4.2.2010 | 18:41
Tryggingar
Lennti í árekstri fyrir tæpu ári síðan. Hélt fyrst að ég hefði ekkert meitt mig, en svaf svo ekkert fyrir verkjum nóttina eftir. Fór á læknavaktina til skoðunar og skrásetningar. Læknirinn taldi (aðspurður) að sjúkranudd mundi mjög líklega linna þjáningar mínar og jafnvel lækna alveg - og það urðu sem betur fer orð að sönnu.
Þar sem ég var í 100% rétti, taldi ég mig eiga rétt að endurgreiðslu frá tryggingafélaginu á greiðslum mínum til sjúkranuddarans. Og þá hófst hundleiðinlegt (vægast sagt) ferli þar sem þeir sendu mig endalaust á milli Pílatusar og Heródesar: Vörður (tryggingafélagið) - Læknavaktinn - Heimilislæknirinn - Vörður - Sjúkrþjálfun Reykjavíkur - Vörður - Heimilislæknirinn - Vörður - Sjúkraþj. - Vörður - Heimilislæknirinn - Sjúkraþj. - Vörður.
Loksins þegar ég var komin með alla réttu pappírana frá réttum aðilum, að beiðni Varðar, - sest ég með feginsandvarpi í stólinn gengt manninum sem sér um þessa hluti, fullviss um að málið sé loks í höfn - og nú muni ég fá umbun erfiðis míns.
"Tryggingarnar borga ekki sjúkranudd, bara sjúkraþjálfun" segir þessi almennilegi maður þá.
Ég vissi ekki strax hvort ég ætti að hlæja eða gráta. "Þú ert að grínast er það ekki"?
Nei hann var ekki að grínast, en tilkynnti mér umsvifalaust að það væri ekki hann sem setti þessar reglur.
Þá fékk ég málið: Mér er alveg sama hver setur þessar reglur. Það er skyldutrygging á bílum, svo maður fái bætt það tjón sem aðrir í umferðinni valda manni. Ég veit að daglega borgið þið fólki margar milljónir og fleiri hundruð og fimmtíu þúsund, - þ.e. fólki sem kann á kerfið og leitar sér lækninga hjá RÉTTUM aðilum, þó þeir séu oft á tíðum miklu dýrari. Ég varð fyrir þessum skaða, sem læknir ráðlagði ákveðna meðferð við. Meðferð sem virkaði og kostaði litlar 31.200 krónur. Ég fer ekki fram á meira.
Maðurinn lét eins og hann hefði samúð mér - og kvaðst skilu gera hvað hann gæti til að koma málinu í gegn. En lét mig þó vita að svona mál hefðu farið fyrir dóm og ekki unnist.
Til hvers í /&%/$%&#$%6&/((/%&# er maður að borga tryggingar?
Ég bara spyr.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.1.2010 | 00:11
Flugeldasýning
Þessi hugsun sló mig enn einn ganginn á hinni árlegu flugeldasýningu KR núna áðan. Hún var ofboðslega falleg eins og alltaf, - og maður bara stóð og horfði og naut og dáðist að.
Á gamlárskvöld eru hins vegar allt of margir að eyða óheyrilegum upphæðum í alls kyns ómerkilegt "fireverk", sem þeir kveikja í þannig að hávaða- og reykmengun fer gjörsamlega úr böndunum. Og ef maður tekur áhættuna á heyrnar- og öndunarfæraskemmdum (auk þess sem önnur og verri óhöpp geta alltaf hent, skeð og átt sér stað undir þessum kringumstæðum) - og finnur góðan útsýnisstað, þá má greina eitt og eitt fallegt ljós á himni í gegn um allan reykmökkinn.
Ég geri ekki ráð fyrir að 12-14 ára strákar séu sammála mér. Þeir vilja flestir - andstætt við mig - hafa mikið af hávaða og reyk - og gefa ekki mikið fyrir ljósadýrð á himni. Og sumir (já já stelpur líka) vaxa aldrei upp úr því að vera 12-14 ára strákar á gamlárskvöld.
Samt finnst mér hugmyndin mín góð. Og þegar ég fæ góðar hugmyndir, þá finnst mér auðvitað að allir ættu að vera sammála um það sem mér finnst (svona svona - látið ekki eins og þið hafið ekki húmor fyrir svona yfirlýsingum).
Að lokum: Ástarþakkir KR-ingar fyrir þessa frábæru sýningu sem gladdi auga mitt og geð. Eins og sýningar fyrri ára hafa líka gert.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.12.2009 | 02:26
Annáll ársins
Ég vil byrja á að biðja mína fjölmörgu aðdáendur nær og fjær innilegrar afsökunar á allt of langri fjarveru minni hér í bloggheimum. Og nú er heldur betur ástæða til að hrista pistil fram úr erminni. - Kominn sjálfur gamlársdagur og þá finnst minni tilhlýðilegt að rifja upp það markverðasta á árinu. Og það eru nokkur atriði sem standa upp úr.
Ég eignaðist þriðja barnabarnið í janúar. Og það var fyrsta barn sonar míns og hans konu. Eins og fram hefur komið á þessari síðu, þá er ég einstaklega þakklát fyrir hvursu ég oft ég hef fengið að njóta samvista við drenginn þann, þar sem þau búa langt úti á landi.
Annað eftirminnilegt frá árinu er úlnliðsbrotið. Stóra spíran í hægri hönd píanókennarans hrökk í sundur alveg við úlnliðinn í afar skrautlegu slysi á heimavelli. Ef svo ólíklega vill til að þið viljið rifja upp ýtarlegri lýsingar á því óhappi, þá bara skrolliði niður síðuna og aftur til 19.júni.
Að öðru skemmtilegra. Jazzhátíðin í Reykjavík var óvenju vegleg og skemmtileg þetta haustið. Ekki bara það að hátíðin stóð óvenju lengi, eða 20 daga vegna 20 ára afmælis hátíðarinnar. Ekki heldur bara það að flytjendur voru óendanlega flinkir og flottir. Heldur líka hitt, - að spilagleði flytjenda var alveg mögnuð. Minnti mig dáldið á Rokk í Reykjavík stemmninguna, nema hvað þessir flytjendur eru auðvitað svo miklu miklu flinkari. Þökk sé FÍH-skólanum sem hefur útskrifað ótrúlega marga bráðflinka jazztónlistarmenn síðustu 10-20 árin. Til viðbótar kom svo líka taumlaus gleði áheyrenda. Það voru sko allir komnir til að skemmta sér. Mér fannst eins og það gæti verið eitt af jákvæðum einkennum "kreppunnar".
Eitt af séreinkennum þessa árs er mjög sorglegt. Það hafa óvenjumargir dáið í kring um mig. Allt of margir. Sumt er auðvitað eðlilegt, eins og með eina af mínum allra bestu vinkonum sem var orðin 91 árs. Það var samt mjög sárt að missa hana og ég sakna hennar mikið. Hitt var öllu skelfilegra hvað mikið af ungu fólki dó mjög skyndilega. T.d. nánasta og besta vinkona bróður míns (48 ára). Og yndislegur ísfirskur vinur minn (og sonur vinkonu minnar) nýlega 40 ára (höfundur listaverksins hér á myndinni). Að ég tali nú ekki um 18 ára frænda minn sem dó í hræðilegu vinnuslysi í maí. Og margir fleiri t.d. fyrrum samkennari, fyrrum nemandi og maki samkennara.
En árið hefur samt verið einstaklega gott að svo mörgu leyti. Mér finnst ég aldrei hafa verið ánægðari og hamingjusamari. Ég er óhemju þakklát fyrir svo margt. Fyrst og fremst alla þessa stórkostlegu einstaklinga í minni nánustu fjölskyldu. Góða heilsu og líðan, góða vinnu og ég gæti haldið lengi áfram.
Slæ botninn í þennan pistil með því að sýna ykkur mynd sem ég tók af frábæru listaverki sem vinkona mín færði mér í dag. Við tókum helling af myndum af hvor annari þar sem við sátum á kaffihúsi á afmælisdeginum hennar nú í ágúst. Svo "fótósjoppaði" hún 4 þeirra svona bráðskemmtilega saman, prentaði þær út á striga og málaði í kring. Það er ekki víst að ég sé að segja rétt frá aðferðinni, enda er það aukaatriði. Aðalatriðið er að myndin er svo stórkostleg, að ég tylli ekki í jörðina af gleði.
Vona að nýja árið beri mörg stórkostleg tækifæri í skauti sér. Bið ykkur að hafa augun opin fyrir þeim tækifærum og nýta þau til stórfenglegra hluta.
Gleðilegt nýtt ár elskurnar og takk fyrir það sem er að líða.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.11.2009 | 11:22
Engin aukaamma
Föstudaginn 20.nóvember 1998 varð ég amma. Frumburðurinn minn eignaðist þá frumburðinn sinn sem á 11 ára afmæli í dag. Þessi mynd er tekin fyrir sléttu ári, þegar hann fékk lifandi töframann í 10 ára afmælisgjöf.
Nú eru ömmubörnin orðin þrjú (ásamt einu 15 ára stjúpömmubarni sem ég fæ með engu móti til að kalla mig ömmu. Hann á svo margar aðrar). Og ég er einstaklega lánsöm amma. Aðalatriðið er auðvitað það að þau eru heilbrigð og yndisleg í alla staði. Og búa hjá frábærum foreldrum, svo ég þarf öngvar áhyggjur af þeim að hafa.
En ekki bara það. - Vér ömmur erum auðvitað eigingjarnar og viljum hafa ungana nálægt okkur. Og ég er svo einstaklega heppin að frumburðurinn hefur þessi 11 ár búið í 105, svo ég get auðveldlega haft mikið og gott samband við börnin hennar. Enda eru þau frábærir vinir mínir.
En fyrir tæpu ári, rétt áður en sonarsonurinn fæddist, helltist yfir mig kvíði yfir því að hann kæmi alltaf til með að búa á Ísafirði og mundi því ekki ná að kynnast mér og tengjast mér náið. Auk þess sem börn hafa oftast meiri samband við fjölskyldu móðurinnar, - og móðuramma þessa drengs býr í næsta húsi við hann þar vestra.
En kvíði minn var sem betur fer ástæðulaus. Morguninn eftir að hann fæddist (14.jan), flaug ég vestur og knúsaði hann stöðugt í sólarhring. Kenndi honum að þekkja snertinguna, lyktina og röddina hennar ömmu í Reykjavík (dóttir mín ljósmóðirin setti upp strangan svip þegar hún heyrði þetta). Og ég er svo heppin að hafa hitt hann í hverjum mánuði nema apríl og september (bý mig undir að desember detti líka út). Og það er gagnkvæm ást á milli okkar. - Ekki spurning.
Ég er því engin aukaamma. Hef verið svo lánsöm að ná að tengjast öllum mínum ömmubörnum nánum tilfinningaböndum. Og öll eru þau einstaklega dýrmætir gleðigjafar, sem sækjast eftir mínum félagsskap. Það er ekkert sjálfgefið.
Vá hvað mér létti þegar frumburðurinn hætti við að flytja með sína fjölskyldu til Hong Kong. Sei nó mor.
Og nú er blásið til veislu!! 11 ára afmælisveislu . Ég hlakka til
Góða helgi elskurnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.11.2009 | 10:50
Vel gift.
Eiginmaðurinn fékk vetrarfrí (frá mér hvað? - auðvitað frá kennslunni kjánarnir ykkar) um síðustu mánaðarmót og dvaldi þá nokkra daga í sumarbústað með drengjunum sínum.
Hann var í bústaðnum tveimur dögum lengur en drengirnir - og var þá búinn að kaupa dýrindis lambasteik og rauðvínsflösku, í þeirri von að ástkær eiginkona hans mundi láta svo lítið að dvelja hjá honum eina rómantíska kvöldstund og gista eina nótt.
En eiginkonunni hentaði betur að mæta á meðan drengirnir voru ennþá á staðnum, taka með sér tvö börn til viðbótar og hverfa af vettvangi nálægt háttatíma.
Þetta var unaðsleg fjölskylduferð, við vorum öll sammála um það. - En maðurinn hafði líka vonast eftir smá rómantík. Og hvað gerir hann þá? Drekkir sorgum sínum í rauðvíninu og gæðir sér einn og sér á stórsteikinni þessa tvo daga sem hann var einn í bústaðnum að æfa sig á gítarinn?
Nei nei, þessi elska kemur heim með veisluföngin, - ákveður að elda rómantískan kvöldverð handa ástinni sinni hér heima, - og fær meira að segja heimasætuna til að panta pítsu heim til kærastans, svo að vér hjónin getum rómantíkast tvö ein.
En þá vill ekki betur til en svo, að farið er að slá í stórsteikina (auðvitað stillti ég mig um að segja; æ tóld jú). Eitthvað sem gamlir Vestfirðingar mundu nú ekki setja fyrir sig, en við nútíma Reykvíkingar viljum hafa kjötið okkar ferskt.
Og hvað gerir þessi elska þá? Verður fúll og segir; þér hefði verið nær að dvelja með mér í sumarbústaðarómantíkinni meðan kjötið var ferskt og gott?
Ó nei, - hann segir ekki eitt orð um ástand stórsteikurinnar, heldur tilkynnir mér að rómantíski kvöldverðurinn muni ekki snæddur heima að þessu sinni, heldur á veitingastað úti í bæ. Og það var sko enginn skyndibitastaður sem hann bauð ástinni sinni að borða á þetta miðvikudagskvöldið, heldur klassastaður með fallega dúkuðum borðum og einstaklega girnilegu "þúsund rétta" hlaðborði.
Meðfylgjandi mynd er tekin á Laugarvatni í fyrrasumar.
Ég bara segi enn og aftur: Við eigum það sameiginlegt hjónin að vera mjög vel gift.
Lifið heil.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.10.2009 | 10:29
Brúðkaupsafmæli.
Við hjónin eigum brúðkaupsafmæli í dag. Jú kjánarnir ykkar, auðvitað er ég að tala um þriðja og síðasta brúðkaupið mitt. Afmæli þýðir að maður mælir hvursu lengi eitthvað hefur staðið, eða hvursu lengi einhver hefur lifað (þess vegna tala ég alltaf um fæðingardaginn hans pabba míns, eða afmælisdaginn sem hann átti).
Meðfylgjandi mynd af okkur hjónunum er hins vegar ekki tekin á brúðkaupsdaginn, heldur á fimmtugsafmælisdaginn minn (sem var í gær eða fyrradag). Á þeirri stórhátíð samdi sonur minn og söng unaðslegar níðvísur um aldraða móður sína. Læt eina af limrunum 7 fylgja með í tilefni dagsins:
Þið trúið því varla um fimmtuga frúna,
en hún fann sér einn mann og svo annan - og er bún´að
vera gift og svo skilin
og svo gift og svo skilin
og svo gift, en ég held hún sé hætt þessu núna.
Góða helgi elskurnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
5.10.2009 | 21:38
Panik á peysunni.
Eftir að vinkonan kvaddi rétt fyrir 11, hafði ég hraðar hendur við minn hefðbundna kennsluundirbúning, fékk mér svo hádegismat og fór síðan í sturtu og hrein föt. Hitamælirinn hafði sýnt eitthvað nálægt frostmarki þegar ég fór á fætur, en sú tala var eins og hver önnur olía á eld minnar andstöðuþrjóskuröskunnar. Ég ákvað semsagt að það væri upplagt að nota þetta síðasta tækifæri hinnar mildu og hlýju haustblíðu til að klæðast þunnum leggings, örþunnri ofurfleginni blússu og ennþá þynnri opinni v-hálsmálspeysu. Að sjálfsögðu var ég svo berfætt í opnum inniskónum. Þannig búin hélt ég á síðustu stundu út í Yarisinn (skammtaði mér semsagt frekar naumt tímann til að keyra að skólanum við Vífilstaðahlíðina, og stilla upp 4 rafmagnspíanóum, ásamt tilheyrandi snúrufargani og fleiri fylgihlutum).
Ég á aldrei eftir að gleyma panikinu sem greip mig þar sem ég stóð úti á gangstétt og mundi eftir bílnum sem ég hafði gleymt að sækja upp í Þingholt.
Ég var eina og hálfa sekúntu að afskrifa hugmyndina um leigubíl. Fyrir utan verðið (að vísu er langt síðan ég hef kynnt mér taxtann) yrði hann allt of lengi að sækja mig og keyra gegn um miðbæinn. Og ekki gat ég látið hann keyra mig beint í skólann, því Yarinsinn var fullur af hljóðfærum og bókum sem ég var búin að lofa nemendunum í dag. Auk þess sem ég þurfti síðar að ferðast á milli skóla á naumt skömmtuðum tíma.
Ég var því án umhugsunar búin að fleygja skólatöskunni ofan í hjólakörfuna og lögð af stað í loftköstum, hjólandi upp í Þingholt. Mér hefur aldrei fundist þessi tæplega tveggja kílómetra leið jafn löng og ÍSKÖLD. Þjótandi á ljóshraða gaf ég mér þó tíma til að velta því fyrir mér hvað ég væri búin að fá marga stöðumælasektarmiða.
Ég komst ekki hjá því að muna - á meðan ég var að læsa hjólinu við ljósastaur í Ingólfsstræti, að ég hafði gleymt að taka asmapústið. Eins gott að ég mundi það ekki á miðri leið, - þá hefði ég líklega fengið banvænt asmakast og ekki komist lengra. Ég finn ennþá til berkjunum.
Ég mætti í kennslustofuna stundvíslega um leið og ég átti að byrja að kenna. Og þá átti ég eftir að róta. En þar sem ég er þaulvanur kennari, auk þess að vera kona sem getur gert a.m.k. þrennt í einu, tókst mér að leiðbeina nemendunum í fyrsta hópnum við skrifleg verkefni á meðan ég var að róta. Já ég leyfi mér að fullyrða að nemendurnir hafi ekki borið nokkurn skaða af þessum ósköpum.
Jú auðvitað dauðskammast ég mín fyrir að segja opinberlega frá þessu. En þar sem ég er nú búin að vera kennari síðan skömmu fyrir Krist - og þetta er bara í annað skiptið sem ég mæti svona seint, þá vona ég að þetta sé og verði fyrirgefið (mér vitanlega tók enginn eftir að ég væri sein).
Bið ykkur að hafa mig afsakaða meðan ég stend upp frá tölvunni, klæði mig í lopapeysu, KRAFTGALLANN, ullarsokka, kuldaskó, húfu, trefil og vetlinga, - og fæ eiginmanninn eða heimasætuna til að skutla mér upp í Þingholt að sækja hjólið.
Lifið heil.
Bloggar | Breytt 20.11.2009 kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.9.2009 | 10:31
Á bílþaki - seinni hluti
Fyrir rúmum tveimur árum - á fæðingardegi látinnar móðursystur minnar - fórum við mamma í okkar árlega ratleik um kirkjugarðinn í Fossvogi. Þ.e.a.s mamma var ennþá í sínum hefðbundna ratleik, en ég hafði auðvitað haft vit á að hringja í skrifstofu kirkjugarðanna og spyrja um númerin á leiðum ættingjanna. Og ég hef það frá pabba að vera bæði ratvís og flink á súlurit, kort og skemu.
Þennan sumardag var ég að passa barnabörnin. Móðir þeirra hafði harðneitað að ömmustelpan sæti í mínum bíl í barnabílstólnum sem ég hafði keypt þegar heimasætan var lítil - og bróðir ömmustúlkunnar síðan lengi setið í. "Það sér ekkert á þessum stól, hann er nákvæmlega jafn góður og þegar ég keypti hann" hafði ég sagt. "Mamma, plastið í svona stólum verður stökkt með árunum og samkvæmt *$#&*-staðli #$%&-reglugerðar &%$#*-samtaka $%#*-öryggisráðs, þá ábyrgjast þeir ekki öryggi þeirra svona mörg ár.
- Sem þýddi það. að bíll fylgdi barni. Þ.e.a.s til skamms tíma þurftum við mæðgurnar alltaf að skipta um bíl þegar ég var að passa ömmustelpuna, svo að hún gæti ferðast örugg í geimskipinu sínu sem var tryggilega boltað niður í aftursæti Subaru-legacy-station bifreiðar frumburðarins.
"Regnhlífarkerran er orðin dáldið leiðinleg, það gæti orðið basl að smella henni sundur og saman. - Þ.e.a.s. ef þér tekst að ná henni út úr skottinu, - það þarf orðið lagni við að opna það" sagði frumburðurinn um leið og hún kvaddi börn og skipti um bíl.
Mér tókst vel að opna skottið við Fossvogskirkjugarð, en regnhlífarkerran harðneitaði að smella nógu vel í sundur til að ég gæti fest öryggisplasthólkana yfir. Í staðin fyrir að halda í til þess gerð handföng, hélt ég því um öryggisplasthólkana og liðamótin sem þau áttu að loka - og spásseraði þannig milli leiða ættingjanna.
Ég var því orðin dáldið þreytt þegar við komum aftur að bílnum - og tilkynnti mömmu og börnunum að nú myndi ég bjóða þeim upp á ís í uppáhaldsísbúðinni í Fákafeni.
En þá vildi kerran - sem áður hafði neitað að smella sundur - ekki smella saman aftur. Ég hamaðist á henni þangað til börnin voru orðin pirruð, - þá ákvað ég að fleygja henni í þetta stóra station-skott. En þá gat ég ekki með nokkru móti opnað skottið.
Ég neyddist því til að setja kerruna frammí, og troða mömmu - með aðra mjöðmina splunkunýja, en hina ónýta, - á milli barnastólanna afturí.
Þegar við komum í ísbúðina finn ég ekki veskið mitt (handtöskuna). Ég uppgötva ég mér til mikillar skelfingar að í öllum hamaganginum við kerruna og skottdyrnar hafði ég lagt veskið frá mér upp á bílþakið. Og nú lá það auðvitað á bílastæðinu við Fossvogskirkjugarðinn, nema einhver væri nú þegar búinn að nappa því þaðan. Til að fullvissa mig, hringdi ég úr mömmu síma í minn síma - sem lét að sjálfsögðu ekkert í sér heyra, - enda staddur í allt öðru hverfi.
"Ég borga ísinn" sagði mamma, "svo leitum við að veskinu á eftir". Sem við og gerðum. Nema hvað veskið var hvergi á eða í námunda við umrætt bílastæði.
Þegar heim kom, hringdi ég beint í greiðslukortafyrirtækið til að láta loka kortunum, - og svo í lögregluna til að tilkynna veskishvarfið. Lögregluþjónnin sagði mér þá að ég skildi keyra aftur sömuleið og fá einhvern með mér á rúntinn til að svipast um eftir veskinu. - Það væri ótrúlegt hvað hlutir gætu tollað lengi á bílþaki. Veskið gæti verið hvar sem væri á leiðinni inn í Fákafen. (Viðkomandi lögregluþjónn vissi greinilega ekki að undirrituð er þekkt fyrir að keyra eins og bankaræningi á flótta).
Eiginmaðurinn samþykkti að koma með mér á rúntinn. Þegar ég kem út úr húsi, stendur hann við Súba-Rúnu og bendir á veskið mitt sem liggur ofaní spojler (eða hvað hún nú heitir, breiða bríkin aftast á bílþakinu), með ólina krækta um einhvern loftnetstitt á miðju bílþaki.
Hvernig farsímanum tókst að hoppa upp úr lokuðu veskinu og lenda Guð-má-vita-hvar, er mér hins vegar hulin ráðgáta.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.9.2009 | 10:15
Á bílþaki.
Fyrir nokkrum árum fór ég ásamt bestu-vinkonu að heimsækja sameiginlega vinkonu okkar á Selfossi. Þetta var árlegur viðburður til skamms tíma og stóðu heimsóknir þessar frá því síðdegis á laugardegi og fram yfir hádegi á sunnudegi.
Þegar ég er ferðbúin, rifjast það upp fyrir mér að í þessum ferðum gerist það alltaf, að ég er að vanda hrókur alls fagnaðar fram að miðnætti eða svo, - en druslast svo á þrjóskunni einni saman við að sitja í sófanum langt fram á nótt, svo ég missi ekki af neinu sem þær eru að segja. - Það tekst misilla, svo aftur og aftur missi ég tökin á vökustaurunum, - og þá fer mig að dreyma framhald á slúðrinu, - og verð svo rosalega hissa þegar ég losa um svefninn og frásagnir þeirra eru ekki í beinu framhaldi af draumunum mínum.
Á morgnana ligg ég svo og læt mér leiðast á meðan B-vinkonurnar liggja og hrjóta langt fram á dag.
Þar sem ég stend þarna ferðbúin fæ ég þá frábæru hugmynd að nú skuli verða breyting á. Í bítið á sunnudagsmorgninum muni ég fá mér góðan göngutúr í Stokkseyrarfjörunni minni áður en The B´s ná að rumska.
Svo ég gríp gönguskóna með mér og dríf mig af stað.
Þar sem ég er stopp á rauðu ljósi í miðbænum og syng hástöfum með skemmtilegri tónlist í útvarpinu, - liggur mér við hjartaáfalli, þegar maður nokkur bankar á rúðuna hjá mér.
"Þú ert með skó á þakinu" segir maðurinn!!
Já hvað er þetta, - ég gat ekki opnað bíldyrnar með báðar hendur fullar.
Stuttu seinna hringdi maðurinn minn í vinnuna til mín og spurði hvort ég ætlaði að borða kjúklingasalat í hádeginu. "Já. - Af hverju?" spurði ég. "Það liggur á bílastæðinu hérna heima", sagði hann. "Þú mátt ekki taka svona harkalega af stað Laufey mín, ef hádegismaturinn þinn á að tolla á bílþakinu alla leið til Njarðvíkur".
Af hverju er ég að rifja þetta upp núna? Jú, vegna þess að nú um daginn var ég að bakka út af bílastæði við Bónus. Hrekk í kút og snarbremsa þegar það er flautað rétt hjá mér. Sé bílstjóra rétt hjá mér horfa á mig með óskiljanlegu handapati. Ég skil ekkert og ætla að halda áfram. Þá flautar hann aftur og handapatar meira. Þegar hann áttar sig á því hvað ég er léleg í táknmálsfræðum, stígur hann út úr sínum bíl, gengur að mínum bíl, opnar bílstjóradyrnar (vá, - þá stóð mér ekki alveg á sama) og rétti mér stóra Cheerios-kassann sem ég hafði skilið eftir uppi á þaki.
Síðasta "á bílþaki-sagan" kemur í næsta bloggi.
Góða helgi elskurnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.8.2009 | 16:21
Astraltertugubb.
Þegar við heimasæta og ömmudrengur settumst inn í Yarisinn í gærkvöldi, settumst við inn í þvílíkan fnyk, að heimasætan rauk samstundis út úr bílnum með orðunum; OOJJJ, ég gæti gubbað. "Já einmitt, þetta er einmitt gubbulykt" sagði ömmudrengurinn þá.
Við skyndirannsókn uppgötvaði ég litla hvíta ógeðsbletti á mottunni fyrir aftan farþegasætið. Rak nefið langleiðina ofaní blettina, - og jú, það var ekki um að villast, - stæka gubbulyktin kom af þessum blettum.
Ég fleygði mottunni út á gangstétt, svo heimasætan gæti sest um borð, og svo þutum við á eftir stórum hluta fjölskyldunnar, sem var lögð af stað á öðrum bíl í átt að ísbúðinni.
Á leiðinni veltum við fyrir okkur hvernig í ósköpunum gæti staði á þessum viðbjóði. "Ég held að það hafi gleymst að læsa - og einhver róni komist inn í bílinn og gubbað" sagði ömmudrengurinn. Akkúrat sama paranojan sem hafði gripið um sig hjá okkur mæðgunum, en hvorug hafði þorað að nefna.
Ég skannaði ferðir mínar á bifreiðinn síðustu sólarhringa í þaula, án þess að komast að niðurstöðu um hvernig gæti mögulega staðið á þessum ósköpum. Heimasætan hafði verið í útlöndum - og enginn annar en eiginmaðurinn verið farþegi hjá mér. Hringdi í hann og spurði hvort hann hefði mögulega gleymt að læsa sín megin, eða hvort hann hefði einhverja hugmynd um hvernig gæti staðið á þessu. "Hefur ekki bara eitthvað matarkyns lekið og súrnað" sagði hann - allsendis áhugalaus um þátttöku í paranojunni minni, - enda staddur í náttúru-unaði á miðhálendinu.
Á heimleiðinni sagði heimasætan: Mig langar að horfa bráðum aftur á myndina Með allt á hreinu. "Þú ert semsagt líka með lagið Astraltertugubb á heilanum" sagði ég.
Þegar við komum heim úr ísbíltúrnum, tók ég mottuna með mér upp í baðkar og hófst handa við að skrúbba hana upp úr sjóðheitu vatni og rótsterkum hreinsiefnum. "Farðu í druslubol" sagði heimasætan þegar hún sá að ég var byrjuð á ógeðisverkunum í splunkunýjum hvítum kjól. Ég fór í gamla svarta kvennahlaupsbolinn frá 1998. Hann stendur alltaf fyrir sínu.
Svo skrúbbaði ég mottuna upp úr klór. Ég ber einlægt Kristilegt kærleiksþel til landsins róna - og var viss um að það væri ekki einn þeirra sem hafði gubbað í bílinn minn, heldur einhver stórhættulegur illa skemmdur dópisti, langt leiddur af lifrarbólgu, eyðni, og fleiri bráðsmitandi sjúkdómum.
Til öryggis skrúbbaði ég líka teppið undir mottunni upp úr Ajax og klór, áður en hrein og þurr mottan fór á sinn stað.
Í morgunn þegar ég fór að sækja frumburðinn á hádegisjazzinn, var gubbufnykurinn enn í bílnum. Sínu verri en í gærkvöldi ef eitthvað var. Við ætluðum varla að komast að Norræna án þess að kúgast, þó báðar rúður væru alveg skrúfaðar niður.
"Ertu búin að rannsaka almennilega undir sætinu" sagði frumburðurinn. "Þetta gæti hafa lekið þaðan". Mér fannst þessi athugasemd ekki mjög greindarleg, - hvernig í ósköpunum átti einhver manneskja eða dýr að geta gubbað undir sætið. Og ég sem hélt að frumburðurinn væri svo bráðgreind og lík henni mömmu sinni.
Þegar ég hef lagt Yarisnum við rauða húsið við hafið, - set ég höndina varlega undir farþegasætið til að færa það fram og aftur, - en þá verður mér það á að draga fram skúffu sem er undir sætinu og ég man sjaldnast eftir.
Og þar lá hundurinn grafinn.
Einhvern tíman í fyrndinni, líklega fyrir 3-4 árum síðan hafði ég plantað þarna 1/4 líters sojamjólkurfernu. Geymsluþolið átti að vera þó nokkurt, - en þó líklega ekki í árum talið. Svo nú var þessi ágæta ferna orðin illa haldin af höfnunartilfinningu, auk þess sem mjólkin var orðin sár og súr - og eftir að hafa þanið fernuna út til hins ýtrasta, fann hún sér leið út úr henni.
Umrædd skúffa liggur nú í Ajax-pækli í baðkarinu, ásamt mottunni sem vera á fyrir framan farþegasætið. En ég held ég sleppi klórnum, úr því ekkert er lifrarbólgueyðnidópistagubbið.
Rétt í þessu hringdi nágranni minn dyrabjöllunni, bara svona að láta mig vita að rúðurnar á bílnum mínum væru alveg skrúfaðar niður.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)