Hanskar og kaffi.

hanskiÉg hef reynt að passa sérlega vel upp á spilafingurna í seinni tíð. Sú umhyggja hefur aðallega falist í því, að passa að fara aldrei vettlingalaus út að ganga, - og aldrei hanskalaus út að aka.

Í morgun átti ég stefnumót við frænku mína í Smáralind (af öllum stöðum). Sem er eins og alþjóð veit út-á-landi, svo ég þurfti að fara akandi. En þegar ég opna skúffuna sem ég geymi hanskana í, þá voru þeir ekki þar. Mín fyrstu viðbrögð voru að kenna heimasætunni um hanskahvarfið (við Guð erum ennþá í massavinnu við að reyna að losa mig við brestinn sem heitir; að kenna öðrum um. Það er dáldið erfið vinna af því ég er náttla svo hrikalega fullkomin - og á því erfitt með að kenna sjálfri mér um nokkurn hlut).

Ég snéri skúffunni gjörsamlega á hvolf, í þeirri von að finna einhverja gamla hanska, - og jú ég fann 2 stykki, - báða upp á hægri hönd.

Ég var að verða of sein á stefnumótið, svo ég greip í flýti annan hægri handar hanskann og rauk út í bíl. Og hvað er það fyrsta sem ég sé þegar ég kem út í bíl. Já að sjálfsögðu hanskarnir, sem ég hélt að heimasætan hefði tekið. Og það var ekki hún, heldur ég sjálf sem hafði verið síðast á bílnum.

Við frænkurnar höfðum ætlað að hittast við innganginn í Smáralind. Já ég sagði innganginn, í eintölu með ákveðnum greini. Ekki alveg í takt við greind okkar frænknanna. Ég er vön að leggja í bílastæðið næst Hagkaupum, - en fékk þá snilldarhugmynd, að frænkan hefði örugglega lagt hinu megin, á efri hæðinni næst Debenhams. - Svo ég lagði þar. Hringdi í hana þegar ég var komin inn í ferlíkið, en þá beið hún að sjálfsögðu í anddyrinu við Hagkaup. Ég hljóp þangað - og með henni út í bílinn hennar að sækja kassa með jólapökkunum frá mömmu.

Áður en við kvöddumst við rúllustigann, þurfti ég auðvitað örlítið að tala. - Var orðinn kófsveitt af því að rogast með kassann, svo ég lagði hann frá mér ofan á ruslatunnu, og fór úr hönskunum og kápunni, sem ég setti ofan á kassann ásamt veskinu.

Þegar ég er búin að setja kassann í skottið á bílnum, fleygi ég kápunni og veskinu í farþegasætið, - en mér til skelfingar uppgötva ég þá að hanskarnir eru hvergi sjáanlegir. Ég tek loðkápuna út og hristi hana til - færi sætin til og fínkembi bílinn. Öngvir hanskar. Gáði að sjálfsögðu líka undir bílnum og í skottinu. Meira að segja ofan í kassanum, sem hafði þó verið kyrfilega lokaður.

Þá hófst stóra leitin. Á bílastæðinu í snjónum, á göngum Smáralindar, - efri og neðri hæð, í rúllustiganum, á hinu bílastæðinu. Ég bókstaflega fínkembdi allt svæðið sem ég hafði farið um, - en algjörlega árangurslaust.

Ég var gjörsamlega miður mín þegar ég settist inn í bílinn og keyrði af stað. Langaði mest til að drífa mig beint í Tösku og hanskabúðina og kaupa aðra alveg eins og láta eins og þetta hefði aldrei gerst.

En ég keyrði til baka með gamla hanskann á hægri. Var 10 mínútum of sein á fundinn sem var næstur á dagskrá. Að fundi loknum þreifa ég ofan í kápuvasa eftir gamla hægrihandarhanskanum. Og finn þá ekki bara hann, - heldur líka hina báða!! Ég vissi ekki alveg hvort ég átti að hlæja eða gráta.

Næst á dagskrá var að koma við í Kaffitári og fá sér kaffi til að taka með í kirkjuna, þar sem ég ætlaði að æfa mig. Hlakkaði mikið til að drekka gott kaffi við flygilinn. Bað kaffibarþjóninn að barmafylla götumálið.

Á leið frá Kaffitári að bílnum datt mér í hug að fara inn í Eymundsson að kaupa bók sem ég hafði ætlað að kaupa fyrir heimasætuna. Mér leist ekki alveg nógu vel á bókina og hringdi til að vita hvort ég ætti örugglega að kaupa hana. Það var dáldið erfitt að skoða bókina og lýsa henni fyrir heimasætunni, með símann, kaffið, veskið og hanskana í höndunum (auðvitað þorði ég ekki að leggja þá frá mér). Auk þess pukraðist ég dáldið vandræðaleg, því ég þóttist viss um, að það væri ekki æskilegt að fólk kæmi með kaffimál inn í bókabúð. Alla vega ekki þar sem kaffi frá aðalsamkeppnisaðilanum er selt í búðinni.

Þetta endaði auðvitað með því að kaffi gusaðist yfir alla loðkápuna. Þá þorði ég ekki annað en að leggja frá mér bókina, símann og veskið, meðan ég reyndi að dusta kaffið af kápunni svo lítið bæri á.

"Hvað er þetta á gólfinu mamma" heyrði ég þá barn spyrja við hliðina á mér. "Það hefur eitthvað hellst niður" svaraði mamman. Ég var dáldið vandræðaleg þegar ég hljóp í kaffisölu Te og kaffis - og sótti böns af servettum.

Þegar ég svo settist inn í bílinn var ég svo upptekin af hönskunum og veskinu, - hvort ég væri ekki örugglega með hvort tveggja, að mér tókst að gusa helling af kaffi yfir buxurnar mínar.

Á leiðinni í kirkjuna datt mér í hug, að það yrði nú til að toppa þetta, ef ég mundi svo gleyma kaffinu úti í bíl - og það yrði frosið þegar ég væri búin að æfa mig. Svo ég bara skellti því í mig í bílnum. Þetta pínulitla sem eftir var af kaffinu, - var orðið kalt.

Eftir píanóæfinguna fór ég í skóbúð að máta nýja vetrarskó. Ég verð að viðurkenna, að ég skammaðist mín verulega þegar ég fór að skoða í speglinum, hvernig mínir fögru fótleggir tækju sig út í nýju skónum, - og þá æpa á mig þrír risastórir kaffiblettir á gallabuxunum.

Njótið síðustu aðventudaganna elskurnar. 

 

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Ja Laufey mín það gengur á ýmsu hjá þér

Hólmdís Hjartardóttir, 20.12.2008 kl. 23:48

2 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

Þetta gefur orðtiltækinu "að hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gjörir" nýja merkingu. Ég týni inniskónum mínum svona oft á dag og fer ég þó aldrei með þá út úr húsi. Í mínu tilviki er þetta persónueinkenni en ekki aldurshnignun því ég man ekki eftir mér öðruvísi. Verst var ég þegar ég var með þrenn pör af inniskóm í gangi á sama tíma. Heilræði mitt til þín er að þú skulir ekki fá þér fleiri pör af hönskum. Það yrði til að æra óstöðugan.

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 21.12.2008 kl. 13:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband