Jólahefðir.

rjúpa 07Það hríslast um mig andstöðuþrjóskuröskun, þegar ég hugsa um hefðir. Sér í lagi jólahefðir. Mér fannst beinlínis óþægilegt að skrifa þessa fyrirsögn. Það fer óstjórnlega í taugarnar á mér, þegar ég heyri fólk segja; ég borða alltaf skötu á Þorláksmessu, ég skreyti jólatréð alltaf á Þorláksmessukvöld, ég fer alltaf í messu á aðfangadagskvöld, ég geri alltaf þetta, ég geri alltaf hitt. Getur fólk ekki bara gert það sem það langar til, burtséð frá því hvort það hefur alltaf gert það, stundum, sjaldan eða aldrei? Það er eins og fastar hefðir séu eini hvatinn fyrir gjörðum fólks um jólin. 

En ef fólk vill endilega hafa þetta svona, þá er það svosem í lagi, bara ef það gengur ekki út frá því sem staðreynd, að þannig sé það líka hjá mér. Andstöðuþrjóskuröskun mín verður þá fyrst alvarleg, þegar fólk skellir á mig setningum á borð við; þú hefur alltaf rjúpur um jólin, þú föndrar alltaf jólakortin sjálf, þú ert alltaf með möndlugrautinn í hádeginu á aðfangadag, o.s.frv.

JólakortÉg held jólatónleika með öllum mínum nemendum af því að mér finnst það ofboðslega skemmtilegt (þrátt fyrir mikla vinnu og ofurálag), en ekki af því að ég þurfi það, eða hafi gert það að hefð. Ég borða rjúpur á jólum, því þær eru besti matur sem ég fæ. Ég fæ oft virkilega skemmtilega jólakortahugmyndir sem mér finnst gaman að framkvæma (þó ég sé langt frá því að vera flink á föndursviðinu. Ég baka spesíur á aðventunni af því að mér finnst þær ofboðslega góðar. Ég heimsæki mömmu á jóladag, af því að það gleður hana (og okkur hin í leiðinni). En ef ég fæ hugmyndir að betri mat, öðruvísi jólakortum, eða bara einhverju öðru, þá hika ég ekki við að gera það, þó ég hafi aldrei gert það áður, og sleppi á móti einhverju sem ég hef oft gert áður. Fyrir mig hafa hefðir, hefðanna vegna, ekkert gildi í sjálfu sér.

Jólaljós uppáhaldsÉg verð þó að viðurkenna, að margt af því sem ég "hef alltaf haft" er mér mikils virði. EKKI þó vegna hefðanna einna, heldur vegna þess að mér þykir það fallegt, skemmtilegt eða gott. Í þeim flokki er t.d. þessi jólaljósasería. Fyrstu jólin sem ég hélt alveg sjálf (18 ára), föndraði þáverandi sambýlismaður, barnsfaðir, unnusti og verðandi eiginmaður hana úr plastskrauti og skrautlausri seríu. Mér finnst hún ofboðslega falleg, en á hverri aðventu fæ ég nettan kvíða yfir því að einhverntíman hljóti hún að komast á aldur og deyja. En þessa aðventu, varð ég jafn alsæl og síðustu 33 ár, yfir því að hún lifir enn og hefur aldrei klikkað.

Úps, tíminn líður hratt, ég er á leið á hið árlega Millaball, sem byrjar rétt bráðum. Best að taka það fram, áður en ég hætti, að aðventan og jólin eru búin að vera alveg einstaklega unaðsleg hjá mér. Og ég hyggst njóta jólanna áfram, burt séð frá öllum hefðum.

Gleðilega hátíð elskurnar. Njótið jólanna. 


Tónleikar, tollur, trivial og tilraunabakstur.

Aldursforseti TónheimaVonandi hefur engum dottið í hug, að 10 daga blogghlé undirritaðrar sé vegna viðbragða við Kristinfræðipistlinum. Öðru nær, ég var mjög ánægð með kommentin. Ég ætla nú samt ekki að bæta trúmálum við ofstuðluðu fyrirsögnina á þessum pistli.Hins vegar hafa þeir lesendur sem þekkja mig, hafa líklega getið sér þess til, að pásan hafi verið sökum aðventuanna.

Og mikið rétt kæru vinir, annirnar voru í hámarki síðusta hálfa mánuðinn. Og þá erum við ekki að tala um jólakortaföndur, jólagjafakaup, bakstur eða þrif, heldur jólatónleika af öllum stærðum og gerðum (spilaði meira að segja "dinner" á tveimur jólahlaðborðum), - með tilheyrandi aukaundirbúningi og ofurálagi. Mér tókst samt ekki að toppa nokkra ára gamalt met, þar sem ég spilaði á 8 tónleikum á 5 dögum í röð. Og það met ætla ég mér aldrei að toppa. Frekar læt ég álagið felast í nýjum áskorunum, sbr."dinnerinn".

Á miðvikudaginn hægðist aðeins um, og þá gerði ég smá tilraun með jólabakstur. Ég hef nefnilega ákveðið að ég sé loksins orðin nógu sæt - og því sé að bera í bakkafullan lækinn að ég láti ofan í mig nokkurt það er inniheldur strásykur, púðursykur og þess háttar sætuefni. En gömlu góðu spesíurnar eru bara svo hrikalega góðar - og næstum því jafn ómissandi og rjúpan um jólin. Svo ég ákvað að gera tilraun. Sleppti sykrinum úr hefðbundnu spesíuuppskriftinni (að vísu með spelti í staðin fyrir hveiti), - helmingaði deigið, setti xylitol út í helminginn, en Agave-sýróp út í hinn helminginn.

Sykurlausar spesíurÞað er skemmst frá því að segja, að xylitol-helmingurinn varð alveg eins og hefðbundið deig að eiga við, og kökurnar aðeins í þurrari kantinum þegar að smökkun kom (samt góðar). Hins vegar varð Agave-helmingurinn að einhverri fáránlegri, gjörsamlega óviðráðanlegri drulluleðju. Ég var samt ekki alveg á því að gefast upp, heldur beitti öllum brögðum til að sletta klessunni á bökunarplötu, - og inn í ofninn fór hún. Mér gekk síðan furðu vel að ná henni (klessunni) af plötunni, braut hana í mola, - og viti menn - hún bragðaðist ótrúlega vel, eiginlega bara betur en strásykurspesíurnar. Og mín er búin að hesthúsa allt saman - og ætlar að baka meira fyrir jólin.

Þennan sama miðvikudag kom einkasonurinn alkominn til landsins, eftir tveggja ára "afplánun" í Skandinavíu. Strax morguninn eftir hugðist hann sækja sína gömlu góðu Möstu í hendur Samskipa og keyra á henni vestur í faðm fjalla blárra. Við Samskipsbryggjuna komum við að hliði, svo einkasonurinn hoppaði inn og spurði um bílinn. Jú, örlítið til baka áttum við að keyra, svo tæpan kílómetra í vesturátt, þá kæmum við að bílatorginu. Sem við og gerðum. En við þorðum auðvitað ekki inn á bílatorgið, án samráðs við annan vörð í öðrum húsi sem merkt var; Bílatorg. Sá vörður sagði okkur að keyra til baka að hliðinu, ásamt tæpum kílómetra í austurátt, hvar sjálf skrifstofan væri.

KveðjustundÉg hafði sem betur fer tekið Morgunblaðið með mér og fór langt með að lesa það, meðan starfsmaður skrifstofunnar tilkynnti einkasyninum að næst á dagskrá væri að fara með ákveðna pappíra á skrifstofu tollvarðanna, sem væri til húsa við Héðinsgötu. "Hún er í 105", tuðaði einkasonurinn þegar hann kom inn í bílinn, "af hverju er hún ekki hérna niðrá höfn?" Svo kepptumst við við að furða okkur á því að hvorugt okkar vissi hvar Héðinsgata væri, eins og við þóttumst nú þekkja 105, auk þess sem Héðinsgata hljómar mjög kunnuglega.

"Ég er búin að vera með símaskrá í bílnum í 25 ár (reyndar nýjasta eintakið hverju sinni), en ég tók allt út úr bílnum í gær, því ég hélt að þú værir með svo gegt mikinn farangur. Loksins þegar ég þarf á götukortinu að halda" sagði ég. Svo við fórum á sjoppu í 105, skoðuðum kortið vel og lengi með dyggri aðstoð almennilegrar afgreiðslukonu, - og héldum svo aftur til baka í austurátt, því auvitað var Héðinsgatan í þeim hluta 105, sem næstur er Samskipshöfninnni.

Tollurinn var hins vegar ekkert á því að hleypa einkasyninum á Möstunni vestur þann daginn. "Við áskiljum okkur 2-3 virka daga til að skoða bílinn og farangurinn. Viltu að við hringjum þegar hann er tilbúinn?" sagði tollarinn hinn rólegasti.  

trivialÉg ákvað að stytta einkasyninum biðina við símann, með því að skora á hann í Trivial. Honum fannst áskorunin nú ekki stór, hélt hann færi létt með að rúlla upp þeirri gömlu.

Ég hélt að ég væri fanatísk á íþróttaspurningarnar (sem eru í uppáhaldi hjá honum), en hann toppaði mig gjörsamlega, með fanatík sinni á brúnu spurningarnar (sem mér finnast skemmtilegastar). Hann fór aftur og aftur í öfuga átt við það sem hann hafði ætlað, bara til að vera ekki nálægt brúnum reit. Og þegar ég var búin að fá brúnu kökuna, harðneitaði hann að spyrja mig fleiri bókmennta-og lista-spurninga. "Gerðu aftur" sagði hann án þess að ég fengi spurningu. 

Svo fór að lokum að ég vann með yfirburðum. Hann varð miður sín af harmi og hneykslan á sjálfum sér, og hyggur sér gott til glóðarinnar, að hefna harma sinna þegar hann kemur suður aftur eftir helgi. Já, það fór semsagt þannig, að Mastan er ennþá hjá Samskipum, einkasonurinn fór með öðrum bíl vestur, og tekur næstu viku í að ná henni á götuna.

Úps, kominn tími til að þeysa á Leifstöð og sækja tengdadótturina. Gott að ég er ekki búin að setja símaskránna aftur í bílinn, því ekki er hún (tengdadóttirin) með minni farangur. Eins gott þau komu í sitt hvoru lagi ungu hjónin, þau hefðu líklega ekki komist bæði í einu - ásamt farangri - í Yarisinn.

Njótið aðventunnar. 


Kristinfræði.

Biblíusögur 1Ég hef ekki snefil af áhuga á keppnisíþróttum. Það má jafnvel segja að ég sé þeim andsnúin. Ekki bara af því að þær riðja öðru fjölmiðlaefni úr vegi og hertaka mannlífið endrum og sinnum - öllu heldur vegna þess að þær brjóta niður tilfinningalega þau börn sem standast hvorki eigin væntingar né íþróttaumhverfisins - og þar erum við að tala um mjög mörg börn. Þegar keppnisíþróttafólk síðan vex úr grasi, taka við endalaus meiðsl og íþróttaslys. Ég gæti haldið lengi áfram að telja keppnisíþróttum ýmislegt til foráttu (þó ég sé fylgjandi ýmsum almennum íþróttum og hollri hreyfingu), en læt hér staðar numið.

Mér dettur þó ekki í hug að formæla þeirri staðreynd, að í öllum grunnskólum landsins fer fram íþróttakennsla. Og aldrei hefur það hvarflað að mér, að fara fram á að börnunum mínum sé hlíft við henni - eða hún hreinlega tekin af stundaskrá í grunnskólum landsins. Ég þykist nefnilega vita að yfirmenn menntamála geri þett í góðri meiningu - og ég vona að þeir hafi að leiðarljósi jákvæðu hliðarnar á íþróttaiðkun (sem eru ýmsar), þó alltaf sé sú hætta fyrir hendi, að einhver börn verði andsnúin faginu - og önnur verði fórnarlömb neikvæðra áhrifa keppninsíþróttaöfganna.

Biblíusögur 2Það eru líka til einstaklingar í landinu (m.a. venjulegir íslenskir foreldrar), sem engan áhuga hafa á Kristnum fræðum. Sumir bera því fyrir sig að ekki séu öll börn á landinu alin upp á Kristnum heimilum. Ég þykist þó vita, að sú staðreynd að ákveðnir einstaklingar innan sumra Kristinna söfnuða eru öfgafullir bókstafstrúarmenn (og hreinlega ekki Kristnir að mínu mati) og koma óorði á allt það góða fagra og yndislega sem Kristnu líferni tilheyrir, - fæli fólk frá, og geri það andsnúið Kristnu samfélagi. Mér finnst það skiljanlegt.

Þó finnst mér að það fólk ætti að reyna að viðurkenna þá staðreynd, að yfirmenn menntamála hafi fagið inni í góðri meiningu, því ef vel er að kennslunni staðið (lesist; ef góðir kennarar, helst Guðfræði- eða kennaramenntaðir sinna hlutverkinu), þá er Kristindómurinn  í eðli sínu mannbætandi, bæði fyrir einstaklinginn og samfélagið.

Ég get ekki séð að Kristinfræði, eða nærvera góðra Guðfræðimenntaðra manna skaði nokkra manneskju. Því þau ganga fyrst og fremst út á að rækta náungakærleikann og virðingu fyrir öllum manneskjum. Þá erum við að tala um hinn eina sanna Kristindóm, - sem prestar og aðrir Kristinfræðikennarar hljóta að leggja áherslu á. Síðan er það Guðstrúin, sem er jú partur af Kristnum fræðum. Hún á það sameiginlegt með öðrum trúarbrögðum, að þú velur að trúa því að til sé máttur þér æðri, sem er flinkari en þú að stjórna þínu lífi, - gerir þér lífið bærilegra og getur jafnvel bjargað lífi þínu. Ég sé ekki hvað getur verið skaðlegt við að kynna þann möguleika fyrir landsins börnum.

Biblíusögur 3Á svipaðan hátt segi ég við sjálfa mig, að íþróttaiðkun sé í eðli sínu holl og góð hverri manneskju, sé vel að henni staðið (lesist; séu góðir kennarar til staðar, - íþrótta- eða kennaramenntaðir, sem leggja áherslu á leikgleði og heilbrigða hreyfingu sem eflir líkama og sál, - en reyna að forðast að börnin verði fyrir áhrifum keppnisíþróttabrjálæðisins). Á þeim forsendum er ég sátt við íþróttakennslu í skólum.

Mikið vildi ég að þeir sem engan áhuga hafa á Kristnifræði, eða séu henni jafnvel andsnúnir, reyndu að segja eitthvað svipað við sjálfa sig. 

Er þetta ekki dáldið sambærilegt?

Að lokum vil ég benda á þá staðreynd (er þetta orð nokkuð að verða ofnotað í þessum pistli), að nánast daglega (alla vega í hverri viku) flæðir alls kyns ofbeldisfullur viðbjóður, í formi auglýsinga og "skemmtiefnis" yfir börnin okkar, bæði inni á okkar eigin heimilum (sjónvarp, tölvur, dagblöð, auglýsingabæklingar og fleira) sem annars staðar. Ég hef ekki orðið vör við að foreldrar eða félagasamtök - hvað þá menntamálaráðherra, skeri upp herör gegn þeim ósköpum.

Er ekki verið að ráðast gegn röngum áhrifavöldum. Ég bara spyr.   


Bollastell.

bollastell 1Tengdamóðir mín (afmælisbarn gærdagsins) keypti sér bollastell í fyrra. Sem væri ekki í frásögur færandi, nema vegna þess, að það var lýðum ljóst alvega frá því áður en stellið var keypt, að það yrði varðveitt inni í lokuðum glerskáp, þar sem enginn fengi að snerta það, hvað þá drekka úr því. Auk þess sem tengdamóðir mín drekkur ekki kaffi.

Mín fyrstu viðbrögð voru heilög vandlæting. Hvurslags er þetta eiginlega, til hvers er bollastell, ef ekki til að bera fram kaffi og meððí? En þessi vandlæting mín kom að sjálfsögðu til af því að ein af mínum lífsnautnum felst í því að drekka gott kaffi úr fallegum bollum. Ég þarf að vera virkilega illa haldin af koffínleysishöfuðverk, ef ég á að geta komið niður sopa af kaffi úr til dæmis vatnsglasi eða plastíláti.

bollstell 2En mín heilaga vandlæting stóð bara í eitt lítið augnablik. Svo fór ég að hugsa: Auðvitað - falleg bollastell eru svo sannarlega augnayndi - og mörg hver algjört listaverk. Ég hefði ekki hneykslast, ef tengdamóðir mín hefði keypt sér málverk eða skúlptúr, sem bara mætti horfa á en ekki snerta. Og víst er að bollastell þetta er virkilegt augnayndi - og fallegra en margt málverkið að mínu mati. Svo er það auðvitað ekki mitt mat sem máli skiptir, heldur fagurfræðilegt auga eigandans.

Ég verð þó að viðurkenna, að mér finnst það svo fallegt, að ég er fegin að hún skuli varðveita það svona vel. Þá er jafnvel hugsanlegt að það erfist inn á mitt heimili þegar þar að kemur. Ég bið ykkur að segja ekki nokkrum manni frá þeim hugsunum mínum. Og ennþá síður má það fréttast, að ef svo verður, - þá skal svo sannarlega úr því drukkið - gott kaffi. Og alls kyns gúmmolaðiskökur á diskum. 

Að lokum nýjustu fréttir af listalífi konunnar:

HH hershöfðingiÍ gærkvöldi sáum við hjónin 2 leiksýningar. Fórum loksins á hina stórkostlegu sýningu: Leg, í þjóðleikhúsinu (auka-auka-sýning). En á undan henni fórum við á framúrskarandi vel heppnað bekkjarkvöld hjá ömmudrengnum, hvar hann m.a. lék hershöfðingja af mikilli snilld. Ég var síður en svo fyrir vonbrigðum með Leg, - sem ég hafði lengi hlakkað til að sjá, en - bifíf mí or nott, - ég hefði ennþá síður viljað missa af fyrri leiksýningunni. 

Í kvöld förum við svo í kalkúnaveislu hjá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, annað kvöld í hið árlega áramótapartý Péturs hins háóða, og á sunnudaginn í hið árlega aðventuboð Báru "barnapíu".

Njótið helgarinnar. 

 

 


Iðnaðarmenn.

NjarðvíkurkirkjaÉg er "virkur limur" á flickr, sem er alþjóðleg ljósmyndasíða. Þar bauðst mér fyrir nokkrum vikum að vera með í nokkra manna ljósmyndaklúbbi - Maritech. Sá klúbbur er með vikuleg þemu, hvert þema gildir frá mánudegi til mánudags. Fyrir viku var tilkynnt að nú tæki við þemað: Iðnaðarmaður.

Ég hélt það væri nú ekki mikið mál. Iðnaðarmenn taldi ég að myndu blasa við mér hvar sem ég færi, við húsbyggingar á götum úti og bara hvar sem komið væri. Ég hef sennilega verið föst í verulega gömlum hugmyndum. Ég man nefnilega, að þegar ég var barn, hélt ég að allir "venjulegir" menn væru iðnaðarmenn. Nema náttúrlega þeir sem væru sjómenn, en þá þekkti ég flesta bara úr fjarska (nema auðvitað Einar frænda). Kennarar, læknar, prestar og bílstjórar voru líklega sér-eitthvað í mínum barnshuga (svona svipað og sértrúarsöfnuðir).

IðnverkamennSvo var fyrsti eiginmaður minn iðnaðarmaður, þ.e. hann lærði vélvirkjun og rafvirkjun, áður en hann varð flugmaður og forritari (ætli það sé nokkur kvóti á starfsheitum á Íslandi). Pabbi minn var auðvitað iðnaðarmaður, bróðir minn líka og eiginmenn beggja systra minna, ásamt mörgum öðrum af nánum ættmennum mínum. Meira að segja vinnur sonur minn um þessar mundir við að byggja blokk (reyndar í Osló). Svo ég hélt ég ætti nú ekki í vandræðum með að mynda 1 stykki iðnaðarmann.

Samt fór það svo, að í dag var ég allt í einu komin á dedlæn, eins og það heitir á góðri íslensku. Svo ég hringdi í bróður minn, sem ég vissi að var að smíða hús einhvers staðar í Hafnarfirði. Um að gera að smella nokkrum góðum af honum á leið minni til Njarðvíkur (hvar ég vinn við Suzuki-spilamennsku á mánudögum). En hann bara svaraði ekki símanum. En ég taldi það nú svosem ekki koma að sök, - það vill nefnilega svo bráðskemmtilega til að mágur minn vinnur á (eða rekur) bílaverkstæði í Njarðvíkum. Um að gera að afmynda hann hálfan ofaní einu húddinu.

Hörður BirkissonÞað var hellirigning þegar ég lagði af stað að heiman, en þegar ég kem til Njarðvíkur, er komin þessi líka bongóblíða. Ég gat því ekki látið hjá líða, að taka smá rúnt og leita að smiðum utan á hálfbyggðum húsum, í glampandi skammdegissólinni. 

Ég þóttist vita hvar verið væri að byggja, en á leiðinni þangað sá ég menn vera að koma fyrir jólatré og setja á það seríu. Ég gat ekki stillt mig um að smella einni af þeim, þó þeir væru sennilega iðnverkamenn, eða jafnvel "bara" verkamenn. En sem ég var að velta því fyrir mér hvort ég ætti ekki að biðja þá um leyfi fyrir hugsanlegri myndbirtingu, læddist að mér sá grunur, að þeir skildu örugglega hvorki íslensku, né nokkurt annað mál sem ég gæti tjáð mig á. Svo ég bara flúði af hólmi.

Byggja húsOg að húsunum sem var verið að byggja. En um leið og ég mundaði mína litlu nettu canon ixus, þá leið mér allt í einu eins og í útlenskri sakamálamynd. Ég smellti aldrei nema þessum tveimur myndum sem hér sjást, því þeir sem lenntu á annari myndinni litu á mig með þvílíkum manndrápsaugum, að ég flúði sem fætur toguðu upp í bíl og keyrði af stað. Ég þorði ekki að horfast í augu við þá nógu lengi til að gera mér grein fyrir því, hvort þeir ætluðu að ráðast á mig, eða hvort þeir væru svona hræddir um að ég væri frá skattalöggunni, eða einhverri ennþá verri löggu (þori ekki að nota alþjóðlega hugtakið sem mér datt í hug). Og nú stenst ég ekki freistinguna - og birti þessar myndir í leyfisleysi. Ef þær hverfa skyndilega, eða það sem verra er, ef ég hverf skyndilega, þá vitiði ástæðuna.

Héðinn betriÉg brunaði með hraði á bílaverkstæðið. En yfir húddunum húktu bara bláókunnugir menn. Þeir litu svosem ósköp íslendingslega út, en ég var orðin dáldið kvekt og tók enga sénsa, bauð þeim ekki einu sinni góðan dag, heldur strunsaði beint inn á skrifstofu. "Hvað ert þú að hanga hér yfir tölvunni" spurði ég máginn. "Ég er búin að leita í allan dag að vinnandi iðnaðarmanni, og get ekki einu sinni gengið að þér vísum undir bíl eða oní húddi". "Hvað eredda, veistu ekki til hvers Pólverjar eru" sagði mágurinn sallarólegur. 

Þegar ég kom heim, sat bróðir minn við eldhúsborðið mitt. Hann sá EFTIR VINNU að ég hafði verið að reyna að ná í hann, svo honum datt í hug að kíkja við. Góð heimsókn, en ekki alveg gagnleg fyrir þemað. 

Nú sé ég að þema komandi viku er; kirka. Sjúkket, þær eru þó vonandi allar á sínum stað.

En hvað varð um alla iðnaðarmennina? Ég bara spyr. 

 

 


Villibráð.

Perlan"Taktu miðvikudagskvöldið 21.nóvember frá fyrir óvænta uppákomu", sagði minn heittelskaði fyrir rúmum mánuði. Hjartað í mér tók kipp, og ég minntist umsvifalaust villibráðarhlaðborðsins, sem hann bauð mér óvænt á í Perlunni fyrir ári síðan. "Nei Laufey, þú mátt ekki hugsa um þetta, þá verðurðu kannski fyrir vonbrigðum. Hann er örugglega ekki með sama dæmið tvisvar í röð. Honum tekst samt örugglega að gleðja þig". En það var sama hvað ég reyndi, í hvert sinn sem mér varð hugsað til þessa kvölds, poppaði Perlu-villibráðin upp í huga mér. Í gærkvöldi rann svo stundin upp. Spennan var við það að gera mig óða, þegar við keyrðum af stað, og jókst eftir því sem Öskjuhlíðin nálgaðist. Og sjúkket, mér varð að ósk minni. Ummmmm, þetta var unaðslegt. 

Rjúpa 3Þess má geta að á fyrstu árum íslensku villibráðarhlaðborðanna, varð ég oft öfundsjúk (hræðilega á ég eitthvað erfitt að nota þetta orð um sjálfa mig) út í þá sem fóru ár eftir ár á villibráðarhlaðborð í góðum félagsskap. Enginn slíkur félagsskapur hafði mig innanborðs. Ég átti ekki einu sinni eiginmann til að fara með, auk þess sem ég átti sjaldnast fyrir osti ofan á brauðið á þeim árum, hvað þá að ég gæti splæst á mig slíkum og þvílíkum kræsingum. Eins og ég elska að borða vel matreitt hreindýr, rjúpu og þær listisemdir allar. 

En þar sem ég kenndi við tvo skóla (gott ef ég var ekki líka í einhverjum félagssköpum), var mér yfirleitt boðið á tvö eða fleiri jólahlaðborð. Auðvitað var ég þakklát fyrir það, en gallinn er bara sá, að allt þetta reykta og saltaða kjöt er bara of gróft stöff fyrir viðkvæman maga minn og taugakerfi. Svo yfirleitt nartaði ég bara í laufabrauðið á meðan ég beið í góðum félagsskap eftir rice a la mande. Af hverju geta skólar og félagssköp (hrikalega ef þetta flott útúrsnúningsorð) ekki boðið manni á villibráð frekar en salt-reyks-bráð. Af hverju eru algengustu matar-mannfagnaðirnir jólahlaðborð og þorrablót. Ég ef mikil matkona, og langt frá því matvönd, - en ég borða heldur ekki skemmdan mat, svo á þorrablótin fer ég einungis af félagslegum ástæðum, og borða þá bara rófustöppuna.

En villibráðin er æði!!! Fyrsta villibráðarhlaðborðið okkar hjóna (af þremur) var fyrir þremur árum minnir mig (hvar er nú mín ýkta krónólógía?). Þá heyrði ég auglýst sértilboð á villibráðarhlaðborði ásamt gistingu fyrir 2 á hótel Valhöll, Þingvöllum. Ég hringdi og pantaði, en sagði mínum heittelskaða að ég ætlaði að koma honum á óvart um helgina. Missti svo út úr mér að "óvartið" fælist í haustlitaferð á Þingvelli. Mér tókst að koma mínum á óvart. Ekki bara með villibráð og gistingu í Valhöll. Ekki síður hinu, að "haustliturinn" á Þingvöllum var bara einn - hvítur. Í rómantísku haustlitagöngunni okkar ösluðum við þann hvíta upp í mið læri. Eftir þetta notar minn ástkæri hvert tækifæri, þegar nýfallinn snjór er yfir öllu, til að vekja athygli mína á "haustlitunum" unaðslegu.

P.s. Ef einhver hefur áhuga á skilgreiningu minni á trú og Kristni, þá bendi ég á athugasemd mína við blogg Prakkarans (Jóns Steinars) nú í kvöld (28.komment). Smellið bara á prakkarann hér til hliðar. 

Lifið heil. 


Pottaplantan.

plastblómÉg veit að maður á ekki að umpotta í lok nóvember. En þessi elska, sem ég keypti á pottaplöntuhaustútsölu Hagkaupa, var bara í svo litlum potti, að ég var farin að finna til með henni. Hélt hún væri kannski komin með innilokunarkennd eða andþrengsli, nema hvort tveggja væri. Svo gat ég bara vökvað hana svo lítið í einu, af því að potturinn var svo lítill. Þá vökvaði ég hana bara þeim mun oftar. En í þessum litla potti virðist hún hafa tileinkað sér alveg einstaka hógværð og lítillæti, því hún sætti sig óhemju vel við mjög litla vökvun. Lét eins og hún væri afskaplega nett á fóðrum. En ég lét það ekki blekkja mig. Ef maður borðar lítið, þá er þeim mun meira áríðandi að þessi litla næring sem maður fær, sé virkilega staðgóð. Þess vegna vökvaði ég hana aldrei með hreinu vatni, heldur fékk hún óblandað kartöflusoð, jafnoft og ég sauð kartöflur. Enda er hún ekkert farin að láta á sjá, eins og sumar plöntur gera í skammdeginu. 

Nema hvað - í stað þess að hella á hana kartöflusoðinu núna eftir kvöldmatinn, ákvað ég að skella henni í stærri pott. Ég byrjaði ekki á því að losa um moldina langt frá rótunum með skeið, eins og ég geri yfirleitt, heldur byrjaði ég á að grípa neðst um hana og jugga henni blíðlega til, svona til að vita hversu laust væri um hana í moldinni. Og viti menn, - haldiði ekki að hún hoppi ekki bara upp úr pottinum eins og hendi væri veifað. En hvað var nú þetta: Í staðin fyrir eðlilegar rætur, umvafðar gamaldags íslenskri gróðurmold, þá hékk bara eitthver plasttittur neðan úr henni. "Þetta er plastblóm" hrópa ég eins og hálfviti. 

Ég held ég hafi aldrei séð heimasætuna öskra og veina jafn óstjórnlega - og er hún þó hláturmild og glaðlynd að eðlisfari. Hún engdist þvílíkt og emjaði, að ég óttaðist helst að hún næði ekki andanum. En eiginmaðurinn lagði gítarinn rólega frá sér, stóðu upp og sagði: Það er engin hætta á því að við þurfum nokkurn tíman að gera grín að þér Laufey mín. Þú sérð algjörlega um það sjálf. 

Erðetta hægt? 


Hundur í óskilum.

Hundur í óskilum, lógóÉg fæ oft að heyra að ég sé svo "dugleg" að sækja tónleika. Ég hef aldrei almennilega fattað orðalagið. Eins og maður þurfi að taka sér taki og erfiða þessi reiðinnar býsn við að sitja í huggulegheitum  og njóta góðrar tónlistar. Mér dettur nú bara í hug ein ömmusystir mín, sem ég heimsótti stundum meðan hún lifði. Í næstum hvert sinn sem við kvöddumst sagði hún: "Mikið lifandi skelfing ertu nú góð við mig, að vera svona dugleg að heimsækja mig". Ég sagði henni auðvitað að þessar heimsóknir hefðu ekkert með góðsemi eða dugnað að gera, heldur væri þetta tóm eigingirni. Mér dytti ekki í hug að heimsækja hana ef ég hefði ekki gaman af því. Eins er með tónleikana. Ég fer bara á þá tónleika sem mig sjálfa langar á, það er partur af minni eigin lífsnautn. Hvað ætti það svosem annað að vera.

Á fimmtudagskvöldið fór ég á tónleika með Hundi í óskilum. Ég heyrði fyrst í þeim fyrir ca. 6 árum, og síðan hef ég sótt svo marga tónleika með þeim að ég get ekki talið þá. Og alltaf skemmti ég mér jafn brjálæðislega vel. Sit fremst og hlæ mest. Ef það mætti segja um mig að ég væri grúppía einhverrar hljómsveitar, þá væru það líklega þeir. Minn ástkæri hefur oftast farið með mér, en var vant við látinn þetta kvöld, náði samt aukalögunum báðum. Bróðir minn sat hins vegar til borðs með mér allan tímann, og var löngu kominn tími til að sá frábæri húmoristi og tónlistarunnandi nyti hundsins.  

Verð að segja ykkur eitt áður en ég hætti. Ég fékk þá skyndihugdettu rétt áðan að prófa að búa til sýnishorn af konfekti. Hafði enga uppskrift, skellti bara saman nokkrum góðum stöffum af handahófi, hrærði saman og bjó til 6 litlar kúlur. Ég held ég hafi sjaldan smakkað annað eins gúmmolaðis-góðgæti. Ég þarf greinilega ekki að vera konfektlaus þessi jólin, þó ég hafi ákveðið að hætta að styrkja þá félaga Nóa Síríus, Lindu og Makkintos, eins og ég hef gert með gróflegri neyslu í allt of mörg ár.

Lifið heil. 


Kaffi.

kaffiÉg veit ekki um neitt félagslegra fyrirbæri en kaffi. Frænka mín sem er prestur,drekkur ekki kaffi, - og hún er endalaust að lenda í vandræðum, þar sem hún er alltaf að koma inn á heimili (ókunnugs) fólks, sem verður alveg miður sín þegar hún þiggur ekki kaffibolla. "Mér finnst vatn mjög gott" segir hún þá gjarnan. En fólki finnst alveg skelfilegt að geta ekki boðið prestinum neitt annað en vatn.

Sjálf hef ég þrisvar farið í mislöng kaffibindindi. Því síðasta lauk sumarið 1999 á ættarmóti. Þið kannist kannski við þessa yndislegu stemmningu, þegar frænkurnar koma saman við eldhúsboðið á laugardagsmorgninum - yfir kaffibollatjatti. Slíkan unað lætur maður ekki fram hjá sér fara - og þá er frekar hallærislegt að sitja bara og tjatta, en sleppa sjálfu kaffinu. Svo mín byrjaði aftur - og sér ekki nokkra ástæðu til að hætta.

Fyrir margt löngu sagði vinkona mín ein: Það er eins með vini og bækur - they schould be few and well chosen. Þessi setning finnst mér eiga best við um kaffibolla. Fáir bollar á degi hverjum - en virkilega góðir. Það er minn stíll. Ég hef aldrei skilið þá sem geta lapið það sem á mínu heimili kallast framsóknarkaffi (lapþunnur og staðinn uppáhellingur, eða eitthvað í þá áttina) meðvitundarlaust allan daginn. Mín regla er: Einn góður soja-latte eftir morgunmat og annar eftir hádegismat. En reglugerðarfasisminn má ekki verða leiðinlegur, svo yfirleitt bæti ég þriðja bollanum við. Um þessar mundir getum við kallað hann skammdegisbolla. Ég lofa þó ekki að taka hann af þegar vorar - sjáum til.

Ein af uppáhaldssetningunum mínum úr heimsbókmenntunum er úr Sitji Guðs englar (eftir Guðrúnu Helgadóttur). Þá er Guðrún á 7 í heimsókn - og einn af bræðrunum kemur inn og skellir einni mjög óþægilegri spurningu á Guðrúnu. Áður en Guðrúnu gefst ráðrúm til að svara, lyftir mamma könnunni og  segir "Má ekki bjóða þér meira kaffi Guðrún mín". Þá segir sögumaðurinn Heiða 13 ára "Ég held að öll vandamál á þessu heimili séu leyst með meira kaffi". Hefði getað gerst á flestum íslenskum heimilum þegar ég var barn.

Lifið heil. 


Menning.

GrýlukertiÞegar ég bjó fyrir vestan, fór ég stundum í menningarferðir suður til Reykjavíkur. Ýmist í boði vinnuveitenda (þáverandi eiginmanns), eða þá að ég fór upp á mitt einsdæmi og dró þá syðrabúandi vini og vandamenn með mér í leikhús og því um líkt. Viðkomandi sögðu þá gjarnan að þau færu næstum aldrei í leikhús nema þegar ég kæmi suður. Nú hef ég búið í Reykjavík í 25 ár - og enn heyrir ég af og til fólk tala um þetta sama - bæði landsbyggðafólk og hina á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu.

En ég sé ekki alveg að þetta eigi við um sjálfa mig. Ég bý í iðu Reykjavíkurmenningarinnar, en er þó sínkt og heilagt að þvælast á hina og þessa menningarviðburðina, algjörlega ódregin og að eigin frumkvæði.

Tökum síðustu viku sem dæmi: Á laugardagskvöldið fór ég á Tónleika með Gospelkór Reykjavíkur og norskum gestum þeirra, - ferlega gaman. Á sunnudaginn hlýddi ég á tónlistarhópinn Hnjúkaþey flytja unaðslega tónlist í Fríkirkjunni. Á mánudagskvöldið hlustaði ég á "tenórana þrjá" í alþjóðahúsinu. Nei það voru ekki þeir Domingo, Coreras og Pavarotti heitinn, heldur þrír æðislegir íslenskir tenórsaxafónleikarar ásamt hrynsveit. Á þriðjudagskvöldið var það svo "þriðjudagur með Þorvaldi" ásamt fræðslu hjá Bjarna. Allt þetta fór ég alein og ótilneydd (nema hvað eiginmaðurinn kom í seinni hálfleik á tenórana þrjá). Á miðvikudaginn fékk ég tvær heimsóknir (eina í hádeginu og aðra um kvöldið) og var því heima hjá mér til tilbreytingar. Í kvöld fór ég svo með frumburðinum mínum á Súfistann, þar sem við hlýddum á rithöfunda lesa úr nýútkomnum bráðskemmtilegum bókum. Helgin framundan er svo alveg skipulögð - ég hlakka mikið til að fara þangað sem ég ætla að fara á morgunn. En bloggið á að vera dagbók - og dagbók skrifar maður ekki fyrirfram, þannig að ég segi ekki meira að sinni. 

Og af því að ég er nú byrjuð að æfa jólalögin eins og fram er komið, fannst mér tilvalið að setja mynd af Grýlukertunum með þessari færslu. Gat ekki stillt mig um að skella þeim í eldhúsgluggann í gær.

Njótið helgarinnar elskurnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband