Færsluflokkur: Bloggar

Gulur borði og skólastrákar.

guli borðinn"Mér líður eins og ég búi í kosningamiðstöð" sagði stúlkubarnið mitt í gærmorgunn þegar búið var að skreyta húsið okkar með þessum gula borða. Ef ég væri búin að læra að tengja við frétt á mbl.is, mundi ég gera það núna. En ég bara les morgunblaðið mitt alltaf á prentuðum pappír. Og fréttin frá íbúafundinum í húsinu mínu er á bls.17 í blaðinu í dag. Síðan ég flutti hingað hef ég verið alsæl og yfirmáta hamingjusöm með að búa á besta stað í heimi. En það gætu fallið skuggar á þá alsælu ef fyrirhugaðar landfyllingarframkvæmdir verða að veruleika. 

Önnur frétt vakti athygli mína í blaðinu í morgunn. Á baksíðu og á bls. 6 er talað um brottfall drengja úr háskólanámi. Af innskráðum körlum, útskrifast aðeins 53%, versus 96% hjá konum (ef ég skil fréttina rétt, hún var dáldið loðin, - en alla vega voru þessar prósentutölur nefndar). Ég hef lengi vitað, að grunnskólinn er meira miðaður við námseiginleika stúlkna - og þess vegna dapurlegt hvað drengir njóta sín of ekki sem skildi þar. En það hafði aldrei hvarflað að mér að það sama ætti við í háskólanum. Kannski er eitthvað annað sem hangir á spýtunni. Fróðlegt að vita hvað. Kannski mistókst bara að byggja þá upp sem námsmenn strax í upphafi, vegna þess hvað grunnskólinn er "stelpumiðaður". Alla vega þarf að skoða þetta og finna leiðir til úrbóta.  Hjallastefnan held ég að sé mjög góð tilraun í þá átt. Gaman væri að fá ykkar álit.

Lifið heil. 


Vinsæl.

SalsastuðFyrir um það bil áratug síðan gripu mig af og til þær ranghugmyndir að ég ætti enga vini. Það sem ég hafði helst til marks um það, var að öllum vinum mínum (sem ég átti ekki?) var boðið í brúðkaup um aðra hverja helgi og fertugsafmælisveislu hina helgina (örlítið ýkt). En aldrei bauð enginn mér ekki neitt. Aumingja ég var allar helgar alein heima með mitt popp og video.

Eitt skiptið þegar ég sat vælandi við eldhúsborðið hjá vinkonu minni, var hún svo andstyggileg að skella á mig umbúðalausum staðreyndum: "Þú giftir þig nú í kyrrþei síðast, - bauðst ekki einu sinni mér" (næst þegar ég gifti mig, leyfði ég henni að vera svaramaður). Og hvað bauðstu mörgum í fertugsafmælið þitt?" (Ég bauð fjórum (börnunum mínum og þáverandi eiginmanni) - það mættu þrír). dýrmæt"Ég bauð þér minnsta kosti í fertugsafmælið mitt", sagði vinkonan og hélt áfram að pakka inn gjöf fyrir brúðkaup eða fertugsafmæli helgarinnar sem fram undan var.

Ég skildi þegar skall í tönnum - og hófst handa við að breyta þessu sjálfsvorkunnarviðhorfi mínu. Mér varð alla vega það vel ágengt, að mörgum árum áður en ég varð fimmtug, varð ég staðráðin í að halda veglega stórhátíð á þeim merku tímamótum. Ég stóð heldur betur við það - og þaðan eru þessar myndir - teknar fyrir rúmu ári síðan.

Rúmlega hundrað manns voru á staðnum - og var það samdóma álit viðstaddra, að þetta væri sú allra skemmtilegasta veisla sem þau hefðu verið í. Og það fannst mér víst ábyggilega líka.

hópmyndEn það kom mér virkilega á óvart að ég hefði getað boðið margfallt fleira fólki. Það voru nálægt 140 á boðslistanum (ég tók sjensinn á afföllum - salurinn tekur 110-120), en ég hefði alveg getað tvöfaldað þann lista. Ótrúlega margir vinir og ættingjar sem ég er í góðu sambandi við - og hefði gjarnan viljað bjóða. Enda er ég oft að hitta hina og þessa vini mína, sem ég er alveg miður mín yfir að hafa ekki boðið. Svo ég er heldur betur búin að éta ofan í mig þetta rugl með vinaleysið.

Og það er eins og við manninn mælt, - síðan eru bara eilíf veisluhöld. Maður uppsker víst stundum eins og maður sáir. Meira að segja vinkonur mínar á mínum aldri eru að gifta sig.

VinirOg núna á laugardagskvöldið fór ég meira að segja í tvöfalda fimmtugsafmælisveislu. Þ.e. hundrað ára afmæli hjóna. Hún varð fimmtug á laugardaginn, en hann fyrr á árinu. 

Ætli þetta sé partur af lögmálinu í Secret-bókinni, sem allir eru að mæra í hástert um þessar mundir? Samkvæmt þeim lögmálum á maður víst að hugsa og tala til sín það sem mann langar í. Ég hef lengi vitað um sannleiksgildi þess sem Luise Hay orðar svo í einni af sínum bókum: Það sem þú beinir huga þínum að það vex. Jákvæðu staðhæfingarnar sem ég lærði af þeirri góðu konu hafa bjargað miklu í mínu lífi, það gæti ég sagt ótrúleg dæmi um, ef ég héldi ekki að ykkur þætti komið nóg í bili. 

Lifið heil. 


Gleði og sorg.

Ber 11Mikið var ég sniðug, í upptroðslu minni í brúðkaupsveislu vinkonu minnar fyrir mánuði, - að fela foreldrum hennar það verkefni, að færa þeim brúðhjónum ber af öllum stærðum og gerðum á eins mánaðar brúðkaupsafmælinu. Foreldrar þessir eru einstaklega rausnarlegir, svo brúðhjónin sáu strax, að þau gætu aldrei torgað öllum þessum berjum ein (bara brot af þeim eru á myndinni). Hvað er þá það fyrsta sem þeim dettur í hug? Auðvitað að bjóða konunni sem stóð fyrir þessu - ásamt hennar heittelskaða - í berjaveislu. Sjaldan höfum við flotinu neitað. Mættum að sjálfsögðu gallvösk - og stóðum okkur eins og hetjur við veisluborðið. Hin nýgiftu eru með hentugar andstæður á hreinu - og bættu þessum líka girnilegu ostum á borðið.

Hlíðahiminn 11.sept.Við vorum rétt að byrja að úða í okkur, þegar himinninn gerðist ægifagur. Og ég sem hélt að slíkt og þvílíkt gerðist bara fyrir utan stofugluggann minn. En þetta er víst sami himinninn og sem betur fer fá fleiri en ég að njóta hans.

Annast á ég dáldið erfitt í augnablikinu með að hugsa um annað en Völu vinkonu mína, sem var að missa manninn sinn á sviplegan hátt. Þið sem biðjið - viljið þið biðja fyrir henni og 6 ára dóttur þeirra, og mömmunni, sem var að missa einkabarnið sitt.

Lifið heil. 

  


Gamlar hressar konur.

Ása + LwÉg þekki nokkrar frábærar konur, sem fæddar eru haustið 1917. Til dæmis Ásu vinkonu (sjá mynd), Ingunni Ósk frænku mína á Efra-Hvoli og Hólmfríði ekkjuna hans afa míns. Þær eru allar fæddar á bilinu 23.sept.-1.okt.1917 og verða því níræðar eftir nokkra daga. Allar eru þær og hafa alltaf verið einstaklega hressar og hraustar. Svo var Kristján Jóhannsson að opinbera það að móðir hans yrði níræð 14.sept. næstkomandi. Fleiri konur eru örugglega í þessum hópi - og eflaust einhverjjir karlar líka. 

Einhvern tíman í sumar - í heita pottinum - nefndi ég þessa merkilegu tilviljun við dóttur mína ljósmóðurina. "Nei mamma", sagði sú bráðgreinda, "þetta er engin tilviljun. Þessar konur voru nýfæddar þegar frostaveturinn mikli skall á. Þá dóu auðvitað þeir nýburar sem ekki voru hraustir. Þeir sem lifðu þennan vetur af sem nýburar, hljóta að lifa allt af". Alltaf svo bráðskýr og lík henni mömmu sinni þessi elska.

Ég fór á tvenna sinfóníutónleika fyrir helgi. Vorblótið á fimmtudagskvöldið og svo fór ég með ömmubörnin á hina árlegu kynningu Melabandsins (Sinfóníuhljómsveit Íslands - ennþá með aðsetur á Melunum) á laugardaginn. Þetta er dáldið mikið, miðað við að á seinni árum fer ég lang-oftast á jazztónleika - og alls konar öðruvísi tónleika. Tók út Sinfóníuæðið á níunda áratugnum.

Be með fiðluFleira af "klassísku"-deildinni. Ég var undirleikari við Suzuki-fiðludeild í 7 ár, en hætti því fyrir tveimur árum. Svo lét ég til leiðast og kom aftur til þeirra starfa nú í haust. Aðallega vegna þess að samstarfskona mín - fiðlukennarinn - er algjör snillingur í að gera þessa tíma skemmtilega.

Og þessa dagana er ég í því að sanna á sjálfri mér kenningu sem ég er alltaf að benda nemendum mínum á: Þegar maður rifjar upp gömul lög, verður maður alltaf jafn hissa á því hvað maður var fljótur að gleyma þeim. - Svo eftir augnablik verður maður ennþá meira undrandi á því hvað maður er fljótur að ná þeim aftur.

Læt til gamans fylgja mynd af frumburðinum mínum, sem lærði á fiðlu í 3 ár, en sagði mér ekki fyrr en mörgum árum seinna að hún hefði alltaf verið að drepast í herðunum og nánast öllum skrokknum, þegar hún spilaði. Þegar maður skoðar þessa mynd, sér maður augljóslega ástæðuna; hún var látin hafa allt of stóra fiðlu. Ef ég hefði áttað mig á því þá, - væri hún kannski fiðlusnillingur í dag.

Lifið heil. 


Trúnó.

Vindáshlíð 1Ég hef lengi verið þjáð af skorti á tveimur ákveðnum talentum. Annar þeirra er eftir-eyranu-spilamennska. Þegar ég nam píanóleik við Tónlistarskólann í Keflavík 11-16 ára, voru foreldrar mínir sammála tónlistarkennurum þess tíma, um að þeir sem væru að LÆRA mættu alls ekki spila eftir eyranu. Því var það að mamma kenndi litlu systkinum mínum Allt í grænum sjó og þess háttar lög, sem krökkum þykja skemmtileg, meðan ég var ekki heima. 

Svo tók við 9 ára tímabil, þar sem ég bjó með manni sem aldrei hafði lært að spila, en spilaði eftir eyranu, hvað sem var, hvenær sem færi gafst, í hvaða tóntegund sem var, og nánast á hvaða hljóðfæri sem var - þar með talið píanó. Eins og gefur að skilja, dró Laufey litla sig í hlé, og snerti ekki hljóðfæri í mörg ár. 

kvöldvaka 2Svo eftir að ég varð tónlistarkennari, er alltaf af og til ætlast til þess að ég spili hvað sem er, með engum fyrirvara og helst eftir eyranu. "Þú spilar bara eitthvað svona óæft" er ein af setningunum sem ég hef fengið að heyra - og pirrað mig yfir. Alltaf sagði ég nei - og stundum bætti ég því við að ég væri ekki ein af þeim sem spiluðu eftir eyranu, - og að þeir væru afskaplega fáir sem spiluðu óæft, -  þeir væru þá yfirleitt með eitthvað æft í pokahorninu. 

En auðvitað get ég spilað eftir eyranu. Ég hef í það minnsta kennt nemendum mínum það í þó nokkurn tíma. Málið var bara það, að ég hélt að það væri ætlast til svo mikils af virtum píanókennara, sem hefur verið eins og grár köttur á jazztónleikum landsins árum saman, - að það væri fyrir neðan mína virðingu að spila bara eitthvað sáraeinfalt, á borð við það sem ég kenni nemendum mínum.

Hanna Valdís og GyðaÞví var það, að fyrir tveimur árum gerðist ég nemandi í Tónheimum hjá Ástvaldi vini mínum Traustasyni. Hann var (og er) með sérstök námskeið fyrir píanókennara sem vilja rækta færni sína á þessu sviði. Hann sá þvílíkum ofsjónum  yfir færni minni og framförum , að í vetrarlok var hann búinn að ráða mig sem kennara hjá sér. 

Þá neyddist ég til að draga snarlega í land allar yfirlýsingar þess efnis, að ég gæti ekki spilað eftir eyranu. Eftir sat ég með fyrirsláttinn; ég get ekki spilað óæft. 

Á föstudaginn stóð ég svo frammi fyrir áskorun sem ég kaus að taka. Til stóð að landsþekktur atvinnutónlistarmaður træði upp í fimmtugsafmæli hjá vinkonu minni. Svo komst hann ekki - og það var hringt í Laufeyju litlu og hún beðin um að redda málunum.

Vindáshlíð 2Þetta var eftir hádegi á föstudegi og ýmislegt á dagskrá þann daginn (veislan klukkan 6) - en í staðin fyrir mitt hefðbundna nei, hugsaði ég: Ég hef rúman hálftíma til að finna út hvaða lög ég get spilað, það er kominn tími til að ég taki svona áskorun. 

Ég dauðkveið því að þurfa að yfirgefa veisluna með skottið á milli lappana og hugsunina "ég get aldrei komið á billann aftur" (a la Dúddi í Með allt á hreinu). En - ég komst lifandi frá þessu - og sveif því alsæl upp í Vindáshlíð í grenjandi rigningu og kvöldmyrkri.

Þar beið mín önnur áskorun. Ég hef aldrei verið í Vindáshlíð áður, hafði ekki hugmynd um hvort ég þekkti einhverja - og var að fara alein. Ég hafði ákveðna hugmynd um að í svona kvennaflokki væru aðallega vinkvennahópar, sem hefðu kynnst á staðnum þegar þær voru 9 ára, og verið saman í saumaklúbb síðan (hvers vegna í ósköpunum datt mér þá í hug að fara - er góð spurning). Sá sem skráði mig, sagði að þannig hefði það verið hingað til, en nú vildu þau breyta þessu og höfða til breiðari hóps kvenna úr öllum áttum. Þess vegna hefði verið auglýst í blöðunum. "Og finnst þér að ég eigi að vera hugrakkur brautryðjandi" spurði ég. Það fannst honum gráupplagt og ég sló til. 

Ég á það til að vera hrókur alls fagnaðar í fjölmenni. Hef til dæmis troðið upp í mannmörgum veislum og þótt óhemju örugg og framúrskarandi skemmtileg. Ég á þetta líka til í smærri hópum. Það hefur meira að segja verið klappað fyrir mér í heita pottinum, sökum skörungskapar og skeleggra athugasemda.

Hitt er þó algengara, að ég fíli mig eins og kúk útí horni - einmanna og óörugg. Oft kvíði ég veislum - og sér í lagi hléum. Og öllum þessum köffum; kaffihlé, - og kaffi eftir þetta og hitt. Þá veit ég að allir fara voða mikið að tala saman, nema ég - af því þeir sem ég þekki eru að tala við einhvern annan. Og ég þori ekki að setjast hjá neinum, - sest ein og kvíði því fullviss að enginn vilji setjast hjá mér.

Þess vegna var þetta dáldið mál fyrir mig að mæta ein í Vindáshlíð. En jafnframt áskorun. Ég sagði við sjálfa mig að ég fengi ekki að fara, nema ég mundi annað hvort blanda geði við hinar, og/eða njóta þess að vera ein.

Og þetta fór ótrúlega vel. Strax í fyrsta kaffinu var kallað í mig að koma og setjast við eitt borðið (kannaðist aðeins við konuna sem kallaði). Svo var ég svo ánægð með mig eftir spilamennskudæmið, að í næsta kaffi fór ég á milli borða eins og hvert annað afmælisbarn.

Auðvitað skipti það mestu máli að þessar konur voru upp til hópa alveg einstaklega elskulegar. Þetta var í alla staði frábær helgi og mér leið hreint unaðslega á þessum yndislega stað. Er strax farin að hlakka til að endurtaka leikinn.

Úps, - þetta er aldeilis orðinn yfirmáta persónulegur pistill. Bara eins og ég sé á trúnó við minn besta vin. Best að breyta fyrirsögninni. Og svo er bara að vita hvort ég tek einni áskoruninni enn - og sendi þvílíkar trúnaðarhugsanir frá mér á opinberan vígvöll.

Lifið heil.   

 


Biluð myndavél.

Matthildur 2Matthildur ömmustelpa átti afmæli í fyrradag. Mín mætti auðvitað í Skaftahlíðina, vopnuð afmælispakka og myndavél. Nema hvað, - brussulætin voru þvílík (aldrei slíku vant) þegar ég var að koma mér út úr bílnum, að myndavélin datt út úr veskinu og á gangstéttina. Beint á andlitið. Mér virtist þetta ekki vera neitt högg, svo ég lét sem ekkert væri. Hélt að hún hefði ekkert slasast þessi elska. Þegar ég svo ætla að fara að taka mynd af bleika þristinum með tengdasonurinn hafði skapað í formi afmælisköku, - þá bara kviknaði ekki á vélinni. Sama hvað ég reyndi. Ég braut meira að segja odd af orlæti mínu og bað viðstadda hjálpar. Fyrrverandi eiginmaður minn studdi kenningu núverandi eiginmanns míns, þess efnis - að einhver fjöður á linsunni hefði líklega laskast, og þess vegna kæmist hún ekki út. Ég bað húsmóðurina á heimilinu um títuprjón til að plokka fjöðrina út, en eiginmennirnir sammæltust um að ráða mér frá því. Það væri viturlegra að láta fagmenn um viðgerðina. 

Þannig stendur á því, að engin ný mynd fylgir þessu bloggi. Þessi mynd af ömmustelpunni er tekin fyrir rúmu ári, daginn sem ég varð fimmtug. Hins vegar er núverandi eiginmaður búinn að segja að ég megi nota myndavélina hans yfir helgina. Svo það er aldrei að vita nema nýtt blogg með nýjum myndum birtist eftir helgi.

Lifið heil. 


Stuðdagur

MM+gulrótarkaka 25.08Frumburðurinn minn átti afmæli í gær. Á milli gulrótarkökubaksturs og afmæliskaffis fórum við Matthildur ömmustelpa á jazzinn á Jómfrúnni. Í þetta sinn lék Stórsveit Reykjavíkur ásamt söngkonunni Kristjönu Stefánsdóttur.

Eina sætið sem var laust þegar við mættum, var fremst fyrir miðju, nánast ofan í saxafónunum. Sólin skein beint í andlitið og vindhviðurnar voru slíkar, að nótur stórsveitarmanna fuku af og til út í veður og vind, þrátt fyrir ótal  litskrúðugar klemmur. Við þessar aðstæður sofnaði ömmustelpan strax í fyrsta lagi og svaf þar til ég vakti hana klukkutíma seinna. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hún fer með mér á jazzinn í sumar - og á hinum tónleikunum sofnaði hún líka í fyrsta eða öðru lagi.

"Ég er hætt að svæfa þetta barn" sagði móðir hennar afmælisbarnið, þegar við mættum í afmæliskaffið. "Liggjandi hjá henni í tvo tíma á hverju kvöldi. Hér eftir fer hún ein í rúmið, með Stórsveit Samúels í geislaspilaranum".

Stórsveit á JómfrúnniUm kvöldið var svo hið árlega Stuðmannaball á Seltjarnarnesi. Í mörg ár hef ég farið á þetta ball. Tvö fyrstu böllin kenndu mér lexíu. Maður mætir rétt áður en þeir byrja að spila, dansar eins og brjálæðingur fram að pásu og fer þá heim að sofa.

Ég hef reyndar aldrei skilið, af hverju böllin þurfa að byrja svona seint. A-manneskjur eins og ég vilja dansa frá klukkan 10 til 1, en ekki frá 1 til 4.  

En semsagt, - mér finnst mjög gaman að dansa, við undirleik góðrar stuðhljómsveitar fyrsta klukkutímann eða svo.  Eftir pásu er dansgólfið yfirleitt orðið stappfullt af blindfullu fólki (undantekningarnar eru vinsamlegast beðnar um að taka þetta ekki til sín), sem jafnvel dansar með glas í hendi (og sígarettu, meðan það mátti), - gusar yfir mann og klístrar gólfið. Auk þess sem mannlífið verður villimannslegra og ömurlegra.

MM sofandi á JómfrúnniOg hvað heyri ég svo í útvarpsfréttum yfir morgunkaffinu? Allt tiltækt lið lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var kallað út á Seltjarnarnes, þar sem til alvarlegra slagsmála hafði komið á Stuðmannaballinu. Og þegar svo lögreglan reyndi að skakka leikinn, þusti að múgur og margmenni, sem reyndi að bjarga vinum sínum úr klóm lögreglunnar. 7 manns handteknir. Þetta gerðist að sjálfsögðu í seinni hálfleik, þegar við siðprúðu hjónin vorum komin í rúmið.

Best að drífa í að taka á valkvíða dagsins: Á ég að fara á bláberjamó eða rifsberjamó? Líklegra er rifsberjamórinn greindarlegri, áður en grænu berin verða öll orðin eldrauð. Bláberin lifa það af, að þroskast aðeins meira.

Berglind 250807Þetta var annars ferlega sniðugt hjá mér að setja getraun inn í síðasta blogg. Ég fékk óvenjumörg komment. Líka sms. Hrútaber var greinilega rétta svarið.

Annars vil ég hvetja ykkur til að kommenta oftar. Þið sem ekki eruð innskráð, svarið bara einu léttu samlagningardæmi og skrifið það sem hugurinn býr ykkur í brjóst. Athugasemdin birtist án myndar, ef þið eruð óskráð.

Njótið lífsins. 


Berjadagar.

BláberÁ mánudaginn fórum við hjónin í smá sýnishorn af berjamó. Við berjuðum rúma 4 lítra af bláberjum (orðalagið ættað frá Boggu 1.tengdamömmu), sem fóru beint í frystinn, hvaðan þau fara svo í minn daglega morgunnsjeik.

Innan um bláberin rákumst við á nokkra stilka af þessum rauðu berjum sem sjást á myndinni. Ef þið þekkið þau, látið mig endilega vita hvað þau heita. Það má líka giska. Kannski veiti ég verðlaun, þeim sem giskar rétt.

Það var byrjað að dimma á þriðjudagskvöldið, þegar við hjónin héldum í huggulegheitar-kvöldheimsókn í Skaftahlíðina. Húsfreyjan var á hnjánum í kjallaranum, rétt að enda við að súperskrúbba gólfin á stúdeóíbúðinni. Þá hringir síminn. "Ég hefði þurft meiri fyrirvara" tautaði frumburðurinn minn í vel hömdu panikkasti, þegar hún kom úr símanum. Stjúpsonur hennar átti semsagt að fara vestur í bítið - og hún var búin að ákveða að senda hann með fullan bala af nýtíndum rifsberjum til móður sinnar sultudrottningarinnar.

"Allir út að tína" sagði ég, og við æddum út í rigninguna; húsfreyjan, drengirnir og við gestirnir. Rigningin jókst verulega (eins og hún hafi nú ekki verið næg fyrir) og það dimmdi mjög hratt meðan við hömuðumst eins og naut í flagi. Það var komið svartamyrkur þegar við bárum næstum fullan balann inn í bílskúr - og ekki þurr þráður á neinu okkar. Ljósrauði nýji kjóllinn minn allur út í svarbrúnum rákum eftir greinarnar (kominn úr þvotti núna - sem nýr). Eins gott að sultudrottningin geri sér gott úr hráefninu.

Lifið heil.


Listvinir, spuni og gul hálsfesti.

Á námskeiði, SÉg gæti hæglega byrjað þessa færslu nákvæmlega eins og síðasta mánudag, þ.e; helgin var viðburðarík. Því það var hún svo sannarlega. 

Bæði laugardag og sunnudag var ég á ferlega skemmtilegu námskeiði frá kl. 10-17. Kl. 17 á laugardeginum hjólaði ég á 12 mínútum frá Grensásvegi og niðrá Lækjartorg, hvar beið mín iðandi mannlífið á sjálfri Menningarnóttinni.

Eftir að hafa hlýtt á Gröndal-systkynin og Stórsveit Samúels, sátum við hjónin góða stund í Hressó-garðinum, hvar leiknir voru ljúfir tónar. Við vorum full léttklædd til að sitja svo lengi utan dyra, svo næst á dagskrá var að skreppa heim í fleiri föt. Já það borgar sig að búa í 101.

Gröndal í LandsbankaÁ bakaleiðinni bað ég minn heittelskaða að kíkja aðeins með mér inn í Kirsuberjatréð, ég þyrfti að sýna honum gulu hálsfestina, sem mig er búið að langa í síðan í mars, en ekki tímt að kaupa. Eftir samningaviðræður um verð festarinnar, hófu hinar bráðskemmtilegu afgreiðslustúlkur að reyna að fá okkur til að syngja í Karókí, sem þær voru með á staðnum í tilefni Menningarnætur. "Ég skal syngja" sagði ég, "fæ ég festina þá ekki á ásættanlegu verði?" Samningar tókust - ég söng Dancing Queen og dansaði að sjálfsögðu með. Gekk út með gulu festina um hálsinn. Maðurinn minn sagði að mér hefði farið mikið fram í Karókí-söng síðan í brúðkaupsferðinni í París. Ég trúð´onum. 

Gula hálsfestinÞegar við gengum svo úr kvosinni og upp á Skólavörðuholt, varð ég fyrir miklum vonbrigðum. Í staðin fyrir ljúfa lifandi tónlist í huggulegum húsasundum, voru skífuþeytarar með argandi graðhestamúsík á öðru hverju götuhorni. Verst var ástandið fyrir framan Nakta apann, þar sem mætast Skólavörðustígur, Laugavegur og Bankastræti. Mikið sem ég hefði heldur viljað Búlgörsku eða Rúmönsku harmónikkuleikarana sem voru hér í vor, en var því miður vísað úr landi. 

Við gengum því hratt efst upp á Skólavörðustíg, þar sem við vissum að biðu okkar Tómas R og félagar. Og vá hvað þeir björguðu kvöldinu. Og ekki bara þeir, eins og þeir voru nú bráðskemmtilegir og með frábæra tónlist, - heldur líka gestgjafarnir. Hljómsveitin spilaði (kl 20 til langt gengin í 22) í huggulegu húsasundi fyrir framan Listvinahúsið. Þar inni var boðið upp á vín og osta og fleira gott, - og gestgjafarnir (eigandinn er afastrákur stofnandans; Guðmundar frá Miðdal) voru bara svo elskulegir og almennilegir, að stemmningin var eins og best verður á kosið. Sannir listvinir. 

Eftir námskeiðið á sunnudeginum var ég svo þreytt, að ég sofnaði á myndinni um dauða forsetans.  

Lifið heil. 


Veisludagar.

SickoGaman gaman. Enn ein kvikmyndahátíðin er hafin. Við hjónin erum miklir kvikmyndasælkerar. Sem þýðir m.a. það, að stundum líða nokkrir mánuðir án þess að við förum í bíó, - svo skyndilega brestur á með kvikmyndahátíð og við veltum því fyrir okkur hvort ekki sé hægt að fá leigt herbergi í bíóinu, - það tekur því varla að fara heim á milli mynda. Ég held að metið okkar sé 12 myndir á einni hátíð, sem stóð í rúma viku minnir mig.

Og nú eru bíódagar Græna ljóssins brostnir á. Nei, þetta hefur ekkert með lífrænt grænmeti að gera, - við borðum popp á sýningum en ekki áskitna gulrót. En sýningar Græna ljóssins byrja stundvíslega á auglýstum tíma, öngvir treilerar og ekkert hlé. Svo einfalt er það.

Herlegheitin hófust í gærkveldi og þá sáum við Sicko - mynd Michaels Moore um heilbrigðiskerfið í USA versus Evrópu. Nú áðan sáum við myndina Hallam Foe. Mjög góðar báðar tvær - og við hlökkum til að sjá 9 myndir í viðbót (keyptum 10 miða passa, og fengum boðsmiða á opnunarmyndina Sicko).

Ég verð að segja ykkur frá þremur nýjum hugtökum, sem ég lærði á laugardaginn var.

Það fyrsta er ofbeldisgestrisni. Þið vitið - allar "myndarlegu húsmæðurnar" sem finnst þær bæði vera kurteisar og almennilegar þegar þær reyna á virkilega ýktan hátt að troða endalaust upp á mann meiri veitingum, þó maður sé alveg að springa, eða kærir sig einfaldlega ekki um meira.

Svo er það andlitsblindan. Í brúðkaupsveislunni lenti ég í skriljónasta skipti í því að kunnugleg kona fór að tala við mig að fyrra bragði - og ég mundi ekki hvar ég hafði hitt hana, fyrr en hún sjálf og minn ástkæri benntu mér á það. Ég sagði henni frá minni skelfilegu ómanngleggni, en hún svaraði; veistu - á mínu heimili köllum við þetta andlitsblindu. Frábært. Næst þegar þið sjáið mig, - ef ég skildi ekki þekkja ykkur - verið svo góð að heilsa mér að fyrra bragði og minna mig á hvaðan ég þekki ykkur. Ég er nefnilega ekki svo merkileg með mig að ég vilji ekki þekkja ykkur. Ég er bara svo illa haldin af andlitsblindu.

Að lokum eru það kraft-kallarnir. Nei, ég er ekki að tala um steratröllin. Heldur þá sem gleyma öllu. Þeir eru í kraft-félaginu. Craft: Can´t remember a fucking thing.

Og af því að ég byrjaði á að tala um veisluhöld. Njótið menningarveislunnar á laugardaginn. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband