sigrað. Hvernig geta menn sem standa fyrir stríðsrekstri, morðum og pyntingum gefið út yfirlýsingar um Kristni. En hvað er þá kirkja? Kirkja er hvorki bygging né stofnun. Kirkja er hópur fólks sem kýs að rækta trúarlíf sitt í ákveðnu samfélagi. Mér hefur alltaf þótt vænt um íslensku þjóðkirkjuna. Hún hefur sannarlega gert margt gott fyrir einstaklinga og þjóðina. En því betur sem ég kynntist henni, sá ég hversu mikil stofnun hún er. Með ýmsum þeim göllum sem stofnanir hafa. Og það sem skipti mestu máli: Stofnun sem leggur meiri áherslu á gamlar hefðir en náungakærleika og fordómalausa virðingu fyrir manneskjum. Stofnun sem vill frekar láta satt kjurrt liggja en að taka heiðarlega á óþægilegum málum. Þess vegna kaus ég fyrir nokkrum árum að yfirgefa þá stofnun. Óháði söfnuðurinn lá beint við. Ég hafði þá um skeið verið virk í söfnuðinum, m.a. haldið utan um 12 spora starfið. Í kirkjuna okkar streymir fólk sem vill rækta anda sinn og bæta líf sitt með hversdagslegum hætti. Við erum svo heppin að hafa alþýðlegan prest sem laðar fólk að kirkjunni. Prest sem talar beint til fólks án þéringa og óþarfa rituals. Prest sem hlustar á alla með opnum kærleiksríkum huga og af virðingu. Í kirkjuna okkar er gott að koma.


Annáll ársins

stud_21.jpgÞó bloggfærslum hafi fækkað skammarlega í seinni tíð, get ég ekki látið hjá líða að rifja upp helstu atburði ársins nú á sjálfan gamlársdaginn.

Eins og sannri miðaldra konu sæmir er ég uppteknust af öllum gleðistundunum með afkomendum mínum og öðrum fjölskyldumeðlimum.

Og þar stendur upp úr gleðidagurinn mikli þegar heimasætan útskrifaðist sem stúdent frá MR. Ég á örugglega aldrei eftir að gleyma augnablikinu þegar rektor tilkynnti um dúx ársins.

stud_13.jpgOg ánægjustundirnar eru fleiri. Afkomendur mínir eru heimsins mestur gleðigjafar - og ég er svo stálheppin að þau vilja hitta mig oft og reglulega. Ég hef meira að segja fengið þann yngsta sendan "með frímerki" frá Ísafirði til að dvelja dögum saman í ömmuhúsi. Svo á ég eiginmann sem heldur ekki vatni yfir stórfengleikum mínum - og umber gallana mína með aðdáunarverðu jafnaðargeði.

Einn "lítill hlutur" kemur þó alltaf upp í hugann þegar ég hugsa um ánægjulegustu atburði ársins. Þið munið kannski eftir þessum litlu fölgrænu miðum sem við gátum fyllt út og sent til þeirra sem við höfðum tekið eða vildum taka okkur til fyrirmyndar. Ég fékk þannig miða. - Og tárast af gleði í hvert sinn sem ég hugsa um hann. Kannski af því að ég met sendandann einstaklega mikils - og gat alls ekki gefið mér það fyrirfram að viðkomandi liti á nokkurn hátt upp til mín. - Um leið er enginn ofar á blaði yfir þá sem ég gæti óskað mér að vera til fyrirmyndar.

stud_16.jpgÍ maí fékk ég símtal frá gömlum góðum vini, sem kennir við Stóru-Vogaskóla. Hann tjáði mér að þar á bæ væri áhugi á að stofna vísi að tónlistarskóla innan grunnskólans ef rétta manneskjan fyndist. Og til að gera langa sögu stutta, þá fór ég í viðtal við skólayfirvöld og var ráðin á staðnum.

Mér líkar alveg óhemju vel í þessari nýju vinnu minni. Eitt af því ánægjulega er að fá að taka þátt í uppbyggingarstarfi á niðurskurðartímum. Alveg magnað að mæta einlægri jákvæðni og þakklæti þegar maður mætir með nýtt vinnuframlag á þannig tímum.

stud_3.jpgNýja vinnan hafði þó einn óæskilegan fylgifisk. Mér fannst líka svo gaman á hinum vinnustaðnum, að ég tímdi ekki að skera hana niður nema að mjög takmörkuðu leyti. Var því í allt of mikilli vinnu nú á haustmisseri. Hélt mér væri það í lófa lagið af því ég er soddan reynslubolti. Hélt ég gæti nýtt mér reynsluna og þyrfti því ekki að vera með 100% kennsluundirbúning og þyrfti ekki að vera á útopnu í öllum kennslustundum.

- Sem var auðvitað algjör sjálfsblekking. Undirrituð er bara einu sinni þannig gerð að hún alltaf á útopnu - og nennir öngvu hálfkáki.

stud_5.jpgÞví fór sem fór. Svo bregðast krosstré sem önnur tré - og undirrituð lennti á sjúkrahúsi á háannatíma, með sterkan grun um kransæðastíflu. Fór í hjartaþræðingu og allan pakkan, en útskrifaðist með díagnósu Saxa læknis; þú ert lélegur sjúklingur; aldrei neitt almennilegt að þér.

Kom út af Lsp í hjúts þakklætiskasti. Í mörg ár hef ég verið meðvituð um alla þá sem hafa komið frá lækni með bakflæðistöflur upp á vasann, en dáið úr kransæðastíflu stuttu seinna. Svo er ég að öllum líkindum með slæmt bakflæði, en af því að ég er í áhættuhópi vegna ættarfylgju, fæ ég þessa frábæru þjónustu, þar sem möguleikar á kransæðastíflu eru útilokaðir.

stud_14.jpgÞakklæti mitt beindist ekki síður að minni yndislegu fjölskyldu og vinum. Magnað að finna þessa einlægu og óeigingjörnu ást og umhyggjusemi.

Og ég tók þessa uppákomu sem viðvörun. Ég er greinilega orðin of gömul fyrir allt of mikla vinnu. Svo ég sagði upp á einum vinnustað og verð því í eðlilegu kennsluhlutfalli á vormisseri. Ætti því að hafa tíma og orku til að blogga oftar. 

Óska ykkur öllum gleðilegs árs og þakka fyrir allt og allt eins og maðurinn sagði.

Lifið heil.


Tuðað um velferðarkerfið

Sökum aldurs og erfða þarf ég að hafa mikið fyrir því að vera hraust. Það kostar mig bæði fjármagn og fyrirhöfn. En mér dettur ekki annað í hug. Ég hef fullan hug á að verða allra kellinga elst - dansandi og syngjandi af fullum krafti fram í háa elli. Og það geri ég ekki liggjandi uppi í sófa, gleypandi niðurgreidd lyf og ódýra ruslfæðu.

Fyrir 8 árum greindist ég með asma, - ofan í slitgigtina, háa kolesterolið og hina lífstílstengdu kvillana. Lífstíllinn var þó ekkert slæmur, bara þessi dæmigerði íslenski; að borða flest það sem mann langar í og hreyfa sig bara þegar maður nennir.

Lungnasérfræðingurinn sagði mér að asminn væri ekkert "bara", þ.e. ég væri ekki neðst á skallanum, en hann gæti þó versnað töluvert. Og að lykilatriðin í að láta hann ekki versna mikið væru tvö: Að taka reglulega eitt púst á hverjum morgni (4-6 púst á dag til að byrja með og þegar ég væri slæm!!!) og regluleg hreyfing. Ég tók að sjálfsögðu mark á lækninum, keypti mér árskort í leikfimi - og eftir nokkra mánaða hopp var ég komin niður í 1 púst á dag.

Þegar kom að því að endurnýja árskortið, hugsaði ég með mér: Tryggingastofnun er tilbúin að niðurgreiða 5 sinnum meiri lyf en ég tek, - af hverju í ósköpunum vill hún ekki niðurgreiða leikfimikortið mitt?!?!?!?!?!

Fyrir tæpum 4 árum hætti ég svo alveg að borða sykur - og gerði fleiri stórar breytingar á mataræði mínu. Sem er eina skýringin sem ég finn á þeirri staðreynd að fyrir hálfu ári hvarf asminn með öllu. Eitthvað sem átti ekki að geta gerst.

Hreyfingin og mataræðið gerir það líka að verkum að ég þarf ekki að taka nein lyf við slitgigtinni, háa kolesterolinu og öllu hinu (t.d. þunglyndi) sem væri virkilegt vandamál í mínu lífi, ef ég leggði ekki fé og fyrirhöfn í að halda mér hraustri. Ég gæti hæglega verið orðin óvinnufær og komin á örorku eins og allt of margir eru langt fyrir aldur fram.

Eina "lyfið" sem ég þarf að taka eru gleraugun. Ég hef frá barnsaldri verið haldin sjúkdómi sem heitir nærsýni á frekar háu stigi og er þar að auki núna komin með snert af aldurstengdri fjarsýni. Ég kemst því varla fram úr rúminu án gleraugna, alla vega er ég ófær um flest (óökufær, ógöngufær, óvinnufær o.s.frv.) án þeirra. Á fárra ára fresti þarf ég að kaupa mér nýjan "lyfjaskammt" upp á vel yfir hundrað þúsund krónur. Mér tekst ekki að lækna mig af nærsýninni með lífstílsbreytingum. Af hverju í ósköpunum vill tryggingastofnun ekki niðurgreiða gleraugun mín?!?!?!?!??!

Auðvitað er ég þakklát fyrir að vera ekki haldin alvarlegum sjúkdómi sem gera mig lyfjaháða og jafnvel óvinnufæra. Margir sem það eru, eiga bæði samúð mína og aðdáun. Er í mörgum tilfellum bráðduglegt fólk, sem skapaði sér ekki sjúkdóminn á nokkurn hátt. Og ég vildi ekki vera í þeirra sporum. En hinir eru líka allt of margir sem úða í sig niðurgreiddum lyfjum og þiggja jafnvel örorkubætur, en gætu verið hraust vinnandi fólk, með smá fyrirhöfn.

Svo ég hlýt að spyrja enn og aftur: Af hverju niðurgreiðir tryggingastofnun ekki heilbrigðar leiðir sem virka betur en efnafræðiundrin, - bæði fyrirbyggjandi og sem lækning (ekki bara hreyfingu, heldur líka t.d. sjúkranudd)? Og af hverju gerir hún upp á milli líkamshluta, þ.e. niðurgreiðir flest annað en tannviðgerðir fullorðinna og gleraugu?

Svo gæti ég líka tuðað um verðið á óunnum hollum fæðutegundum - versus verð á sætindajukki og ofurunninni óhollustu. En ég er bara búin að fá nóg af þessu leiðindatuði.

Farin að gera eitthvað skemmtilegra.

Góða helgi gott fólk. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband