Færsluflokkur: Bloggar

Grilmur.

GrilmurMig langar til gamans að vekja athygli á nýyrði sem varð til í gær.

Þannig var að eiginmaðurinn hafði leigt sumarbústað um helgina og farið í strákaferð með syni sína. Bráðnauðsynlegt að mínu mati að skilnaðarbörn fái stundum að vera í friði með foreldri sínu, án þess að stjúpforeldrið sé alltaf með. En þegar þeir feðgar voru búnir að vera tvær nætur í burtu, gat vonda stjúpan ekki stillt sig um að elta, ásamt frumburðinum sínum og ömmubörnunum. 

Eftir Catan-spil við eiginmanninn og eldri stjúpsoninn, var farið í pottinn. Svo kom að því að okkur mæðgunum þótti tímabært að setja kartöflurnar á grillið, en uppástóðum auðvitað að við værum bara gestir, þannig að eiginmaðurinn fór upp úr og græjaði þetta með kartöflurnar. Það þurfti nú ekki að beita hann neinum fortölum, hann er svo hrikalega almennilegur þessi elska. Og við drottningarnar lágum áfram í bleyti ásamt ömmubörnum og yngra stjúpsyni (það vill svo bráðskemmtilega til, að ömmustrákurinn og yngri stjúpsonurinn eru nánast jafngamlir).

S +HH í potti"Nú er mátulegt að setja kjúklinginn á" kalla ég svo - og ligg áfram eins og drottning og held áfram að slúðra (sem þýðir að spjalla, á mínu persónulega tungumáli). Í miðju slúðri snarþagna ég eitt augnablik - og segi svo: finnurðu lyktina?

Hér verð ég að skjóta því að (af því að innskotsatriði í annars löngum formálum hafa nú alltaf þótt frekar "skemmtileg" í mínum ræðum), að þegar ég finn grilllykt, sem oftar en ekki kemur af annara manna svölum, - fer ég oft í netta sjálfsvorkunn yfir því að ég skuli ekki vera á leið í þetta grillpartý. Þarna varð ég þess vegna alsæl og himinlifandi með grilllyktina (innskoti lokið) .

Nema hvað: - Á frumburðinn minn kemur ennþá meiri alsælusvipur og hún segir með mega-fögnuði í röddinni: GRILMUR, GRILMUR. 

Ef einhverjir lesendur skildu ekki vera með fattarann í sambandi, þá er þetta að sjálfsögðu stórkostleg stytting á samsetta orðinu grill-ilmur. Hvort frumburðurinn smeið (sterk þátíð af sögninni að smíða) þetta
nýyrði á staðnum, eða var búin að því áður, eða stal því annars staðar frá, - hef ég ekki hugmynd. Mér láðist að spyrja hana. Ég hef aldrei heyrt orðið áður, og finnst það alveg frábært.

En þess vegna spyr ég eins og þáttastjórnandinn í ákveðnum útvarpsþætti: Hafa lesendur heyrt orðið GRILMUR í sinni sveit? 


Auðmýkt.


Áfram með hugtakaskilninginn. Hugtakið auðmýkt er annað orð sem ég held mikið upp á - og vil hefja til vegs og virðingar. Því miður rugla margir saman auðmýkt og niðurlægingu. Sem er auðvitað alrangt. Auðmýkt þýðir einfaldlega það að verða auðveldlega mjúkur (nei Bjarki, þetta er ekki orðhengilsháttur). Mjúkur gagnvart viðfangsefnum, mönnum og málefnum. Að taka á því öllu saman með kærleiksríkum og auðmjúkum sveigjanleika, í stað þess að vera stífur, stirður og þver, - og halda sínu fram, með þrjósku og þvermóðsku að vopni. Auðmýkt hefur nákvæmlega ekkert með niðurlægingu að gera.

Vona að þið afsakið myndaleysið. Heimasætan fór með tölvuna mína út á Þjóbó að læra fyrir próf - svo ég er að slá inn á tölvu eiginmannsins (nenni ekki að setja myndirnar mínar þangað inn).

Njótið helgarinnar. 


Föstudagur

Árshátíð TKÞó að þessi föstudagur sé að kveldi kominn, má ég til með að vekja athygli á sérstöðu hans og hans líkum. Sú bráðskemmtilega staða kemur upp ca. tvisvar á vori hverju, að það kemur föstudagur á eftir "sunnudegi". Í alvöru, hafiði ekki tekið eftir þessu? Uppstigningardagur og sumardagurinn fyrsti eru alveg eins og sunnudagar, bara ennþá meira hátíðis. Hvað svo? - vaknar maður svo upp á drungalegum mánudegi daginn eftir? Ekki aldeilis, - manni til ómældrar ánægju er föstudagur - og helgi fram undan. Og jafnvel þó að þeir hafi haft af manni einn frídag með því að skella á mann einum fyrir tvo í gær, - og jafnvel þó að ég hafi "þurft" að vinna á sumardaginn fyrsta, þá gleðst ég takmarkalaust í dag. Tek út þrefalda "föstudagur-eftir-sunnudag"-gleði (líka þó ég "þurfi" að vinna aukavinnu á morgunn laugardag). 

ÁvaxtasalatÍ tilefni föstudagsins skellti ég inn nýlegri partýmynd (reyndar tekin á laugardagskvöldi). Ekki það að ég sé í brjáluðu partýi núna. Í kvöld gerði ég það helst til hátíðabrigða að horfa á Útsvar og þeyta rjóma út á ávaxtasalat. Er akkúrat að smjatta á því núna.

Lífið er yndislegt. 

Góða helgi. 


Sérviska.

RennsliÉg hef lengi verið þeirrar skoðunar, að hvers kyns ósætti á milli fólks, eigi sér að miklu leyti rætur í mismunandi hugtakaskilningi. Við erum oft miklu meira sammál en við höldum. Til að undirstrika þessa skoðun mína ætla ég að skrifa nokkra pistla, þar sem ég tek fyrir eitt orð í einu.

Byrjum á sérviskunni. Stundum er sagt við mig að ég sé nú meiri sérvitringurinn, t.d. þegar mér er ekki sama hvernig kaffi ég drekk og úr hvernig íláti (sökum sérvisku minnar vil ég helst bara sojalatte úr fallegum postulínsbolla, en ekki lapþunnan og soðinn uppáhelling úr plastglasi). "Takk" segi ég þá, - því fyrir mér er sérviska mikið hrósyrði, þó sá sem hreytti þessu út úr sér hafi verið að finna að við mig. 

Viska er mjög jákvætt orð, það fer enginn í grafgötur um það, að það er verið að hrósa honum, ef sagt er að hann sé vitur. Sérviska hlýtur að vera ennþá jákvæðara, þú ert þá ekki bara vitur, heldur býrðu yfir sérstakri visku. Ótrúlegt að það skuli ekki allir vera sammála mér. Reyndar verð ég voða hissa svona yfirhöfuð, að fólk skuli ekki bara geta verið sammála um það sem mér finnst. Það væri svo einfallt og gott.

SérviskaÞað sem undrar mig mest í þessu tilfelli, er að ný-aukin og endurbætt orðabók menningarsjóðs skuli ekki vera mér sammála. Þar er þeirri forpokuðu túlkun haldið fram, að sérviska séu kenjar, duttlungar og frábrigði í skoðun eða hátterni. Ekkert minnst á sérstaka visku. Erðanú!!

Hvað finnst ykkur? 


Vorannir tónlistarkennarans.

Á nemendatónleikumGleðilegt sumar elskurnar mínar og takk fyrir veturinn. Afsakið hvað langt er um liðið frá síðasta pistli. Ég vona að þið hafið verið farin að sakna mín.

En vorannir tónlistarkennarans eru semsagt hafnar. Fyrir utan alla venjulega kennslu er ég t.d. núna með aukavinnu 3 laugardaga í röð í Tónheimum. Fyrir rúmri viku var ég að prófdæma þar, - og geri það aftur á laugardaginn kemur. Á laugardaginn var voru vortónleikar Tónheima. Fyrir helgi fór ég aukaferð til Njarðvíkur til að spila undir í fiðluprófi - og svo framvegis. Og það sem verst var: Ég þurfti að kenna alla venjulega fimmtudagskennslu á sjálfan sumardaginn fyrsta, af því að tónleikarnir voru á sumardaginn þriðja - og það var ekki hægt að hitta ekki nemendurna í 9 daga fyrir tónleika.

Ég leyfði mér samt að búa til stund milli stríða - og skjótast í Skálholt strax eftir tónleikana á laugardaginn - og gista þar eina nótt. Eiginmaðurinn var þar í þrjár nætur, hafði farið á fimmtudaginn til að spila þar alla helgina (á gítar). Það er alltaf gott að vera í Skálholti - og ég naut þess í botn að hvíla mig þar í sólarhring.

græna ljósiðNú er kvikmyndahátíð Græna ljóssins yfirstandandi. Við keyptum 6 mynda passa (þ.e. 12 göt - 6 myndir fyrir okkur hjónin saman) og erum búin að sjá þrjár mjög góðar. Náum vonandi að sjá hinar þrjár áður en hátíðinni líkur.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á einni af þessum myndum. Hún heitir Caramel - og segir frá lífi venjulegs fólks (aðallega kvenna) í Beirút í Líbanon. Einstaklega falleg og vel gerð mynd. Gaman að sjá eitthvað annað en stríðsfréttamyndir frá þessu svæði.

Ég er eitthvað óvenju andlaus í augnablikinu. Skálholtsværðin er greinilega ennþá yfir mér. Best að fara snemma að sofa og halda áfram að safna kröftum fyrir vikuna fram undan. 

Lifið heil. 


Mömmumont.

Bjargvætturinn.Heimasætan er heimsins dýrmætasti unglingur. Það mundi æra óstöðugan að fara að telja upp alla hennar kosti, svo í augnablikinu ætla ég bara rétt að tæpa lítillega á nýjustu námsafrekunum.

Það vill semsé svo vel til, að þrátt fyrir að stúlkan sé á kafi í félagslífinu og sé iðin við að njóta lífsins með sínum mörgu og góðu vinum, þá er hún alltaf jafn dugleg við að sinna náminu. Og er fyrir vikið er hún aftur og aftur að fá alls kyns verðlaun, auk þess að vera alltaf með topp-einkunnir.

Í síðustu viku var eitt af íslenskuverkefnunum að yrkja dróttkvæði. Ekki  auðvelt fyrir nútímastúlku. En hún lagði metnað sinn í það, eins og allt annað sem hún gerir - og í dag kom hún heim með þykka safnbók með ljóðum Þórarins Eldjárns, - fyrstu verðlaun fyrir dróttkvæðið.

Nú kemur mamma upp í mér (mamma mín er oft svo fyndin þegar hún vill ekki gera upp á milli barnanna sinna) og mig klæjar í fingurgómana að fara að segja frá námssnilli og annari snilli hinna barnanna minna. En ég stilli mig um það, þó af nógu sé að taka. Kannski seinna. Það er allavega á hreinu að ég er ríkasta mamma í víðri veröld.

Sólsetur 14.04Nú er byrjaður sá tími ársins (nokkrir mánuðir), þar sem maður vill helst hanga í glugganum öll kvöld (þegar ekki er alskýjað) og horfa á málverkið á himninum, sem breytist á nokkra mínútna fresti,  eða fara út á göngustíginn hér fyrir framan og njóta rómantíska sólarlagsins. Þessa mynd tók ég núna um 9-leytið í kvöld.

Lifið heil. 


Besti staður í heimi.

Sólsetur 6Síðan ég flutti í rauða húsið við hafið (fyrir bráðum 4 árum) hef ég oft sagt - og ennþá oftar hugsað; - ég bý á besta stað í heimi. Og ég virkilega meina það. Miðbæjarrottan ég er 10 mínútur að rölta niðrá Ingólfstorg, en samt bý ég ekki við neitt ónæði frá miðbænum. Íbúðin sjálf er sú stærsta og besta sem ég hef búið í - og hentar mér og minni fjölskyldu einstaklega vel.

Útsýnið er stórfenglegt yfir hafið. Ég sé Gróttuna og Esjuna, -  og þar á milli Snæfellsnesið með sýnum ævintýralega jökli, Mýrarnar og Akranes. Að ógleymdum sjálfum himninum, en hann er endalaus málverkasýning þegar kvöldsólin leikur við skýjahnoðrana.

GusugangurBest af öllu finnst mér þó sjálft hafið. Að rölta eftir göngustígnum fyrir framan húsið mitt og anda að mér sjávarlyktinni sem ég elska. Að sitja í stofuglugganum og horfa á sjóinn þegar hann er í ham - og öldurnar gusast hátt yfir varnargarðinn. Þá fer ég í algjöra hugleiðslu- og vellíðunarvímu.

En það er einmitt þetta síðastnefnda, sem borgaryfirvöld geta ekki unnt mér. Í hvert skipti sem hafið hefur gusað þessum unaðslega lyktandi þara upp á göngustíginn og grasið, þá mæta borgarstarfsmenn til að hreinsa. Mín vegna þurfa þeir alls ekki að gera það, mér finnst þarinn yndislegur. 

Varnargarðurinn hækkaður.En nú eru þeir orðnir leiðir á hreinsuninni - og byrjaðir að breikka og hækka varnargarðinn upp úr öllu valdi. Garðurinn er forljótur og umhverfisskemmandi - og skerðir verulega útsýnið mitt, sjávarlyktina og tengsl mín við sjóinn.

Þeir þóttust vera sniðugir og beittu mig sjokkmeðferð. Byrjuðu á að hóta landfyllingu með 25 þúsund manna blokkarbyggð. Hættu svo sem betur fer við hana (hún er samt á framtíðarplani) - og byrjuðu svo í kjölfarið að hækka varnargarðinn, í þeirri bjargföstu trú, að ég væri í þvílíkri sæluvímu yfir landfyllingarleysinu (sem ég svo sannarlega var og er) að mér þætti varnargarðurinn algjört pínöts. (Egósentrismi hvað? - auðvitað snýst þetta allt um mig.) Einkastæði

En þeir láta ekki þar við sitja. Ég legg Yarisnum mínum alltaf við gaflinn á húsinu mínu. Og engin vandræði með það - einn af fáum stöðum í gamla góða vesturbænum þar sem alltaf eru næg bílastæði. Það er leikskóli bak við húsið mitt. Og ekkert nema gott um þá návist að segja. Oft leggja einhverjir foreldrar líka við gaflinn minn meðan þeir fara inn með börnin eða sækja þau. Ekki vandamálið, næg stæði fyrir alla (leikskólinn tilheyrir reyndar götunni fyrir ofan, og þar eru líka stæði og hlið). En allt í einu eru komin skilti við húsgaflinn, sem á stendur að þetta séu einkastæði leikskólans. Ég varð alveg rasandi. Ekki nóg með að þessi stæði eru við húsið mitt, en ekki við leikskólann, heldur er aðalatriðið hitt, að þetta er svo mikill óþarfi. Ég er að koma og fara á öllum tímum - og það er alltaf nóg af lausum stæðum. Líka þegar flestir foreldrar eru að koma með og sækja. Svo hefði líka mátt tala við okkur íbúana, ef eitthvert vandamál var til staðar.

En ég læt ekki flæma mig í burtu. Hér skal ég vera uns ég er orðin allra kelling elst

Góða helgi. 


Fýlan.

Drottinn blessi heimiliðSem ég sat í sætinu mínu við eldhúsiborðið mitt á föstudagsmorguninn, sötrandi morgunsjeikinn minn og flettandi morgunblaðinu mínu, - fann ég einhverja undarlega lykt. Og það ekki góða. Ég hélt þetta væri einhver uppáfallandi ímyndum, en leit þó grunsamlega í kring um mig um leið og ég stóð upp til að laga kaffið.

Meðan kaffið var að hitna, hætti mér eiginlega alveg að standa á sama. Við hjónin höfðum að vísu verið venju fremur fúllynd kvöldið áður, eins og lesa má í síðansta pistli, en ég er aðeins of jarðbundin til að láta mér detta í hug að slíkt fýlukast geti haft bein og áþreifanleg áhrif með þessum hætti.

Þegar ég var langt komin með kaffibollann og minningargreinarnar, var ég orðin þess fullviss, að þetta væri alvöru fýla. Ég tók til við þetta nærtækasta, fór út með ruslið, fínkemmdi ísskápinn og lytkaði af borðtuskunni, þó ég væri nýbúin að skipta. Ég skoðaði í alla skápa, skreið eftir gólfinu, klifraði upp á eldhúsinnréttinguna - og rannsakaði hreinlega allt mögulegt og ómögulegt. Með engum árangri. 

Þá fór ég nú að verða verulega histerísk. Það var örugglega dauð rotta einhvers staðar. En hvar?

Eftir kennslu á föstudag, flúði ég upp í Vatnaskóg (það hafði reyndar staðið til) og var þar alla helgina. Heimasætan hringdi og sagði að það væri ekki líft í íbúðinni vegna fýlu. Og hún flúði til kærastans.

Dauða rottan hlýtur að vera einhvers staðar milli þilja, hugsaði ég þegar ég kom heim á sunnudagskvöldið. Það var stærra vandamál en ég gat dílað við, svo ég flúði á náðir íslenska morðþáttarins í sjónvarpinu.

Fýlublómið þrifið"Fýlan er af blóminu" sagði eiginmaðurinn upp úr eins manns hljóði, þegar morðþátturinn var búinn. "Hvaða blómi" æptum við mæðgurnar í kór og spruttum upp úr sætunum. Okkur hafði ekki brugðið svona mikið við nokkurt af atriðunum í morðþættinum.

"Af moldinni í blómapottinum hérna í hillunni við eldhúsborðið" sagði maðurinn hinn rólegasti. "Ertu viss?" spurði ég á hlaupunum, þreif blómapottinn og rak nefið nánast ofan í moldina. Ég var snögg að kippan því upp úr moldinni aftur, því fýlan var greinilega þaðan ættuð. Þá mundi ég það. Það voru mörg ár síðan ég umpottaði þessari plöntu, auk þess sem á fimmtudagskvöldið gaf ég henni kartöflusoð, sem hefur greinilega harmónerað illa við ævaforna moldina.

Það tók mig töluvert langan tíma að umpotta, þar sem ég þorði hvorki að skilja ögn né agnarögn af mold eftir á rótinni. Til þess notaði ég meðal annars fínlegan prjón, eins og sjá má á myndinni. Verst að þetta fína naglalakk byrjaði að flagna af nýlökkuðum nöglunum.

Lifið heil. 

 


Skattframtalsgeðveikin.

SkattframtaliðÞessa vikuna var ég á barmi taugaáfalls. Hingað til hef ég í hroka mínum hneykslast á fólki, sem ýmist fær sér endurskoðanda til að vinna þetta lauflétta löðurmannsverk, sem skattframtalið er, - eða þá að það situr sveitt í stresskasti yfir framtalinu vikum og mánuðum saman - og fær svo fyrir rest á sig áætlun.

Þegar eiginmaðurinn sá að ég var ekkert farin að pæla í framtalinu á síðasta skiladegi, sótti hann um frest til 1.apríl. Þann dag ákvað ég að hrista þetta fram úr erminni á korteri eftir kvöldmat.

En hrokinn kemur víst alltaf aftan af manni eins og ísköld vatnsgusa. Til skamms tíma vann ég ég bara á vernduðum vinnustöðum. - Þ.e. ég naut forréttinda hins almenna launþega, þar sem launagreiðandinn sér um allan rekstrarkostnað, félagsgjöld, lífeyrisgreiðslur - og alla þessa þætti, sem maður vill bara fá að njóta, en ekki pæla í. Alla vega tilheyri ég þeim þjóðflokki (sem vill bara njóta þessara þátta, en ekki pæla í þeim). 

En við það að skipta um tónlistarskóla, fara að kenna við skóla sem er einkastofnun, algjörlega óháð hvers kyns opinberum rekstri, neyddist ég til að gerast verktaki, sem á skattframtalinu heitir að ég er hvort tveggja í senn, minn eigin launagreiðandi og launþegi.

Fyrir mér var það alveg nógu mikil breyting að verða að telja saman tímana mína og senda inn reikning í hverjum mánuði. Mér tekst alltaf að láta það koma mér í opna skjöldu, að launin mín koma ekki sjálfkrafa inn á reikninginn minn fyrsta hvers mánaðar. Eins og mér líkar nú vel í nýja skólanum, þá hentaði mér mun betur að vera bara áskrifandi að föstum launum, eiga rétt á sumarbústað, greiðslum úr orlofssjóði, endurmenntunarsjóði, sjúkrasjóði, - og að þurfa ekki að sjá um neitt sem heitir skattur, lífeyrissjóður og það allt saman.

Eftir vel rúmt korter á þriðjudagskvöldið, reyndi ég í einu af mínum nettu útópíuköstum, að ýta á send. Ónei, þeir voru ekki aldeilis á því að samþykkja það. Ég fékk bæði villur, ábendingar og athugasemdir í hausinn. Ég þurfti m.a. að tína til alls kyns kostnað við öflun tekna, til að finna nettólaun - og borga svo 12% af þeim nettisma í lífeyrissjóð. Ég hafði í mínum hentuga naívisma verið ómeðvituð um allt slíkt, svo nú upphófst mikil vinna við að gera raunhæfar kostnaðaráætlanir eftirá.

Næstu sólarhringar fóru því í löng og leiðinleg símtöl, pælingar, útreikninga, skoðanir og snatt - og auðvitað að finna sér lífeyrissjóð og borga heilsársgreiðslu í hann. Og gamanlaust, - það komu þó nokkur augnablik, þar sem ég hélt ég mundi missa vitið. En í gærkvöldi tókst mér að ýta á send og fá "bara" tvær ábendingar, en enga athugasemd eða villu. Svo ég ýtti bara strax á "senda samt" áður en ég yrði Klepptæk. Eins gott fyrir geðheilsu mína að þetta sleppi. 

Eiginmaðurinn reyndi af sinni bestu getu og tíma að hjálpa mér. En þessum annars geðprúða og elskulega manni tókst engan vegin að leyna pirringi sínum yfir "auðmýkt minni og samvinnufýsi". Auk þess sem hann er þessi tímanlega týpa - og þar af leiðandi ekkert yfir sig hrifinn af frestunaráráttunni minni. Svo við vorum allan tíman í leiðindakeppni - og urðum að sjálfsögðu ekki sammála um, hvort okkar sigraði þá keppni. En nú erum við sem betur fer búin að ýta á send - og getum haldið áfram að vera elskuleg og skemmtileg - og njóta lífsins og hvors annars. Það fer okkur svo vel.

Ásbjörg RauðhettaBest að lífga aðeins upp á þessa leiðinlegu færslu, með mynd af heimasætunni (Rauðhettu), sem var á leið á grímuball MR, um það leyti sem við vorum að leggja síðustu hönd á framtalið.

Góða helgi gott fólk. 


Veisluhelgin mikla.

mamma 70 + pakkarMamma varð sjötug 25. mars síðastliðinn. Hún var að heiman þann dag, fór með systur sinni í leikhúsferð upp í Borgarnes. En við systkinin létum ekki hafa af okkur góða afmælisveislu - og héldum "surprise-party" fyrir hana á laugardaginn. Leigðum sal og buðum fullt af vinum og ættingjum.

Eins og mín var von og vísa, lét ég mér ekki nægja að baka kökur og laga kaffi, - ég þurfti auðvitað að troða upp með nett uppistand, þar sem ég gerði góðlátlegt grín að okkur mæðgunum. Ég var svo heppin að mamma móðgaðist ekki vitund (ekki að það hafi verið líkt henni), heldur fannst henni þetta bara skemmtilegt og bráðfyndið. Vonandi að einhverjum fleirum hafi þótt það.

Árshátíð TKÉg heyrði einhvern spyrja mömmu í miðri veislu, hvort hana hafi ekki grunað neitt. "Mér fannst bara skrýtið að enginn skyldi koma" sagði mamma þá. Aumingja mamma, sat heima frá þriðjudegi til laugardags - og bjóst við að vinir og ættingjar streymdu í hrönnum í afmælisheimsókn, - en enginn kom. Okkur hafði ekki hugkvæmst að gera ráð fyrir þessu. En hún var alsæl og himinlifandi með veisluna.

Úr afmælisveislunni þeystum við hjónin beint á árshátíð hjá vinnustað eiginmannsins. Næstum 50 manna veislu sem haldin var í heimahúsi. Góður matur, góður félagskapur, stuð og stemmning. Sungið og spilað á ýmis hljóðfæri. Ferlega gaman.

Ferming D altari framaníÁ sunnudagsmorguninn var svo eldri stjúpsonurinn fermdur. Næstum 100 manna fermingarveisla á eftir, þar sem ég var í fyrsta sinn að hitta margt af hans móðurfólki. Dýrmæt athöfn fermingin sjálf - og mjög góður mórall í veislunni. Sérlega ánægjulegur dagur. 

En nú er hversdagurinn kominn í fullan gang, eftir páskafrí og veislustúss - og alveg brjálað að gera. Best að drífa sig á kennarafund á Kaffi París - og þaðan beint í Suzuki-spilið í Njarðvíkum. Eins gott að öngvin trukkar séu að stöðva umferðina á Reykjanesbrautinni. Tek með mér góða bók til öryggis.

Lifið heil. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband