23.12.2008 | 13:43
Skemmdur matur.
Í þessum rituðum orðum er minn ektamaki staddur í hinu árlega skötuboði hjá bestu vinkonu minni. Síðustu 20-30 árin hefur vinkonan verið ötul við að suða í mér að mæta. Hún stendur í þeirri meiningu, að hún sé að bjóða upp á eitthvað unaðslega gómsætt og stórfenglegt, - og á því dáldið erfitt með að trúa því að matgæðingurinn, sælkerinn og partýljónið ég skuli ekki þiggja með þökkum þetta einstaklega góða boð.
En ég er alltaf með sama svarið á reiðum höndum. Ég borða ekki skemmdan mat, - og ég legg það ekki á mig að sitja í þessari ýldufýlu, þrátt fyrir frábæran félagsskap.
Ekki þegar ég á þess kost að njóta Þorláksmessunnar á minn persónulega hátt, þ.e. að strauja dúka og skreyta húsið á meðan ég hlusta á jólakveðjurnar í útvarpinu. Þá veit ég að jólin eru að koma. Ég sem er haldin andstöðuþrjóskuröskun gagnvart hefðum, verð að viðurkenna, að ég mundi deyja úr Þorláksmessusöknuði, ef ríkisútvarpið hætti einhverntíman með jólakveðjurnar.
En aftur að skemmda matnum. Minn heittelskaði, sem er einn jákvæðasti maður norðan Alpafjalla, stendur á því fastar en fótunum, að honum þyki ekki bara félagsskapur vinkonu minnar góður, - heldur líka skatan hennar. Vinkonan er frá Ísafirði, - og mamma hennar sendir henni skötuna - ásamt meðfylgjandi hnoðmör - að vestan. En eins og alþjóð veit, þá á ekta vestfirsk skata að vera svo kæst, að þú finnir ekki mun á vatninu og brennivíninu sem þú drekkur með ("þess vegna" drekkur minn bara vatn).
Minn heittelskaði er ekki bara jákvæður heldur alveg einstaklega tillitssamur. Algjörlega óumbeðinn gerir hann það á hverri Þorláksmessu, að hafa hreinan alklæðnað með sér í skötuboðið (þ.e. geymir hann í poka úti í bíl!!). Fer svo beint í sund, hvar hann biður um tvo skápa, - einn fyrir hreinu fötin og annann fyrir ógeðslyktandi fötin. Þegar hann kemur heim, setur hann ógeðsfötin beint í þvottavélina (áður en hann kemur upp í íbúðina til mín) og fer svo beint út á svalir með belti, skó og jakka til viðrunar.
Best að skella í sig hádegismatnum, þ.e. nýbökuðu speltbrauði eftir sjálfa mig, með gúmmolaðis-jólaostinum sem frænka mín í sveitinni var svo elskuleg að senda mér, einu sinni sem oftar (ekki orð um skemmda-mats-verkun á gúmmolaðisostinum).
Ef ég klára að skreyta fyrir friðargöngu, er aldrei að vita nema ég verki rjúpurnar í kvöld.
Njótið gleðilegra jóla elskurnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.12.2008 | 23:43
Hanskar og kaffi.
Ég hef reynt að passa sérlega vel upp á spilafingurna í seinni tíð. Sú umhyggja hefur aðallega falist í því, að passa að fara aldrei vettlingalaus út að ganga, - og aldrei hanskalaus út að aka.
Í morgun átti ég stefnumót við frænku mína í Smáralind (af öllum stöðum). Sem er eins og alþjóð veit út-á-landi, svo ég þurfti að fara akandi. En þegar ég opna skúffuna sem ég geymi hanskana í, þá voru þeir ekki þar. Mín fyrstu viðbrögð voru að kenna heimasætunni um hanskahvarfið (við Guð erum ennþá í massavinnu við að reyna að losa mig við brestinn sem heitir; að kenna öðrum um. Það er dáldið erfið vinna af því ég er náttla svo hrikalega fullkomin - og á því erfitt með að kenna sjálfri mér um nokkurn hlut).
Ég snéri skúffunni gjörsamlega á hvolf, í þeirri von að finna einhverja gamla hanska, - og jú ég fann 2 stykki, - báða upp á hægri hönd.
Ég var að verða of sein á stefnumótið, svo ég greip í flýti annan hægri handar hanskann og rauk út í bíl. Og hvað er það fyrsta sem ég sé þegar ég kem út í bíl. Já að sjálfsögðu hanskarnir, sem ég hélt að heimasætan hefði tekið. Og það var ekki hún, heldur ég sjálf sem hafði verið síðast á bílnum.
Við frænkurnar höfðum ætlað að hittast við innganginn í Smáralind. Já ég sagði innganginn, í eintölu með ákveðnum greini. Ekki alveg í takt við greind okkar frænknanna. Ég er vön að leggja í bílastæðið næst Hagkaupum, - en fékk þá snilldarhugmynd, að frænkan hefði örugglega lagt hinu megin, á efri hæðinni næst Debenhams. - Svo ég lagði þar. Hringdi í hana þegar ég var komin inn í ferlíkið, en þá beið hún að sjálfsögðu í anddyrinu við Hagkaup. Ég hljóp þangað - og með henni út í bílinn hennar að sækja kassa með jólapökkunum frá mömmu.
Áður en við kvöddumst við rúllustigann, þurfti ég auðvitað örlítið að tala. - Var orðinn kófsveitt af því að rogast með kassann, svo ég lagði hann frá mér ofan á ruslatunnu, og fór úr hönskunum og kápunni, sem ég setti ofan á kassann ásamt veskinu.
Þegar ég er búin að setja kassann í skottið á bílnum, fleygi ég kápunni og veskinu í farþegasætið, - en mér til skelfingar uppgötva ég þá að hanskarnir eru hvergi sjáanlegir. Ég tek loðkápuna út og hristi hana til - færi sætin til og fínkembi bílinn. Öngvir hanskar. Gáði að sjálfsögðu líka undir bílnum og í skottinu. Meira að segja ofan í kassanum, sem hafði þó verið kyrfilega lokaður.
Þá hófst stóra leitin. Á bílastæðinu í snjónum, á göngum Smáralindar, - efri og neðri hæð, í rúllustiganum, á hinu bílastæðinu. Ég bókstaflega fínkembdi allt svæðið sem ég hafði farið um, - en algjörlega árangurslaust.
Ég var gjörsamlega miður mín þegar ég settist inn í bílinn og keyrði af stað. Langaði mest til að drífa mig beint í Tösku og hanskabúðina og kaupa aðra alveg eins og láta eins og þetta hefði aldrei gerst.
En ég keyrði til baka með gamla hanskann á hægri. Var 10 mínútum of sein á fundinn sem var næstur á dagskrá. Að fundi loknum þreifa ég ofan í kápuvasa eftir gamla hægrihandarhanskanum. Og finn þá ekki bara hann, - heldur líka hina báða!! Ég vissi ekki alveg hvort ég átti að hlæja eða gráta.
Næst á dagskrá var að koma við í Kaffitári og fá sér kaffi til að taka með í kirkjuna, þar sem ég ætlaði að æfa mig. Hlakkaði mikið til að drekka gott kaffi við flygilinn. Bað kaffibarþjóninn að barmafylla götumálið.
Á leið frá Kaffitári að bílnum datt mér í hug að fara inn í Eymundsson að kaupa bók sem ég hafði ætlað að kaupa fyrir heimasætuna. Mér leist ekki alveg nógu vel á bókina og hringdi til að vita hvort ég ætti örugglega að kaupa hana. Það var dáldið erfitt að skoða bókina og lýsa henni fyrir heimasætunni, með símann, kaffið, veskið og hanskana í höndunum (auðvitað þorði ég ekki að leggja þá frá mér). Auk þess pukraðist ég dáldið vandræðaleg, því ég þóttist viss um, að það væri ekki æskilegt að fólk kæmi með kaffimál inn í bókabúð. Alla vega ekki þar sem kaffi frá aðalsamkeppnisaðilanum er selt í búðinni.
Þetta endaði auðvitað með því að kaffi gusaðist yfir alla loðkápuna. Þá þorði ég ekki annað en að leggja frá mér bókina, símann og veskið, meðan ég reyndi að dusta kaffið af kápunni svo lítið bæri á.
"Hvað er þetta á gólfinu mamma" heyrði ég þá barn spyrja við hliðina á mér. "Það hefur eitthvað hellst niður" svaraði mamman. Ég var dáldið vandræðaleg þegar ég hljóp í kaffisölu Te og kaffis - og sótti böns af servettum.
Þegar ég svo settist inn í bílinn var ég svo upptekin af hönskunum og veskinu, - hvort ég væri ekki örugglega með hvort tveggja, að mér tókst að gusa helling af kaffi yfir buxurnar mínar.
Á leiðinni í kirkjuna datt mér í hug, að það yrði nú til að toppa þetta, ef ég mundi svo gleyma kaffinu úti í bíl - og það yrði frosið þegar ég væri búin að æfa mig. Svo ég bara skellti því í mig í bílnum. Þetta pínulitla sem eftir var af kaffinu, - var orðið kalt.
Eftir píanóæfinguna fór ég í skóbúð að máta nýja vetrarskó. Ég verð að viðurkenna, að ég skammaðist mín verulega þegar ég fór að skoða í speglinum, hvernig mínir fögru fótleggir tækju sig út í nýju skónum, - og þá æpa á mig þrír risastórir kaffiblettir á gallabuxunum.
Njótið síðustu aðventudaganna elskurnar.
Bloggar | Breytt 21.12.2008 kl. 09:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.12.2008 | 15:10
Leiðbeiningar.
Af hverju í ósköpunum er manni uppálagt að hafa manúal einkabílsins í hanskahólfinu? Til að þeir sem kunna að brjótast inn í bílinn geti lært á hann áður en þeir fara á rúntinn? Ef ég teldi að akstur míns eðal-Yariss krefðist sérkunnáttu, - tæki ég manúalinn inn í hús hið snarasta. (Vek sérstaka athygli á, að þetta er mín fyrsta tilraun til að blogga um frétt á mbl.is)
Björgunarskipi stolið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 20.12.2008 kl. 19:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.12.2008 | 10:36
Af hverju blogga ég?
Ein bloggvinkona mín spurði nýlega af hverju við blogguðum. Um leið og ég byrjaði að svara henni fylltist hausinn á mér af allt of mörgum línum fyrir athugasemdadálkinn á hennar síðu, svo ég ákvað að skrifa bara um þetta efni sjálf. En núna man ég auðvitað ekki neitt af öllum þeim snilldarhugrenningum sem voru til staðar í fyrradag, svo ég hefði betur misnotað síðu bloggvinkonunnar.
Auðvitað blogga ég fyrst og fremst af því að mér finnst það skemmtilegt. Og langskemmtilegast finnst mér að gera grín að sjálfri mér. Þó fljótfærni, hugsunarleysi og annar aulagangur geti seint talist til dyggða, þá er ég svo heppin; - að þegar slíkt og þvílíkt hendir, skeður og á sér stað í mínu lífi, - er ég svo stálheppin að hafa oftar en ekki húmor fyrir því. Og þó sérviska mín sé að sjálfsögðu dyggð en ekki löstur, eins og fram kom í annari færslu, - þá nýt ég þess líka að gera grín að henni.
Svo blogga ég líka stundum vegna skoðanna sem ég vil koma á framfæri. Sérstaklega ef ég held að skoðanir mínar séu ekki almennar, en eigi skilið að vera gert aðeins hærra undir höfði.
Ég nýt þess líka að skrifa ögrandi. Vera til dæmis með 101-rembing í þeirri von að úthverfapakkið verði alveg brjálað. Eða Reykjavíkurrembing svo að landsbyggðarpakkið rísi upp á afturlappirnar (þetta pakk-orðalag er auðvitað notað í nefndum tilgangi).
Reyndar er ég stundum dáldið hissa á hve fáum mér tekst að strjúka á móti hárunum. Alla vega hafa kommentadálkarnir aldrei verið yfirfullir af aggresívum mótmælum.
Nefnd bloggvinkona gat þess reyndar að maður fær miklu fleiri komment ef maður tengir við frétt á mbl.is. Í þau fáu skipti sem mér hefur dottið í hug að gera slíkt, - hef ég hætt við á þeirri forsendu, að ég hafi ekki tíma til að læra á það akkúrat núna (frestunaráráttan söm við sig). En nú er kominn tími á eitthvað nýtt. Ekki af því að fréttirnar séu svo spennandi til umfjöllunar um þessar mundir, - heldur af því að minn andlegi bloggviskubrunnur hefur verið í einhverri lægð í seinni tíð, - eins og þið hafið vafalaust tekið eftir.
Svo hver veit nema næsti pistill verði með "tilkynningu við óviðeigandi frétt", eða hvernig það er nú orðað. Eða hvað: - engu að lofa - ekkert að svíkja. - Sjáum til.
Góða helgi gott fólk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.12.2008 | 23:00
Gleðifréttir.
Ég horfi mjög sjaldan á sjónvarpsfréttir nú orðið. Læt duga að fletta mogganum - og hlusta af og til á yfirlitið í útvarpinu.
Kveikti þó af rælni á sjónvarpsfréttunum á meðan ég var að elda nú áðan (áður en ég rauk á tónleika). Aðallega til að fá fréttir af Arnarhóli og Bleðlabanka.
Kemur þá ekki - (hvernig snýr maður við, máltækinu; eins og þruma úr heiðskíru lofti? - Eins og glampandi sólskin úr brjáluðum byl?) - eins og gullmoli úr kolabing (hvernig var þessi? - hallærislegur?) - frétt, sem fékk mig til að taka svo trylltan gleðidans - og öskra og æpa að þvílíkri gleði og kæti, - að eiginmaðurinn sá ástæðu til að sussa á mig, - og það oftar en einu sinni (og er hann þó yfirleitt ótrúlega umburðarlyndur gagnvart mér þessi elska).
Vinstri grænir eru stærsti stjórnmálaflokkur landsins, samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum!! .
Auðvitað á ég ekki að vera hissa. Ástandið á íslenska stjórnarheimilinu er með þvílíkum endemum um þessar mundir, að meginþorra manna er loksins ofboðið. Maður er bara orðinn svo vanur því að fólk kýs endalaust yfir sig sama ruglið af gömlum vana. En nú eru íslendingar loksins að vakna af dvala. Það þurfti mikið til.
Svo nú segi ég bara eins og Silvía vinkona okkar: Til hamingju Ísland .
Guð láti gott á vita. Vonandi verður þetta að veruleika.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.11.2008 | 10:04
Breytt viðhorf.
Ég heyrði nýverið af útvarpsviðtali, þar sem útvarpsmaður tjaldaði viðhorfi sem lengi hefur verið mitt. Hún (útvarpsmaðurinn) kom inn á þá "fáránlegu" staðreynd, að á Íslandi er grænmeti og aðrar hollustuvörur yfirleitt selt á uppsprengdu verði, á meðan súkkulaðikex og ýmsa óhollustu er hægt að fá fyrir töluvert lítinn pening. Staðreynd sem ég hef oft og lengi tuðað yfir.
Þá sagði viðmælandinn, að það væri nauðsynlegt að hafa þetta svona með sætindin, - því það væru svo margar fjölskyldur á Íslandi, sem hefðu hvorki efni né aðstæður til að leyfa sér neinn lúxus. - Vikulegir nammidagar, - oft samfara kósíkvöldi - væri eina tilbreytingin sem mjög margar fjölskyldur geta leyft sér. Og það er jú nauðsynlegt sálarheill hverrar manneskju, að gera sér dagamun, - eða "leyfa sér eitthvað" af og til.
Mín hrökk hressilega við þegar hún heyrði þetta og snarbreytti um viðhorf. Ég tek heilshugar undir ofangreint. Og finnst það þroskamerki hjá hollustufríkinni og óvirka sætindafíklinum mér, - að skipta svo snarlega um viðhorf.
Það sem sló ryki í augu mín til skamms tíma, hefur líklega verið það; að þó ég hafi sjálf lengst af verið fjölskyldumóðir slíkrar alþýðufjölskyldu (og svo sannarlega staðið fyrir æðimörgum nammidögum), þá er ég svo hrikalegur sætindafíkill, - að ég hef aldrei getað notað slíkt stöff í hófi. Ég keypti því - og gúffaði í mig - allt of miklu af þeirri "munaðarvöru". Réttlætti það meðal annars með því að þetta væri svo ódýrt. Sem það var auðvitað ekki í mínu tilfelli, því ég keypti svo mikið (rauðvínskaup voru miklu ódýrari í mínu tilfelli, því það stöff get ég þó notað í hófi).
Ég vona svo sannarlega, að þrátt fyrir breytta tíma sem framundan eru á Íslandi, - getum við öll haldið áfram að gera okkur dagamun. Hvert með sínum hætti. Í hófi.
Myndin hér að ofan er aðeins á ská við umræðuefnið. Ég átti enga mynd af ódýru bónus-nammi, - bara þessu heimagerða gúmmolaði úr rándýru hollustustöffi, - lífrænt ræktuðum döðlum og þvíumlíku.
Lifið heil.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.11.2008 | 17:00
Afmælistöfrar.
Ömmudrengurinn átti merkisafmæli í gær. Fyllti fyrsta tuginn. Eitthvað hlýtur það að segja um mig, að ég skuli eiga 10 ára gamalt ömmubarn, - eða hvað?
Viljandi mætti amman hálftíma áður en fjölskyldan átti að mæta. Henni fannst nauðsynlegt að ná a.m.k. seinasta hálftímanum af bekkjarpartýinu.
Hún var nefnilega með dáldið merkilega afmælisgjöf í farteskinu: Ekkert sem maður pakkar inn og setur slaufu utan á. - Heldur sprelllifandi alvöru töframann.
Sá vakti heldur betur lukku. - Enda er maðurinn algjör snillingur í sínu fagi. Allur bekkurinn komst í aðstoðarmannshlutverkið, - og nokkrir líka úr fjölskyldunni, sem tíndust inn á meðan töfrabrögðin voru framin.
Skemmtunin stóð lengur en ég hélt, - eða í rúman klukkutíma. Bekkjarpartýið og fjölskylduboðið sköruðust þar af leiðandi, - og allir skemmtu sér konunglega. Eins gott að stofan er stór í Skaftahlíðinni.
Að lokum: Áfram Ísafjörður!! (þeir keppa við Grindvíkinga í Útsvari í kvöld. - Ekki svona sár Þórunn mín).
Góða helgi gott fólk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.11.2008 | 20:15
Það liggur í loftinu.
Mikið ofboðslega sem þetta ættu annars að vera yndislegir tímar, ef ekki væri þetta þunglyndisský, sem svífur yfir landsmönnum af gefnu tilefni.
Ég held að aðventan hafi aldrei verið fyrr á ferðinni. Haustlitirnir varla foknir af trjánum þegar borgarstarfsmenninrnir - þessar elskur - eru búnir að kveikja á jólaljósunum í miðbænum. (Já já, ég veit að fyrsti sunnudagur í aðventu er ekki fyrr en 30.nóv.)
Fyrir mér felst unaðurinn í því, að fjögur yndisleg tímabil - ekki bara taka við af hvort öðru, - heldur beinlínis skarast. Ég er að tala um haustlitina, kertaljósatímabilið, aðventuna og jólin. Ég elska þennan kvartett. Ég hef aldrei fengið svigrúm fyrir skammdegisþunglyndi fyrr en eftir áramót.
... Fyrr en núna. Ég hef einblínt á ríkidæmi mitt, sem felst í svo mörgu öðru en beinhörðum peningum, hlutabréfum og fasteignum. Ég hef líka fagnað því að vera ekki alvarlega skuldum vafin. Ég er líka meðvituð um þá staðreynd að ef ég á að eiga möguleika á að verða atvinnulaus, - þá þarf að leggja niður tónlistarskóla, grunnskóla, leikskóla og aðra starfsemi þar sem tónlistar- eða uppeldisfræðimenntunar og reynslu er krafist. Ekki miklar líkur.
... En samt. - Mórallinn í samfélaginu hefur nú daglega í 5 eða 6 vikur verið svo hnausþykkur og þrúgandi, að ég bara kemst ekki hjá því að vera þjökuð af honum.
Kannski er ég bara svona óvenjunæm fyrir alls kyns bylgjum í loftinu. Ég man þegar leiðtogafundurinn var í Höfða. Þá bjó ég í næsta húsi (Samtúni) og var með stöðugan höfuðverk alla vikuna. Ég sem á ekki vanda til að fá höfuðverk. Komst að þeirri niðurstöðu síðasta fundardaginn, þegar ég flúði út úr bænum, - að þetta hlytu að vera útvarpsbylgjurnar. - Fleiri tugir eða hundruðir útvarpsmanna í næsta húsi við mig að senda frá sér bylgjur út um allan heim.
Ég ætlaði ekki að skrifa um núverandi og yfirvofandi kreppuástand. Mér finnst svo margbúið að bera í bakkafullan lækinn þann. Sumt að vísu gott, - og auðvitað allt skiljanlegt. Mér finnst bara dáldið vont að þurfa að viðurkenna, að þetta hefur meiri og verri áhrif á mig en ég hefði haldið. Og verst er að hafa enga hugmynd um hvernig þetta fer og hvenær þessu linnir.
Lífið er samt yndislegt. Plííís, - ekki reyna að leiðrétta mig með það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.11.2008 | 09:51
Gleði gleði gleði.
Við hjónin skruppum vestur á Ísafjörð um helgina. Sonurinn og tengdadóttirin (sem er hér á mynd - og ætlar að fæða "handa mér" nýtt ömmubarn í byrjun janúar) búa þar, - og mér finnst ekki annað hægt en að heimsækja þau af og til, þó þau búi þarna norður á hjara veraldar (þarna er ég auðvitað að snapa viðbrögð frá ísfirsku lesendunum mínum). Stundum reyni ég að slá tvær flugur í einu höggi. Hin flugan sem ég sló í þetta sinn, var afmælisveisla. Mamma tengdadótturinnar var fimmtug - og hélt 180 manna veislu í Edinborgarhúsinu. Mikið stuð - mikil stemmning. Hljómsveit sonar míns lék fyrir dansi - og ég dansaði auðvitað eins og brjálæðingur. Dansaði af mér nýju rauðu skóna (jæja þá; nýjustu rauðu skóna - ég veit ég á nokkur pör af rauðum skóm).
Um leið og við mættum í málarablokkina (hvar þau búa), sagði sonurinn: Mamma kíktu út á svalir, þar er dáldið sem gleður þig. Ég hafði ekki grænan grun um hvað hann gæti hugsanlega verið að meina. Opnaði svalardyrnar með galtóman huga. Og þá blasti við mér sjón sem fékk mig til að tryllast af meiri gleði en ég hef fundið fyrir í langan tíma:
"Þær eru 7" sagði sonurinn - "er það nóg fyrir þig?" "Fyrir mig?" spurði ég á móti - og gleðikastið ætlaði nú að keyra um þverbak "ætlarðu að gefa mér þær?" "Já auðvitað, - ég var bara að skjóta þær fyrir þig". Eftir að hafa knúskysst hann í bak og fyrir, var ég eiginlega orðin lömuð af gleði, - og tautaði með sjálfri mér: Ja hérna, margur hefur gefið minna og séð eftir því.
"En þú verður að hamfletta þær sjálf" sagði sonurinn þá. Ekki vandamálið, - ég er snillingur í því. Sit í nýþrifnu eldhúsinu eftir möndlugrautinn í hádeginu, hlusta á rás 1 og hamfletti. Ég er strax farin að hlakka til. Finn fyrir mér lyktina, sem loðir svo við hendurnar á mér allt aðfangadagskvöldið, - þó ég skrúbbi vel. Ómissandi partur af mínum jólum.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.11.2008 | 23:03
Rigningarhljóð.
Uppáhaldstónlistin mín er hljóðið í rigningunni. T.d. finnst mér algjör unaður að liggja uppi í sófa í sumarbústað, með góða bók sem ég tími ekki að lesa, af því að það er svo notalegt að hlusta á rigninguna bylja á þakinu.
Þegar ég flutti af Hringbraut á Brekkustíg, var ég svo heppin að það rigndi á hverju kvöldi fyrsta hálfa mánuðinn. Á Hringbrautinni hefði ég bara heyrt meira í bílunum, - en á Brekkustígnum snéri svefnhergbergið út í lokaðan garðinn - og það var yndislegt að láta rigninguna syngja sig í svefn á hverju kvöldi.
Ég var í Skálholti um helgina. Á kyrrðardögum. Í morgunn vaknaði ég á fimmta tímanum, við undarlegt hljóð, sem ég hélt fyrst að væri í hurðarhúninum. Mér tókst strax að róa mig niður, því það var greinilega byrjað að rigna - og hljóðið dularfulla kom greinilega þegar regndroparnir skullu á neðra þakinu. En þetta var virkilega skerandi hljóð. Það hlaut að vera eitthvert plastdrasl uppi á þaki, sem svaraði með þessum skerandi hávaða þegar regndroparnir skullu á því.
Ég reyndi að einbeita mér að fallega regnhljóðinu fyrir utan gluggan. En ég heyrði varla neitt í þeirri fallegu hljómsveit, því einleikarinn á þakinu var svo hávær. Ég var ekki par sátt við þennan einleikara. Lá lengi vakandi og lét hann trufla mig.
Ég sofnaði þegar hlé varð á regninu, en vaknaði svo aftur við sama hávaðann. Í þriðja skipti sem ég vaknaði, var farið að grána á glugga. Klukkan var langt gengin í 9, þegar ákveðin fullvissa sló mig: Þetta er EKKI uppi á þaki. Þetta ER hérna inni i herberginu. Húsið lekur. Við þessa hugsun spratt ég á fætur og sá þá loksins hvers kyns var. Það hafði rignt inn um gluggann - og niður á stífan plastpoka sem ég hafði lagt á skrifborðið.
Ég fleygði plastpokanum undir skrifborðið - og fleygði svo sjálfri mér upp í rúmið aftur, með þeim mesta fýlusvip sem framan í mig getur komið. Svona fáránlega ástæðu fyrir andvöku var erfitt að sættast við. Sá fram á hugsanlegt fúllyndi langt fram eftir morgni. En nei, - því nennti ég bara ómögulega. Hvað var til ráða? Jú, - ég ákvað að fleygja sögunni á bloggið. Alltaf gott að gera grín að sjálfri sér.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)