Færsluflokkur: Bloggar

Gleði, gleði, salsagleði.

salsa 1Eins og flestir tónlistarkennar, þá er ég bundin í kennslu frá ca tvö til sex eða sjö alla virka daga yfir vetrartímann.
Veturinn "05-"06 gat ég þó losnað klukkan 5 einn dag í viku, akkúrat daginn sem Agnes hin æðislega kenndi salsa+afró í JSB, hvar ég er með árskort.

Þessir tímar voru svo brjálæðislega skemmtilegir, að ég fékk Agnesi til að mæta í fimmtugsafmælið mitt og kenna afmælisgestunum að dilla sér með þessum ofurskemmtilega hætti. Reyndar var veislan öll sú allra skemmtilegasta sem ég hef vitað - og ekki bara það, heldur afar (eða ömmur) egósentrísk. Ég lét gesti mína vita, að þeir væru komnir til þess að gera það sem mér þætti skemmtilegt.

salsa 2En af hverju er ég að rifja þetta upp núna? Jú vegna þess að nú er ég komin í sumarfrí - og komst því í fyrsta salsatíma ársins núna síðdegis (ég meina föstudag, það er víst komið fram yfir miðnætti). Og hvílík gleði. Ég hreinlega trylltist af kæti um leið og tíminn hófst og dansaði af meiri ofsagleði en nokkru sinni fyrr (nema kannski í afmælinu mínu) - og er þá mikið sagt. Þetta var ein af þeim fjölmörgu stundum, þar sem mér finnst ég vera lánsamasta manneskja í heimi. Ja það er víst eins gott að viðhalda hreyfigetunni. Og á morgunn fer ég í fjallgöngu.

Ég á þennan afmælisdans á DVD. Spurning hvort það er hægt að birta hann hér á síðunni. Og þá líka níðvísurnar sem sonur minn elskulegur samdi og söng um aldraða móður sína.  

  En nú er líklega best að koma sér í svefninn og safna kröftum fyrir fjallgönguna.

Góða nótt gott fólk. 

 


Annir í sumarfríi

Svilkonurnar meira kroppuðMeira hvað það er brjálað að gera í sumarfríinu. Ég hef t.d. farið daglega til Keflavíkur, ólíkra erinda.

En höldum áfram þar sem frá var horfið. Ég var í svo brjáluðu þrifastuði á mánudaginn, að ég sleppti ekki tuskunni fyrr en nokkrum mínútum áður en svilkonur mínar mættu í matarboð. Svo ég skellti þeim bara í að hjálpa til. Önnur fékk að rífa niður gulrætur í fiskisúpuna, meðan hin mótaði konfektkúlur a la Laufey (sykurlausar að sjálfsögðu, en ógessla góðar), sem ég rétt náði að hnoða áður en þær mættu. Við sátum svo og slúðruðum (spjölluðum heitir það hjá venjulegu fólki) til að ganga tvö um nóttina, aðallega um þessa stórskrýtnu, en yndislegu bræður sem við erum giftar. Það var heldur betur kominn tími til að við hittumst bara þrjár einar og sér.

Bjarki og DóraÁ miðvikudaginn sótti ég svo einkasoninn og tengdadótturina í Leifstöð, en þau höfðu skroppið til Stokkholms, að taka á móti efnaverkfræðimeistaraskírteini þeirrar síðarnefndu. Þau héldu  svo upp á útskriftina með því að koma við í Mílanó á bakaleiðinni (ha, er það  ekki í leiðinni?).

Rokkarinn fór auðvitað beint vestur í faðm fjalla blárra, en við verkfræðingurinn rúntuðum um höfuðborgarsvæðið mest allan gærdaginn. Hún kann sem betur fer vel að njóta iðandi mannlífs hundrað og eins með tengdamóður sinni þessi elska, en í þetta skiptið átti hún erindi í nokkra útkjálka og ystu jaðra höfuðborgarsvæðisins. Við gátum þó sem betur fer endað daginn (ásamt heimasætunni) á kaffibolla í Bankastræti og spásseringu upp í Kron-skóbúðina, með viðkomu í örfáum skemmtilegum búðum á Laugaveginum. 

P+BEnda þannan pistil á hamingjuóskum til frumburðarins og tengdasonarins, en þau eiga 5 ára brúðkaupsafmæli í dag. Vona að þau fari algjörlega á mis við spænsku úrhellisrigninguna, á sólarströndinni þar sem þau eru að halda upp á daginn.

Held áfram með orðhengilsháttinn, í seinasta lagi á sunnudaginn.

Góða helgi.  


Sumarfrí.

gluggaþvotturWott!! Hvað er að gerast? Ekki nema hálfur sólarhringur frá síðustu færslu - og konan aftur komin af stað. Konan sem gefur sér yfirleitt ekki tíma til að blogga nema einu sinni til tvisvar í viku.

Já gott fólk, það sem er að gerast, er einfaldlega það, að í dag er merkisdagur. Fyrsti virki dagurinn í sumarfríi. Og nú á aldeilis að gera allt það sem ekki gefst tími til að öllu jöfnu. Og - belíf it or nott; - það skal byrjað á afþurrkun og öðrum húsmóðurstörfum sem eins og vanalega á þessum tíma hefur verið ýtt á undan sér. 

Í gegn um árin hef ég stundum pirrast á fólki sem sér ofsjónum yfir löngu og góðu sumarfríi okkar kennarana. Og ekki síður hef ég pirrast yfir þeim sem segja að desember og maí fari nú bara í tómt dúllerí og huggulegheit hjá okkur. Auðvitað eru til kennarar sem sleppa billega frá sínu starfi, en svo ég tali bara fyrir mig: Sem þríþættur tónlistarkennari (píanókennari, tónfræðahópkennari og undirleikari) er ég vanalega undir þvílíku vinnuálagi í desember og maí, (t.d. próf og tónleikar, með tilheyrandi undirbúningi og úrvinnslu, - allt auk venjulegrar kennslu), - að ég mundi missa vitið ef þessi góðu frí tækju upp á því að frestast (úps, var ég nokkuð með sama tuðið í upphafi jólafrís?). Samviskusamir kennarar eru víst ábyggilega vel að sínu sumar- og jólafríi komnir.

Og nú er vikan framundan vel plönuð af ýmsu sem ég hef frestað lengi. En ef það skildi nú bresta á með sólbaðsblíðu, þá leggst ég út á svalir, og frestunaráráttan fær að hafa sinn gang. Það er partur af planinu.

Gleðilegt sumar. 


Hlíðarganga og útskriftarveisla utandyra.

Vindáshlíð 1Ég hafði hlakkað til dagsins í dag. Var búin að skrá mig í gönguferð úr Hvalfirði að Vindáshlíð. Fjögurra klukkustunda ganga,mátulega lítil hækkun - og bara ekta fín og frábær upphitun fyrir sumarið. Í Vindáshlíð átti svo að bjóða upp á messu (fyrir þá sem vildu) og hina árlegu kaffisölu. 

Rétt fyrir kvöldmat á föstudag var svo hringt - og mér tjáð, að ekkert yrði úr göngunni sökum ónógrar þátttöku. Ég varð grautfúl. Ég nennti þó ekki að láta eitthvert fúllyndi eyðileggja fyrir mér sunnudaginn. Keyrði bara á mínum eðal-Yaris áleiðis til Vindáshlíðar, lagði bílnum útí kannti og lagði af stað í mína prívat-sóló-göngu. Það var brjálaður vindur, en ég bara festi hettuna þétt undir kverk. Í Hlíðinni beið mín svo yndælis kaffihlaðborð og góður félagsskapur.

Þessa mynd frá Vindáshlíð tók ég í haust, var ekki með vélina á mér í dag.

Ég var heldur ekki með vélina á mér í gærkvöldi, þegar við Heiðrún fórum í kvöldgöngu upp á Laugarveg og lenntum í bráðskemmtilegri og óvanalegri útskriftarveislu hjá stúlku sem við þekktum ekki neitt. Veislan var utandyra við hliðina á fyrrum Hljómalind. Þar var m.a. danskur strákur á tveggja hæða hjóli, sem hann hafði smíðað úr tveimur gömlum hjólum - og margt fleira skemmtilegt.

Lifið heil. 

 


Öðruvísi dagar.

Kista SMMVið bárum tengdaföður minn til grafar í gær. Hann var 86 ára gamall þegar hann dó, núna á laugardagskvöldið var. Hann var dáldið fótafúinn undir það síðasta, en að öðru leyti mjög hress. Hann fékk hægt og eðlilegt andlát, án undarfarandi veikinda.

Hann var jarðsettur í Landsveitinni, hvaðan hann var, - og við vorum í miðri erfidrykkju þegar jarðskjálftinn skall á. Þá tók við töluverð bið, meðan við vissum ekkert hvort og hvernig við kæmumst heim. Ölfusárbrú og Óseyrarbrú voru ýmist lokaðar til skiptis, eða báðar í einu - og það var meira að segja varað við Lyngdalsheiðinni. Ég hafði mestar áhyggjur af frumburðinum mínum sem ætlaði til útlanda í nótt, með sína 5 manna fjölskyldu. Það var grínast með, að við yrðum bara að panta þyrlu undir hana, við hin yrðum öll að gista á Leirubakka (hvar tengdapabbi var fæddur og uppalinn). Það var líka heilmikið grínast með að þetta væri líkt þeim gamla, að kveðja með þvílíkum látum. Hann var alltaf mjög stríðinn. En svo komumst við heim, gegn um Selfoss og Hveragerði - og vegurinn var ekki næstum því eins illa skemmdur og talið var. Já þessi dagur verður víst ábyggilega lengi í minnum hafður.

 Dagurinn sem tengdapabbi dó, var líka einn af þessum öðruvísi dögum. Sem betur fer eru ekki margir dagar í lífi manns, sem rammaðir eru inn af slysa- og andlátsfréttum af manns nánustu. Dagurinn hófst sem sagt á því, að ömmudrengurinn minn, 9 ára gamall, hringdi og sagði að bíll hefði keyrt á hann (um kl.17 daginn áður) þar sem hann var að hjóla yfir Lönguhlíðina. Það kom auðvitað sjúkrabíll, sem fór með hann á sjúkrahús - og allur sá pakki, - en hann slapp alveg ótrúlega vel. Maður þarf nánast að leyta að skrámunum með stækkunargleri. Bíllinn lenti á framdekki hjólsins - og maður vill ekki hugsa þá hugsun til enda, hvernig hefði farið, ef hann hefði verið sekúntubrotabroti fyrr á ferðinni - og bíllinn lent á honum sjálfum, en ekki dekkinu. Svo restina af deginum var ég yfirfull af þakklæti fyrir að ekki fór verr - og von um að þetta yrði drengnum víti til varnaðar. 

Í miðri júróvision-símakosningu var svo hringt og sagt að tengdapabbi hefði verið að deyja.

Já sumir dagar eru greinilega öðruvísi-dagar. 


Siðfræði.

LiljurEftir hádegisverðarspjall við góðan vin (uppáhaldsprestinn minn) í gær, fór ég að hugsa: Við gerum allt of mikið af því að finna og tileinka okkur reglur og prinsip, sem við getum farið eftir í einu og öllu. Við eigum ekki að gera það. Við eigum að taka afstöðu í hverju máli fyrir sig. Við getum kosið að taka ákvörðun, sem við töldum áður að væri röng, en er síðan best - eða kannski öllu heldur skást - í ákveðnu tilfelli. Þetta er langt í frá auðvelt. En ef maður vill vera Kristin siðferðisvera, eins og ég vil vera, þá á maður alltaf að taka afstöðu, sem felur í sér mestan kærleik - og minnstan skaða. - Líka þó maður hafi áður talið slíka afstöðu ranga. Réttast og best eru hugtök sem fara ekki alltaf saman.

Vinur minn var á leið í útför Guðfræðiprófessors, sem hann hafði haldið mikið upp á, - og var að segja mér lítillega frá honum. Ég ætla að standast þá freistingu að endursegja þær sögur hér. Hins vegar veit ég, að prófessor þessi skrifaði mikið um siðfræði - og ég hef fullan hug á að lesa eitthvað af þeim skrifum.

Góða helgi gott fólk. - Áfram Ísland.


Sætt.

Andstæður skýrðÁfram með hugtakaskilninginn. Og nú skulum við tala um eitthvað sætt. Nei, ekki bara einhverja ógeðsleðju eins og sykurpúðana hér á myndinni. Heldur eitthvað yndislega sætt samkvæmt mínum skilningi.

Ég ávarpa marga manneskjuna oft með orðunum "hæ sæta". Og þá er ég ekki endilega að meina að viðkomandi  sé snoppufríðari en gengur og gerist . Heldur miklu frekar að manneskjan sé hlaðin krúttlegum (sem er líka mjög jákvætt hugtak í mínum huga) karakter og innri fegurð sem skín út frá henni. Og veki með mér notalega vellíðan. Ég held að danir noti hugtakið söd á þennan hátt. Að vísu eru þeir sem ég ávarpa á fyrrnefndan hátt oft á tíðum algjör bjútí - og mega alveg taka ávarpið til sín á þann hátt. 

bleikt í skeggiTalandi um dani, þá hreinlega verð ég að setja inn mynd sem ég tók af þessum sæta danska kalli, sem hafði sett bleikan lit í skeggið sitt. 

Það er margt sem mér finnst ferlega sætt, hrikalega sætt, eða bara sætt - og þetta eru mjög jákvæðar lýsingar í mínum huga - og úr mínum munni.

En ég veit að það eru ekki allir sammála mér. T.d. segir vinkona mín myndlistarmaðurinn, að ég geti varla móðgað myndlistarmenn meira, en með því að segja að myndirnar þeirra séu sætar.

En það verður bara að vera þeirra vandamál. Ég er vaxin upp úr því að nenna að hlífa fólki við mér og mínu orðalagi. Ef mér finnst eitthvað sætt, þá segi ég SÆTT.

Og hananú. 


Stöðuveiting, afmæli og kennarablóm.

Níðvísur mjórriSonur minn rokkarinn ....... -  nei bíddu nú við, það er ekki víst að ég geti notað þetta hugtak öllu lengur, því nýlega fékk sítt og mikið rokkarahárið (ásamt tilheyrandi skeggi) að víkja fyrir snyrtilegri herraklippingu. En hann rokkar nú samt.

Byrja upp á nýtt: Sonur minn Ísfirðingurinn (þetta gildir þó pottþétt ennþá, hann er ýktasti Ísfirðingur sem ég þekki - og eru þeir margir slæmir) sótti fyrir nokkrum vikum um starf upplýsingafulltrúa Ísafjarðarbæjar. Hann var viss um að fá ekki starfið, því umsækjendur voru margir, m.a. einhverjir sprenglærðir að sunnan, sem ekki var hægt að ganga framhjá. En nú í vikunni var loksins ráðið í stöðuna - og það var nýsnyrtur rokkarinn sem var ráðinn. Auðvitað er hann bestur.

Nú stendur yfir tími nemendatónleika, prófa og síðustu kennsludaga vorsins. Og nemendur mínir keppast við að gefa mér blóm. Ég hef aldrei fyrr fengið svona mikið af blómvöndum frá nemendum. Og ég er alsæl. Bæði með að hafa svona blómlegt heima hjá mér - og miklu frekar með þakklætið sem greinilega er ástæða þessara blómagjafa.

Blóm frá MargrétiÍ dag eiga 3 vinkonur mínar og frænkur afmæli. Ein þeirra býr í 50 kílómetra fjarlægð, önnur í 160 kílómetra fjarlægð, og sú þriðja í 450 kílómetra fjarlægð. Ég er að hugsa um að skreppa í kaffi til þeirrar sem býr í 50 kílómetra fjarlægð. Lengra ferðalag hentar mér ekki í dag, þar sem ég á að lesa í messu í kvöld. Ég hlakka til að hlusta á predikara kvöldsins, en það er hinn bráðgreindi, húmoríski, hagmælti, og í flesta staði frábæri Guðfræðinemi Davíð Þór Jónsson.

Njótið vorsins. 


Léttsveit

Stórsveit á JómfrúnniVá hvað ég skemmti mér vel í gærkvöldi. Ég keyrði til Keflavíkur gagngert til þess "eins" að fara á nemendatónleika. Léttsveit Tónlistarskóla Keflavíkur (nú Reykjanesbæjar) var stofnuð fyrir 20 árum og voru þessir tónleikar því í veglegri kantinum: Yngri sveit, eldri sveit, og svo samtíningssveit fyrrverandi nemenda. Hver sveitin annari betri, - bæði hljómsveitirnar í heild sinni, - og svo voru ákveðnir hljóðfæraleikarar og söngvarar svo frábærir að maður vissi ekki hvort maður átti að falla í stafi, eða tryllast af kæti (jú auðvitað trylltist ég af kæti). Og kalla ég nú ekki allt ömmu mína í þeim efnum. Ég þykist hafa fjöldan allan af góðum viðmiðunum, því ég hef lengi verið eins og grár köttur á stórsveitartónleikum, jazztónleikum og fleirum í þeirri deildinni (rythmisku deildinni eins og vér tónlistarkennarar köllum það).

Og ekki skemmdi nú fyrir að ég fann fyrir töluverðu stolti - og fannst þetta vera dáldið svona "mitt". Tónlistarskóli Reykjanesbæjar hefur jú verið minn aðal vinnustaður síðustu 11 árin, auk þess sem ég hóf mitt tónlistarnám (lagði grunninn að mínu ævistarfi, svo ég gerist nú háfleyg) í Tónlistarskóla Keflavíkur (eins og þessi sami skóli hét þá).

Bítlabærinn hvað ha? Jú kannski er eitthvað til í því, en þeir sem hlut eiga að máli geta sko ekki síður montað sig af; The-fantastic-big-band-city.

P.s. ég rolaðist því miður ekki til að taka myndavélina með mér, en meðfylgjandi mynd tók ég af Stórsveit Reykjavíkur á Jómfrúnni í fyrrasumar.

Góða helgi gott fólk. 


Óvissuferð.

Sumarbústaður SkálholtiEiginmaðurinn bauð mér í óvissuferð um helgina. Ég var nú fljót að fatta að þetta væri sumarbústaðaferð, svo óvissan fólst bara í því hvar sumarbústaðurinn væri. - Hélt ég. Svo ég tók með mér gönguskó, sundbol, spil og góða bók - og bjó mig undir að slaka á í ekta sumarbústaðaferð. Þess má geta, að ég hef aldrei skilið fólk, sem leigir sér sumarbústað - og er svo eins og þeytispjald út um allar jarðir, í stað þess að slaka á í bústaðnum. Þegar ég er í bústað, hreyfi ég mig helst ekkert öðru vísi en gangandi.

En eiginmaðurinn hafði auðvitað fattað að ég hafði fattað að við værum á leið í bústað, þannig að hann fékk á síðustu stundu hugmynd að enn meiri óvissu, án þess að ég vissi.

SkálholtskóliÍ miðju Triviali með morgunkaffinu fór eiginmaðurinn að ókyrrast. "Svona förum nú að drífa þetta af, það er brjáluð dagskrá framundan". Yfirleitt er það nú ég sem rek á eftir honum í spilum, svo þetta var dáldið ólíkt honum (nei ég segi ekki hvernig spilið fór).

Sumarbústaðurinn var við Skálholt - og brjálaða dagskráin byrjaði með hádegistónleikum í Skálholti. Eftir tónleikana vildi hann rjúka af stað og lagði til að ég tæki með mér skárri gallann og helst líka tannbursta o.þ.h. ef okkur skildi detta í hug að gista annars staðar.

Ég settist inn í bílinn og stillti mig inn á nýja óvissu. Eftir nokkra kílómetra keyrslu bað hann mig að kíkja á kortið og segja sér hver væri besta leiðin til Þingvalla. Ég gat auðvitað sagt honum sitthvað um Lyngdalsheiðina og Grímsnesið án þess að kíkja á kort - og nú fór ég að stilla mig inn á Þingvelli. Verst þótti mér hvað mér var illt í fótunum, en ég gat samt ekki hugsað mér annað en ganga inn í Skógarkot.

Vegvísar á ÞingvöllumEftir örstutt pissustopp í þjónustumiðstöðinni hélt eiginmaðurinn áfram upp á Mosfellsheiðina. Hva, ætluðum við ekki á Þingvelli? spurði ég.  Ónei, það var víst ekki þannig. Og aftur tók óvissan við. 

"Veistu hvar maður beygir í átt að Vindáshlíð?" var næsta spurning. Já ég vissi það, og nú vissi ég líka hvert við vorum að fara. "Sérðu alla bílana við Vindáshlíð?" spurði hann svo þegar við sáum þangað. "Já hvað er um vera þar"? spurði ég auðvitað á móti. "Það kemur í ljós" var það eina sem ég fékk að heyra. Við beygðum Vindáshlíðarafleggjarann og ég spurði hvort ég ætti ekki að fara út og opna hliðið. "Nei nei" sagði minn, snéri við og hélt í átt að Hvalfirði. Þá fór mér nú bæði að hætta að verða um sel og rostung. "Hannes við erum ekki að fara í vinnuflokk í Vatnaskógi, ég er í orlofi" sagði ég. "Hva, við getum nú aðeins tekið til hendinni" sagði minn og keyrði áfram.

Hótel GlymurÞegar við vorum komin að hliðinu í Vatnaskógi, stoppaði minn og sagði að við skildum nú klára að hlusta á uppáhaldsútvarpsþáttinn minn, það væri svo slæmt samband í brekkunni. Að honum loknum snéri hann aftur við og keyrði frá Vatnaskógi. Þá hætti ég nú alveg að vita hvað ég hét.

Þannig að þegar hann stoppaði bílinn fyrir utan Hótel Glym, þótti mér komið nóg af svo góðu. Ef hann hefði keyrt burtu frá Hótel Glym hefði ég misst vitið. En sem betur fer gerði hann það ekki. Þar áttum við sem betur fer pantað herbergi og mat og nutum þess í botn að vera þar fram á sunnudagshádegi. Þá keyrðum við sömu leið til baka og gistum aðra nótt í sumarbústaðnum við Skálholt, grilluðum, spiluðum, fórum í pottinn og allt það sem sumarbústað fylgir. 

Rigning í HvalfirðiÁ bakaleiðinni fékk ég mína yndislegu Skógarkotsgöngu (fótaverkurinn löngu horfinn).

Að lokum langar mig að segja frá því að ég hjólaði í kvöld upp í Skaftahlíð og til baka. Og var ekkert smá unaðslegur gróðurilmur sem fyllti vit mín á leiðinni (aðallega birki held ég). Í fyrsta sinn þetta vorið. Þannig var það ekki í sveitinni. Þó það sé yndislegt að njóta slökunar í sveitinni af og til, þá er Reykjavíkin mín bestust svona að öllu jöfnu. 

Lifið heil. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband