Ég var klukkuð


1.  Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina.
Tónlistarkennsla og sérkennsla.
Afgreiðsla í bókabúð og sjoppu.
Læknaritun.
Fiskvinnsla. 
 
2.  Fjórar bíó myndir sem ég held uppá.
Babettes gjestebud.
Nafn rósarinnar.
Sophi´s choise. 
Amelie - og skriljón aðrar (sem koma upp í hugann þegar ég er búin að senda þetta). 
 
 3.  Fjórir staðir sem ég hef búið á.
Reykjavík
Stokkseyri
Ísafjörður
Keflavík 
 
4.  Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum.
Fljótavík
Kaupmannahöfn
Þórsmörk
París 
 
5.  Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar.
Taggart
Morse
Midsummer´s night murders
Gettu betur. 

6.  Síður sem ég skoða daglega (fyrir utan bloggsíður)
Flickr 
 
7.  Fernt matarkyns sem ég held uppá.
Rjúpur
Hreindýr
Humar
Tófú og alls kyns grænmeti
 
8.  Fjórar bækur sem ég held upp á.
Ofvitinn (og fleiri Þórbergsbækur)
Salka Valka (og fleiri Laxnesbækur)
Hús andanna (og fleiri Allendebækur)
Skuggi vindsins, Þrettánda sagan, Lásasmiðurinn og óteljandi fleiri. 
 
9.  Fjórir staðir sem ég vildi helst vera á núna.
Heima hjá mér (þar sem ég er)
Niðrí fjöru
Úti að hjóla
Á kaffihúsi með góðum vinum. 

10.  Fjórir bloggarar sem ég klukka.
Þórdís E.
Ásthildur Cesil
Ólöf Davíðs 
Jóna Ingibjörg 

Snarþagnaði Kolbrún?!?

Keyrði heimasætuna og kærastann hennar í skólann í morgunn (að vanda). Hlustaði með öðru eyranu á útvarpsfréttirnar í leiðinni. Þegar turtildúfurnar yndisfögru voru farnar úr bílnum, byrjar Kolbrún Halldórsdóttir að tjá sig um frumvarp um nálgunarbann. Ég læt bílinn renna niður Amtmannsstíginn og hlusta af athygli.

En hvað?!? Um leið og ég beygi inn í Lækjargötuna snarþagnar Kolbrún. Ekki nóg með það, heldur neitar bíllinn að beygja til hægri. Sorrý Kolbrún, - það er bara stranglega bannað að taka vinstri beygju frá Amtmannsstígnum og inn á Lækjargötu.

Mér verður svo mikið um, að ég gleymi því sem Ómar Ragnarsson innprentaði landsmönnum réttilega hér um árið; Stýra en ekki stíga (enda gekk ekkert að stýra). Og ég stíg að sjálfsögðu á bremsuna. En bíllinn neitar líka að bremsa.  

Þá loksins kveikti ég á perunni. Bíllinn hafði drepið á sér í brekkunni - og ég var svo upptekinn við að hlusta á þingmanninn, að ég tók ekki eftir neinu.

Ég setti í gang með hraði - og Kolbrún hélt áfram. En ég var í soddan sjokki, að ég veit ekkert hvað henni þótti um nálgunarbannið.

Fór heim og fékk mér gott kaffi til að vakna almennilega.

Njótið dagsins kæru vinir - með athyglina alls staðar í einu, eins og okkur konum er tamt, - séum við á annað borð vaknaðar. 


Hjólreiðar.

LW hjólar á rauðum kjólJæja elskurnar. Þá er það síðasti hreyfi-pistillinn.

Ef þið hafið haldið að ég ætlaði ekkert að blogga um hjólreiðar, - að það væri að bera í bakkafullan lækinn, - þá er það rangur misskilningur.

Hér á árum áður notaði ég hjólið eins og margir aðrir: Hafði það í hjólageymslunni flesta daga ársins, en fór stöku sinnum út að hjóla mér til heilsubótar. Það var ekki fyrr en sumarið 2005, sem ég uppgötvaði hvað hjólið er gott farartæki.

Þá var ég úti í Kaupmannahöfn - borg reiðhjólsins - á jazzhátíð. Við hjónin höfðum haft íbúðaskipti við íslensk hjón sem bjuggu útá Amager, - eiginlega á Íslandsbryggju, þ.e. í örfárra kílómetra fjarlægð frá Ráðhústorginu og því öllu. Við vorum svo heppin að hjólin þeirra fylgdu með í skiptunum, - og við notuðum þau óspart. Hjóluðum daglega hvert sem við vildum fara. Mmm, það er æðislegt að hjóla í Danmörku.

Um haustið var ég svo "heppin" að hjólinu mínu var stolið. Mér hafði fundist það óþægilega lágt, miðað við danska hjólið, svo vorið eftir keypti ég mér nýtt hjól. Bara venjulegt Trekk-hjól, sem hentar mér vel. Þó svo hér sé hvorki eins hlýtt né flatt eins og í Danmörku, - þá finnst mér frábært að hjóla á Íslandi svona 5-6 hlýjustu mánuði ársins.

En það er annar og stærri munur á milli þessara landa, en flatneskjan og hitastigið. Það er virðingin fyrir hinum hjólandi. Í Danmörku eru allir vegfarendur, hvernig sem þeir ferðast, meðvitaðir um rétt hinna hjólandi. Á Íslandi er maður í stórhættu, ef maður er ekki stöðugt á verði - og hjólar eins og maður sé gjörsamlega ósýnilegur. Mig grunaði að ég hefði lítillega grennst á öllu þessu hjóeríi, - en að ég væri algjörlega ósýnileg öðrum vegfarendum, finnst mér dáldið skrýtið. Brussan ég mínum skærlitu fötum. Bæði akandi, mótorhjólandi og gangandi vegfarendur horfa í gegn um mig og æða í veg fyrir mig eins og ég sé ekki til. Ekki nóg með að bílarnir svíni fyrir mig eins og þeir vilji koma mér úr umferð. Heldur láta gangandi vegfarendur á göngu- og hjólastígunum eins og þeir séu einir í heiminum. T.d. eru skokkarar oftar en ekki með tónlist í eyrunum - og heyra ekkert í bjöllunni minni.

Auðvitað eru sumir vegfarendur kurteisir og almennilegir, - og bið ég þá afsökunar á alhæfingunni. 

Sem betur fer hafa hjólreiðar aukist á Íslandi, svo vonandi fara aðstæður og virðing að breytast til batnaðar.

Lifið heil. 

 


Stuðningsyfirlýsing.

Stuðningsyfirlýsing

 Vissir þú að:


• Byrjunarlaun ljósmæðra eru helmingi lægri en
verkfræðinga með meistaragráðu?
• Laun ljósmæðra eru með því sem lægsta sem
gerist innan Bandalags Háskólamanna þótt nám
þeirra sé eitt það lengsta sem krafist er af
ríkisstarfsmönnum?
• Að ljósmæður eru kvennastétt?


                        Ég styð kjarabaráttu
                                ljósmæðra!


Barna-annir.

Busun 1Ótrúlega mikið um að vera hjá börnunum mínum alltaf hreint. Ekki veit ég hvaðan þau hafa það (eða þannig).

Frumburðurinn er aðal-trúnaðarmaður ljósmæðrafélagsins. Býst ekki við að það þurfi neinu við það að bæta, - nema þá helst að biðja þá sem hafa sambönd á réttum stöðum, að reyna að opna augu, huga og hjörtu stjórnvalda og annarra viðsemjenda fyrir því hvað þær eru samfélaginu mikils virði þessar elskur, - og að við - skattgreiðendur - viljum umbuna þeim það.

Upplýsingafulltrúinn er á Evrópuferðalagi þessa dagana.

Svo er það MR-ingurinn. Í dag var busavígsla - og þar af leiðandi busaball í kvöld. Svo Skriba Scolaris situr ekki auðum höndum, frekar en vanalega. 

P.s. Örvæntið ekki kæru vinir. Þriðji (eða fjórði) og síðasti hreyfi-pistillinn er væntanlegur innan tíðar.

Lifið heil. 


Pottaplöntur.

Blóm í gluggaAllt í einu var orðið óvanalega óblómlegt heima hjá mér. Plastblómið góða stendur að vísu alltaf fyrir sínu, en ég vil helst hafa slatta af lifandi blómum líka. Svo ég brá mér á pottaplöntuútsölu Blómavals og keypti 4 plöntur.

Skellti þeim umsvifalaust í postulín. Eftir að ég kom þeim í þessa stóru hvítu postulínspotta er mér algjörlega fyrirmunað að skilja hvernig í ósköpunum þessar elskur gátu dregið andann í þessum pínulitlu plastpottum sem ég keypti þau í.

Það fer mjög vel um þær í stofugluggunum (tvær í hvorum glugga, en ekki allar saman í einum, eins og á myndinni). En nú er vandinn bara sá, að ég elska útsýnið út um stofugluggana. Himininn, hafið, Gróttuna, jökulinn, Esjuna og allt það. Og vil því hafa sem allra minnst í gluggakistunum.

Svo nú spyr ég ykkur; Ásthildur mín og aðrar blómakonur (jú jú líka karlar auðvitað): Er ekki í góðu lagi að hafa eitthvað af þessum plöntum í suðurgluggunum (stofugluggarnir snúa í norður)? Eða bara annars staðar en í glugga? Þær heita held ég; Drekatré, Ástareldur, Havaírós og Alparós. Ég er reyndar ekki viss, það má gjarnan leiðrétta mig. 

Ég sé á myndinni að þær eru strax byrjaðar að þorna hjá mér. Best að bæta snarlega úr því. 

Lifið heil. 


Dagurinn í dag.

Byrjaði daginn á krabbameinsskoðun. Bæði efri og neðri deild. Mér finnst þetta ekkert mál, hef aldrei kviðið fyrir, eða þótt það óþægilegt á nokkurn hátt. Samt er þetta ótrúlega mikið tilfinningaálag. Maður er eitthvað ferlega viðkvæmur meðan á þessu stendur og fyrst á eftir. Mjög gott dæmi um kringumstæður þar sem tilfinningalegt ástand er í algjöru ósamræmi við skoðanir manns og álit.

Keyrði svo í Hafnarfjörðinn. Fannst það dáldið langt, - en hvað gerir maður ekki fyrir rómantískt stefnumót. Hugsaði rétt sem snöggvast: Ekki skil ég fólk, sem býr í Hafnarfirði og keyrir daglega til vinnu í Reykjavík. Nokkrum sekúntum eftir þá hugsun, mundi ég eftir því, að síðustu 11 árin keyrði ég til vinnu í Njarðvíkum (úr vesturbæ Reykjavíkur). - Flesta veturna tvisvar í viku.

Ömmustúlkan er 4ra ára í dag. Ég á 3 kvenkyns afkomendur, - og þær eru allar meyjar. Frumburðurinn átti afmæli fyrir 4 dögum, ömmustelpan í dag, - og svo heimasætan í september.

Í kvöld skal svo skemmt sér á Mamma mia - sing along.

Góða helgi. 


Hálf-sjötugur frumburður og landsins gæði.

3 ættliðirFrumburðurinn minn varð 35 ára í fyrradag (já já - ég veit, - ein voða eftirá með bloggfærslunar). Þegar ég vaknaði þann daginn hugsaði ég; vá hún er hálfsjötug. Og mamma varð sjötug um daginn. Já auðvitað. Mamma var 35 ára þegar ég gerði hana að ömmu. Og allt í einu fannst mér þetta ennþá rosalegra en nokkru sinni fyrr. Hugsandi til þess að barnið mitt væri - þannig séð - komið á ömmualdur.

Og mér varð hugsað til þess, þegar þetta kom til á sínum tíma. Mér fannst þetta ekkert mál, að vera ólétt 16 ára, - en vinkonur mömmu supu endalausar kveljur, - ekki út af mér, heldur mömmu: Almáttur, en hún ólétt, - og þú bara 34ra ára.

BláberAnnars er þessi dráttur á frumburðar-afmælis-pistli auðvitað kominn til af haustönnum. Ég er að hamast við að reyna að lifa af náttúrunni á þessum margumtöluðu krepputímum. En það gengur dáldið illa. Í næstum hvert skipti sem ég legg af stað á berjamó, byrjar að rigna. Já, ég biðst forláts, þessar endalausu skúrir síðustu daga eru alfarið mér að kenna. Svo var búið að tína af öllum lyngum sem ég sá í Heiðmörkinni í gær. 

Í dag var hins vegar var enginn berjamór á dagskrá, - heldur fór ég með mömmu minni í pílagrímsferð á Stokkseyri. Við erum þaðan mæðgurnar, - og verðum að skreppa af og til.

En af því að ég var í skárri gallanum - og ekkert annað en ættingjaheimsóknir á dagskrá, - þá hékk hann auðvitað þurr, svo við stóðumst ekki mátið - og brugðum okkur í vallhumals- og kúmentínslu í garði ættaróðalsins. Við vorum ekki lengi við tínslu, en samt gerðist það í tvígang, að ættingjar okkar komu til að athuga hver væri að gera hvað á óðalinu. Þeir voru auðvitað alsælir að sjá þessar skemmtilegu frænkur sínar.

Ætti ég ekki að laga mér vallhumalste fyrir svefninn? Í fyrramálið baka ég svo kúmenbrauð. Gúllassúpu elda ég svo um helgina (hún er með kúmeni).

Lifið heil. 


Dans

Matthildur senjoríta 4Uppáhaldshreyfingin mín er dans. Ég dansa mest "eftir eyranu", en er líka mjög fljót að læra hvers kyns spor. Hér á árum áður dansaði ég mikið í stofunni minni, ein eða með börnunum mínum. Fatta ekki alveg af hverju ég geri mun minna af því núna, eins og mér finnst þetta skemmtilegt. Svo finnst mér rosagaman að fara á dansiböll með góðri hljómsveit, ef það er pláss er fyrir mig á gólfinu.

Ég hef ákveðna kenningu um það að dansa eftir eyranu (byrjar Laufey með sínar kenningar). Það er eins og það sé bara í kvenlegu eðli. Þegar maður biður karlmann að koma að dansa, segir hann í flestum tilfellum; ég kann ekkert að dansa. Og ég svara að bragði; maður þarf ekkert að kunna að dansa, maður dansar bara. Þeir karlar sem hafa lært að dansa, þeir dansa það sem þeir hafa lært - og ekkert annað.

Maður getur svo algjörlega snúið þessu við, þegar kemur að því að spila (á hljóðfæri) eftir eyranu. Þar eru kallarnir á heimavelli. Þeir bara setjast við hljóðfærið og spila. En konur spila ekki nema þær hafi lært á hljóðfæri - og láta þá engan heyra annað en það sem þær eru búnar að æfa. - Helst með nótum.

Auðvitað eru þetta alhæfingar. Sem betur fer eru til konur sem spila eftir eyra - og kallar sem dansa eftir eyra, - og margir sem hvorki dansa né spila. En kenning mín á samt við heilmikil rök að styðjast.

Á minni persónulegu danssnilld eru tvær dapurlegar undantekningar: Tjútt og Tangó.

Pabbi og mamma voru (og mamma er enn) snillingar í að tjútta. Þegar ég var krakki hlustuðum við á danslög af plötum á gömlu Gufunni á sunnudagskvöldum, - og dönsuðum. Og alltaf kom að því að pabbi og mamma brustu í tjútt. "Mig langar að tjútta, kenniði mér að tjútta" sagði ég. "Láttu hann pabba þinn kenna þér, hann var frægur fyrir að kenna tjútt í Breiðfirðingabúð um það leyti sem þú varst búin til" sagði mamma. Og hann reyndi: -Fylgdu. -Fylgja hverju? -Mér. -Já, en hvað á ég að gera?. -Fylgja. - Til að gera langa sögu stutta, varð niðurstaðan sú, að ég er líklega eina manneskjan sem pabbi hefur ekki getað kennt að tjútta.

Mér hefur alltaf þótt tangó vera einstaklega sjarmerandi dans. Stundum dottið í hug að læra hann. Fyrir tilviljun lenntum við hjónin svo í tangókennslu eitt kvöldið í fyrravetur. Það kom eiginmanninum á óvart hvað hann fékk mikið hrós, - hann lifir enn á því. Ég var ekki alveg eins ánægð. Það kom í ljós að þessi heillandi dans byggir eingöngu á því, að konan standi eins og illa gerður hlutur og bíði eftir því að karlinum þóknist að færa hana hingað eða þangað, eftir hans persónulegu dutlungum. Ekki alveg í takt við minn eftir-eyranu-dansstíl.

Ef einhver lætur sér detta í hug, að þetta hafi eitthvað með stjórnsemi mína að gera, eða að ég láti ekki aðra stjórna mér, - þá má hann bara hafa þá skoðun í friði.

Njótið menningarnæturinnar. 


Leikfimi.

Fyrir 11 árum síðan var ég rétt einn ganginn í þeirri stöðunni, að viktin hafði farið í vitlausa átt, - upp en ekki niður. Hafði heyrt af frábærum árangri kvenna, sem höfðu farið á 9 vikna námskeið hjá Báru, eða í JSB. Dreif mig þangað. Hafði aldrei áður farið í neitt sem hét líkamsræktarstöð. Taldi það ekki vera minn stíl. Ég var þessi típa sem fór í sund, gönguferðir (helst úti í náttúrunni) og því um líkt þegar þannig lá á mér. Að pína mig í leikfimi í 9 vikur átti bara að vera til að hegna mér fyrir að vera ekki að tækla þetta með holdarfarið eins og til stóð.

En það sem ég varð hissa: Mér fannst, - og finnst ennþá, - gaman í leikfimi (alla vega hjá skemmtilegum kennurum, - ég reyni að velja mér tíma eftir því hver er að kenna). Þannig að næstu árin keypti ég mér 3ja mánaða kort af og til, þegar pyngjan leyfði.

Fyrir rúmum 5 árum greindist ég svo með asma. Lungnasérfræðingurinn sagði að lykilatriðið í að halda asmanum í skefjum væri regluleg hreyfing. Svo ég fékk mér árskort í JSB (þó að pyngjan hefði ekki þyngst neitt að ráði). (Að vísu finnst mér ennþá skemmtilegra að hjóla, en það get ég ekki nema yfir heitustu mánuðina, bæði út af asmanum og ennis- og kinnholubólgunum).

Og þetta virkar. Ég tek 5 sinnum minna af asmalyfinu en mér var uppálagt í fyrstu, - þ.e. algjöran lágmarksskamt. Auðvitað er ég alsæl með þetta. - En ég get samt ekki annað en pirrast yfir einu: Fyrst tryggingastofnun er tilbúin til að niðurgreiða fyrir mig 5 sinnum meira af asmalyfjum, - af hverju getur hún þá ekki niðurgreitt fyrir mig árskort í leikfimi í staðin? Ég hef nefnt þetta við eina leikfimivinkonu mína, sem er þingmaður, - og hefur virkilega beitt sér í þvílíkum málum, - með engum árangri því miður. 

Mér finnst að ég ætti að geta farið með tilvínsun frá lungnalækni í leikfimina og fengið árskortið á hálfvirði (eða minna), svona svipað og maður getur farið með tilvísun frá lækni til sjúkraþjálfara og sjúkranuddara, - og borgað mun minna en ella.

Hvað finnst ykkur? 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband