Færsluflokkur: Bloggar
31.1.2008 | 10:58
Þorrinn og Góan.
Ég hef oft og lengi sagt, að þegar (ekki ef!!) ég verð orðin gömul og rík, ætla ég að dveljast í einhverju heitu landi frá janúar og fram í mars ár hvert. Frá mars og fram í janúar er hins vegar yndislegt á Íslandi - og hvergi betra að vera.
En frá janúar og fram í mars er aldrei neitt sérstakt um að vera, - og frostið og norðannæðingurinn oft slíkt og þvílíkt, að maður óskar þess að jólafríið standi fram að páskafríi, svo maður geti bara legið undir sæng með góða bók - og bara komist sem lengst með sjálft jólabókaflóðið.
Og nú stendur þetta tímabil sem hæst. Ekki nóg með það, heldur er vetrarríkið á suðvesturhorninu með mesta móti. Og fimbulfrosti spáð næstu daga. En þá bregður svo undarlega við, að mín er bara hin hressasta. Fír og flamme á fætur á hverjum morgni, alveg undrandi á fjarveru hins árlega Þorraþunglyndis. Og þegar ég hugsa til baka, þá hefur Þorraþunglyndið verið á hröðu undanhaldi hin allra síðustu ár. Hvað veldur? Er þetta partur af því að eldast? Eru þetta afleiðingar 12 spora vinnunnar? Eða skildi ég vera gangandi dæmi um þá kenningu að regluleg hreyfing forðar manni frá þunglyndi?
Hvað sem veldur, þá er ég alsæl með líf mitt og líðan um þessar mundir. Og það er nóg um að vera. Suzuki-liðið er að reyna að dagsetja mótið sem var frestað um síðustu helgi - og ég var svo óalmennileg að svara því til, að ég væri upptekin 3 næstu helgar (meira um það síðar - ég blogga ekki fyrirfram). Svo er ég líka komin vel á veg með jólabókaflóðið. Búin með Lásasmiðinn, Harðskafann, Þúsund bjartar sólir og Rimla hugans, - og byrjuð á Bíbí. Já lífið leikur svo sannarlega við mig þennan Þorrann. Vona að það leiki líka við ykkur.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.1.2008 | 10:36
Bóndadagur.
Helgin sem var að líða hafði verið þaulskipulögð fyrir mig í margar vikur. Minn þáttur í þeirri skipulagningu var að æfa mig á nýjum og gömlum lögum, keyra síðan í fyllingu tímans (á bóndadag) austur í Skálholt - og sitja þar við hljóðfærið alla helgina (alltaf finnst mér þetta jafn fyndið orðalag - eins og maður sitji bara aðgerðalaus við hljóðfærið).
Það eina sem foreldrar og aðalkennari Suzukifiðludeildarinnar tóku ekki með í undirbúninginn, var sú staðreynd að versta veður og versta færð sem þú getur búist við á Íslandi er akkúrat í byrjun Þorra. Og auðvitað fór það þannig, að Suzuki-mótinu var frestað vegna ófærðar.
Í staðin tókst mér heldur betur að koma mínum heittelskaða á óvart. Það vill nú þannig til í okkar sambandi, að við erum ósköp lítið fyrir að láta blómabændur og verslunarmenn segja okkur hvenær við eigum að vera sæt og góð og elskuleg við hvort annað. Við látum því vanalega þessa konudaga, bóndadaga, Valentínusardaga og hvað þetta heitir allt saman ýmist fara fram hjá okkur eða jafnvel lítillega í taugarnar á okkur. Hins vegar erum við mjög "dugleg" við að bjóða hvort öðru út að borða, á kaffihús, í bíó, eða sitthvað annað skemmtilegt - og laumum gjarnan gjöfum undir koddan hjá hvort öðru þegar hitt okkar á þess síst von. Auk þess sem við njótum rómantískra stunda á mjög mörgum ómerktum dögum.
Bóndi minn átti því ekki von á neinu öðru en að sitja heima yfir börnunum og búi þetta bóndadagskvöld, hafandi ekki einu sinni konuna til að elda ofan í sig, eins og á venjulegu hversdagskvöldi. Hann varð því ekkert smá hamingjusamur þegar hann kom heim - og hans ástkæra var á staðnum - og ekki bara búin að kaupa þennan fína bóndadagsblómvönd, heldur var hún langt komin með að útbúa þennan líka girnilega Þorramat. Að vísu var allur ekkert súrt eða kæst, því mín borðar ekki skemmdan mat. Auðvitað hefði ég getað haft nokkra skemmda bita með, bara fyrir hann, - en ég vissi að hann yrði alsæll með nýtt slátur, ný svið, harðfisk, flatkökur með hangiketi og rúgbrauð með Þorrasíld. Sem hann og var.
Njótið lífsins á Þorranum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
23.1.2008 | 10:31
Myndefnisklúður.
Ég hélt ég stæði á traustum snævi þöktum graskanti, þegar ég tók þessa mynd.
Þetta var í fyrradag. Á mánudögum fæst ég við undirleik við Suzuki-fiðludeild Tónlistarskóla Reykjanesbæjar - og þennan dag skrapp ég í hádegisgöngu með myndavélina.
Og sem ég stend þarna í rúmlega ökkladjúpum snjónum og munda myndavélina, brestur skyndilega eitthvað undir öðrum fæti mínum og sekúndu seinna undan hinum - og ég stend í ísköldu (í orðsins fyllstu merkingu) vatni upp að hnjám. Snjórinn var semsagt yfir örþunnum ís á vatninu, en ekki graskanti.
Það kemur auðvitað á mig fum og fát, þar sem ég get bara hugsað um það tvennt, að passa myndavélina og koma mér upp úr. Ég tímdi ekkert að velta fyrir mér hættu á frosnum fótum, því við blasti fullt af skemmtilegum myndefnum - og tæpir tveir kílómetrar voru í tónlistarskólann.
Ég var komin u.þ.b. 500 metra í burtu og búin að taka slatta af myndum í viðbót, þegar ég kveikti á perunni: "Hvað er að þér Laufey, af hverju tókstu ekki mynd af þínum eigin fótum ofan í klakavatninu? Þú varst meira að segja með myndavélina í hendinni" Þvílíkt klúður.
Ég var sem betur fer í kjól (stuttum), því ég þurfti að sjálfsögðu að fara úr leggings-buxunum, ásamt auðvitað skóm og sokkum - vinda og geyma á ofnum í skólanum, á meðan ég spilaði berleggjuð í nokkrum Suzuki-hóptímum.
Aðeins ein stúlka gerði athugasemd við beru leggina, og ein (ekki í sama tímanum) spurði hvaða lykt þetta væri við ofninn (sem sokkarnir voru á).
Ef þið viljið sjá fleiri myndir, sláið inn: flickr.com/photos/laufeywaage.
Njótið íslenska vetrarveðursins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
18.1.2008 | 10:52
Hroki og umburðarleysi.
Hvað mætti eiginlega halda um andlegt ástand mitt? Í síðasta pistli var ég að rifna úr monti - og í þessari viku er það hrokinn og umburðarleysið sem ræður ríkjum (eða ríður rækjum, eins og útvarpsmaðurinn sagði). Það mætti halda að ég væri að vinna 4.sporið. Eða kannski er verið að benda mér á að ég þurfi að vinna 4.sporið aftur núna, fyrst þessir brestir eru að poppa upp.
Þessa dagana fyllist ég vestfirskum hroka í hvert sinn sem ég sest upp í Yarisinn og keyri um götur bæjarins, eða fer út úr bænum. Það settist nefnilega örlítill snjór á götur suðvesturhornsins - og samstundis heyrðist væl og vein frá fólki sem sá ofsjónum yfir því að þurfa að moka bílinn út úr skafli (lesist; sópa smá snjó af og frá bílnum).
Gott og vel. Ef fólk nennir ekki að moka bílinn út - og eiga það á hættu að hann festist í næstu beygju, þá bara ferðast fólk gangandi. Einn veturinn (fyrir 18-20 árum) var virkilega mikill snjór í Reykjavík - og þá bara hafði ég minn Hædatsú Karate (Daihatsu Charade) óhreyfðan í innkeyrslunni í 2-3 vikur - og gekk í vinnuna daglega. Ég þurfti reyndar dáldið að taka á honum stóra mínum - og forðast meðvirknina - þegar ég labbaði fram hjá öllum bílunum sem voru fastir, án þess að hjálpa til og ýta.
Og þá er ég loksins komin að ástæðu míns vestfirska hroka. Stór hluti þeirra ökumanna sem er úti í umferðinni kann ekki að keyra í snjó!! Ekki einu sinni í þessari smá föl. En gerir það samt. Minn litli Yaris er ekki bara smábíll, heldur er eini gallinn við hann sá, að hann er eins og hálfviti í snjó. Samt er ég af og til að fara út í skafla, til að taka fram úr stórum jeppum, sem eru stopp á svo-gott-sem-auðri akgrein (Guð má vita hvers vegna). Og af ótta við þessa skelfilegu skafla sem eru í köntunum, láta menn svo eins og 3ja akgreina gata sé orðin 2ja akgreina - og 2ja akgreina gata sé orðin að einni. Sem þýðir það að maður er í sífelldri hættu á að þeir nuddist utan í hliðina á manni.
Nú er tuðið í mér orðið þvílíkt að mér er sjálfri farið að ofbjóða. Þá er best að hætta. Vek bara athygli á því að ég er auðvitað að kalla á hörð viðbrögð. Ætlast auðvitað til að Vestfirðingarnir geri athugasemd við að þessi tegung hroka sé kennd við þá (málið er auðvitað það, að fyrstu 9 árin mín með bílpróf bjó ég á Ísafirði og keyrði ýmsar gerðir af lánsbílum - og komst því ekki hjá því að læra að keyra í snjó). Svo ætlast ég auðvitað til að fólk á suðvesturhorninu mótmæli því hástöfum að þeir kunni ekki að keyra í snjó. Ég bara skora á ykkur.
Lifið heil.
Bloggar | Breytt 23.1.2008 kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.1.2008 | 10:39
Nýársviktin.
Síðastliðin allt of mörg ár hef ég þyngst um 5-6 kíló frá nóvember og fram í janúar. Ástæðan var að sjálfsögðu sú; að á þeim tíma er offramboð á neysluvörum þeim er viðhalda fíkn minni. Og ég var gjörsamlega hömlulaus í neyslunni.
Þetta þykja kannski ekki stór tíðindi, þar sem ansi margar íslenskar konur, - og slatti af körlum líka - hafa svipaða sögu að segja.
Hitt er öllu merkilegra, að þetta árið brá ég heldur betur út af vananum. Nú í janúarbyrjum er ég tveimur og hálfu kílói léttari en í byrjun nóvember síðastliðnum. Nei ég var ekki veik, fékk ekki einu sinni gubbupestina sem sumir fengu. Ég er bara orðin óvirkur sætindafíkill.
Maðurinn minn átti afmæli í fyrradag. Á afmælisdaginn hans í fyrra sá ég á viktinni þá hæstu tölu sem ég hef nokkru sinni séð. Talan í fyrradag var tæpum tug lægri .
Nú skal ég hætta, áður en ykkur fer að ofbjóða (ha - er það of seint?). Ég gerði nokkrar tilraunir til að blogga í gær og í fyrradag undir fyrirsögninni: Mont, mont, mont. Þá datt netsambandið alltaf út. Almættinu hefur væntanlega þótt það aðeins yfir strikið. Um leið og ég breytti fyrirsögninni, hrökk netsambandið í gang.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
31.12.2007 | 13:07
Merkilegast.
Þegar ég sé í fjölmiðlum að fólk á förnum vegi er spurt álits á einhverju, þá beiti ég umsvifalaust mínum snöggu snarviðbrögðum, og reyni að koma með mitt eigið svar, áður en ég heyri svörin þeirra. Stundum kemur jafnvel upp í mér löngun til að vera spurð álits. Af því svörin mín eru auðvitað alltaf svo miklu merkilegri en svör þeirra sem spurðir eru.
En aldrei er ég spurð. Kannski er ég einfaldlega aldrei að þvælast um Kringluna eða Austurstrætið (ég geng reyndar mjög oft Austurstrætið), rétt á meðan fjölmiðlafólk fýsir að vita álit almennings. Og kannski líka eins gott. Einhvern vegin grunar mig að lítið gæti orðið úr stærilætinu, ef til þess kæmi. Auk þess sem ég yrði örugglega bara óheppin og fengi einhverja spurningu um eitt af því fáa sem ég hef hvorki skoðun né áhuga á.
En það eru margar vikur eða mánuðir síðan það kom upp í huga mér löngun um að vera spurð í árslok, hvað mér hefði nú þótt merkilegasti viðburðurinn á árinu. Þá hefði mér nú ekki vafist tunga um tönn.
Ég gæti auðvitað tínt til eitt og annað persónulegt, t.d. það að ég byrjaði að blogga. Ýmsar ánægjulegar breytingar og viðburðir hafa líka orðið í minni fjölskyldu (flutningar, úrskrift, bílpróf o.fl.). Auk þess sem líf mitt og líðan hefur aldrei verið betra.
Svo er líka af ýmsu að taka í samfélaginu: Kristnifræðiumræðan, Lúkasarfárið, Borgarstjórnarskiptin, Eldsvoði í miðbænum, o.m.fl.
Nú þykir ykkur væntanlega eins og mér, að formálinn sé orðinn nógu langur, svo ég vind mér beint í sjálft svarið.
Sem er auðvitað: RISESSAN.
Bara sjálf Risessan, ásamt öllu þessu stórkostlega götuleikhúsi, sem henni fylgdi, er eitthvað það stórkostlegasta sem ég hef séð fyrr og síðar. Hugur minn og hjarta, ásamt öllum mínum skynfærum hófust í hæstu hæðir. Auk þess að elta uppi með myndavélina, alla skemmdarstarfsemi föður hennar, var ég svo heppin að eiga kost á að fylgja henni hvert fótmál í þremur sýningum af fjórum.
Mig skortir sjaldan orð, en öll þessi sýning var bara svo stórkostleg, að ég finn ekki ennþá (síðan í maí) nógu sterk orð til að lýsa henni. Ég vona bara að sem flest ykkar hafi fengið að njóta hennar. Það er alveg á hreinu að hún lifir í minni minningu og yljar mér um hjartaræturnar for the rest of my life, eins og maður segir á góðri íslensku.
Ég veit ekkert hverjir báru kostnaðinn af þessari sýningu (sem hlýtur að hafa verið töluverður). En ég er þeim ævinlega þakklát - og vil að þeir viti, að hún var víst örugglega hverrar krónu virði.
En þá er þessu fyrsta (hálfa) bloggári mínu að ljúka. Ég þakka ykkur öllum fyrir lesturinn og kommentin. Ég stend mig stundum að því að langa í fleiri komment, en ég gleðst þó ekki síður, þegar ég heyri um alla þá sem lesa sér til mikillar ánægju, án þess að kommenta.
Svo bara óska ég þess að þið njótið alls þess sem nýja árið ber í skauti sér.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
30.12.2007 | 23:04
Jólabækur.
Alltaf er ég jafn ótrúlega lánsöm. Ég hef stundum leitt að því hugann, hvort aðfangadagskvöldið mitt og jólanóttin mín yrðu nokkuð svipur hjá sjón, ef ég fengi enga bók í jólagjöf. En sem betur fer hefur aldrei reynt á það. Laufey lukkulega hefur alltaf getað farið með nýja bók upp í hreinu sængurfötin á aðfangadagskvöld.
Svo er það svo stór partur af jólunum mínum, að geta lagst upp í rúm eða sófa hvenær sólarhrings sem er, og gleymt mér yfir góðri bók. Unaðslegt líf.
Reyndar tók ég forskot á sæluna að þessu sinni. Ein vinkona mín hvíslaði því að mér í lok nóvember að hún væri búin að kaupa nýja Arnaldinn og væri að verða búin að lesa hana. Ég fór svo til hennar fyrsta sunnudag í aðventu og fékk hann lánaðan og kláraði hann fyrir jól.
Við Berglind endurtókum gamlan brandara. Ég setti Þúsund bjartar sólir ekki efst á jólaóskalistann, vegna þess að ég hafði keypt hana handa Berglindi (frumburðinum mínum). Það klikkar ekki, að gefa henni bók, sem mig sjálfa langar í. Hittir alltaf í mark. Það sama hugsar hún oft líka - og ég fékk Þúsund bjartar sólir frá henni. Það varð að samkomulagi að ég skipti minni.
Hins vegar setti ég Heilræði lásasmiðsins efst á óskalista. Og fékk hana frá heimasætunni (mikið sem allir eru alltaf góðir við mig). Ég kláraði hana í gær. Og mikið ofboðslega er hún góð. Elísabet Jökuls er algjör snillingur. Ég hef lengi verið aðdáandi hennar. Og þá erum við bæði að tala um bækur hennar og blaðagreinar. Ég man t.d. alltaf eftir einni blaðagrein, þar sem hún hafði fundið hjá sér skyndilega þörf fyrir að fara í fallegan kjól, fleygja tvíburunum inní gamla Sabinn, og þjóta upp að Gullfossi til að dansa við hann. Og auðvitað framkvæmdi hún þessa frábæru hugmynd. Yndislegt.
Og Heilræði lásasmiðsins er það langbesta sem ég hef lesið eftir hana. Ég var spurð í gærkveldi hvort mér þætti hún ekki of nærgöngul, en það finnst mér alls ekki. Ég kann þvert á móti vel að meta svona einlægni og heiðarleika. Svo er hún líka svo vel skrifuð. Ég fékk strax á fyrstu síðunum þá tilfinningu, að þessa bók gæti ég lesið aftur og aftur, bæði í heild sinni og í smærri bútum. Einhvern tíman heyrði ég því fleygt, að sú bók sem væri ekki þess virði að vera lesin tvisvar, hún væri ekki þess virði að vera lesin einu sinni.
Nú er eiginmaðurinn farinn að reka á eftir mér í Scrabblið sem við ætluðum að spila.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2007 | 14:56
Skák.
Allt getur nú gerst. Haldiði ekki að mín hafi tekið þátt í skákmóti í gærkveldi. Og það með landsfrægum meisturum í listinni. Ég sem hef ekki snert á taflmanni síðan ég kenndi syni mínum mannganginn einhvern tíman snemma á 9. áratugnum.
Við vorum 11 (sá tólfti fékk skyndilegan hausverk og flúði af vettvangi, þegar hann gerði sér grein fyrir að hann gæti hugsanlega lennt með mér í liði), og meiningin var að 2 og 2 væru saman í liði og léku til skiptis, án leiðbeininga frá sínum liðsmanni!!. Þar sem 11 er oddatala, var ákveðið að 3 væru í einu liðinu. Ég sá mér leik á borði (mín bara farin að tala skákmál) og bauðst til að vera bara á myndavélinni, því það fer mér illa að taka þátt í einhverju sem ég er léleg í. En það var sama hvað ég barðist um og varaði þau við, það tók enginn í mál annað en ég væri gildur tátttakandi.
Í upphafi stóð til að hinir 5 stigahæstu á staðnum (já við erum að tala um ELO-stig, eða hvað það nú heitir) veldu sér meðleiksmann úr "úrkastinu". Þá fyrst fór mér alvarlega að líða eins og feitu stelpunni í leikfiminni, sem alltaf er valin síðust í brennóliðið. En svo varð úr, að þessir 5 voru látnir draga nöfn okkar hinna úr potti.
Guðlaug Þorsteinsdóttir dró mig. Jess - hún er frábær, hugsaði ég, henni tekst örugglega að draga mig örlítið upp á við. En ég verð að segja, að ég varð fyrir vonbrigðum með Guðlaugu. Ekki að það hafi neitt með mína skáksnilld að gera að við urðum í neðsta sæti. Í það minnsta sýndi hún engin merki um vonbrigði, hneykslan eða skömm yfir (af-)leikjum mínum þessi elska (hún er reyndar geðlæknir). Þess í stað hrósaði hún mér fyrir hina örfáu góðu leiki sem ég lék, og fannst ég bara fyndin í mörgum afleikjunum.
Það eina sem hún hafði uppálagt mér, var að vera snögg að leika og ýta á klukkuna. Ég stóð mig bara nokkuð vel í því. Samt tókst okkur ekki að fella neinn á tíma. Það var smá svekkelsi.
Segiði svo að allt geti ekki gerst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.12.2007 | 15:00
Jólaspil
Almennilegheitum mínum eru bara engin takmörk sett um þessar mundir. Haldiði ekki að við Sindri höfum leyft Hannesi og Daníeli að vinna okkur í Partýspilinu í gærkveldi. Ja hérna, hvað gerir maður ekki til að hafa sinn mann góðan.
Og ekki nóg með það. Á jóladag spiluðum við gömlu hjónin Trivial við ungu hjónin í Skaftahlíðinni. Og við leyfðum þeim ungu að vinna. Það var reyndar dáldið erfitt, við fengum 6. kökuna um svipað leyti og þau, en svo létum við þau fá hrikarlega létta lokaspurningu á höfuðreitnum. Þessi góðsemi okkar kom nú eiginlega bara til af því, að þau buðu upp á svo góða osta. Svo þótti okkur líka nauðsynlegt að gleðja tengdasoninn, svo hann fengist til að spila fljótlega aftur (lokaspurningin var ekki bara lauflétt, heldur á einu af hans sérsviðum).
En á heimavelli var ég ekki alveg svona elskuleg. Ég hikaði ekki við að sigra eiginmanninn og heimasætuna í Triviali á aðfangadagskvöld, og í fyrrakvöld rústaði ég mínum heittelskaða í bráðskemmtilegu rummikub.
Þetta er eitt af því unaðslega við jólafríið, að geta skemmt sér við alls kyns spil, hvenær sem skemmtilegir spilafélagar eru tilkippilegir.
Ég hlakka til kvöldsins. Þá förum við í "skákpartý". Þ.e. í partý til nýgiftra hjóna, sem kynntust í gegnum skáklistina - og ég geri ráð fyrir að við hjónin verðum einu gestirnir sem aldrei hafa teflt á skákmóti (ég kann nú samt mannganginn). Ég bauðst til að taka með mér spurningaspil, en það var afþakkað. Ég fæ sem sagt ekki að vera partýkiller. Jæja þá, - þá verð ég bara skemmtileg.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.12.2007 | 21:54
Jólakonfekt.
Ég verð að viðurkenna, að ég fékk smá bakþanka eftir síðustu færslu. Að ég, - blíðlynda, þakkláta, alsæla jólabarnið - skuli hafa verið með svona tittlingaskítstuð. Og það á sjálfum jólunum. Ég verð þó líka að viðurkenna það, að tuðið virkaði. Mér finnst ég hafa losnað að mestu leyti við þessa jólahefðaandstöðuþrjóskuröskun eftir að ég lét hana frá mér með þessum hætti. Það veit aldrei á gott að byrgja tilfinningar og hugsanir inni. Tilfinningatorgið sem Elísabet Jökuls kom á laggirnar hér um árið, var stórkostleg hugmynd. Einhverra hluta vegna fór ég aldrei þangað til að tjá mig, en ég færi örugglega núna, ef það yrði endurvakið. Eins hefur mér oft dottið í hug, að við sem ekki erum kaþólsk, ættum samt að getað skriftað með einhverjum hætti.
Svo er heldur ekki eins og það hafi legið eitthvað illa á mér þessi jólin. Þvert á móti. Ég hef notið lífsins fram í fingurgóma. Ég er að vísu vön að njóta lífsins og láta mér líða vel um jólin, en ég gekk svo langt að toppa sjálfa mig í þeim efnum að einu leyti.
Þetta eru nefnilega fyrstu sykurlausu jólin mín. Eftir að hafa áratugum saman kvalist af því sem einkennir ofvirkan sætindafíkil, ákvað ég loks í janúar síðastliðnum, að eina leiðin út úr því rugli, væri að tækla þetta eins og aðrar fíknir, með 12 spora aðferðinni, einn dag í einu alla æfi.
Og þvílíkur léttir. Það fann ég best nú á aðventunni. Undanfarnar allt of margar aðventur hef ég nefnilega verið undir miklu vinnuálagi, þannig að ég hef haldið mér gangandi (eða ofvirkri) á 3-4 súkkulaðistykkjum með hverjum kaffibolla. Dottið oft á dag niður í sykurfall - og náð mér upp aftur með sama hætti (svona svipað og nikotínfíklar þurfa að kveikja í nýrri á ca klukkutíma fresti).
En nú er öldin önnur. Aldrei neitt sykurfall, eða sjúkleg löngun í óstöðvandi sætindasukk og þvílíkan óhemjugang. Og alltaf jöfn og góð orka og jafnvægi. Svo kemur hæfilegt þyngdartap sem hver annar aukabónus. Vanalega hef ég þyngst um 4-6 kíló frá nóvember fram í janúar, en í dag er ég rúmu kílói léttari en ég var í byrjun nóvember. Samt hef ég notið þess að borða eins og mig lystir af alls kyns jólamat, sykurlausum smákökunum og jólakonfektinu sem ég "föndraði" sjálf, - að ógleymdum öllum gúmmolaðisostunum sem ég fékk upp úr tveimur jólapökkum.
Og nú ætla ég að fara að spila Partý og co við stjúpsynina og minn heittelskaða. Blogga kannski um jólaspil á morgunn.
Lifið heil.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)