Hvorki móðursjúk, sjúkdómahrædd né fordómafull.

Nú á haustmisseri hef ég verið alveg ótrúlega frjálslynd og sveigjanleg nýtísku húsmóðir. - Leyfði loksins eiginmanninum að komast að í eldhúsinu og elda kvöldmat einu sinni í viku. - Á fimmtudögum. Það kom að sjálfsögðu til út úr tímabundinni neyð. 

Nema hvað. - Nú á fimmtudaginn var - þ.e. síðasta eldamennskukvöldið hans í þessari lotu, - bauð hann okkur mæðgunum að borða á veitingastað. Og af öllum þeim aragrúa veitingastaða sem í boði eru hér í 101, - þurfti hann endilega að velja Mexíkóskan stað.

Plís ekki halda að ég hafi fordóma gagnvart neinu sem frá Mexíkó kemur. - Ég hef meira að segja farið á þennan stað áður og líkaði mjög vel.

En akkúrat núna fyrir helgi, þegar móðursýkin gagnvart svínaflensunni stóð sem hæst, - fannst mér þetta ekki góð hugmynd. "Geturðu ekki valið einhvern annan stað, bara í þetta eina sinn" spurði ég eiginmanninn. "Heyrðu ég er að bjóða þér á þennan stað, - mjög gott tilboð, - djöst teik it or lív it" svaraði minn.

"Ertu búinn að spyrja hvort einhver úr þjónustu- eða kokkaliðinu sé nýkominn frá Mexíkó" spurði ég þá. "Laufey er ekki í lagi með þig?" spurði minn bara á móti. "Jú jú, ég er alla vega hvorki móðursjúk, fordómafull né sjúkdómahrædd, - en það er kannski óþarfi að stilla manni upp við vegg og láta mann sanna það" hugsaði ég og reyndi að bera mig vel.

Staðurinn var stappfullur af fólki. Það undraði mig mest. "Eins gott ég hringdi í hádeginu og pantaði borð, - þá var allt að verða upppantað" sagði minn. 

Stúlkan sem tók hjá okkur pöntun og færði okkur hnífapör og forrétt talaði ensku, en var alls ekki Mexíkósk í útliti. Þegar við mættum á staðinn tók ég eftir því að þessi sama stúlka var að rúlla hnífapörum inn í servettu.

Sá sem þjónaði á borðunum í kring um okkur var hins vegar mjög Mexíkóskur í útliti. Þegar hann spurði hvort hann mætti taka frá okkur (forréttar-)diskana, fannst mér það hið besta mál.

Þjónninn sem kom með aðalréttinn til okkar var hins vegar ennþá Mexíkóskari í útliti en sá sem þjónaði á næstu borðum. Mjög viðkunnalegur og almennilegur, en á háskólaaldri - og ég gat ekki annað en velt því fyrir mér hvort hann væri nýkominn úr páskafríi frá sínu heimalandi.

Og fyrst ég var nú mætt á staðinn þurfti ég auðvitað að panta mér aðalrétt sem innihélt beikon. "Þeir fara nú ekki að flytja beikonið á milli heimsálfa, þegar nóg er til af því hér á landi" sagði ég um leið og ég kyngdi fyrsta bitanum". En borðfélagar mínir voru sammála um að auðvitað væri beikonið úr Mexíkóskum svínum. Það skiptir engu máli, - flensan berst á milli manna en ekki frá dýrum, - minnti ég sjálfa mig á og reyndi að brosa og njóta matarins sem var jú virkilega góður.

Nú er kominn mánudagur og ég er enn við hestaheilsu.

Meðgöngutími svínaflensunnar er víst nokkur langur og maður getur verið einkennalaus í töluverðan tíma. Þannig að ef þið hættið að heyra frá mér, - þá .... Nei nei, - ekkert rugl. - Eins og ég sagði áðan, þá er ég hvorki móðursjúk, sjúkdómahrædd né fordómafull.

Lifið heil.

 

 


Farir mínar ekki sléttar.

Hjólaði til Hafnarfjarðar í fyrsta sinn nú nýlega. Gerði þann feil að taka mark á þeim sem sögðu að beinn og einfaldur hjólastígur lægi eftir þjóðveginum alla leið. Átti að byrja að kenna rúmum klukkutíma eftir að ég lagði af stað.

Strax við Öskjuhlíðina breyttist sá beini slétti stígur í stórgrýttan malartroðning, sem lá upp snarbratta hlíðina. Ég vildi ekki trúa að leið mín til Hafnarfjarðar lægi eftir þeim stíg, svo ég hélt á hjólinu yfir móa og mela uns ég gat troðið mér á mjóan malarkannt við þjóðveginn. 

Stuttu seinna var sá mjói malarkanntur allur, - og vegna þess að ég var hjálmlaus og staðráðin í að verða allra kellinga elst, - vogaði ég mér ekki út í brjálaða umferðina, - heldur tók ég farskjótann aftur undir arminn og bar hann yfir grasi grónar grundir - yfir á malbikaðan hjólastiginn sem ég hafði eygt álengdar.

Rann blíðlega niður í Fossvoginn og lét reyna á sterku lærin á leiðinni upp Kópavogshálsinn. 

En hvað nú? - Hvert liggur þessi stígur eiginlega? - Ég er á leið til Hafnarfjarðar, - ekki í vesturbæ Kópavogs. 

Enn og aftur tek ég fákinn undir handlegginn og hyggst æða  með hann yfir himinháa grasi vaxna hljóðmön. - En mæti þá grimmum augum fólks, sem vildi greinilega meina að hljóðmön þessi væri hluti af þeirra persónulega húsagarði. 

Sneypt og undirlút snéri ég því við með fákinn og stefndi (eftir stígnum) í átt að Kópavogskirkju, - sem var alls ekki í sömu átt og Hafnarfjörður. 

Svona hélt ferðin áfram. Ég uppgötvaði það á bakaleiðinn, að stígurinn liggur jú alla þessa leið, - en í þvílíkum krókaleiðum, - að þeir sem lögðu hann hafa greinilega verið sannfærðir um að fólk sem ferðaðist gangandi eða hjólandi, væri bara í líkamsrækt, - og vildi því endilega hafa sem brattastar brekkur og svo stóra króka að maður heldur að verið sé að vísa manni langt inn í íbúðarhverfi, sem lengst frá þjóðveginum. Það hefur greinilega ekki hvarflað að þeim að maður vildi einfaldlega komast hjólandi frá Reykjavík til Hafnarfjarðar.

Í Garðabæ liggur stígurinn þannig að maður þarf oftar en einu sinni að fara upp á brú og yfir þjóðveginn, - auk þess sem maður fer svo langt inn í íbúðarhverfi að saklaust fólk í vorverkum hrekkur í kút.

Í Hafnarfirði og víðar á leiðinni liggur stígurinn í mjög stóra króka kringum eitt tré, eða önnur fyrirbæri. Með fullri virðingu fyrir landslagsarkitektúr, - sem mér finnst skipta miklu máli, þá finnst mér mannlífið skipta enn meira máli. Og hluti af mannlífinu er jú að geta leyft sér þann munað að ferðast öðru vísi en á fjórhjólabifreið.

Mestalla leiðina var ég skíthrædd um að ég yrði mér til ævarandi skammar með því að mæta of seint. Ég var það stressuð að ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að stoppa til að líta á klukkuna.

Mér til mikillar furðu var ég mætt í vinnuna 17 mínútum áður en fyrsti tíminn átti að byrja. Eins gott, því það tekur mig 15 mínútur að róta.

Fyrsti nemandinn sem mætti sá ástæðu til að spyrja mig í forundran: Af hverju ertu svona blaut á bakinu?

Í gær hjólaði ég svo aftur sömu leið. Gaf mér töluvert lengri tíma, - tók mark á mömmu hennar Rauðhettu og fór aldrei út af stígnum.

En þegar ég skipti niður í 1.gír á leið upp snarbrattan Kópavogshálsinn, datt keðjan af. Ég hélt að það væri nú lítið mál, hef lennt í því áður. En í þetta sinn hafði hún klemmst fyrir aftan pedalhringinn og ég náði henni ekki þaðan, sama hvað ég reyndi.

Sá þann eina kost í stöðunni að hringja á leigubíl og sækja hjólið síðar á sendiferðabíl. Hugkvæmdist þó að athuga fyrst hvort himnafaðirinn væri ekki til í að hlífa mér við þeim kostnaði og redda mér hjálparhellu. Ég þóttist nefnilega vita að hægt væri mögulega að ná keðjunni með þremur til fjórum höndum, - verkfæralaust. 

Og viti menn, - ég var bænheyrð med det samme. Guð tekur líka mark á hæfilega hégómlegum bænum. Sendi mér ungan og myndarlegan og afar hjálplegan mann, - og í sameiningu tókst okkur að redda þessu fyrir horn.

En þegar ég ætlaði að hjóla af stað, var hjólið fast í bremsu. Ég var fljót að losa bremsuna með því að snúa framhjólinu í hring. En uppgötvaði þá að það var líka fast í bremsu hinu megin. Og það tókst mér ekki að losa. Bremsupúðinn lá eins og klessa upp við dekkið og tók engum fortölum.

Svo ég bara hjólaði áfram til Hafnarfjarðar. - Í bremsu.

Það kom mér mest á óvart að ég var líka sléttan klukkutíma í þessari ferð, eins og þeirri fyrri.

Eftir kennslu hjólaði ég alla leið til baka - í bremsu.

Ég hlýt að fá heimsins sterkustu fætur eftir þennan dag.

Ég á stefnumót við hjólaviðgerðavin minn í næstu götu eftir vinnu í dag.

Lifið heil.


Kosningar á morgunn.

Oft hef ég verið spennt þegar að kosningum kemur, en aldrei eins rosaspennt og núna. Á morgun er hátíðisdagur í mínum huga. Ég verð sko pottþétt í sparifötum og með varalit.

Í tilefni morgundagsins vil ég koma eftirfarandi orðsendingum á framfæri:

Þið sem eruð óákveðin og/eða óánægð með alla þá flokka sem í boði eru: Skilið auðu. Í því felast nákvæmlega þau skilaboð, að þið séuð ekki nógu sátt við þá möguleika sem í boði eru. Plííis, - ekki kjósa eitthvað - af því bara. Eða af gömlum vana, eða af því fjölskyldufaðirinn kýs það.

Hin orðsendingin er einföld og ég beini henni til ykkar allra:

Gangið til kosninga með kaldan huga og heitt hjarta.

Góða og gleðilega helgi gott fólk.


Að kjósa sjálfstæðisflokkinn.

Heimsótti vinahjón nú áðan. Skellti á húsbóndann spurningunni: Hvað ætlarðu að kjósa?

Hann horfði á mig glottandi meðan konan hans svaraði fyrir hann: Hann kýs auðvitað sjálfstæðisflokkinn, - hann er sko blár í gegn.

Ég horfði á glottandi andlitið á honum og spurði: Viltu í alvöru vera grýttur hvar sem þú kemur?

Hann reyndi að skafa glottið af andlitinu - og horfa á mig alvarlegum augum um leið og hann sagði: Hafi sjálfstæðisflokkurinn einhverntíman þurft á stuðningi mínum að halda, þá er það núna.

Konan hans fór þá að tala um þá ótrúlegu staðreynd sem ég hef alltaf verið pirruð út í; - hversu fáránlega margir kjósa alltaf sjálfstæðisflokkinn af þrjósku og af-því-bara-ástæðum.

Og þá sagði ég þeim rúmlega 30 ára gamla sögu, sem ég hef sagt oft og víða:

Vorið "78 voru bæjarstjórnar- og alþingiskosningar með mánaðar millibili. A-flokkarnir unnu víða sigur í bæjarstjórnarkosningunum, - meðal annars á Ísafirði, hvar ég bjó þá. Þar á bæ munaði einungis þremur atkvæðum, að sjálfstæðisflokkurinn missti hreinan meirihluta. 

Morguninn eftir þær kosningar fór ég í kaffi til konu einnar og spurði: Hvernig líst þér á úrslitin?

"Mér líst bara mjög vel á þau" sagði hún. "Það var alveg komin tími á að íhaldið fengi svona rassskell. Skellurinn hefði bara þurft að vera aðeins meiri. Þeir hefðu haft gott af því að missa hreinan meirihluta. Hugsaðu þér bara, það munaði bara þremur atkvæðum".

"En þú samt kosið þá?" spurði ég.

"Já auðvitað" sagði hún.

Og ég tók kast. Hellti mér yfir hana með þessari líka þrumuræðu. Benti henni meðal annars á að hennar atkvæði hafi nú verið eitt af þessum þremur sem hefði hetað skipt sköpum. "Já það er satt" sagði hún aftur og aftur.

Mánuði seinna var svo kosið til alþingis.

Og ég heimsótti sömu konuna aftur morguninn eftir þær kosningar. - Með sömu spurningu og áður: Hvernig líst þér á kosningaúrslitin?

"Ég er alveg miður mín" sagði vinkonan þá. "Hann Karvel komst ekki inn. - Svei mér þá, - ég hefði kosið hann, ef þetta hefði hvarflað að mér".

"Vildirðu helst af öllu fá Karvel inn, en kaust samt sjálfstæðisflokkinn af gömlum vana" spurði ég þá.

 "Já auðvitað" var svarið aftur.

Og því miður má örugglega segja svipaðar sögur af allt of mörgum íslendingum.

Finnst ykkur þetta hægt?

 

 


Blessuð kreppan.

Það hefur víða verið nefnt, að sköpunarkraftur losni úr læðingi í kreppu. Þegar vinnan minnkar og/eða verkefnin hætta að hrúgast upp í fangið á okkur, þá finnum við hjá okkur þörf til að skapa. Og þegar við höfum ekki efni á að kaupa nýtt, þá búum við til eitthvað frumlegt og flott úr gömlu og/eða ódýru efni. Ég fékk t.d. stórkostlegt listaverk í jólagjöf, sem kostaði viðkomandi listamann ekkert nema vinnuna, en verður örugglega verðlagt hátt, þegar viðkomandi verður orðinn ríkur og frægur. Sjálf tók ég góðar og vel með farnar lesnar bækur úr bókahillunni og gaf í jólagjafir. Svo finnum við föt innst í skápnum, sem við vorum búin að gleyma - eldum nýjar og spennandi naglasúpur - og margt fleira spennandi.

En það er fleira jákvætt við kreppuna:

Ég hef t.d. nokkuð oft í seinni tíð heyrt á tal fólks (t.d. ókunnugt fólk á næsta borði á kaffihúsi), sem segir eitthvað á borð við: "Við erum að spá í ferðast innanlands í sumar. Það eru alveg ótrúlega margir spennandi staðir á landinu, sem við höfum aldrei komið á". Þetta fólk hefur á seinni árum verið svo upptekið við að vinna og vinna - og nota svo þessa fáu frídaga sína í að eyða peningunum sem það vann fyrir í dýrar utanlandsferðir. Nú á fólk minni peninga og meiri tíma og vill þá loksins ferðast innanlands.

Þið hafið væntanlega heyrt um allt þetta fólk sem kaupir árskort í líkamsrækt í janúarbyrjum, fer í 3-4 tíma og svo búið spil. Ónotað kort það sem eftir lifir árs. Ég kannast við þetta í leikfiminni minni. Erfitt að fá bílastæði og skáp í janúar, - þrengsli í sturtuklefanum og í leikfimisalnum sjálfum. Í byrjum febrúar er vanalega allt orðið rúmt og þægilegt aftur. - Nema núna. Það er að koma apríl, - korter í páska, - og ennþá hefur ekkert fækkað í leikfiminni. Ekki það að fleiri hafi keypt sér kort. Nei, - nú hefur fólk bara tíma til að nota kortið sitt. Auk þess sem þú setur ekki lengur peninga í annað en það sem þú nýtir vel.

Læt þetta duga að sinni. Þið megið gjarnan bæta við fleiri dæmum.

Lifið heil. 

 


Ömmudagar.

halfdan_ingolfur_og_dora_v75.jpgÍ þessum rituðum orðum eru sonur minn, tengdadóttir og litli drengurinn þeirra á leiðinni vestur á Ísafjörð. - Akandi.

Nýbakaður pabbinn var farinn að sakna eiginkonu og sonar, sem höfðu verið hjá mér í 10 yndislega daga - og ákvað að sækja þau.

Þar er sumsé komin skýringin á fjarveru minni úr bloggheimum. Vona að þið hafið saknað mín.

Ég kaus að láta flest annað en ömmuknús sitja á hakanum þessa daga. 

Það var einstaklega gaman að hafa þau mæðgin. Ég er svo heppin að geta verið laus við á morgnana, - og þá er drengurinn einmitt í súperformi eftir góðan nætursvefn.

halfdan_lina_langsokkur_halfdan.jpgSvo fóru þau mæðgin í heimsóknir þegar ég fór að kenna.

Og nú taka uppsöfnuð verkefni við. Auk ýmissa hvunndagsverkefna eru stigspróf nemenda framundan - og svo tónleikaundirbúningur í beinu framhaldi. Að ógleymdum skattaskýrsluhryllingnum.

Og ég er svo heppin að "gömlu" barnabörnin tvö verða áfram á sínum stað - hér í næsta hverfi, - svo ef ég fæ fráhvarfseinkenni, er alltaf gott að knúsa þau.

Lifið heil.


Fordæming.

Ég er æfareið.

Það er að vísu eitt jákvætt og þakkarvert við þessa frétt. Það er auðvitað að læknir og móðir skulu hafa þorað að standa með stúlkunni og samþykkja fóstureyðingu. Og það hefðu þau að sjálfsögðu líka átt að gera þó svo stúlkan hefði bara gengið með eitt barn og þó svo að líkamlegu lífi hennar hafi ekki beint verið ógnað. 

Að vísu set ég stórt spurningamerki við samstöðu móðurinnar með sínu barni, þegar það kemur í ljós að stjúpinn var búinn að misnota stúlkuna (og systur hennar líka) í 3 ár. Getur verið að mamman hafi ekki haft hugmynd um það?

En ég er öskureið út í þá staðreynd að kaþólska kirkjan skuli hafa þetta ömurlega fordæmingarvald, - og notfæra sér það með slíkum hætti. Auðvitað má segja að fólki ætti að vera sama þó það sem dæmt frá þátttöku í öllu því sem viðkemur kirkju sem beygir sig undir slíkt fordæmandi og ÓKRISTILEGT vald. En ég er hræddust um að í allt of mörgum tilfellum þori fólk ekki að standa með sjálfum sér og sínum náunga, - af ótta við þetta skelfilega ógnarvald kaþólsku kirkjunnar.

Og ég leyfi mér að fullyrða rétt einn ganginn, - að þessi afstaða kaþólikkanna er í hrópandi andstöðu við það sem Kristur sjálfur boðaði, - og því ættu þeir sem taka svo mannfjandsamlega afstöðu ekki að voga sér að kalla sig Kristna. Þeir eru að mínu mati í hópi þeirra - allt of margra - sem koma óorði á Kristnidóminn. 

Best að hætta áður en ég missi mig gjörsamlega.

Lifið heil í Kristilegum náungakærleika.


mbl.is Vatíkanið tekur undir fordæmingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sáttaleið - Um forsendur fyrirgefningar.

Vek athygli á grein á bls 33 í mbl í dag, - með ofangreindri fyrirsögn.

Þar stendur m.a: Við köllum eftir sinnaskiptum......að meintir gerendur breyti bæði hugarfari sínu og gerðum.......Við köllum eftir virkri sátt í samfélagi okkar. Sú sátt getur ekki orðið nema sinnaskipti verði hjá einstaklingum og þjóð...... Krafan um iðrun og yfirbót beinist að gerendum og ekki þolendum ranglætis. Meginkrafan er sú að þau sem bera ábyrgð bæti fyrir brot sín.


Tölur,nafn og skírn.

afkomendur.jpgÞessi mynd af mér með afkomendurna var tekin í gær.

Ég á 6 afkomendur.

3 börn og 3 barnabörn.

3 stúlkur og 3 drengi.

Stúlkurnar eru allar meyjar (fæddar í meyjarmerkinu).

Drengirnir heita allir Hálfdán.

Þess má einnig geta í framhjáhlaupi að ég hef átt 3 eiginmenn.

Svo hef ég átt 3 gerðir af bílum. Fyrst átti ég 3 fólkswagen-bjöllur, hverja á eftir annari, þvínæst 3 Daihatsu-Charade (líka hvern á eftir öðrum) - og núna á ég einn Yaris og er viss um að þeir verða líka þrír í röð.

skirn_hih.jpgOg svona til að klára þessa undarlegu upptalningu, - get ég sagt ykkur - að ég bjó 3x3 ár á Ísafirði. Þ.e. ég bjó í þremur íbúðum, - 3 ár í hverri.

En í gær var sumsé merkisdagur. Þá var nýji ömmudrengurinn skírður í Ísafjarðarkirkju. 

Og að sjálfsögðu brá mín sér vestur. Ásamt þeim fjórum afkomendum sem búa hér í höfuðborginni.

Athöfnin var yndisleg, - sem og helgin öll.

En ég verð að viðurkenna, - að það er dáldið flókið fyrir mig núna, - þetta með ömmudrengina. Ég hef alltaf talað um ömmudrenginn í eintölu með ákveðnum greini, - en nú get ég það auðvitað ekki lengur. Sem er auðvitað bara gaman. - Ég býst ekki við að mér komi nokkurn tíman til með að finnast ég eiga of mikið af yndislegum ömmubörnum.

nyskir_ur_i_ommufangi.jpgMálið er bara það, að þeir heita báðir Hálfdán.

Og ekki nóg með það. - Sonur minn heitir líka Hálfdán.

Sonur minn er að vísu alltaf kallaður seinna nafninu sínu, - það var ákveðið í upphafi af mér og föður hans sem heitir líka Hálfdán og er sonur manns sem heitir Ingólfur Hálfdán.

Hafiði vitað annað eins?

Og svo heitir yndislegi ömmudrengurinn sem hér sést nýskírður í ömmufangi; - Hálfdán Ingólfur.

Legg ekki meira á ykkur.

Njótið vikunnar framundan, sem og nýbyrjaðs marsmánaðar.

 


Rauður bíll.

Þegar ég var á minni hefðbundnu leið í leikfimi fyrir sléttri viku síðan, - henti það og skeði og kom fyrir og átti sér stað, - að kona á risastórum jeppa sá ekki litla sæta Yarinsinn minn og lét eins og hún ætlaði að keyra í gegn um hann, - bílstjórahliðarmegin.

Henni tókst það sem betur fer ekki alveg, - en hún komst þó það langt áleiðis, að ég komst ekki út um bílstjóradyrnar. - Þurfti að skríða út farþegamegin. 

Það var ekki fyrr en ég var komin út á gangstétt (í leikfimidressinu í frostinu) og konan spurði hvort það væri allt í lagi með mig, - að ég áttaði mig á því hvað hefði auðveldlega getað gerst. Stóri jeppinn hefði auðvitað getað keyrt inn í mig sjálfa, en ekki bara inn í hliðina á bílnum mínum. 

En það var nákvæmlega ekkert að mér. Að vísu gat ég ekki sofnað um kvöldið fyrir verkjum sem þá fyrst komu í ljós, svo ég fór á læknavaktina eftir vinnu daginn eftir. Og í dag fer ég til sjúkranuddara í fjórða skiptið síðan þetta óhapp átti sér stað. En ég hef ekkert þurft að vera frá vinnu, - og er alsæl með að hafa sloppið svona vel.

Ég keyrði beint á verkstæðið, þar sem mér var úthlutaður tími eftir viku (semsagt í dag). En þar sem ég gat ekki opnað bílstjóradyrnar, framkvæmdi verkstæðisformaðurinn bráðabirgðalækningu með risahömrum á meðan ég stóð yfir honum á leikfimidressinu eins og hálfviti.

Í bítið í morgunn fór ég svo með Yarisinn í aðgerð. Ég keypti þessa elsku fyrir 6 árum, þá 3ja ára ódýra týpu (3ja dyra, beinskiptan og það allt). Og hann hefur dugað mér mjög vel.

En þar sem ég átti öngva sök á óhappinu (og nú vil ég ekki sjá neina athugasemd frá börnum eða tengdabörnum um að ég sé ótrúlega "heppin" að vera alltaf í rétti. - Ég er einfaldlega mjög góður ökumaður, eins og alþjóð ætti að vita), - þá beið mín á verkstæðinu bílaleigubíl á kostnað trygginganna.

Bíll þessi er svo nýr að hann er með 3 bókstafi og tvo tölustafi á númeraplötunni. Sjálfskiptur,  5 dyra, með fjarstýringu, rafmagni í rúðum og alls kyns bruðli og fíneríi sem ég á ekki að venjast. Og - haldið ykkur fast - hann er RAUÐUR.

Ég hef einu sinni á æfinni keypt mér splunkunýjan bíl. Að vísu ódýrustu týpu af Daihatsu Charade, og ég keyrði hann í 15 ár - en af því að hann var splunkunýr, þá fékk ég að velja litinn. "Og auðvitað rauðan já ósköp rauðan" söng ég þá eins og segir í vísunni.

Því ég elska rautt. Rauðar flíkur, rauða skó, rauðan bíl.

Matthildur ömmustelpa er ótrúlega hrifin af ömmu sinni. Ég held það sé ekki síst vegna þess að þá sjaldan sem hún (amman) er ekki í rauðum kjól, þá er hún oftast í bleikum. Og Matthildur elskar bleikt, eins og allar 4ra ára stelpur. Í öðru sæti hjá henni er rautt.

Mér þykir samt ósköp vænt um dökkbláa Yarisinn minn.

Legg ekki meira á ykkur.

Lifið heil.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband