Jólalögin.

jólapíanóbækurEf ég er góður píanókennari, þá er ein af ástæðunum klárlega sú, að mér finnst þetta svo ferlega skemmtilegt. Mér finnst nemendurnir æðislegir, kennslan sjálf frábært starf og svo er til svo ofboðslega mikið af skemmtilegri tónlist, sem alltaf má spila ennþá betur og á ennþá skemmtilegti hátt. Og skemmtilegast af öllu er svo það, að oft er ég sjálf svo hrikalega skemmtileg í kennslunni, að það hálfa væri nóg. 

Ég veit að þetta skiptir öllu máli. Ég hef auðvitað líka verið hinu megin við borðið. Ég man t.d. eftir einum kennara, sem kenndi mér formfræði (í píanókennaradeild). Bara nafnið á faginu er strax leiðinlegt. Auk þess sem hann braut ýmis grundvallarprinsip fyrirmyndarkennarans. En honum þótti þetta sjálfum svo ofboðslega skemmtilegt, að hann gat ekki annað en verið smitandi eins og mislingar. Svo er hann líka bráðflinkur og skemmtilegur að eðlisfari. Þess vegna voru tímarnir hjá honum alveg ótrúlega skemmtilegir og öll náðum við mjög góðum árangri.

Og nú er komið að því allra skemmtilegasta í mínu starfi. Ég er svo ótrúlega heppin, að ég hreint og beint elska jólalögin. Ár eftir ár kenni ég að mestu leyti sömu lögin (skipti af vísu alltaf einhverjum út, enda af nógu að taka - ég kemst aldrei yfir nógu mörg), oft í nýjum útsetningum (útset oftast eitthvað líka sjálf), en samt að hluta til sömu unaðslegu jólalögin ár eftir ár. Og ég hreinlega tryllist af kæti í hvert sinn er ég hefst handa. Hingað til hef ég ekki byrjað fyrr en ca 10.-15.nóv, en í þetta sinn gat ég ekki hamið mig. Byrjaði að undirbúa meðan enn var október, og byrjaði að kenna þau í síðustu viku. Jessss - æ lov it!! 


Jarðarfarir.

ömmu-og afa-leiðiÉg hef verið við óvenju margar jarðarfarir undanfarið. Allt er þá þrennt er, segir máltækið - og ég vona að það eigi við núna. Í dag var ég við þriðju jarðarförina þetta haustið - og vona að nú verði hlé á. Sú átakanlegasta var í september, en þá missti rúmlega fertug vinkona mín manninn sinn með sviplegum hætti (hann var jafngamall mér). Í október missti besta vinkona mín tengdaföður sinn. Og í dag var ég við jarðarför ömmu Sibbu, eins og stórfjölskyldan kallaði hana. Sibba þessi var tengdamamma móðursystur minnar, en það var alltaf (og er) mikill og góður samgangur á milli heimila mömmu minnar og þessarar systur hennar, hvar amma Sibba dvaldi löngum og góðum stundum.

Guð blessi minningu þeirra allra og styrki þá sem þeirra sakna.

Mynd þessa tók ég hins vegar í sumar af leiði ömmu minnar og afa, hann dó fyrir 20 árum, en hún fyrir 40 árum (aðeins 53ja ára gömul).

Lifið heil. 


Gröftur.

grafið á mótiVá hvað mér brá þegar ég kom heim úr leikfimi í gærmorgunn og sá að stórvirkar vinnuvélar voru mættar á flötina á móti og farnar að grafa allt í sundur. Ég fór strax að ímynda mér eitthvað óskilgreint slæmt, en vissi ekkert hvað ég átti að halda. Maður er bara orðinn svo hræddur eftir allar þessar hótanir. Fyrst var talað um umtalsverða hækkun varnargarðsins - og svo þessar skelfilegu landfyllingarhugmyndir. En mikið létti mér þegar ég las um að Seltjarnarneskaupstaður (eða bær) ætlar að koma sér upp þráðlausu netsambandi fyrir allan bæinn. Ég ætla rétt að vona að eitthvað álíka saklaust sé í gangi á flötinni á móti (sérstaklega ef ég fengi nú að njóta góðs af þessu netsambandif). Ennþá betra væri auðvitað ef þeir væru að leggja breiðband fyrir mitt hverfi. Alla vega vona ég að ég fái að halda mínum sjó og mínu útsýni. 

Ef þið viljið lesa "skemmtisögu" af mér, smellið þá á nafnið hennar Söru minnar hér til hliðar og lesið um óvenjulegt matarboð.  

Lifið heil. 


Vetur.

Laugarvatn 2Fyrsti vetrardagur stóð undir nafni þetta árið. Fyrsta vetrarhelgi hjá mér hófst á því að um kvöldmatarleytið á föstudaginn þeysti ég austur fyrir fjall, til fundar við minn ástkæra, sem hafði tekið á leigu orlofshús við Laugarvatn og mætt þangað á rútu daginn áður (hann á ekki nema tvo Súbarúa, en vildi endilega vera samferða mér heim á mínum eðal-Yaris). Hann var semsagt í vetrarfríi á fimmtudag og föstudag, en ég í dag, mánudag. Á dagskrá hjá mér er að nýta daginn vel, m.a. ætla ég loksins að gera heiðarlega tilraun til að nota Sibelius-nótnaskriftarforritið sem ég var að hlaða inn í tölvuna (eftir að hafa staðið ónotað í skúffu í marga mánuði).

En aftur upp á Hellisheiði. Ég var ekki komin að Bláfjallaafleggjaranum, þegar ég var lennt í óslitinni röð bíla á nánast engum hraða, svo langt sem augað eygði. "Þetta eru nú meiri aumingjarnir og hræðslupúkarnir" hugsaði ég og fór strax að hafa áhyggjur af bökunarkartöflunum, sem ég hafði uppálagt mínum ástkæra að setja í ofninn um leið og ég lagði af stað. Ég hafði ráðgert að vera rétt rúman klukkutíma á leiðinni, miðað við mitt hefðbundna aksturslag. Sjálf var ég svo með "mínútusteik" í bílnum og vissi að ég yrði orðin öskrandi af hungri, þegar ég mætti á staðinn. "Ég held  þeir ættu að druslast á nagladekk" hugsaði ég og leit á hraðamælinn (sem ég geri mjög sjaldan) og klukkuna.

En ég var ekki komin að Þorlákshafnarafleggjaranum, þegar hrokagikkurinn minn var flúinn af hólmi, og litli hálkuhræðslupúkinn mættur í staðinn. Og ég gladdist í hjarta mínu yfir því að samferðafólk mitt í umferðinni væri varkárt eins og ég (já ég sagði eins og ég), og að glannabjánarnir væru bara heima hjá sér. Bakaðar kartöflur eru bara betri dáldið mikið bakaðar.

LaugarvatnAlla helgina var virkilega fallegt vetrarveður. Blankalogn, nýfallinn snjór í fjöllum, og fullur máni á himni. Unaðslega rómantískt. Á laugardeginum gerðum við árangurslausa leit að hellinum fræga, sem búið var í fram á miðja síðustu öld (sprelllifandi fólk á aldri við mömmu er fætt og uppalið í þessum helli). Ég átti dáldið erfitt með að viðurkenna að mér tækist ekki að finna hann, nema mamma væri með í för. Ég hef nefnilega alltaf gortað mig af því að vera miklu ratvísari en hún.

Ég fékk þá athugasemd við síðustu bloggfærslu, að hún hafi verið of löng. Ég get alveg tekið undir það. Reyni að forðast það framvegis, nema sérstakt tilefni kalli á langloku. En næst á dagskrá er að kíkja á vinnustofu Söru vinkonu og hella sér svo í Sibelius (ekki spyrja mig eftir á hvernig gekk - tölvutilraunir hafa hingað til ekki verið mín sterkasta hlið).

Lifið heil. 


Góður dagur.

Sumir myndu segja, að dagurinn í dag hafi verið einn af þeim dögum, þar sem allt fer úrskeiðis, sem getur farið úrskeiðis. En ég er bara alls ekki sammála. Ég veit ekki hvort ég er bara í Pollýönnugírnum eða hvað. Mér bara fannst þetta virkilega góður dagur.

Áður en lengra er haldið, verð ég þó að afsaka tvennt. Annars vegar myndaleysið. Ég veit ekki hvað er í gangi (ekki segja að þetta sé partur af "úrskeiðisdeginum"). Ég hef alltaf sett myndir inn á ákveðinn hátt, en nú er sá möguleiki allt í einu ekki gefinn, og tilraunir mínar til að fara aðrar leiðir eru bara ekki að virka í augnablikinu.
Hitt afsökunaratriðið er hversu langt er um liðið frá síðasta bloggi. Ég hef bara verið svo hrikalega upptekin. Tók að mér afleysingakennslu fyrir tvo kennara, sem brugðu sér til útlanda, önnur í síðustu viku og hin í þessarri. Ofan á mína eigin kennslu að sjálfsögðu, þannig að dagskrá mín er æði þéttskipuð. Á þessum sama fór ég til tannlæknis, bjó til eitt stykki afmælisveislu og svona eitt og annað smálegt.

En aftur að deginum í dag. Ég tók hann snemma. Ég þurfti nefnilega að koma við í Njarðvíkuskóla (afleysingakennsluskóli síðustu viku) og sækja 2 hljóðfæri sem ég þurfti að nota í Myllubakkaskóla (afleysingaskóli þessarar viku) í kennslu minni þar í dag.
Ég er ekki komin nema örfáa kílómetra að heiman, þegar ég man eftir því að ég mundi ekki eftir að taka með mér inniskó. Ég var berfætt í skónum, og þeir eru mjög strangir á útiskóbanninu í Grunnskólum Reykjanesbæjar. En ég nennti ekki að snúa við og ákvað að taka sjensinn á að ég kæmist upp með að vera inni á einum af mínum rauðu uppáhaldsskóm.

Þegar ég svo keyri í gegn um Hafnarfjörð, man ég eftir því að ég gleymdi nestinu. Ég hafði eldað ríflega af virkilega staðgóðum mat í gærkvöldi, sett afganginn í sitt hvort töpperverboxið fyrir okkur mæðgurnar og hlakkað virkilega til að borða þetta í hádeginu. Svo hafði ég líka smurt afar girnilega samloku til að borða í hálf-tíu-kaffinu. En ég hélt mínu góða skapi og hugsaði með mér að matráðskonan í Myllu væri örugglega með eitthvað gott handa mér. En þá man ég eftir því að ég á að kenna í hádeginu líka, - ekkert hlé. Jæja, ég fitna þá ekki í dag hugsaði ég og hélt báðum höndum sem fastast um stýrið, því lægðin djúpa var farin að blása hressilega.

Nema hvað. Þegar ég kem að Njarðvíkurskóla er þar allt lokað og læst. "Það var sagt mér" að þessi skóli oppnaðist alltaf 7.3o, hugsa ég, - en man þá eftir því að ástæða þess að ég er að leysa af í Myllubakka, er sú, að sá kennari kennir líka í Njarðvíkurskóla og er núna með þeim vinnufélögum sínum í Boston.
Ekkert mál, hugsar mín. Ég bregð mér bara í Tónlistarskólann sjálfann og sæki hljóðfæri. Ég er allavega með lykla að þeim útidyrum og kann á þjófavarnarkerfið. Hélt ég. Vissi bara ekki að þetta eina ár sem ég var í fríi frá þeim skóla (síðastliðinn vetur) hefur greinilega verið skipt um leynitölur á kerfinu. Svo ég bara opnaði með mínum lykli og sló inn gömlu góðu leynitölurnar, en þær virkuðu ekki betur en svo að kerfið fór af stað.
Hér ber að geta þess, að mín hefur aldrei þolað nein svona væl og vein. Frá því ég eignaðist mína fyrstu vekjaraklukku hef ég vaknað á undan klukkunni, til að sleppa við að heyra hana pípa.
Og þarna stóð ég ein í morgunnmyrkrinu og þessum líka skerandi hávaða. Þrátt fyrir ákafan hjartslátt, tókst mér að opna mér leið inn á kennarastofu, þar sem ég beið eftir símtali frá öryggismiðstöðinni, eins og okkur hafði verið uppálagt í árdaga. En enginn hringdi, ég alla vega heyrði það ekki í öllum brjálæðisgangnum.
Svo ég bara lét mig hafa það að fara upp á loft og sækja hljóðfærin og flýja með þau út úr húsi. Vá hvað mér leið eins og allir í nærliggjandi húsum væru að fylgjast með mér eins og meintum steliþjófi. Ég skimaði laumulega í allar áttir eftir securitasbíl eða löggubíl (sem ekki sást), hoppaði upp í bílinn minn og keyrði burt. Þegar ég var komin nógu langt til að ekki heyrðist lengur í þjófavarnarsírenunni, lagði ég úti í kanti og hringdi í skólastjórann.
Konan hans svaraði. Og nú ber einmitt að geta þess að sú kona er akkúrat kennarinn sem ég var að leysa af í síðustu viku. Ég veit ekki betur en þau hjónin hafi komið til landsins í gærkvöld - og hafa örugglega ætlað að sofa út í morgunn, fyrst það var frí í Njarðvíkurskóla. "Hann er í hinum símanum að tala við öryggismiðstöðina, þeir eru að taka sírenuna af" sagði frúin. Við höfðum semsagt vakið þau bæði, með báðum símunum, ég og öryggismiðstöðin.
Það vill til að skólastjórahjónin eru yndælismanneskjur, svo ég geri ráð fyrir að þau hafi fyrirgefið mér. Alla vega fékk ég ekki hiksta.

Eftir Nóatúnssalat á milli skóla, ákvað ég að láta það eftir mér að þeysa í Kaffitár og taka með mér sojalatte þaðan og í Tónlistarskólann (sem var þagnaður). Inni í hljóðlátum skólanum fann ég strax að latte þessi var með beljumjólk, en ekki soja. Nei, maður gerir sér ekki ferð á kaffihús, í snarbrjáluðu roki og rigningu, til að fá vitlaust kaffi, hugsaði frú Soja og fór aftur út í óveðrið til að fá leiðréttingu. Sú leiðrétting fékkst fúslega, við báðar (kaffibarþjónninn og frú Soja) með bros á vör. Ég átti að vísu í smávægilegu basli með að láta ekki bílhurðina fjúka út í veður og vind, meðan ég hélt traustataki með annari hendi utan um bíllyklana og sojalattegötumálið. Mikið var nú blessaður drykkurinn góður.

Mallý systir var búin að vara mig við því að lægðin yrði í hámarki akkúrat á meðan ég yrði á Reykjanesbrautinni á leiðinn heim. En Yarisinn toldi á brautinni, þótt þrjá stærri bíla sæi ég utan vegar. Annars hefði dagurinn ekki orðið svona góður.

Fyrir utan rauða húsið við hafið (hvar ég bý) hoppaði ég svo með hraði út úr Yarisnum, sem Prinsessan ætlaði á í jazzbalettinn, og upp í Súbarú eiginmannsins og þaðan hraðferð í Regnbogann, hvar beið okkar framlenging af kvikmyndahátíðinni. Eftir bíó var minn heittelskaði á hraðferð í borðtennisið (mætti halda að við værum hinir típísku nútíma-íslendingar, eintómar hraðferðir), en ég sagðist ætla að fá mér að borða á næstu grösum og labba svo heim. Lægðin færi örugglega að þreytast og hægja á sér.

Sem ég er svo í miðri máltíð, hringir borðtenniskappinn og segir mér að ég hafi auðvitað skilið lyklana mína eftir í bílnum hans. Svo nú var ekkert annað í stöðunni, en að fara gangandi, í gegn um lægðarmiðjuna, út í KR og þaðan heim, ef ég ætlaði á annað borð að komast inn heima hjá mér. Sem ég auðvitað vildi og gerði. Í þeim indælis göngutúr hugsaði með mér, að mikið væri ég nú heppin að fá þetta tækifæri til að hreyfa mig úti í góða veðrinu. Það hefur nefnilega verið svo mikið að gera hjá mér, að ég hef ekkert komist í leikfimi. Segiði svo að þetta hafi ekki verið góður dagur. Ég sef örugglega vel í nótt.


Svartir sokkar.

svartir sokkarÉg hef líklega verið 12 eða 13 ára, þegar ég fór eitt sinn inn í Þorsteinsbúð með pabba mínum, og hann sagði stundarhátt "ég ætla að fá eitt dúsín af svörtum sokkum (þ.e. 12 pör). Vá hvað ég skammaðist mín hrikalega.

Eftir að ég varð fullorðin dettur mér þetta oft í hug. Og alltaf spyr ég sjálfa mig að því sama: Af hverju í ósköpunum geri ég ekki það sama og hann?! Af hverju kaupi ég ekki 12 pör í einu og hendi öllum stöku sokkunum í skúffunni?

Málið er sem sagt það, að í hvert sinn sem mér dettur í hug að fara í venjulega svarta sokka, - finn ég eitthvað á bilinu 20-30 STYKKI (ekki pör) af svörtum sokkum í sokkaskúffunni, en ENGIR TVEIR sokkar eru ALVEG EINS. Ég skil ekki hvernig þetta getur gerst. Þeir fara alltaf í pörum í óhreinatauið, í þvottavélina, á snúruna og ofan í skúffuna. Hvað gerist svo ofan í skúffunni? Eru þetta hinir margfrægu búálfar eða hvað? Já en þeir skila oftast aftur.

Já veistu, þetta er vandamál. Ég er nefnilega svo hrikalega simmetrísk í eðli mínu, að ég mér bara líður illa ef ég er í misháum, misþröngum, misslitnum, eða bara miseitthvað sokkum. Þetta vandamál hefur nú staðið í hátt á fjórða áratug, og ég er farin að halda, að ósköpunum linni ekki, fyrr en ég bið okkur feðginin innilega fyrirgefningar á að hafa hneykslast á föður mínum og skammast mín fyrir hann, - hendi út öllum stöku sokkunum og kaupi eitt dúsín af eins sokkum.

Lifið heil. 


Riff.

RegnboginnÉg var næstum því ennþá södd eftir Græna ljósið (síðasta kvikmyndahátíð), þegar kvikmyndahátíðin Riff skall á. Svo södd að mér tókst hvorki að sjá Veðramót né Astrópíu í millitíðinni. Ég ætla rétt að vona að þær verði báðar ennþá í bíó þegar ég læt sjatna eftir riffið. Ég er búin að sjá 6 myndir á 5 dögum. Þær eru hver annari betri. Í gærkvöldi sáum við yndislega ljúfa og fallega mynd um skelfilegt efni (danska mynd um sifjaspell). Danir eru snillingar í kvikmyndagerð, eins og svo mörgu öðru. Í fyrrakvöld sáum við mynd sem gerist á hóteli á tékkneskum fjallstindi. Jú, jú, ég man líka lengra aftur, - en ætla ekki að fara að æra óstöðugan með því að telja upp allar myndirnar og lýsa þeim. Bara rétt að láta ykkur vita að ég er stödd í miðri veislu - og hún er unaðsleg. 

Lifið heil. 


Ása vinkona.

Ása 90-aÁsa vinkona er 90 ára í dag. Það var haldið upp á það í gær. Við bjuggum í sama húsi í rúm 7 ár. Og á morgunn eru nákvæmlega 17 ár síðan okkar frábæra vinátta hófst. Þá trítlaði hún upp á 3ju hæð til mín og bauð mér í afmælisafganga. "Konur í þinni stöðu eru alltaf svangar" sagði hún. Þessi "staða" sem ég var í, var sumsé sú, að Ásbjörg mín hafði fæðst 10 dögum áður, - og ég var því sængurkonan sísvanga. 

"Já ég man sko eftir þessu" sagði hún svo í gær þegar ég rifjaði þetta upp. Afmælisveislan var stórskemmtileg, með allt of góðum veitingum. Afkomendur hennar skemmtu henni og okkur hinum m.a. með lögum við texta eftir manninn hennar, Árna úr Eyjum, sem dó langt fyrir aldur aldur fram úr berklum. 

Ása 90-bTil skamms tíma var Ása selskapskammerat minn nr.1. Í seinni tíð á hún orðið aðeins erfiðara með að fylgja hraðskreiðu brussunni eftir í öllum látunum. Hún er samt ótrúlega hress - og ungleg eins og sjá má. 

En áður en hún fór að styðjast við göngugrindina, fannst okkur við alltaf jafngamlar. Í það minnsta hefur smekkur okkar og langanir til lífsins gæða ótrúlega oft farið saman. Og umræðuefnin okkar í milli eru óþrjótandi, því við eigum endalaust safn af sameiginlegum áhugamálum og pælingum.

Skriljón sinnum hefur það gerst, að mig hefur langað í bíó eða á tónleika, með engum fyrirvara. Reynslan kenndi mér fljótt að þá þýðir ekkert að hringja í vinkonur á mínum aldri. Þær þurfa meiri fyrirvara. En Ása hefur alltaf verið miklu tilkippilegri.

Þær eru víst ábyggilega fleiri en óteljandi, myndlistarsýningarnar og leiksýningarnar sem við höfum notið þess að fara saman á, - auk annarra menningarviðburða, svo sem tónleika, upplestra o.fl.

Ása 90-cÉg gæti haldið endalaust áfram að tala um Ásu vinkonu og okkar frábæru vináttu. En flest er auðvitað leyndarmál, eins og hjá góðum vinkonum. 

Bara eitt að lokum: Það var hún sem laumaði upphaflega út úr sér setningunni, "Þú keyrir eins og bankaræningi á flótta".  Ég klaufaðist til að segja einhverjum frá þessu, af því mér þótti það svo fyndið, - en síðan hafa aðrir vinir og vandamenn verið ósparir á að láta mig heyra þessa athugasemd.

Lifið heil. 

 


Af viðgerðum.

PeningarDruslaðist loksins með myndavélina í viðgerð. Hún hafði dottið úr veskinu mínu og út á gangstét, þegar ég var að taka allt of mikið dót í einu út úr bílnum 29.ágúst síðastliðinn (sjá bloggfærslu frá 30. eða 31.ág.).

"Ef þetta er linsubrot, þá þurfum við að skipta um linsu og hún kostar 20 þúsund krónur", sagði viðgerðarmaðurinn. "En ef þetta er (eitthvað sem ég náði ekki, - ég var fixeruð í orðunum; linsubrot - 20 þúsund), þá er þetta viðgerð upp á 14 þúsund krónur, svo það er spurning hvað þú vilt gera". 

"Ja - ný myndavél kostar nú ennþá meira" sagði ég - og reyndi að bögla út úr mér einhverri spurningu um hvort þetta yrði ekki varanleg viðgerð, og myndavélin svo gott sem ný. Hann taldi svo vera og hvarf á brott með vélina.

Ég stóð stjörf eftir og sá fyrir mér peningana flæða út úr veskinu mínu. Fór að velta fyrir mér hvort ég ætti að sleppa jólagjöfunum þetta árið, eða ....? Þá birtist maðurinn aftur með orðunum "Hún er bara alveg dauð".

Jæja - ekki batnar það. Ég reyndi að halda aftur af tárunum við þessa skyndilegu andlátsfregn. En þá bætir hann við þessi elska "Þetta er þá ekki linsan. Þá gætum við nú sloppið með viðgerð upp á rúm 4 þúsund". Þá veit ég það: Linsubrot er semsagt mun alvarlegri sjúkdómur en dauði myndavélar. Var svo alsæl og bjartsýn þegar ég kom út, að ég hikaði ekki við að splæsa á mig hádegisverði á næstu grösum.

Ykkur þykir þetta kannski hvorki stórfrétt né háar upphæðir. Finnst kannski bara að ég eigi að vera hamingjusöm með að þurfa svona sjaldan að fara með eigur mínar í viðgerð. Já, ég er það. Og það sem meira er; ég leyfi mér að halda að ég fari bara vel með hlutina - sé kannski ekki alveg eins mikil brussa og ég hélt.

En af því að ég var til í gamla daga, eins og frægt er orðið, - þá fer ég þó með hlutina í viðgerð, í stað þess að henda þeim og kaupa nýja. Ég varð ekkert smá rasandi, þegar ég fór með fyrsta farsímann minn í viðgerð. "Er hann ekki bara kominn á tíma" spurði viðgerðardrengurinn. "Nei hann er splunkunýr" sagði ég. "Ég fékk hann fyrir rúmum tveimur árum". "Já svona símar eiga nú ekki að endast nema kannski eitt og hálft ár" sagði drengurinn. "Hva - er þetta eitthvað léleg tegund"? spurði ég. "Nei alls ekki, farsímar eru bara ekki framleiddir með lengri endingartíma" sagði drengurinn eins þolinmóður og hann gat, örugglega fullviss um að ég væri fædd og uppalin í torfkofa og héldi enn til haga sauðskinnskónum sem ég fékk í fermingargjöf.

En svona er þetta í minni fjölskyldu, við ætlumst til þess að hlutirnir endist. Björg frænka var rúmlega sjötug þegar ísskápurinn hennar bilaði. "Er hann ekki bara kominn á tíma?" spurði þessi viðgerðarmaður eins og sá fyrrnefndi. Greinilega standard spurning hjá viðgerðarmönnum. "Hvaða vitleysa er þetta eiginlega" svaraði Björg. "Þessi ísskápur hefur verið í góðu lagi síðan ég byrjaði að búa og ég sé ekki af hverju hann ætti ekki að vera það áfram". Þarna voru að sjálfsögðu yfir 50 ár síðan Björg frænka byrjaði að búa.

Lifið heil. 


Messur og veislur.

Vilberg Samúel skírðurÍ dag var tveggja messu dagur og tveggja veislu dagur. Vilberg Samúel var skírður í langri messu í Dómkirkjunni í morgunn. Ég ímynda mér að messan hafi verið svona löng, vegna þess að bæði biskupinn og prófasturinn tóku þátt í henni, auk tveggja Dómkirkjupresta og miðborgarprests. Ekki það að hver vígður maður hafi lengt messuna með málæði eða því um líku, heldur ímynda ég mér að Dómkirkjuprestarnir hafi ekki viljað sleppa neinu ritúali, fyrst hinir háu herrar voru á staðnum. En þetta er nú bara mín hugmynd, gersamlega óábyrg. Tvö önnur börn voru skírð (tvíburarnir Atli Freyr og Breki Freyr) og allir þessir nýskírðu drengir eiga furðu mína og aðdáun, vegna þess hve þeir voru góðir. Það heyrðist hvorki hósti né stuna frá þeim þennan rúma einn og hálfan klukkutíma sem messan stóð, - hvað þá grátur.

Fríða 90 áraÞá var þessi fína skírnarveisla til heiðurs nýskírðum Vilbergi Samúel. Að henni lokinni þeysti ég beint í næstu veislu, sem var 90 ára afmælisveisla hjá einni af gömlu hressu konunum sem ég nefndi í þarsíðasta bloggi. Dagurinn endaði svo þar sem hann byrjaði - í Dómkirkjunni, í fyrstu Æðruleysismessu komandi vetrar. Ég elska þær messur, - hef sótt þær í 3 eða 4 vetur.

Prinsessan á bænum varð 17 ára á í fyrradag. Það kvöld hélt hún matarboð fyrir bestu vinina (hátt í 20 manns). Samkvæmt íslensku hefðinni - annar í öllu - var svo afmæliskaffi fyrir nánustu fjölskyldumeðlimi (þá sem voru á suðvesturhorninu) í gær.

Segiði svo að það sé aldrei neitt um að vera hjá mér.

Njótið lífsins - lifið heil. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband