Af hverju blogga ég?

Ein bloggvinkona mín spurði nýlega af hverju við blogguðum. Um leið og ég byrjaði að svara henni fylltist hausinn á mér af allt of mörgum línum fyrir athugasemdadálkinn á hennar síðu, svo ég ákvað að skrifa bara um þetta efni sjálf. En núna man ég auðvitað ekki neitt af öllum þeim snilldarhugrenningum sem voru til staðar í fyrradag, svo ég hefði betur misnotað síðu bloggvinkonunnar.

Auðvitað blogga ég fyrst og fremst af því að mér finnst það skemmtilegt. Og langskemmtilegast finnst mér að gera grín að sjálfri mér. Þó fljótfærni, hugsunarleysi og annar aulagangur geti seint talist til dyggða, þá er ég svo heppin; - að þegar slíkt og þvílíkt hendir, skeður og á sér stað í mínu lífi, - er ég svo stálheppin að hafa oftar en ekki húmor fyrir því. Og þó sérviska mín sé að sjálfsögðu dyggð en ekki löstur, eins og fram kom í annari færslu, - þá nýt ég þess líka að gera grín að henni.

Svo blogga ég líka stundum vegna skoðanna sem ég vil koma á framfæri. Sérstaklega ef ég held að skoðanir mínar séu ekki almennar, en eigi skilið að vera gert aðeins hærra undir höfði.

Ég nýt þess líka að skrifa ögrandi. Vera til dæmis með 101-rembing í þeirri von að úthverfapakkið verði alveg brjálað. Eða Reykjavíkurrembing svo að landsbyggðarpakkið rísi upp á afturlappirnar (þetta pakk-orðalag er auðvitað notað í nefndum tilgangi). 

Reyndar er ég stundum dáldið hissa á hve fáum mér tekst að strjúka á móti hárunum.  Alla vega hafa kommentadálkarnir aldrei verið yfirfullir af aggresívum mótmælum.

Nefnd bloggvinkona gat þess reyndar að maður fær miklu fleiri komment ef maður tengir við frétt á mbl.is. Í þau fáu skipti sem mér hefur dottið í hug að gera slíkt, - hef ég hætt við á þeirri forsendu, að ég hafi ekki tíma til að læra á það akkúrat núna (frestunaráráttan söm við sig). En nú er kominn tími á eitthvað nýtt. Ekki af því að fréttirnar séu svo spennandi til umfjöllunar um þessar mundir, - heldur af því að minn andlegi bloggviskubrunnur hefur verið í einhverri lægð í seinni tíð, - eins og þið hafið vafalaust tekið eftir.

Svo hver veit nema næsti pistill verði með "tilkynningu við óviðeigandi frétt", eða hvernig það er nú orðað.  Eða hvað: - engu að lofa - ekkert að svíkja. - Sjáum til.

Góða helgi gott fólk. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Hehe, þetta er nokkuð góð greinargerð hjá þér.

Jenný Anna Baldursdóttir, 13.12.2008 kl. 17:39

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þú ert svo ljúf Laufey mín, jafnvel þegar þú ætlar að vera hvöss og strjúka öfugt, ertu ljúf hehehehe..... er sammála Jenný, þetta er ansi góð samantekt hjá þér.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.12.2008 kl. 10:55

3 identicon

Mér finnst það ógeðslega fyndið hvað við erum líkar Laufey!

... og þú sáðir mustaðskorni á þriðjudaginn var, nú hugsa ég ekki um annað en að hafa stjórn eða ekki stjórn!  Usssss ;)

Aðalheiður (IP-tala skráð) 16.12.2008 kl. 10:27

4 identicon

Úps, ég hélt að þessi ögrandi skrif væru bara hroki hins íslenska smáborgara!Nei bara djók. Gaman að fylgjast með þér Laufey, haltu áfram að skrifa til að skemmta okkur hinum. Kær kveðja frá Vigdísi úr fásinninu í Kef...

Vigdís Karlsdóttir (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 19:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband