1.11.2010 | 21:28
Ekki dauð úr öllum æðum
Hér á forsíðunni stendur að ég skrifi aðallega um eigin hegðun og hugsanir, sem eru ekki alltaf í takt við það þó-nokkuð-góða vit sem Guð gaf mér. Mikið rétt. Margar færslur eru til vitnis um það. Tökum bara t.d söguna af pottaplöntunni, sojamjólkurfernunni og því sem ég gleymdi á bílþakinu. Og ég hef haft lúmskt gaman af þessum skrifum, því ég er svo heppin að eiga auðvelt með að gera grín að seinheppninni og flumbruganginum í sjálfri mér.
Af hverju líður þá svona langt á milli bloggfærslna í seinni tíð? Hefur seinheppni mín og flumbrugangur verið á hröðu undanhaldi?
Ónei, því fer fjarri. Þvert á móti, þá eru öll þessi atvik mér svo töm, að mér finnast þau beinlínis hversdagsleg - og því ekki frásagnarverð.
Eins og til dæmis í gær, þegar ég fylgdi eins og hálfs árs ömmudrengnum í Ísafjarðarflugið. Í hliðinu þar sem brottfararspjöldin eru afhent, spurði ég starfsmanninn eins blíðlega og ég gat hvort ég mætti ekki halda á honum út í vél - og skilja hann þar eftir hjá vinkonu minni. "Því miður" sagði starfsmaðurinn, "ég má ekki hleypa neinum öðrum en farþegum hér í gegn".
Ég knúskyssti því drenginn einu sinni enn (sonur minn segist hafa átt í mesta basli með að þvo af honum patchouli-lyktina) og horfði á eftir honum í fangi vinkonu minnar. Bjó mig undir að fara til baka, en þreifaði fyrst eftir lyklunum í bleika veskinu sem hékk um hálsinn á mér.
Hva? - Öngvir lyklar? Bíddu nú við. Ég man að þegar ég kom út úr bílnum með barnið í fanginu, þá stakk ég lyklunum í framhólfið á - úps!!! - það er ekkert framhólf á bleika veskinu. - Ég stakk lyklunum í framhólfið á litla bakpokanum sem drengurinn var með í handfarangri!!!
Lyklarnir!!!!! öskraði ég um leið og ég æddi með látum út á flugbrautina á eftir farþegunum. Starfsmaðurinn varð víst ansi ferkantaður í framan áður en hann rauk á eftir mér, í stað þess að klára að afgreiða farþegana.
En eins og ég segi; - svona atburðir eru ósköp hversdagslegir þegar ég á í hlut. Ég meira að segja náði að bjarga málum í tæka tíð. Það var aðeins meira vesen síðast þegar ég sendi drenginn frá mér. - Þá skildi ég greiðslukortaveskið eftir í bakpokanum hans - og var því algjörlega eins og þorskur á þurru landi uns ég hafði fengið það sent til baka í ábyrgðarpósti.
En nú læt ég undan miklum þrýstingi og fjöldaáskorunum - og held áfram að blogga. Þangað til ég sé eitthvað frásagnarvert við mína daglegu hegðun og hugsanir, get ég bara sagt gamlar sögur.
Að vísu segir eiginmaðurinn, - sem er einn minna fjölmörgu aðdáenda, - að ég sé alltaf svo ótrúlega fyndinn að af nógu sé að taka. Honum finnst t.d. alltaf jafn fyndið þegar formálarnir að sögunum mínum verða svo langir að ég gleymi sögunni sem ég ætlaði að segja. En ég segi bara (í anda Þórbergs) að betri sé langur og góður formáli, en stutt og auðgleymanlegt meginmál.
Svo fannst honum mjög fyndið fyrir nokkrum dögum þegar ég bað hann að sjóða kartöflur kl 19.05, því ég ætlaði að koma heim af fundi kl. 19.25. Áður en ég fór á fundinn hafði ég útbúið þennan yndælis rétt sem var í ofninum meðan ég var á fundi. Ég gleymdi bara að kveikja á ofninum. Mér fannst þetta ekkert rosalega fyndið, því ég þurfti auðvitað að bjóða sambýlisfólki mínu að borða á veitingastað. - Sjálf orðin öskrandi af hungri kl 19.25.
Hins vegar er eiginmanninum alveg hætt að finnast það fyndið, þegar ég býð honum á veitingastað - og uppgötva svo í miðri máltíð (gerðist t.d. einu sinni eftir að við höfðum keyrt á Stokkseyri til að bora á Við fjöruborðið) að ég hafði gleymt að taka með mér gjaldmiðla.
Við erum þó sammála um það hjónin að sagan af Grýlukanilkaffinu er alveg týpísk ég. Síðustu 2 eða 3 aðventur hef ég verið í daglegu nautnakasti við neyslu þess drykkjar. Í janúar síðastliðnum, þegar varan hætti að fást í stórmarkaðnum og búin úr boxinu heima hjá mér, - varð ég verulega fúl út í sjálfa mig fyrir að hafa ekki keypt ca 10 pakka og fryst. Í síðustu viku var ég orðin spennt að bíða, - fann aðventuna nálgast - og leitaði að tegundinni í hverri stórmarkaðsferð. Árangurslaust. Ákvað loks að hafa samband við Kaffitár himself og spyrja hvenær varan kæmi á markað. "Það hefur aldrei farið af markaði" svaraði stúlkan í Bankastrætinu, "við seljum það allt árið. Svo þessa dagana þarf ekkert átak til að rífa sig á fætur. Ég flýti mér með morgunmatinn á meðan ég laga tvöfaldan skammt af þessum unaðsdrykk.
Kannski hefur minn ástkæri bara rétt fyrir sér. Kannski eru hugsanir mínar og hegðun alltaf til frásagnar. Ég er samt að hugsa um að skella á ykkur gömlum sögum - alla vega svona í bland.
Bíðið spennt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.8.2010 | 17:26
Þöggun.
Þegar frændi minn í Reykholti skrifaði í blöðin um skilyrðislausan trúnað presta við þá sem til þeirra leituðu, brást ég reið við og sagði að yfir engu kynferðisofbeldi mætti þegja, síst af öllu gagnvart börnum.
Og auðvitað stend ég fast á þeirri skoðun minni, þó ég geti að vissu leyti tekið undir skoðun þeirra sem segja að það sé skárra að perraglæponar opni sig við prest sem getur hugsanlega leitt hann frá sinni glæpaiðju, en að þeir (perrarnir) segi engum neitt af ótta við tilkynningaskylduna.
En mál málanna í dag snýst bara ekki um það. Ég leyfi mér að fullyrða að það gerist nokkurn vegin aldrei að einhver barnaperri komi til skrifta hjá presti.
Það sem gerist hins vegar allt allt of oft, bæði innan kirkjunnar og utan er þetta:
Segjum að þú sért prestur, kennari, eða haldir með einhverjum hætti utan um æskulýðsmál (skátaforingi, forstöðumaður sumarbúða, íþróttafélags o.s.frv.). Þú færð ástæðu til að gruna einhvern í þinni kirkju eða skóla eða .... um að hafa farið yfir strikið í sambandi sínu við barn eða ungling.
Hvað gerirðu? Þú hugsar strax: Nei þetta er bara einhver ímyndun í mér, hann er bara svona elskulegur og almennilegur, nú eða þá svo spaugsamur.
Þú jafnvel heyrir á tal vinnufélaga þinna sem gorta sig af því hvernig þeir fara að því að komast upp í rúm hjá unglingsstúlkunum sem þeir hafa umsjón með. Og þú hugsar: Alltaf sama kallagrobbið í þessum strákum. Þeir ættu nú að passa sig að fara ekki yfir strikið í montinu og spaugseminni. Það gæti nú misskilist. Málið dautt.
Eða þá að stúlka á viðkvæmum ("ólöglegum") aldri kvartar undan ósiðlegri hegðun eða jafnvel kynferðislegri misnotkun af hendi félaga þíns. Þú þekkir félaga þinn af góðu einu saman og hugsar með þér: Meira hvað þessar stelpur geta dramatiserað. Reynir að róa stúlkuna og telja henni í trú um að upplifun hennar hafi verið verulega ýkt.
Þar sem þú tekur ekki mark á stúlkunni, heyrir þú ekki frá henni frekar. Þú heldur því að málið sé dautt. Telur sjálfum þér í trú um að þetta hafi allt saman verið stormur í vatnsglasi - og engin ástæða til að hafa frekari áhyggjur.
Svona dæmi eru alltaf að gerast út um allt því miður. Við viljum ekki trúa neinu slæmu upp á þá sem okkur líkar vel við. Það er miklu þægilegra að trúa því að menn séu saklausir og lífið sé gott. Það er erfitt að stíga út úr þægindahringnum og það krefst mikils hugrekkis. Þú getur hæglega átt það á hættu að verða úthrópaður af öllum á vinnustaðnum, vinahópnum eða fjölskyldunni.
Það er heldur ekki að ástæðulausu að þú átt erfitt með að "sakfella" vin þinn. Öll erum við bæði búin kostum og göllum, - og perrinn á sér mörg andlit. Getur hæglega komið vel fyrir og jafnvel verið hinn vænsti maður að flestu leyti. Auk þess þurfa gerendur ekki alltaf að vera perrar. Gerendur geta í sumum tilfellum verið hinir vænstu menn, sem átta sig ekki á mörkunum í samskiptum sínum við viðkvæmar sálir og fara því "óvart" yfir strikið.
Við eigum samt ekki að þegja!!
Nýlega var ég í veislu og sat milli ungrar fréttakonu og yndælis eldri borgara. Við fréttakonan vorum að tala um efni þessa pistils, - og þá hvíslar eldri borgarinn að mér: Vertu ekki að tala um ÞETTA við HANA. Hún fær nóg af þessum viðbjóði í vinnunni.
Það er akkúrat málið. Viðhorf eldri borgarans hefur allt of lengi verið ríkjandi. Við eigum að hlífa öllum við óþægindum. Hlífa gerendum og öllum þeim sem málið varðar eða varðar ekki (varðar það kannski okkur öll?). Mörgum okkar tekst jafnvel að telja sér í trú um að við hlífum þolendum með því að gera lítið - helst ekkert - úr upplifun þeirra.
Ég fagna því að þessi mál eru komin upp á yfirborðið með þeim heiðarlega, einlæga, sannleiksleitandi hætti sem raun ber vitni. Ég dáist að þeim fórnarlömbum sem stigið hafa fram af gífurlegu hugrekki. Ég dáist líka að þeim kirkjunnar mönnum sem hafa sýnt máli þessu stuðning og iðrast þess að hafa ekki haft dáð og dug til að gera slíkt fyrr. Ég vona svo sannarlega að þeim eigi eftir að fjölga, bæði innan kirkju og utan.
Eitt að lokum: Gleymum því ekki, að vissulega koma upp mál, þar sem "fórnarlömb" dramatisera, ýkja, eða jafnvel ljúga upp á saklausa menn. Það hlýtur að vera skelfilegra en tárum taki að vera dæmdur saklaus, hvort sem það er af dómstólum og/eða almannarómi. Sannanir í þessum málum eru oft svo hræðilega erfiðar í báðar áttir. Látum það samt ekki hindra okkur í að sýna hugrekki og ganga fram fyrir skjöldu. Gerum það sem í okkar valdi stendur til að sannleikurinn megi koma í ljós.
Sannleikurinn og iðrunin eru af hinu góða fyrir alla. Líka fyrir gerandann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.6.2010 | 13:11
Áunninn aumingjaskapur eða þroski?
Hann gleður þó mitt gamla hjarta og skreppur af og til suður. Aldrei þó á afmælisdaginn sinn. En ég læt það ekki stoppa mig og held alltaf upp á daginn að honum fjarstöddum. Fyrir tveimur árum fór svo Múhamed til fjallsins, þ.e. ég til Ísafjarðar, þegar drengurinn varð þrítugur.
Í fyrradag átti hann afmæli og ég byrjaði daginn að sjálfsögðu á að hringja í hann og syngja afmælissönginn. Komst að því að hann var staddur ásamt konu sinni og barni í sumarbústað í Flókalundi. Eftir símtalið tók ég nett sjálfsvorkunnarkast: Ég hefði viljað vita þetta fyrr, það væri gaman að vera þarna hjá þeim núna.
OG? Hvað gerir maður í því? Liggur vælandi heima og nagar sig síðan í handarkrikana? Nei takk, ég nenni ekki að sjá eftir því sem ég geri EKKI. Ég er í sumarfríi og mér er ekkert að landbúnaði. Þetta er 100 kílómetrum styttra en til Ísafjarðar. Dríf mig bara. NÚNA.
Hringdi í frumburðinn og bað um ferðafélaga (yndislegan 11 ára ömmudreng) og fékk staðfestingu á kílómetrafjöldanum. "Já en mamma, síðustu 125 kílómetrarnir eru VONDIR vegir og krókóttir", sagði hún. Bætti svo við setningu sem skilningarvit mín settu óvart á hold (meira um það síðar). Hvað eru vondir vegir milli vina, hugsaði ég og dreif mig af stað.
Þegar dóttirin talaði um vonda vegi sá ég fyrir mér holótta malarvegi, kannski stundum með djúpum hjólförum. Rétt fyrir vestan Bjarkalund komst ég að raun um að hún meinti annað. Þetta voru ekki bara malarvegir, heldur fjallvegir (sem ég hafði - ótrúlegt en satt - ekki hugsað út í), með óteljandi U-beygjum með himinháu þverhnípi báðu megin - og á nokkrum stöðum var snarbrött brekka strax á undan og/eða eftir U-beygjunni.
Ég held ég hafi aldrei áður orðið jafn ofboðslega hrædd.
Tvisvar sinnum stoppaði ég og var alvarlega að hugsa um að snúa við. En ég þorði heldur ekki til baka. Vildi bara kalla á þyrlu til að sækja okkur.
Herti upp hugann og sagði við sjálfa mig að daglega færu einhverjir bílar þarna um, meira að segja í vetrarfærð, en aldrei heyrði maður af stórslysum. Svo ég hélt áfram, oft í fyrsta eða öðrum gír.
Þegar við áttum stutt eftir, var ég orðin staðráðin í að keyra bara áfram vestur á Ísafjörð daginn eftir, inn Djúpið og þaðan heim. En þá poppaði upp í hugann setningin sem frumburðurinn hafði bætt við: Það er ekki að ástæðulausu sem Breiðafjarðarferjan Baldur siglir þangað.
Þvílíkur léttir!! "Við siglum til baka!!" sagði ég við ömmudrenginn, sem tók undir gleðiópin.
Svo fór ég að hugsa um hvers vegna í ósköpunum ég varð svona ofboðslega hrædd. Á yngir árum lenti ég oft í alls kyns lífsháska og var aldrei svona hrædd. Ég bjó t.d. í 9 ár með fífldjörfum ofurhuga og tók þátt í ýmsu með honum án þess að óttast nokkurn hlut. Síðan var ég sjálfstæð ofurkona sem lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Gat allt og gerði allt. Án þess að hika.
- Hvað gerðist? Er það aldurinn? Eða aukaverkun 12 sporanna? Eða það að á seinustu árum er ég farin að hafa það svo gott að ég hef komið mér upp áunnum aumingjaskap?
Skiptir ekki máli hvað veldur, - ég er staðráðin í að leggja það aldrei aftur á mig að ferðast þennan veg.
Það var gott að koma í Flókalund og þar áttum við frábæran sólarhring með syninum, konu hans og barni.
Þegar við vorum komin á bryggjuna á Brjánslæk (ca 6 km vestan við Flókalund) og ég sá alla bílana sem komu út úr ferjunni, varð mér hugsað til þess að ég sá aldrei neina bíla á þessum hryllingsvegum. Var alltaf að hrósa happi yfir að mæta ekki bíl á verstu stöðunum, en það var heldur enginn að fara í sömu átt. Auðvitað ekki.
Ég var svo mikið að drífa mig af stað, að ég gleymdi að taka með mér myndavél. Ætlaði þess í stað að setja inn myndir af nýlegum stórviðburði; þegar heimasætan útskrifaðist (dúxaði) úr MR. En myndkerfið er eitthvað að stríða mér núna, svo þið skoðið þær myndir bara á Facebook.
Lifið heil.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.5.2010 | 11:23
Kynjaskipt þrifatilfinning
Við hjónin höfðum ekki búið mjög lengi saman þegar við sáum Hellisbúann. Samt nógu lengi til að fá tryllt hláturskast yfir ákveðnu atriði.
Hellisbúinn segir: Svo vilja þessar elskur líka að við þrífum á heimilinu. Og við eigum helst að taka það upp hjá okkur sjálfum. Hvað gerist svo ef við þrífum óumbeðnir? Þá ÞRÍFUM VIÐ VITLAUST!! HVERNIG ER HÆGT AÐ ÞRÍFA VITLAUST!?!?!
Ég er svo heppin að allir mínir eiginmenn hafa verið frekar eða mjög snyrtilegir á heimili. Einn þeirra skildi iðulega eftir sig uppúrstignar nærbuxur, síðbuxur og sokka hér og hvar um íbúðina, sem er bara fyndið svona eftir á - og algjörir smámunir miðað við subbuskapinn sem margar konur þurfa að líða af sínum mönnum. Þannig að ég hef verið heppin.
Fyrri eiginmennirnir sýndu öngvan áhuga á að sinna þrifum á heimilinu - og ég var nógu óþroskuð til að gera öngvar kröfur á þá.
Svo kemur þriðji maðurinn og tilkynnir mér skýrt og skorinort áður en við hefjum búskap að hann hafi séð um þrif og önnur heimilisstörf síðan hann var 8 ára og muni að sjálfsögðu gera það áfram. Hvað kom svo í ljós? Eldamennska og þvottar eru efni í aðra grein, en höldum okkur við þrifin: AUÐVITAÐ ÞRÍFUR HANN VITLAUST eins og Hellisbúinn.
Svo þrif á heimilinu héldu áfram að vera í mínum verkahring. Með einni undantekningu þó. Þegar nýja parketið var komið á stóran hluta íbúðarinnar, uppástóð eiginmaðurinn að það væri stórhættulegt að leyfa hamhleypum með skrúbb og sápu að koma nálægt svona fínu gólfefni, hann ætlaði að sjá um þrif á parketinu. Ég samþykkti það með semingi (segi honum aldrei hvað ég hef oft laumast til að bæta um betur þegar hann er "búinn" að skúra). Fannst þetta vera í stíl við kallana sem koma aldrei nálægt eldavélinni, en sitja stoltir yfir útigrillinu með grillspaða í annari og bjór í hinni. Karlrembuheimilisstörf.
Þá yfir í seinni hluta formálans: Ég hef alltaf verið óhemju löt að þrífa bílinn minn. Mér finnst það bara svo leiðinlegt, því sama hvað ég skrúbba og skrúbba, það koma alltaf helgidagar. Því finn ég oftast hjá mér þörf fyrir að þrífa bílinn þegar kuldinn er slíkur og þvílíkur að ég neyðist til að nota sjálfvirku þvottastöðvarnar. En það er auðvitað takmarkað hvað maður tímir að setja marga þúsundkalla í þær. Þess vegna er bíllinn minn oftast skítugur.
Svo var það í fyrradag, nokkrum klukkustundum fyrir öskufall í Reykjavík (típískt fyrir mína "heppni") að ég er í miðju bílaskrúbbi á þvottaplani. Leggur þá við hlið mér karlmaður ca. sextugur á tandurhreinum dökkgráum bíl og fer að þvo hann. Þá rennur upp fyrir mér í ljós: Tilfinning fólks fyrir þrifum fer algjörlega eftir kynjum!! Ég þekki öngvan karl sem þrífur ásættanlega inni á heimili, þeir hafa ekki tilfinningu fyrir því sem skiptir máli og þrífa því VITLAUST. Hins vegar virðast þeir hafa gaman af að nudda alls kyns tegundir af bílasápum og bónum á bíla sem mér virðast tandurhreinir. Á meðan allar konur sem ég þekki þrífa bílana sína illa, sjaldan eða aldrei - og finnst það hundleiðinlegt.
Ég viðraði þessa kenningu mína við eiginmanninn um kvöldið - og röksemdafærslur mínar voru með slíkum glæsibrag að hann samþykkti - loksins eftir öll þessi ár - að þrífa bílinn minn næst þegar ég sæi ástæðu til - og leyfa mér að skúra parketið. Og ég fór auðvitað hamförum strax í gærmorgunn. Þvílíkur unaður að ganga berfætt um gólfin núna. Mér finnst þau aldrei hafa verið jafn hrein. Hins vegar finnst mér allt í lagi að hafa öskuna aðeins lengur á Yarisnum.
Læt þetta duga í bili - og bíð spennt eftir femíniskum mótmælum og öðrum athugasemdum.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.4.2010 | 11:23
Leiðréttar bernskuminningar
Þegar ég var 5 ára, ákváðu foreldrar mínir að flytja til Keflavíkur. Við áttum öngvar tengingar þangað, en pabba bauðst góð vinna þar. Mamma býr þar ennþá (pabbi er löngu dáinn) og systkini mín öll, - en ég flutti þaðan árið sem ég varð 17 ára og eignaðist mitt fyrsta barn.
Ég fílaði mig aldrei í Keflavík. Bregst ókvæða við ef einhver spyr hvort ég sé þaðan. Svara mjög ákveðið NEI.
Ég ólst upp á stórkostlegu heimili og er mjög sátt við foreldra mína og systkini.
Og ég gat verið hrókur alls fagnaðar í leikjum á götunni fyrir framan húsið okkar. Fílaði mig meira að segja stundum dáldið "aðal" meðal krakkanna í næstu húsum.
En um leið og komið var út fyrir þann litla radíus, var ég algjör "kúkur útí horni". Mér fannst ég alltaf vera svo mikið öðru vísi. Eina barnið í bænum sem gekk í regnkápu og stígvélum í rigningu - og ullarsokkum og gammosíum í frosti. Ég gekk í heimasaumuðum og heimaprjónuðum fötum (meira að segja heimasaumaðri úlpu sem mér finnst ofboðslega falleg þegar ég skoða gamlar myndir í dag) á meðan skólafélagarnir gengu í töff fötum af vellinum. Ég mætti í skólann með hollt nesti að heiman, meðan skólafélagarnir fóru út í bakarí í frímínútum og keyptu snúð. Ég hékk aldrei í sjoppum eins og allir hinir, enda fékk ég aldrei penginga fyrir nammi. Það var ekki til sjónvarp heima hjá mér fyrr en ég var 15 ára (rúmum 5 árum eftir að íslenska sjónvarpið hóf útsendingar), en þá voru allir hinir krakkarnir búnir að horfa daglega á kanasjónvarpið síðan þau mundu eftir sér (svo allir kunnu ensku nema ég). Svo gekk mér vel í námi, var oft hæst í árgangnum (hátt í 200 manna árgangur) sem var auðvitað yfirmáta hallærislegt.
Ég var því sannfærð um að öllu Keflvíska samfélaginu - með skólasystkini mín í alalhlutverki - fyndist ég fáránlegt viðundur. Ég gerði því enga tilraun til að tengjast neinum - og þau reyndu ekkert (mér vitanlega) að vingast við mig. Fyrir utan tvær vinkonur í næstu húsum, tengdist ég lítillega einni bekkjarsystur sem ég hef haldið örlitlu sambandi (jólakortasambandi) við síðan. Á seinni árum hafa svo nokkrar skólasystur (jólakortavinkonan ein þeirra) boðið mér að vera með í 6-8 kvenna hittingi (alls 4-5 sinnum). Og eina konu hitti ég af og til í leikfimi fyrir nokkrum árum. Þar með er allt upptalið.
Ég hef því eins og gefur að skilja - aldrei haft snefil af áhuga á að mæta á ríjúníon með þessum hópi.
Svo gerist það síðastliðið haust, að ég heyri ókunna konu segja frá því hún hafi farið á ríjúníon nýlega - og þar hafi þau undur og stórmerki átt sér stað að ótrúlega margir hafi komið að máli við hana og minnst þess hvað hún hafi alltaf verið æðisleg, skemmtileg og frábær og allt það. Konan missti andlitið af undrun, því hún hafði alltaf haldið að skólasystkinunum þætti hún ömurleg í alla staði - og því aldrei haft samband við neitt þeirra.
"Ég uppgötvaði því" sagði konan "að ÞAÐ ER HÆGT AÐ LEIÐRÉTTA BERNSKUMINNINGAR.
Þetta var stór og blaut tuska í andlitið á mér. Var konan að tala um mig?
Á þeirri stundu ákvað ég að mæta á næsta ríjúníon. Pottþétt!! Auðvitað geri ég ekki ráð fyrir að neinn fari að segja mér að ég hafi alltaf verið svo æðisleg, - en ég hef heldur engar forsendur til að halda að þeim hafi þótt ég algjör auli. Það væru fáránlegir fordómar í mér. Forsendurnar sem ég hafði á þeim tíma voru bara í hausnum á óþroskuðu viðkvæmu stelpuskottinu sem ég var þá. Þær forsendur hafa ekkert með hina krakkana að gera. Þau gerðu mér aldrei neitt. Þetta er væntanlega allt hið vænsta fólk í dag og á sínum tíma voru þau bara saklaus og eðlileg börn, sem gaman hefði verið að kynnast nánar.
Og nú er komið að því. Bara eftir nokkra daga. Ég hlakka ótrúlega mikið til að hitta allt þetta fólk!! Staðráðin í að mæta með galopin huga. Án fordóma og án væntinga. Geri þó frekar ráð fyrir að þetta séu upp til hópa frábærir einstaklingar sem gaman verður að kynnast. Og svo er auðvitað kominn tími til að þau fái að kynnast þeirri stórkostlegu manneskju sem ég er í dag.
Legg ekki meira á ykkur.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.4.2010 | 13:19
Flugan
Sat í mestu makindum á kaffihúsi í fyrradag, þegar ég rak allt í einu augun í flugu sem sveimaði við hlið mér. Mér fannst hún hegða sér eitthvað undarlega. Hún hélt sig nokkurn vegin í ákveðinni fjarlægð, um það bil 30 cm frá vinstra gagnauga mínu, - og hreyfingar hennar tengdust greinilega augn- og höfuðhreyfingum mínum. Hún fylgdi mér að vísu ekki alveg eftir, enda er undirrituð þekkt fyrir að vera með endemum snör í snúningum og snögg upp á lagið.
"Þetta hlýtur að vera eitthvað í hárinu á mér" hugsaði ég, - en eins og þeir vita sem mig hafa borið augum, þá geta mínir ægifögru hrokknu lokkar þyrlast víða um nágrennið, eins og þeir hafi sjálfstæðan vilja. Ég reyndi að hemja lokkaflóðið með handafli og ryðja því úr vegi, en flugan sveimaði áfram á svipuðum slóðum.
"Það er eitthvað á gleraugunum mínum" sagði ég við eiginmanninn, sem sötraði áhyggjulaus sinn expresso, án þess að kippa sér upp við hegðan mína, enda orðinn ýmsu vanur. Ég tók af mér gleraugun og pússaði þau óvenju vandlega, skoðaði þau í krók og kima og setti þau upp aftur. Flugan enn á sínum stað. Við athugun mína á gleraugunum hafði ég komist að því að gleraugnaumgjarðirnar voru algjörlega simmitrískar, þannig að ef flugan væri á þeim, þá ætti önnur fluga líka að sveima hægra megin við mig. En svo var ekki. Flugan, eða sýn mín á hana var klárlega vinstrisinnuð, eins og sýn mín á flest annað. Svo ekki tengdist hún gleraugunum.
Ég tók aftur af mér gleraugun og bað eiginmanninn að rannsaka í mér vinstra augað og bera það saman við það hægra. Ekkert kom út úr þeirri rannsókn.
Þá ákvað ég að reyna að gleyma fluguskömminni. Hjólaði heim og reyndi að gleyma mér við áhugaverð verkefni. Því ekki hugnaðist mér sú hugmynd að ég væri með flugu í höfðinu.
En flugan hélt uppteknum hætti næstu klukkustundirnar. Þegar ég hafði látið eiginmanninn vita hvað hann ætti að segja við sjúkraflutningamennina ef ég skildi missa meðvitund af upprennandi bráðkveddu, hringdi ég í dóttur mína ljósmóðurina og lýsti flugunni fyrir henni. Lýsingin hafði örugglega staðið minna en mínútu þegar hún sagði mér að þetta væru vel þekktar sjóntruflanir sem oftast tengdust háum blóðþrýstingi eða mígreni. Hvorugt hef ég nokkurn tíma átt vanda til að fá, en þorði þó ekki annað en að renna við hjá dótturinni í blóðþrýstingsmælingu. Kom mjög vel út eins og ævinlega.
Dóttirin sagði mér að fara til læknis ef flugan hætti ekki að sveima eftir hálfan til heilan sólarhring. Og hún sveimar enn. Já já ég veit, - ef flugan sveimaði á tölvuskjánum, væri ég örugglega á leið með hana á "eplaverkstæðið". Ég fer (stundum a.m.k.) með hluti á verkstæði, en ef einkenni gera vart við sig innra með með sjálfri, þá sveiflast ég á milli þeirra hugmynda að eitthvað bráðdrepandi sé að mér, - og að þetta sé svo eðlilegt og ekki neitt að það sé kjánalegt að mæta með slíkt til læknis.
Svo er ég líka búin að ákveða hvað þetta er. Ég hef aldrei verið eins stressuð og síðustu vikuna áður en flugan gerði vart við sig. Og stress virkar stundum þannig, að líkamleg einkenni gera vart við sig þegar hætta er liðin hjá. Svo ég leyfi blessaðri flugunni bara að sveima þangað til hún fær leið á mér og fer eitthvert annað. Hún truflar mig ekkert rosa mikið. Mér finnst hún meira að segja dáldið fyndin.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.4.2010 | 20:47
Litla systir
Ég vaknaði mjög snemma morguns hinn 12.apríl fyrir nákvæmlega 50 árum síðan við það að móðurbróðir minn, þá 13 ára - var að drösla mér og frænku minni inn í litla herbergi í ömmuhúsi. Ég var þá þriggja ára (langt gengin í fjögra) og frænka mín tæpu ári yngri.
Móðir mín var þá skyndilega tekin til við að fæða barn sem átti ekki að koma í heiminn fyrr en hálfum mánuði síðar. Ömmuhús var á Stokkseyri - og barnsfæðingu þessa bar svo brátt að, að ekkert svigrúm myndaðist til að koma mömmu upp á Selfoss, heldur kom ljósmóðirin - sem bjó sem betur fer í þorpinu - í loftköstum í ömmuhús.
Og að sjálfsögðu myndaðist heldur ekki svigrúm til að koma okkur frænkunum í pössun. Því var hinn 13 ára frændi minn vakinn - og rekinn með okkur inn í litla herbergi, - og uppálagt að syngja fyrir okkur svo við heyrðum ekki í mömmu. Honum hafði líka verið stranglega uppálagt að syngja eins hátt (þ.e. sterkt) og hann gæti í hvert sinn sem mamma veinaði.
- Og það gerði hann samviskusamlega þessi elska. Umræddur frændi minn hefur mjög oft sungið fyrir okkur og með okkur í gegn um tíðina - og það alltaf bæði fallega og skemmtilega, nema í þetta eina skipti. Við frænkurnar störðum á hann eins og naut á nývirki, því í hvert sinn sem við byrjuðum að brosa af velþóknun yfir blíðum söngnum, - þá rauk hann eins og fífl upp í fff, (rosa sterkt samkvæmt Tónfræði Jóns Þórarinssonar).
Það mætti halda að þessi upplifun mín af fæðingu litlu systur minnar hafi lagt línurnar fyrir hennar framtíð. Með fullri virðingu fyrir öllum öðrum mannkostum hennar, - þá leyfi ég mér að fullyrða að hún geri ekkert eins vel og fallega og að syngja. Það mætti halda að í kollhríðunum hafi hún heyrt öskrin í honum frænda okkar og einsett sér að gera betur.
Og hvar er hún akkúrat núna. Nei hún er ekki að taka á móti afmælisgestum, þó það sé líka eitt af því sem hún gerir best. Hún er auðvitað að syngja. Á söngæfingu með Gospelkórnum sínum (stórhátíðin verður svo haldin á laugardaginn kemur).
Æ hvað mér finnst eitthvað asnalegt að sitja hér pikkandi á tölvuna - og fá tár í hvarmana við að hugsa til hennar, í stað þess að knúsa hana á sjálfan merkisafmælisdaginn.
Ég fer. 2x50 kílómetrar eru fáránleg afsökun. Ég lauma mér inn á æfinguna og hlusta á sönginn hennar eins og fluga á vegg. Þið lofið að kjafta ekki frá á meðan ég er á leiðinni.
Sæl að sinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.4.2010 | 16:51
Lífið er áskorun
Þannig að; - stuttu seinna átti maðurinn 38 ára afmæli, - og ég af minni alkunnu óþolinmæði gaf honum þann dag þennan líka fína kontrabassa í fertugsafmælisgjöf. Sá öngva ástæðu til að bíða með það í tvö ár. En við vorum ekki alveg jafn óþolinmóð að byrja að æfa saman. Munum næstum aldrei eftir þeim möguleika á lífsnautn. Höfum þó tvisvar troðið upp á jólahlaðborði.
Svo kom stóra tækifærið. Ég var beðin um að spila í brúðkaupsveislu (40 mínútna prógramm meðan gestirnir eru að ganga í salinn og byrja að borða), - og bauðst til að taka kontrabassaleikara með mér. Við plönuðum giggið í nokkrum stuttum "settum" til skiptis kb+pno, - og svo ég með nokkur sólólög inn á milli (gítarfingurnir ekki alveg komnir með bassastrengjasiggið).
Frá því ég sagði já við brúðkaupsveislugigginu og þangað til það brast á í gærkvöldi, var ég nánast á barmi taugaáfalls af stressi. Sagði aftur og aftur við sjálfa mig: Ég veit að lífið er áskorun, en það er samt hægt að ráðast á garðinn þar sem hann er aðeins lægri. Af hverju get ég ekki bara verið venjuleg miðaldra kona sem liggur uppi í sófa og hefur það huggulegt? Af hverju get ég ekki verið þessi "play-safe-týpa"?
Verst fannst mér að þetta bláókunnuga fólk sem við spiluðum fyrir stóð örugglega í þeirri meiningu að það væri að ráða til sín prófessional-dinnermúsík-spilara með reynslu (sem eiginmaðurinn hefur reyndar á gítar). En ég er bara prófessional kennari, - ekki hljóðfæraleikari, - og þóttist viss um að ég stæðist engan vegin þær væntingar sem til mín væru gerðar. Af hverju í ósköpunum sagði ég þá ekki nei? Góð spurning.
Eftir þrotlausar daglegar æfingar og annan undirbúning hófust herlegheitin. Við byrjuðum vel. Mér varð að ósk minni; - stöðugt skvaldur var í salnum, sem mér fannst gott að fela mig í. Og ég leyfði mér að njóta þess að spila. Í lok sjötta lags (sem var sólólag) kom veislustjórinn og sagðist ætla að tala núna. Þegar hún hafði lokið velkomin-ávarpi sínu byrjaði ég á næsta lagi, sem var n.b. það lag sem ég var óöruggust með (ég vildi samt alls ekki sleppa því af því það er svo skemmtilegt). Þá uppgötva ég mér til skelfingar að það er þögn í salnum. OMG - af hverju beið ég ekki með að spila þangað til skvaldrið var byrjað. Og yfir mig helltist þvílíkt panikástand að lagið fór í rúst. Ég reyndi að gera það sem ég hafði ákveðið fyrirfram, halda bara áfram að spila eins og ekkert hefði í skorist, en mér tókst ekki með nokkru móti að bjarga mér. Stökk að lokum á einhvern aulalegan endi og gaf svo eiginmanninum örvæntingafullt augnaráð að koma og hefja næsta "sett".
Mér er ómögulegt að skilja hvernig í ósköpunum mér tókst að halda áfram með prógrammið (bæði samspil og sóló) eins og ekkert hefði í skorist. En síðan hef ég verið á megabömmer - og heltekin hugsuninni: Ég get aldrei komið á billann aftur (sbr. Dúddi í Með allt á hreinu).
- Þangað til núna fyrir augnabliki (í miðjum þessum skrifum) að vinkona mín (sú eina sem ég þekkti í veislunni) hringir til að þakka mér innilega fyrir síðast. Mikið hafi þetta nú verið frábært hjá okkur. "Við vorum sammála um það öll við mitt borð að þið væruð algjörir snillingar sem við getum heldur betur mælt með. Svo vel og skemmtilega spilað - og frábær stemmning sem skapaðist".
Ég: Þú ert að grínast er það ekki?
Hún: Nei af hverju ætti ég að vera að því? Þetta var ferlega flott.
Ég: Ertu að segja mér að þú hafir ekki heyrt lagið sem ég klúðraði svo hressilega - og það á versta augnabliki, í einu þögninni sem skapaðist?
Hún: Ertu að meina lagið sem kom á eftir ávarpinu? Ég heyrði að þú byrjaðir aftur og hoppaðir yfir eitthvað en það var ekkert mál. Það tók örugglega enginn eftir því.
Ég: Ertu að reyna að telja mér í trú um að mér hafi ekki tekist að rústa brúðkaupsveislunni fyrir þessum saklausu hjónum?
Hún: Hættu að bulla Laufey, þetta var ferlega flott og ekkert annað. Og það hlustaði enginn eins vandlega og ég.
Svo nú er ég í vanda stödd. Get ég virkilega trúað því sem vinkonan segir? Ég sem var byrjuð á massívri meðferð við stærstu skömm lífs míns. - Byrjuð að hamra á því við sjálfa mig, sem ég hef oft sagt við aðra: - Að mistök séu áhrifaríkasta námsefnið í lífsins skóla, ef maður notar þau sem slík (þ.e. lærir af þeim). Ég var meira að segja farin að plana 9.sporið á brúðhjónunum.
Ég held ég velji hvort tveggja. Reyni að trúa vinkonunni, - og reyni líka að læra af þessum mistökum (klúðri - reynslu - whatever).
Legg ekki meira á ykkur.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.4.2010 | 00:35
Páskafrí
Það er ýmist langt eða skamm stórra högga á milli. Í seinni tíð er eins og ég sé alveg hætt að blogga, en loksins þegar ég fer aftur af stað, þá eru það 2 færslur sama kvöldið. Það mætti halda að ég væri komin í páskafrí.
Loksins að ég þori að nefna páskafríið. Ég er nefnilega í forréttindastétt, þ.e. kennarastétt og er því alla dymbilvikuna í fríi. En nú eru "venjulegar" vinnandi stéttir líka komnar í páskafrí, svo ég óska ykkur öllum til hamingju með það.
Reyndar hef ég alltaf haldið því fram að samviskusamir kennarar (já t.d. ég að sjálfsögðu) séu ekkert of góðir af þessum löngu fríum. Maður er alltaf orðin illilega langþreyttur þegar þau loksins bresta á, auk þess sem maður hefur oftar en ekki frestað einu og öðru, sem manni veitir ekkert af smá "fríi" til að sinna.
Og þetta páska"fríið" hef ég svo sannarlega nóg af verkefnum á minni könnu. Nei ég er ekki bara að tala um kennsluverkefnin, rykið heima hjá mér - og út-í-bæ-erindi (t.d. heimilistækjakaup). Ég var nýlega beðin um að spila í brúðkaupsveislu, nokkuð sem ég hef aldrei gert áður - og þarf því að æfa frá grunni. Og þar sem brúðkaup þetta verður haldið í vikunni eftir páska fannst mér þetta ekta verkefni fyrir mig, - ég hefði allt páskafríið til að æfa mig.
Síðustu árin hef ég reyndar alltaf tengt páskana við unaðsdvalir á Hótel Glym. Við hjónin vorum þar nokkra páska í röð, þar sem eiginmaðurinn var að spila "undir borðum".
En nú veit ég ekki betur en að þar sé detox-námskeið í gangi. Í heila 11 daga. Og við hjónin erum auðvitað svo yfirmáta ofurhrein, eftir alla hollustumataræðisáráttu húsmóðurinnar að við þurfum ekkert á slíku að halda. Enginn hroki í minni (hm hm). Ekki heldur öfund út í þá sem hafa tíma og pengina í svona lagað.
En í alvöru, þá held ég að þetta sé alls ekki svo galið. Mér var boðið á "sýnishorn" af svona námskeiði þar uppfrá, einn sólarhring í janúar. Var örlítið skeptísk, af því þetta er nú eitt af því sem er dáldið töff að vera með fordóma gagnvart. En sólarhringur á Glym er ekki eitthvað sem maður slær hendinni á móti, það er alveg á hreinu.
Svo ég þáði gott boð - og mætti á staðinn án væntinga og án fordóma. Og þetta var mun merkilegra en mig hefði grunað. Ég þóttist nú vita ýmislegt, eins og t.d. það að maður fær mun meiri orku úr grænmeti en úr þyngri mat - en samt var dáldið merkilegt að finna það svona greinilega.
Nei kjánarnir ykkar, - ég fór ekki í ristilskolun. Maður gerir það ekki á sólarhringsnámskeiði. En það er von að þið hafið mestan áhuga á því, - þið sem eruð búin að gúffa í ykkur alls kyns draslmat í gegn um tíðina (svona svona, það eiga auðvitað ekki allir að taka þetta til sín). En í alvöru, - okkur voru sýndar myndir af ógeðinu sem safnast fyrir í venjulegu fólki með árunum, - og þær myndir voru sko ekki fallegar.
Þið sem hafið áhuga, það er kannski of seint að skrá sig á páskanámskeiðið (nei ég er ekki á prósentum), en það verður örugglega annað námskeið síðar. Alla vega verður enginn svikinn af dvöl á Glym, hvert sem erindið er.
Best að vera rosa dugleg að æfa sig næstu daga. - Aldrei að vita nema ég fái að taka generalprufu fyrir Hansínu hótelstýru (já ég veit - drím on) - og smakka í leiðinni á einhverju grænmetisgúmmolaðinu. Að ógleymdu ozonvatninu.
Gleðilega páska gott fólk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.3.2010 | 23:49
Morgunmatargerð
Gerði stórinnkaup í gær. Keypti mér t.d. sérstakt fótabaðsfat, sem ég hef lengi þráð. Er orðin leið á að bíða eftir að einhver arfleiði mig að fótanuddtæki, sem allar geymslur í landinu áttu víst að vera fullar af. Svo nú hvíli ég lúna fætur ofan í heitu góðu vatni. Unaðslegt.
En ég keypti mér líka tvö heimilistæki. Örbylgjuofn og blandara, í staðin fyrir ónýtu eintökin. Var svo heppin að fá hvort tveggja á sértilboði. Blandarann fékk ég meira að segja á aukaafslætti, af því að þetta var sýniseintak. Sem þýddi auðvitað líka að ég þurfti ekki setja hann saman - og lesa leiðinda manúal (hann fylgdi ekki einu sinni með).
Það var spennandi að fara fram úr rúminu í morgunn til að prófa nýju græjurnar. Setti fyrst berin og bananann út í blandarann - og helti síðan hálfum lítra af sojamjólk út í. En hugurinn var greinilega ekki orðinn skýr - og stírurnar enn í augunum, því ég áttaði mig ekkert á því að blandarinn var ekki almennilega skrúfaður saman, - svo mjólkin rann öll niður eftir nýju græjunni og út á borð. Ég hefði sötrað mjólkina upp af borðinu, ef hún hefði ekki verið á hraðferð út á gólf. Svo hún lennti öll í tuskunni.
Eftir að hafa bjargað ávöxtunum í skál, þurrkað upp alla mjólkina og þrifið nýju græjuna, skrúfaði ég hana sundur og saman aftur og hóf síðan tilraunir með vatni. Og viti menn. - Græjan hélt vatni eftir að ég hafði farið um hana höndum.
Og hófst þá taka tvö. Ofurvarlega hellti ég mjólkinni út á ávextina. Allt í sóma. Setti græjuna af stað og wöttin 500 þeyttu þennan fína sjeik á örfáum sekúntum. Ég skrúfaði könnuna lausa og ...... - úps, - þessi gæðasjeik lak niður úr botnlausri könnunni, niður eftir græjunni og út á borð. Já ég sagði botnlausri. maður á greinilega ekki að skrúfa þessa könnu lausa, heldur bara kippa henni upp. "Það var ekki sagt mér". Enda hafði ég ekki fengið neinn manúal til að lesa, eða ekki lesa. Ég hefði alla vega skoðað myndirnar - og ég skil svona örvar á myndum, sem segja hvort þú átt að snúa eða lyfta.
Þegar þarna var komið sögu var ég orðin dáldið svöng - og óþreyjufull eftir mínum morgunmat, auk þess sem ég er að eðlisfarin óhemju nýtin kona, þannig að auðvitað sötraði ég eins mikið og ég mögulega gat upp af borðinu. Svo hófust þrifin.
Það sem ég sötraði upp af borðinu saddi mig ekki alveg, svo í tilraun 3 lagaði ég hálfan skammt. Drakk hann úr bolla.
Og nú er bara að sjá hvort græjan fer í gang í fyrramálið - og hvort ég fæ nokkuð skaðlegan straum. Það var nebbnilega soddan vesen að þrífa hana, að ég freistaðist til að láta leka á hana undir krananum. Já hvað er þetta, - tuskan nær ekki öllu.
Eftir að tilraun 3 var komin í bolla þurfti ég að sjálfsögðu að laga mér kaffi. Og hita sojamjólkina í nýja örbylgjuofninum. Afgreiðslumaðurinn hafði sagt mér allt sem ég þurfti að vita: Stilla á microwave, velja sekúntufjölda og ýta á start. Sem ég og gerði, en ofninn fór ekki af stað. Í því kemur heimasætan á fætur. Ég bar mig illa, svo hún byrjað að fikta í ofninum, sem fór samstundis af stað. "Hvað gerðirðu" spurði ég. "Það veit ég ekki" sagði hún bara eins og ekkert væri eðlilegra. En mjólkin mín hitnaði, meðan pizzaljós blikkaði á ofninum. Þegar ég svo ætlaði að hita sojamjólk í seinni bollann gerðist það sama. Ofninn hafði að engu mín fyrirmæli, en fór af stað um leið og heimasætan byrjaði að fikta.
Ég trúi því ekki að ég neyðist til að lesa manúalinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)