Færsluflokkur: Bloggar
23.3.2008 | 18:24
Kristur á krossinum.
Gleðilega páska. Í þriðja sinn, já ég veit það. Í hin skiptin var ég að óska þess að páskarnir yrðu ykkur gleðilegir þegar þar að kæmi, - en nú eru þeir brostnir á. Nú er hann upprisinn. Og þá fagnar maður upprisunni að sjálfsögðu með því að óska öllum gleðilegra páska.
Annars er bara ein ástæða fyrir færslu minni núna. Ég vil vekja athygli á stórkostlegum listaverkum sem ég sá í gær. Þau eru í Hallgrímskirkju á Skólavörðuholti, - eftir Baltasar Samper. Ég veit ekki hvort þetta er bara tímabundin sýning, eða hvort þau eru komin til að vera þarna. En ég hvet alla til að fara ef þeir geta.
Við hjónin röltum þangað inn á okkar hefðbundnu laugardagsgöngu - og ég varð svo heilluð, að ég fór heim og sótti myndavélina.
Í anddyrinu eru tvær stórar og fallegar myndir - og yfir altarinu trónir svo stór kross, myndaður úr sjö andlitsmyndum af Kristi, sem eiga að tákna sjö orð Krists á krossinum. Ótrúlega áhrifamikið og fallegt finnst mér. Reyndar finnst mér birtan frá gluggunum á bak við spilla aðeins. Ég ætla að fara aftur í myrkri.
Í rauða húsinu við hafið er annars allt með kyrrum kjörum. Við njótum páskahátíðarinnar í huggulegheitum. Tókum allan messupakkann, skírdagskvöld, föstudaginn langa og páskadagsmorgunn (í bítið). Undirrituð tók þátt í lestri píslarsögunnar í tveim þeim fyrri.
Meiri hluti fjölskyldunnar er hins vegar búinn að vera alla vikuna á rokkhátíðinni Aldrei fór ég suður. Sonur minn rokkstjórinn hefur ekki ennþá mátt vera að því að opna páskaeggið sitt og tilkynna mér málsháttinn.
Í sykurlausa egginu mínu var hins þýðing á ísskápsseglinum sem ég keypti í Kaupmannahöfn fyrir margt löngu - og held mikið upp á: Livet er det der sker for os, mens vi legger andre planer.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.3.2008 | 10:37
Páskafrí.
Mikið sem ég hef alltaf skilið Línu langsokk, sem vildi ganga í skóla, til að fá jólafrí, páskafrí og sumarfrí. Ég hef heyrt nokkra sem ekki tilheyra kennarastétt, segja að kostirnir við kennarastarfið séu þrír; - jólafrí, páskfrí, sumarfrí, segja sumir, - júní, júlí, ágúst, segja aðrir.
Ég er tónlistarkennari, - og vil meina að kostirnir við mitt starf séu fleiri og stærri en ofangreindir. Ég viðurkenni þó að þessi frí eru UNAÐSLEG. Og alltaf jafn kærkomin. Og við (þeir kennarar sem sinna sínu starfi almennilega) erum svo sannarlega vel að þeim komin. Ég segi bara fyrir mig, - ég er alltaf komin í svo mikla þörf fyrir þessi frí, stundvíslega þegar þau mæta á staðin, að ég hefði ekki getað kennt korter í viðbót.
Mig langaði til Kúbu um páskana. Mig er búið að langa til Kúbu í mörg ár. Og þegar ég uppgötvaði hvað páskarnir eru óvanalega snemma í ár (áreiðanlegar heimildir herma, að Góupáskar ekki aftur fyrr en eftir 152 ár), þá ákvað ég að nú væri loksins komið að því. Mig hefur alltaf dreymt um að komast til útlanda meðan enn er vetur hér, en vor eða jafnvel sumarveður í útlandinu. En þá þarf þetta endilega að vera veturinn sem ferðaskrifstofan sem hefur séð um Kúbuferðir, ákvað að sleppa þeim. Ég fór á leitarvefi, - og komst að raun um að besta lausnin væri að ferðast gegn um París til Havana - og það kostaði litlar 550 þúsund krónur fyrir manninn, bara flugið. Þ.e. á aðra milljón fyrir okkur hjónin samkvæmt gengi á þorranum. Ætli það sé ekki komið á þriðju milljón núna. Sama og þegið.
Þá ákváðum við að fara bara til einhverrar annarar borgar, þar sem ganga mætti út frá góðum útlenskum hita. Barcelona var efst á blaði. Þá kom í ljós, að fleiri höfðu greinilega fengið sömu hugmynd og ég, en verið tímanlega í því (sem er ekki mín sterkasta hlið). Það var allt uppselt sem okkur fannst koma til greina.
Þá var að athuga með sumarbústað. En hinir kennararnir voru auðvitað löngu búnir að bóka þá líka (geta þessir kennarar ekki verið heima hjá sér, þegar mig langar að heiman?).
Svo við enduðum á rúmlega sólarhringsferð í Hvalfjörð og Borgarfjörð. Og sú ferð var yndislegri en mig hefði getað grunað. Við fórum í þrjár langar gönguferðir; upp með Laxá í Kjós, í Vatnaskógi og á ströndinni undir Hafnarfjalli (myndir í sömu röð). Gönguferðir í íslenskri náttúru finnst mér alltaf unaðslegar, en það sem gerði þessar ferðir enn unaðslegri en oftast, var lognið. Í Vatnaskógi var blankalognið svo ALGJÖRT, að ýktustu Ísfirðingar hefðu viðurkennt það sem slíkt. Og undir Hafnarfjalli, sem er viðurkennt rokras...., voru í mesta lagi 1 eða 2 metrar á sekúntu.
Restin af páskafríinu fer svo í skipulögð og óskipulögð huggulegheit hér heima og í næsta nágreni. Og við ætlum svo sannarlega að njóta þess.
Það er örugglega rok í Barselónu og á Kúbu.
Gleðilega páska.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.3.2008 | 09:20
Gleði gleði gleði.
Ég beinlínis trylltist af kæti yfir 10-fréttunum í gærkvöldi. Það var ekki möguleiki að ég gæti tyllt rassi á stól, heldur hoppaði ég og hoppaði, eins og hálfviti, - hæð mína í loft upp og allt það (það vill til að það er hátt til lofts og vítt til veggja heima hjá mér), veifaði öllum öngum og reyndi að hemja gleðihrópin, svo ég gæti nú heyrt fréttina. Ég veit ekki hvað konan á neðri hæðinni hefur haldið. Nema hún hafi verið að fylgjast með sjónvarpsfréttunum. Þá hefur hún pottþétt vitað hvað klukkan sló.
Gleðifréttin er sumsé sú, að nýjasta borgarstjórnin (hvað sem annars má um hana segja), er hætt við landfyllinguna sem átti að koma fyrir framan húsið mitt, með blokkarbyggð fyrir 25 þúsund manns!!!!!!!!!!!!!!!!!!!
Þannig að ég get áfram búið á besta stað í heimi, með fallegasta útsýnið, sjávarlyktina og allan þann yndisleik. Ég er hamingjusamasta manneskja í víðri veröld .
Góða helgi og gleðilega páska .
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
10.3.2008 | 21:40
Sigrar.
Báðir sambýlingarnir mínir fögnuðu stórsigrum um helgina. Heimasætan var kjörin Scriba Scolaris - og eiginmaðurinn komst á verðlaunapallinn eftir velgengni á Íslandsmótinu í borðtennis.
Fyrir þá sem ekki skilja latínu, eða MR-ísku - eins og einkasonurinn kallaði það, þegar hann spurði hvað skribba skólariss væri fyrir nokkuð, - þá þýðir þetta ritari skólans - og er gífurlega virðulegt embætti innan Menntaskólans í Reykjavík, eða Latínuskólans eins og hann hét í upphafi. Ég er ekki frá því að eina embættið sem er æðra í virðingarstiganum sé Inspector Scola, en einungis efstubekkingar eru kjörgengir í það embætti.
Sjálf get ég ekki gumað af öðru en mínum hversdagslegu smásigrum - og varla það. Enda eru þeir ekki á dagskrá núna. Nú er ég upptekin við að vera stolt af mínu fólki.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
7.3.2008 | 10:07
Að tala þvert um hug sér. - Eða ekki.
Eitt af því góða við eiginmanninn, er að honum finnst ég alveg ofboðslega skemmtileg. - Og fyndin. Sérstaklega þegar ég ætla mér alls ekki að vera það. Honum finnst t.d. mjög fyndið þegar ég tala þvert um hug mér. - Sem ég geri að sjálfsögðu aldrei. Tökum samt tvö dæmi.
Hann benti mér á það núna nýlega, að það væri örugglega gott fyrir mig að hlusta á BBC, ef ég vildi bæta enskukunnáttuna. Það væri ekki nóg að lesa ensku og glósa, - ég þyrfti líka að hlusta. Hann hnýtti ekki aftan við þeirri staðreynd, að ég væri alltaf að glósa sömu orðin. Hann hafði heldur engin orð um, að ástæða þessarar hugmyndar hans hefði eitthvað með enskuframburð minn að gera, (börnin mín hefðu hins vegar ekki hlíft mér við slíkri athugasemd).
Nú ég tók mark á honum. Næsta mánudag hlustaði ég á BBC alla Reykjanesbrautina. Þegar ég kom heim, sagði ég honum að enskuskilningur minn væri greinilega mjög skilyrtur. Alla Reykjanesbrautina hefði verið talað mjög mikið um ástandið í Afganistan, - og ennþá meira um forkosningarnar í BNA. - Og ég skildi ekki eitt einasta orð!! Svo þegar ég var komin inn í borgina var farið að tala um misnotkun kaþólskra presta á börnum og unglingum. Og þá skildi ég allt í einu hvert einasta orð. Enskuskilningur minn hefur örugglega heilmikið með áhugasvið mitt að gera.
Þá fór minn að skellihlæja: Laufey þú ert svo fyndin. Hvernig í ósköpunum geturðu haft allt þetta eftir, um ástandið í Afganistan og forkosningarnar í BNA, ef þú skildir ekki eitt einasta orð? Hmm, - þú meinar.... stundi ég upp.
Í sömu viku ætlaði ég að kaupa sturtusápu af ákveðinni gerð, eftir að hafa klárað þá sem tengdadóttirin gleymdi hjá mér. Það var því miður ekki til samskonar brúsi, en samskonar sturtusápa var hins vegar til í stærri brúsa með pumpu. Ég keypti þann stóra, en þar sem ég get ekki haft stóran pumpubrúsa með mér í leikfimina, ákvað ég að pumpa sápu úr þeim stóra yfir í þann litla. Það var smá vesen - þurfti auðvitað lagni og leikni til, sem ég auðvitað beitti af minni alkunnu snilld. Þar sem ég stend við eldhúsborðið, langt komin með að fylla þann litla, - kemur eiginmaðurinn, opnar ruslaskápinn og sér þar tóman lítinn saltbauk efst í ruslinu. "Hva - hentirðu þessum fína saltstauk? Ég ætlaði að kaupa nýtt salt og setja yfir í þennan stauk, hann er svo góður", sagði maðurinn. "Hvaða rugl er þetta?" sagði ég þá. "Maður kaupir ekkert stóran saltstauk og hellir yfir á einhvern minni. Maður bara notar þann stauk sem maður kaupir" Eitt augnablik stóðum við bæði og störðum á hendurnar á mér pumpa yfir í litla brúsan. Svo fórum við auðvitað að skellihlæja.
Ég tala samt aldrei þvert um hug mér.
Litla brúsanum með sturtusápunni var stolið frá mér í leikfiminni daginn eftir.
Góða helgi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.2.2008 | 10:07
Morgunbirta.
Nú eru þessir yndislegu dagar að byrja, - þar sem maður vaknar í myrkri, og svo birtir á meðan maður er að klæða sig og borða morgunmatinn. Og birtan er falleg þessa dagana, þegar himininn er mátulega léttskýjaður. Ég hef reyndar alltaf verið ástfangin af ljósaskiptunum undir þeim kringumstæðum (léttskýjuðu kringumstæðunum).
Já það þýðir ekkert annað en að hamast við Pollýönnuleikinn, nú þegar ekkert lát virðist vera á "frostavetrinum mikla". En ég verð að viðurkenna, að ég hugsa með söknuði og tilhlökkun til hlýju góðu lognrigninganna.
Hef þennan pistil stuttan, þar sem sá síðasti var óvenjulangur. Ef einhver hefur hug á að leiðrétta stafsetningarvillur, þá er það í boði. Ég hef t.d. aldrei verið örugg á tvöföldum samhljóðum í þeim félögum; himni og morgni. Hvernig væri t.d. að Lulla frænka fari að láta ljós sitt skína á athugasemdasíðunni?
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.2.2008 | 12:02
Bergþóra og blótið.
Það var með hálfum huga, að ég hringdi í frumburðinn minn á fimmtudaginn og spurði hikandi hvort hún vildi nokkuð koma með mér á minningartónleika um Bergþóru Árnadóttur. Hikið og hugurinn hálfi kom til af því, að ég óttaðist að ég hefði bólusett hana gegn þessari yndislegu tónlist, þegar ég spilaði næstum því gat á Bergþóruplöturnar mínar hérna um árið.
ÓJÁ, hrópaði frumburðurinn - og hrifningin í röddinni leyndi sér ekki. Já auðvitað - hugsaði ég. Stúlkan er smekkvís með afbrigðum, svo auðvitað hreifst hún með þegar hún hlustaði með mér á Bergþóru.
Augnabliki áður hafði ég hringt í Söru vinkonu, en hún sagðist aldrei beinlínis hafa verið þessi vísnavinatípa. Fékk svo bakþanka og ákvað að koma með.
Svo ég settist við tölvuna til að kaupa miða. En ÓNEI - það var uppselt. Laufey klaufi, Laufey klaufi. Búin að vera ákveðin í að fara á þessa tónleika í heilan mánuð - og lenda svo í þessu. Ég varð ekkert smá miður mín.
En eigi skal gráta Björn bónda heldur safna liði - hugsaði ég og þurrkaði tárin. Hringdi í Salinn um leið og hann opnaði að morgni og bað afgreiðslukonuna að vera svo góða að bjarga lífi mínu. Hún setti mig á biðlista og sagðist mundi hringja ef eitthvað losnaði. Þá hringdi ég í einn úr hljómsveitinni og bað hann að gera allt sem hann gæti til að galdra fram eins og þrjá miða. En áður en hann var búinn með galdraþuluna, hringdi konan úr Salnum og var búin að bjarga mér.
Vá hvað ég varð himinlifandi og hamingjusöm. Ég tyllti varla í jörðina það sem eftir lifði dags. Á leiðinni á tónleikana hamaðist ég svo við að segja við sjálfa mig og frumburðinn, að við yrðum að passa okkur á að búast ekki við of miklu. Það færi enginn í fötin hennar Bergþóru, en þetta væru góðir tónlistarmenn, sem gerðu þetta ábyggilega vel á sinn hátt, sem væri auðvitað ekki Bergþóruháttur.
En ég verð að segja, að tónleikarnir fóru langt fram úr mínum vonum - og voru vonirnar þó ekki litlar. Þeir voru stórkostlegir. Og þó að listamennirnir gerðu þetta á sinn persónulega hátt (sem betur fer), þá voru þeir líka ótrúlega mikið í anda Bergþóru .
Ég tók nokkrar myndir á tónleikunum, en þær voru ekki góðar. En ég bendi á bloggið hennar Söru minnar, hún náði miklu betri myndum á sína vél. Smellið bara á nafnið hennar hér til hliðar.
Ef þið eruð hins vegar að velta fyrir ykkur, hvað þessar myndir hér hjá mér komi Bergþórutónleikunum við, þá er svarið einfallt. Þær koma þeim ekkert við. Þær hafa hins vegar allt með stærri hluta helgarinnar að gera.
Við hjónin brugðum okkur sem sagt á þorrablót um helgina. Og það var aldeilis ekki haldið í næsta húsi, - heldur vestur á Ísafirði. Skruppum rétt sisona vestur á laugardaginn og heim aftur á sunnudaginn.
Áður en einkasonurinn fór með sinni eiginkonu í útlegð til skandinavíu, höfðu þau hjónin fest kaup á íbúð á Ísafirði, sem þau leigðu út meðan á útlegðinni stóð. "Þú kemur í heimsókn, við erum með gestaherbergi. Við fáum íbúðina um jólin, en ætlum okkur mánuð til að koma henni í stand", sagði einkasonurinn yfir morgunmatnum einhvern tíman í haust.
Frábært - sagði ég - þá komum við á þorrablótið. Og af því að mér finnst góðum hugmyndum yfirleitt ekki ætlað að detta dauðum og ónýttum til jarðar, stóð ég við orð mín, og bauð mínum heittelskaða með mér.
Þorrablót Sléttuhreppingafélagsins er hátíð sem ég tók alltaf þátt í á meðan ég bjó á Ísafirði, - en þáverandi tengdamóðir mín er alin upp í Fljótavík í Sléttuhreppi. Til glöggvunar fyrir ókunnuga - þá er Sléttuhreppur það svæði sem oftast er kallað Hornstrandir.
Sumir spurðu undrandi, hvað manninum mínum þætti um að ég (eða við) færi að skemmta mér með fyrrverandi tengdafólkinu mínu.
Því er auðvitað til að svara, að eitt af því sem við hjónin erum sammála um, er að við erum bæði einstaklega vel gift. Svo þarf maður heldur ekki að skilja við alla gömlu vinina, þó maður skilji við eitt stykki eiginmann (eða fleiri - já já). Auk þess sem okkar aðal-samferðafólk var að sjálfsögðu einkasonurinn og tengdadóttirin - og ekki eru þau neitt fyrrverandi.
Og blótið var virkilega skemmtilegt. Þrusustuð og góð stemmning. Ég dansaði svo mikið - á spariskóm með hælum (rauðum að sjálfsögðu), að ég finn ennþá til í öðru táberginu. Ég hafði reyndar tekið með mér sléttbotna skó til vara (líka rauða), eins og ég geri gjarnan, - en ég gleymdi bara að skipta.
Gestaherbergið var að vísu ekki tilbúið - ekki frekar en eldhúsið og fleira sem verið er að fínisera. Íbúðarstandsetning tekur alltaf miklu meiri tíma en til stendur. En heimsóknin til ungu hjónanna var ekki verri fyrir það. Minn ástkæri var varla kominn inn úr dyrunum þegar hann var kominn með uppbrettar ermar undir nýuppsettan vask, sem virkaði ekki alveg eins og hann átti að gera. Þú verður að losa beltið - sagði einkasonurinn - til að ná píparalúkkinu.
Okkur tókst með erfiðismunum að ná manninum undan vaskinum að viðgerð lokinni (nei hann var ekki fastur, bara í vinnustuði) til að koma með okkur í gönguferð um tangann. Að gönguferð lokinni greip hann málningarrúllu og pensil og hamaðist eins og brjálæðingur þangað til við hin vorum tilbúin á blótið. Þá kom hann með - og borðaði manna mest - bæði af skemmdum mat og óskemmdum. En hann var það þreyttur, að ég var ekki lengi að dansa hann undir borðið. Og hann fór fyrstur heim.
Sömu sögu er hins vegar ekki að segja af mínum fyrsta tengdaföður, sem varð áttræður í desember. Hann dansaði hverja konuna af annari undir borðið - en ekki mig. Við tókum tvær langar dansrispur, þar sem ég lagði metnað minn í að láta engan bilbug á mér finna.
Verð að segja frá einu í lokin. Ég kom auðvitað við í blómabúð, á leið í þessa fyrstu heimsókn í fyrstu íbúð ungu hjónanna. Og hugsaði með mér, að ef þau ættu blómavasa, þá væri hann örugglega í ómerktum kassa einhvers staðar í geymslu. Svo ég keypti þennan líka fallega vasa undir blómvöndinn. Þegar ég svo stíg út úr bílnum fyrir framan húsið þeirra, vill ekki betur til en svo, að ég flýg á hausinn í hálkunni. "Er allt í lagi með þig" hrópaði tengdadóttirin, þegar hún heyrði þetta líka skerandi brothljóð. "Vasinn" - var hins vegar það eina sem ég gat stunið upp. Ég varð svo miður mín yfir mölbrotnum vasanum, að ég gaf mér ekki svigrúm til að finna til, fyrr en ég sá hvað blómin tóku sig vel út í tómu Neskaffi-krukkunni.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.2.2008 | 11:55
Rauðir skór.
Áfram með litagleðina. Ekki veitir af þessa dagana, þegar þorrinn er upp á sitt "besta". Að vísu er bara einn litur til umfjöllunar í dag. - Rauður.
Ég held ég hafi getið þess áður hér á síðunni, að eitt af því sem er ólíkt með mér og öðrum konum, er að mér leiðist að versla. Og mest af öllu leiðist mér að kaupa föt á sjálfa mig. Ég hreinlega engist af kvölum, ef ég "neyðist" til að kaupa mér einhver föt. Ég hef ekki tölu á öllum þeim hræðilegu ferðum mínum á útsölur, þar sem ég ætla að vera hagsýn húsmóðir, þegar ég er virkilega farin að skammast mín fyrir að ganga endalaust í sömu lörfunum, sem ég keypti einhvern tíman á 9. eða 10. áratug síðustu aldar.
Og undantekningarlítið kem ég tómhent út af útsölunni, eftir að hafa fílað mig eins og soðinn blóðmörskepp inni í mátunarklefanum - og reynt að halda aftur af tárunum með því að segja við sjálfa mig, að verslunareigendur séu fífl og hálfvitar að reyna að koma því inn hjá venjulega vöxnum konum, að þær fái bara engin föt á sig, ef þær passa ekki í það sem hannað er á Barbie (vá hvað þetta var löng setning, ég bara stend á öndinni).
Alltaf fell ég þó í eina gryfju. Það er eins og það sé eitthvert segulstál í rauðum flíkum. Þó ég sé að horfa í allt aðra átt (oftast á beinni leið út úr búðinni), þá tekst mér alltaf að spotta út rauðan bol, rauðan kjól, eða rauða peysu. Ég hef keypt mér nokkra eins og sést á neðstu myndinni, en oftast hætti ég þó við á forsendunum: Laufey þú átt rauðan bol (peysu, kjól, jakka).
Segulstálið í rauðu flíkunum er þó verulega aumingjalegt, miðað við segulinn í rauðu skónum. Mamma mía, það bara er eitthvað við rauða skó, sem gerir mig alvarlega ástfangna, eða ég veit bara ekki hvernig ég á að orða það.
Við hjónin erum kannski á rómantískri kvöldgöngu, og minn elskulegi að úttala sig um sín hjartans mál. Og ég að hlusta á hann, jafnvel horfa á hann, eða bara beint niður Laugaveginn. Þá bara allt í einu er eins og eitthvert afl kippi til á mér höfðinu, snúi því skyndilega 90 gráður og ég sé rauða skó í búðarglugga. Ég sýp hveljur, og minn elskulegi fyllist afbrýðisemi, því ég get ekki leynt hrifningu minni á rauðu skónum. - Og bæði töpum við þræðinum, varðandi umræðuefnið sem rauðu skórnir ruddust inn í.
"Laufey þú átt rauða skó", segir þá minn elskulegi, og grípur oftar en ekki til þess örþrifaráðs að bjóða mér á kaffihús, til að eiga einhvern sjens í samkeppninni við rauðu skóna.
Hvað er þetta eiginlega við rauða skó?? Ég veit það í hjarta mínu, en get bara ekki útskýrt það.
Lifið heil.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
10.2.2008 | 11:48
Litir.
Mér er eiginlega farið að ofbjóða hvað síðustu bloggfærslur mínar hafa verið fullar af frostgráum myndum. Kannski ekki að furða, miðað við veðráttuna síðustu vikurnar.
En nú er sko tækifæri til að bæta úr því. Sara vinkona mín opnaði myndlistarsýningu í gær - og hún er nú ekki þekkt fyrir að mála neina grámyglu.
Á sýningunni eru bæði litrík málverk og pappamassafígúrur. Ferlega skemmtileg sýning.
Svo ef þið eruð - eða verðið á næstunni - stödd á höfuðborgarsvæðinu og viljið bæta litum í lífið svona í köldum og gráum þorranum, þá mæli ég hiklaust með því að þið kíkið inn í hliðarsalinn á Gallerí Fold við Rauðarárstíg (rétt fyrir ofan Hlemm).
Og þó þið séuð ekki í sömu litaþörfinni og ég, heldur viljið bara njóta góðrar listar, þá er þarna upplagt tækifæri.
Jeremías - ég er bara farin að hljóma eins og einhver auglýsing. Það var ekki meiningin. En samt - ég mæli hiklaust með þessari sýningu.
Læt þetta duga að sinni. Nema hvað - ef þið viljið sjá fleiri litskrúðugar myndir, þá tók ég slatta af yngstu nemendunum mínum, sem allir mættu í búningum á öskudaginn - og póstaði á flickr.com/photos/laufeywaage
Lifið heil.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.2.2008 | 21:09
Fimbulfrost á dekurhelgi.
"Þú verður að pakka niður ullargammósíum, ullarbol, húfu, vetlingum og andlitsgrímunni", sagði eiginmaðurinn fyrir helgi, þegar til stóð að við yrðum í Vatnaskógi um helgina. "Ég verð að geta farið með þig út að ganga, og frostið á að vera í tveggja stafa tölu", bætti hann við. Takið eftir, hann sagði ekki "með þér", heldur "með þig", - eins og hvern annan hund. "Þá pakka ég bara niður góðri bók" sagði ég. En auðvitað fór ég í kraftgallanum, með fullan bakpoka af flís- og ullarflíkum.
Vanalega tökum við rúmföt með okkur, en í þetta sinn sagði eiginmaðurinn að það væri algjör óþarfi, við gætum bara notað það sem til væri á staðnum. Ég vissi svosem að það væri rétt, en hitt þótti mér dularfyllra, að hann vildi ekki að ég keypti mat til að fara með uppeftir. "Ég er búinn að redda því" sagði hann. Gott og vel, best að leyfa honum að sjá um það til tilbreytingar, - hugsaði ég og byrjaði strax að búa mig undir að taka því vel, ef hann hefði verslað "vitlaust".
Mér fannst líka dáldið skrýtið, hvað honum fannst áríðandi að ég hefði með mér föt í fínni kantinum. Ég vissi ekki betur en við yrðum bara tvö í skóginum, ásamt staðarhaldara og nokkrum hagamúsum. En mér var það svosem að meinalausu að kippa með mér tveimur millifínum dressum.
En þegar við eigum bara tæpan kílómetra eftir að skóginum, beygir minn að hótel Glym. Búinn að bóka gistingu með mat og alles fyrir okkur alla helgina. Honum tókst heldur betur að koma mér yndislega á óvart.
Eftir unaðslegan kvöldverð fórum við í pottinn og horfðum á norðurljósin og stjörnurnar. Ekkert smá flott - og rómantískt. En frostið var svo mikið, að við þorðum ekki annað en að hafa á okkur húfur.
Á laugardeginum voru svo flís- og ullarflíkurnar teknar í gagnið, og gengið yfir í Vatnaskóg. Frostið var 14-16 stig. En minn fílhrausti eiginmaður lét það ekki stoppa sig, heldur stóð við það sem hann hafði lofað mér, - að leyfa mér að mynda sig meðan hann gerði armbeygjur í snjónum, á nærbuxunum svo gott sem einum fata. "Þetta var ekki alveg eins kalt og ég hélt", sagði hann þegar við komum inn. "Ég hefði getað sleppt húfunni.
Svo var það auðvitað aftur heitur pottur og unaðslegur kvöldverður. Á sunnudeginum lét hann mig hins vegar eina um pottferðina, en tók mynd af mér í staðin.
Segiði svo að við kunnum ekki að njóta lífsins. - Og það í fimbulfrosti.
Lifið heil.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)