31.10.2008 | 09:36
Símasamband.
Það fyrsta sem ég geri þegar ég kem úr sundi, er að kíkja á farsímann, til að athuga hverjir séu nú komnir á barm taugaáfalls yfir því að hafa ekki náð sambandi við mig á meðan ég lá í makindum í heita pottinum. Þegar engin "missed calls" eru á skjánum, stend ég ég við skápinn, nakin með blautt hárið - og tauta með sjálfsvorkunnartóni: Ég á enga vini .
"Ekki ég heldur" tauta þá dæturnar í sama tóni. Og smá stund látum við eins og "vinaleysið" hafi ekkert með það að gera, að þeir sem oftast hringja í okkur séu allir saman komnir í sundi (við sjálfar ásamt karlkyninu í næsta klefa).
Í fyrrakvöld bauð eiginmaðurinn mér í villibráðarhlaðborð í Perlunni, þriðja haustið í röð. Mikið ofboðslega sem hann er annars góður þessi maður minn. Hann veit sem er, að ég yrði ekki glaðari þótt hann biði mér í heimsreisu. Ég hreinlega elska vel eldaða villibráð í rómantísku umhverfi .
Nema hvað: Meðan eiginmaðurinn bregður sér afsíðis, dettur mér í hug að kíkja á símann, svona til að athuga hvað klukkan er. Hvað!! - ekkert samband. Þetta hlýtur að vera út af nálægðinni við flugvöllinn, - hugsa ég. Farsímar trufla flugvélar í flugtaki og lendingu. Ég hef samt aldrei vitað til að það væri ekki samband við flugvöllinn. Þetta hlýtur að vera eitthvað nýtt .
Ég var rétt að byrja þessar "greindarlegu" pælingar, þegar minn heittelskaði kom af salerninu - og rómantíkinn hélt áfram. Við fengum okkur eftirrétt.
Það var ótrúlega langt liðið á morgunn (í gær), þegar ég leit á símann og sá að það var enn ekkert samband. Nú, - þetta hafði þá ekkert með flugvöllinn að gera .
Láttu mig fá símann, - sagði eiginmaðurinn. Tók út batterí og símakort - blés á það og pússaði, eins og hvern annan spegil. Setti saman aftur, - og abrakadabra - mín komin í samband við umheiminn á ný. Eins gott að hann var heima í vetrarfríi. Annars hefði ég gert mig að fífli með því að hringja í Vondafón og kvarta undan bilun.
Góða helgi elskurnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.10.2008 | 09:13
Miðbæjarrembingur.
Skutlaði eiginmanninum í Salaskóla í bítið (bíllinn hans er á verkstæði). Lagði af stað í niðamyrkri, en það var næstum albjart þegar ég kom heim. Keyrði framhjá Smáralindinni og lengst út í buskann.
Ég hélt að Salaskóli væri á mörkum hins byggilega höfuðborgarsvæðis, - en ég ætlaði aldrei að komast af Salaskólaafleggjararnum og út á aðalbraut, vegna umferðar utan úr buskanum. Hvaðan var allt þetta fólk eiginlega að koma? Úr hesthúsinu eða hvað?
Það var miklu miklu meiri umferð á leiðinni til baka. Að sjálfsögðu. Fólk vill ekkert vera þarna lengst úti í buskanum. Það streyma auðvitað allir í átt að miðbænum mínum.
Svo var fólk að furða sig á að ég skyli nenna að keyra til Njarðvíkur tvisvar í viku í mörg ár. Ég fékk þó ferðirnar borgaðar af því þeir eru ekkert að þykjast tilheyra höfuðborgarsvæðinu, eins og þeir sem búa við Elliðavatn.
Það var ágætistónlist í útvarpinu á leiðinni.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.10.2008 | 15:07
Breytinga-hvað?
Kæru vinir. Ég biðst innilega afsökunar á að hafa ekki látið neina færslu frá mér fara í allt of langan tíma. Útskýringin er sú, að ég hef einfaldlega verið andlaus og í lélegu formi í hálfan mánuð. Og útskýringin á andleysinu er svefnleysi. Síðustu 3 nætur svaf ég sæmilega, en 9 nætur þar á undan voru allt of stuttar. Og í kjölfar of stuttra nátta, ramba ég á barmi þunglyndis og er allt annað en skemmtileg að eigin mati. Og auðvitað get ég ekki farið að skrifa neina þunglyndispistla, eftir alla þessa bráðskemmtilegu og andríku pistla sem þið eruð vön frá mér (frú-auðmýkt-og-lítillæti.is greinilega að vakna til lífsins).
Auðvitað er nærtækast að ætla, að ástæðan fyrir svefnleysi mínu hafi verið sú, að ég hafi verið búin að setja einhver reiðinnar býsn af milljónum eða milljörðum í hlutabréf í bönkum og öðrum útrásarfyrirtækjum - og standi nú uppi slypp og snauð, - og þurfi nú herða sultarólina og láta af drottningarlifnaðinum. Að ég hafi nótt eftir nótt legið andvaka af áhyggjum yfir því, hvernig í ósköpunum ég eigi nú að koma jeppunum, einkaþotunum og listisnekkjunum í verð.
Við eldhúsborðið hjá vinkonu minni í fyrradag kom hún hins vegar með miklu leiðinlegri og trúlegri skýringu: "Þetta er alveg dæmigert einkenni á breytingarskeiðinu" sagði hún. Og ég varð að viðurkenna að þessar síðustu vikur hefur örlað á nettum svitaköstum - og ég sem aldrei átt vanda til að svitna. Auk þess sem það eru víst 52 ár síðan ég fæddist, - eins og ég er nú ung og hress.
En ég neita að samþykkja svefnleysi. Af hverju get ég ekki bara fengið almennileg svitakóf og orðið brjáluð í skapinu eins og sumar konur? Ég sem er búin að vera svo dugleg að hreyfa mig reglulega, - og Kolbrún grasa sagði að það væri besta forvörnin. Ætli ég neyðist þá ekki til að nota hitt ráðið frá Kolbrúnu og skera kaffidrykkjuna niður við trog. Hún vill helst að maður sleppi því alveg, en mér bara finnst það svo gott. Auk þess sem það hefur mikið félagslegt gildi eins og ég gat um í öðrum pistli. Síðustu daga hef ég drukkið 2 bolla á dag í staðin fyrir 4, - og kýs að trúa því að þar með hafi ég yfirunnið svefnleysið.
Góða helgi elskurnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.10.2008 | 09:45
Ríkidæmi - seinni hluti.
Vinkona mín var til skamms tíma gift þjóðverja. Þau bjuggu í Svíþjóð þegar dóttir þeirra fæddist - og þar til hún var 12 eða 13 ára. Þessi stúlka er með ríkustu manneskjum sem ég þekki. Alla tíð hefur mamma hennar talað við hana íslensku, pabbinn þýsku - og á leikskólanum og í umhverfinu lærði hún sænsku. Hún var fljót til máls, svo strax tveggja ára var hún altalandi á þessi 3 tungumál. Ég hitti hana á hverju ári, meðan hún bjó í Svíþjóð - og aldrei gat ég stillt mig um aðdáunarathugasemdina: Oh Birta, þú ert SVO RÍK. Í dag býr hún á Íslandi - og er altalandi á ensku líka, eins og aðrir íslenskir unglingar, auk þess sem hún er að læra frönsku og/eða spænsku í menntaskólanum - og gengur mjög vel. Þvílíkt ríkidæmi!!
Sem betur fer búa mörg börn við þetta ríkidæmi. Börn sem eiga foreldra með sitt hvort móðurmálið og/eða börn sem búa í öðru landi en foreldrarnir eru aldir upp í.
En því miður hef ég líka séð sorgleg dæmi um hið gagnstæða. Ég vann í 3 sumur ("98, "99 og "00) á gæsluvelli. Þangað komu nokkrar asískar konur með börnin sín. Þessar konur töluðu það litla og lélega íslensku að þær kusu að tala (bjagaða) ensku við mig. Allt í lagi með það. En þær töluðu íslensku við börnin sín!!! Einhver fáránlegur fræðingurinn hefur líkast til ráðlagt þeim það. Hugsið ykkur bara. Að "fá" ekki að tala við sitt eigið barn á sínu móðurmáli, heldur á tungumáli sem þær kunnu ekki nema eitt og eitt orð í. Hvað með tilfinningatengslin sem myndast milli móður og barns í gegn um tungumálið (móðurmálið)? Svo hitta þessi börn afann og ömmuna og enginn skilur neinn. Ég ætla rétt að vona að engum detti þessi ósköp lengur í hug. Ég stend stíf á þeirri skoðun minni, að allir foreldrar eigi að tala sitt móðurmál við sitt barn, burt sé frá ytra málumhverfi.
Þegar 8 ára afmæli ömmudrengsins nálgaðist, spurði ég hann hvort hann langaði ekki í einhverjar bækur í afmælisgjöf. "Jú mig langar mest í Kalvin og Hobbs, - ég er búinn að lesa nokkrar, þær eru frábærar" sagði drengurinn. Og ég fór í Mál og menningu, en fann þessar bækur bara á ensku. Starfsfólkið vissi ekki til að þær væru yfirhöfuð til þýddar. Ég hringdi í frumburðinn (móður drengsins) og bar mig illa. Hvort hún vissi hvar bækurnar fengust á íslensku. Hún fór að hlæja; - mamma vissurðu ekki að hann er löngu farinn að lesa enskar bækur? - Mín keypti Kalvin og Hobbs, - á ensku.
Ekki nóg með það. Þetta haustið var hann (7 ára) næstum daglega að túlka á milli erlendra starfsmanna í skólanum sínum. Í dag (9 ára) les drengurinn heilu myndlausu doðrantana á ensku. - Bækur sem ég treysti mér ekki til að lesa. Foreldrar hans eru þó alíslenskir - og hann hefur aldrei búið í öðru landi. En hann horfði töluvert á Karton network á leikskólaaldri.
Ég reyni að vera ekki bitur, þó ég hafi ekki verið eitt af þessum ríku börnum. Er dugleg þessa dagana að horfa á Morse og glósa og reyni að læra glósurnar og horfi svo aftur. Verð að viðurkenna að ég hef aldrei upplifað mig svona heimska. Ég er skólabókadæmi um að því eldri sem þú verður, því lengur ertu að læra tungumál. En mér finnst það þess virði. Þolinmæði þrautir vinnur allar, auk þess sem Morse vinur minn er einstaklega skemmtilegur. Ég þarf sko ekki að pína mig til að horfa. En eiginlega bara orðin húkt á honum. - Þetta kemur.
P.s. við hjónin eigum brúðkaupsafmæli í dag (4ra ára). Yoko Ono gerði sér ferð til Íslands til að halda upp á það. Hún gerði það líka í fyrra.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
6.10.2008 | 21:24
Ríkdæmi.
Mikið ofboðslega sem ég er annars rík. Og það sem ég hef grætt í gegn um tíðina, - ja hérna.
Ég á t.d. frábærustu fjölskyldu í heimi. Börnin mín eru stórkostlegustu snillingar sem ég þekki. Bara það hvað þau hafa komist vel til manns, er náttla ekkert nema stórgróði. Ekki það að þau hafi verið "lögð inn á arvænlegan reikning", - þ.e. plantað í fóstur hjá svo ofurvænlegum foreldrum.
Ég á líka eiginmann af gæðastuðli sem ég hélt að væri ekki til. Og ekkert smá sem ég hef grætt á honum. T.d. held ég að sjálfsálit mitt hafi vaxið um mörg hundruð prósent af hans völdum. Og flestar stundir með honum eru einstaklega dýrmætar.
Og ekkert smá sem ég græddi á foreldrum mínum. Þegar ég var 11 ára gömul, voru þau ekki ríkari en svo, að þau áttu hvorki bíl né sjónvarp. En tóku sig þá til og keyptu píanó - og settu okkur systkinin öll í tónlistarskóla í þó nokkur ár. Annars byggi ég líklega ekki við þá auðlegð í dag, að geta unnið við það sem ég hef gaman af. Auk þess þarf ég ekki að tapa gleði og lífsfyllingu, þegar ég get alltaf sest við hljóðfærið og auðgað mig með hljóðfæraleik.
Þetta var bara orlítið brot af fjölskyldu-auðnum.
En auður minn liggur víðar. Ég er t.d. alveg einstaklega heilsuhraust, miðað við konu á mínum aldri. Ég þarf reyndar dáldið að hafa fyrir því, - en hreystin og vellíðanin sem ég græði er miklu meiri en erfiðið sem ég legg undir.
Svo bý ég á besta stað í heimi. Frábær staðsetning og útsýni fylgdu að vísu með í kaupunum, en ég græddi ýmislegt fleira, eins og t.d. góða nágranna, sem ég borgaði ekki krónu fyrir.
Ég fékk líka slatta af gáfum í vöggugjöf. Og þó sumar þeirra hafi kannski örlítið rýrnað, þá eru þær fleiri sem hafa vaxið með þvílíkum vöxtum og vaxtavöxtum, að ég er bara alsæl.
Svona gæti ég lengi haldið áfram. Ég man bara eftir einni tegund auðlindar, sem ég er ekki jafn moldrík af og margir aðrir. Nei, - ég er ekki að tala um þá staðreynd að ótrúlega margir landar mínir hafa marg-margfalt hærri mánaðarlaun en ég. Förum nú ekki að blanda beinhörðum peningum í umræðu um ríkidæmi.
Tek næsta pistil í þessa einu auðlind sem mig langar að öðlast aðeins meira af.
Lifið heil.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.10.2008 | 16:15
Sagan af lauknum dýra
Fór á tónleika út í Viðey í gærkvöldi, ásamt frumburðinum mínum. Yndislegir tónleikar þar sem Kristjana Stefánsdóttir og Svavar Knútur leiddu saman hesta sína. Okkur mæðgunum þótti þetta dáldið ævintýralegt. Lögðum af stað í siglingu í niðamyrkri að hausti til. Meðan á tónleikunum stóð, skall hann á með hörkuvetri.
Ég hafði frekar stuttan tíma milli Tónheimakennslu og Viðeyjarferju. - Og þar sem hvorki heimasætan né eiginmaðurinn voru væntanleg í kvöldmat, hefði nú flestum þótt liggja beint við, að mín kæmi við á veitingastað, þar sem fagmenn elduðu oní hana.
En nei, - nú eru erfiðir tímar Baktus bróðir. - Nú skal sparað. Því kom ekki annað til greina, en að fara heim og elda plokkfisk úr fiskiafgangnum frá í fyrrakvöld.
Ég kom því við hjá honum Hagkaupi vini mínum. Og hvað sé ég? Þennan líka óvenjuvelútlítandi lauk í neti. Meira að segja merktan organic. Ekki var það nú verra. Ég greip eitt net - umhugsunarlaust - með mér að kassanum. Ég segi umhugsunarlaust, - því þó maður hugsi sig kannski stundum aðeins um, hvort maður eigi að tíma að kaupa lífrænt, - því það er alltaf aðeins dýrara, - þá hefur laukur nú aldrei verið á því verði að maður þurfi að pæla í því.
"847" krónur sagði stúlkan á kassanum. "Fyrirgefðu, ég er bara með þennan lauk, ekkert annað" sagði ég. "Já hann kostar 847 krónur, hann er lífrænn" sagði stúlkan. "Veistu, ég kaupi mjög oft lauk - og ég þori næstum að fullyrða að síðast þegar ég keypti lauk í neti, kostaði hann innan við 100 krónur" sagði ég. En stúlkan var algjörlega viss í sinni sök. Og þar sem ég var að flýta mér, hafði ég bara svigrúm til að meta stöðuna þannig, að það væri fljótlegast og ódýrast að borga laukinn og drífa sig heim og elda.
Plokkfiskurinn bragðaðist vel.
Góða helgi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
2.10.2008 | 09:22
Ýsa var það heillin.
Ein vinkona mín er 86 ára gömul (nei það er ekki Ása sæta, hún er 91). Hún er ein af þeim sem býður alltaf upp á sætt kex með kaffinu. Lengi vel hafði mér tekist að fá mér ekki, - án þess að eftir væri tekið. En svo kom að því að ég þurfti að afþakka og útskýra. Sagði að ég borðaði ekki sykur.
Hún: Það getur ekki verið, það verða allir að borða einhvern sykur, - daglega.
Ég: Ó nei. (og svo kom minn hefðbundni ræðustúfur) Ég hef ekki borðað sykur síðan í jan."07. Það þarf enginn að borða sykur. Það eru engin næringarefni í sykri, - bara orka. Og maður fær orku úr svo mörgu öðru. T.d. ávöxtum og grænmeti.
Hún: Ég borða aldrei neitt grænmeti. Ekki heldur ávexti.
Ég: Ekki neitt?!?!?
Hún: Ekki neitt. Jú, kartöflur með fiskinum. Ekkert annað. Aldrei.
Ég: Hvernig í ósköpunum ferðu að því að eldast svona vel? Hvað borðarðu?
Hún: Fisk
Ég: Og?
Hún: Bara fisk. Alla daga.
Ég: Borðarðu þá alls konar fisk?
Hún: Ja, oftast soðinn, en stundum steiktan.
Ég: Ég meina alls konar tegundir af fiski.
Hún: Nei nei, alltaf bara ýsu.
Ég: Það er frábært að borða mikið af fiski. Það mættu fleiri gera það. En þú hlýtur að fá þér eitthvað annað svona yfir daginn.
Hún: Mér finnst voðalega gott að fá mér stundum sætt kex með kaffinu. En oftast er það bara moli.
Ég: Og eru allir dagar svona?
Hún: Einstöku sinnum býður dóttir mín mér í mat á sunnudögum. Þá spyr hún hvað ég vilji helst fá í matinn. Og ég segi alltaf; kótilettur.
Ja hérna hér. Var einhver að tala um fjölbreyttni í fæðuvali?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.9.2008 | 11:14
Barnlaus?
Jæja það kom að því. Ég er orðin barnlaus. - Eða þannig. Yngsta barnið mitt varð 18 ára í gær. Sem betur fer hafa börnin mín ekki farið langt - og eiga vonandi aldrei eftir að "slíta stjórnmálasambandi við mig", en lagalega séð eru þau nú öll orðin fullorðin, svo nú á ég bara uppkomin börn, eins og það heitir. Ætti svosem ekki að breyta neinu, en þetta er samt dáldið skrýtin tilfinning. Sérstaklega þar sem ér er búin að eiga börn síðan ég var barn sjálf.
Þarf aðeins að jafna mig á þessu.
Lengi vel sagðist ég eiga 10 börn. Þá bætti ég að sjálfsögðu barnabörnum, tengdabörnum, stjúpbörnum og stjúpbarnabarni við þau 3 börn sem ég hef fætt og alið upp sjálf. Nú er von á nýju barnabarni, auk þess sem heimasætan er komin með kærasta, þannig að bráðum segist ég eiga 14 börn.
Það er miklu betri tilfinning. Ég held mig við hana.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
18.9.2008 | 09:29
Takk RÚV.
Ég er svo heppin að geta glaðst yfir litlu. Og geri það oft. Ég man t.d. einn föstudaginn fyrir nokkrum árum, þegar ég las það í mogganum mínum að þá um kvöldið ætti að sýna fyrsta Gettu betur þátt vetrarins og svo Taggart á eftir. Ég hreinlega trylltist úr kæti. Ég sem horfi að öllu jöfnu lítið á sjónvarp, átti að fá bæði uppáhöldin mín sama kvöldið. Nemendur mínir vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið, ég var dansandi og syngjandi af gleði allan daginn.
En ég var ein af þeim sem varð leið og beinlínis sorgmædd, þegar Vilhelm G Krinstinsson var látinn hætta með sitt unaðslega morgunútvarp. Í staðin kom einhver misheppnuð tilraun til að geðjast öllum á samtengdum rásum 1 og 2.
Þess vegna er ég alsæl þessa dagana. Vilhelm sjálfur er að vísu ekki mættur aftur, - en þulurinn á rás 1 spilar milda og ljúfa jazztónlist á milli klukkan 8 og 9, - Jan Johannson og fleiri vini mína - alveg í anda Vilhelms. Auðvitað á ég góða tónlist í þessum anda á diskum, - en það er bara allt annað að hafa þetta í útvarpinu. Ég veit ekki hvort félagslegt er rétta orðið. Það er bara svo notalegt að láta útvarpsþulinn velja fyrir sig úr öllum áttum - og vera með stutta og þægilega kynningu á milli, á meðan maður situr yfir morgunmatnum, morgunkaffinu og morgunblaðinu. Þá missir maður heldur ekki af fréttayfirlitinu í útvarpinu. Kannski ég prófi að kveikja fyrr á útvarpinu, til að vita hvort þessi unaður byrjar strax klukkan 7.
Svo er framundan þessi tími, sem mér finnst alltaf svo unaðslegur á vorin, - og ég er að temja mér að finnast jafn unaðslegur á haustin: - Þegar maður vaknar í myrkri, en svo birtir á meðan maður klæðir sig og borðar morgunmatinn.
Góðar morgunstundir eru gulls-ígildi.
Takk RÚV.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.9.2008 | 15:09
Allt mér að þakka, - og kenna.
Vildi bara vekja athygli ykkar á bongóblíðunni sem er brostin á. Glampandi sólskin og allt mér að þakka. Ástæðan? Jú, það rigndi eldi og brennisteini í morgunn þegar ég fór að heiman. - Svo auðvitað fór ég í gúmmístígvélum og regnúlpu. Og þá gerist þetta alltaf. Um leið og ég var komin niðrí bæ, brast á með sól og blíðu. Þvílíkt sem ég þurfti að berjast við skömmustutilfinninguna, þar sem ég leiddi hjólið niður Skólavörðustíg og Bankastræti í glampandi sólskini á skraufaþurri gangstéttinni. Bara að allt þetta fólk á sólkjólum og sandölum vissi að þetta er allt mér að þakka. Ég fórnaði mér fyrir fjöldann, einu sinni sem oftar.
En ég verð líka að viðurkenna það, að stundum í skraufaþurru, stenst ég ekki freistinguna að fara út á inniskónum. Sérstaklega á þessum árstíma, þegar maður er að reyna að láta eins og það sé ennþá sumar. Og þá er jafnan eins og við manninn mælt, - það byrjar að rigna. Ég biðst innilega afsökunar á öllum þeim skiptum.
Nú er ég að velta fyrir mér hvort ég á að þora í berjamó í blíðunni. Þá er eins víst að það byrji aftur að rigna. Tek sjensinn. - Og tek með mér stígvél og úlpu.
Góða helgi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)