Færsluflokkur: Bloggar

Brúðkaup o.fl.

Gleðiganga sápukúlurHelgin var viðburðarík. Sérstaklega laugardagurinn. Að loknum hefðbundnum laugardagsverkum (leikfimi o.fl.) var það Gleðigangan, Brúðkaup, Brúðkaupsveisla, Sund, Partý og Millaball (í þessari röð).

Ég held ég verði að segja að brúðkaupið og brúðkaupsveislan hafi verið það merkilegasta. Ekki nóg með að það er alltaf stórviðburður og gleðiefni, þegar góðir vinir manns ganga í það heilaga (sérstaklega þegar þeir leyfa manni að taka þátt - gifta sig ekki í kyrrþey, eins og ég gerði einu sinni), - heldur hafði ég ákveðið að taka minni eigin áskorun og troða upp í veislunni.

Þetta var töluvert áhættuatriði. Ég kann nefnilega ekkert annað en að nota minn persónulega stíl, sem gengur meðal annars út á það, að ég geri grín að sjálfri mér, með því að hrósa sjálfri mér í hástert. Svo þykist ég bæði móðguð og yfir mig undrandi á þeim ósköpum að fólk skuli ekki bara geta  verið sammála um það sem mér finnst. Svona stíll gæti auðveldlega bæði misskilist, ofboðið og misboðið, - eða það sem verra væri; - farið fyrir ofan garð og neðan hjá öllum, þar sem enginn fattaði neitt.

Silló og Jóhann í kirkjuÉg var því með töluverðan kvíðahnút í maganum áður en ég stóð upp og tróð upp, - sérstaklega þar sem ég þekkti ekki nema örfáa (teljandi á fingrunum) af þeim rúmlega hundrað veislugestum sem þarna voru.

En - sjúkket!! Ég var svo stálheppin að salurinn var fullur af spaugsömu og spræku fólki, þannig að ég held að mér hafi ekki tekist að gera mig að fífli. Þvert á móti fékk ég helling af svo frábærum kommentum, að ég varð beinlínis feimin. Reyndi þó að halda kúlinu og afsakaði hvað ég væri bráðskemmtileg að eðlisfari.

Ballið var líka bráðskemmtilegt. Ég var í brjáluðu dansstuði í góðum félagsskap. Millarnir eru alltaf góðir og Bogomil frábær. Ég saknaði Palla homma ekki nærri eins mikið á ballinu sjálfu, eins og ég hafði gert fyrirfram. Fer þó ekki ofan af þeirri skoðun minni, að Millarnir eru skemmtilegastir þegar Palli syngur með þeim, og Palli er skemmtilegastur þegar hann syngur með Millunum. 

Rauði sófinn i SubaruÁ sunnudeginum mætti Berglind með boxdýnuna (neðri hluta "nýja svefnsófans"), - og svo hlupu þær systur yfir Ánanaustið, yfir í Sorpu, með efri hluta rauða sófans, á meðan Páll tengdasonur og Þriðji maðurinn tróðu þyngri hlutanum í Súbarú. Þær systurnar hlupu í alvörunni, - þær voru svo hræddar um að ég mundi hætta við henda þeim rauða.

Í staðin fyrir að gráta sófann, bauð ég viðstöddum upp á nýbakað bananabrauð, ásamt ís, berjum og þeyttum rjóma, í tilefni af því að þennan dag voru 72 ár síðan pabbi minn fæddist. Hann átti því miður ekki nema 44 afmælisdaga.

Herra og frú Slick komu svo suður um kvöldið, og sváfu afbragðsvel á "nýja svefnsófanum". Eins gott.

Eftir bráðskemmtilegt fjölskyldu-morgunkaffi, fór ég svo með syni mínum rokkaranum ( öðru nafni Herra Slick, eða Drullusokkur ársins) á Kjarvalsstaði, þar sem við skoðuðum meðal annars rofana sem Páll tengdasonur hannaði - og hefur getið sér gott orð fyrir. Og nú er rokkarinn enn einu sinni farinn í Faðm fjalla blárra.

Lifið heil. 


Rigning í Reykjavík?!?

LW hjólar á rauðum kjólHvað gerir maður þegar maður á stefnumót við vinkonu sína á kaffihúsi í Kringlunni klukkan 1 á hádegi á venjulegum miðvikudegi í byrjun ágúst? Jú, maður fer í rauðan, stuttan, ermalausan kjól, og nýju rauðu ecco-sandalana, setur á sig varalit og hjólar af stað upp í Kringlu. Alla vega á sumri eins og þessu, þar sem maður er orðinn svo vanur endalausri blíðu og þurrki, að maður er orðinn afvanur hinum séríslenska sið, að vera sí og æ að gá til veðurs. 

Nema hvað; ég er ekki komin út að BYKO, þegar byrjar að rigna. Ég skelli mér í rauðu cintamani-hjólapeysuna, sem ég hafði verið svo forsjál að setja í hjólakörfuna og hjólaði áfram, segjandi við sjálfa mig að þetta væri bara örlítil kærkomin skúr, sem gengi fljótt og vel yfir.

LW rennblautEn því miður - það var ekki svo gott. Skúrin varð strax að hellidembu, en mín harðneitaði að feisa þá staðreynd, heldur hjólaði alla leið upp í Kringlu (4-5 km) eins og ekkert væri. Ég held ég hafi aldrei orðið jafn blaut, nema ef vera skyldi á jazzhátíðinni í Kaupmannahöfn fyrir tveimur árum, þá líka á hjóli í litlum fötum (sjá mynd).

Það varð mér til lífs í þetta sinn - og forðaði mér frá ofkælingu, að vinkona mín á kaffihúsinu var í þykkri og góðri peysu, sem hún fór fúslega úr og eftirlét mér. Við vorum tæpa 3 klst í Kringlunni, en samt var langt frá því að fötin mín næðu að þorna áður en ég hjólaði til baka. Það rigndi næstum því jafn mikið á heimleiðinni.

Þegar ég var komin í þurr föt heima hjá mér, fórum við Berglind í Ikea-leiðangur (á bíl!!). Sá leiðangur tók líka hátt í 3 tíma, hvar í miðjum klíðum Berglind bauð mér í Ikea-kvöldmat meðan ég tók á valkvíðanum. Já, valkvíðinn tók á. Ég átti í þó nokkru basli með að taka ákvörðum um að fjárfesta í tveimur lökum og þremur púðum, fyrir samtals um 6 þúsund krónur. Ég þurfti að réttlæta kaupin fyrir sjálfri mér með því, að ef púðarnir hentuðu ekki með svefnsófanum sem er ætla að búa til úr tveimur gömlum dýnum, þá má nota þá fyrir lestrarpúða, sem okkur hjónin hefur lengi langað í. Þeir geta líka hæglega verið fjölnota. Nú auk þess sem alltaf má skipta óopnaðri vöru. Ég held að Ikea-kaup valdi mér enn meiri hugarangri en fatakaup, og er þá virkilega mikið sagt. 

Hugo bassiÉg var varla komin heim, þegar Pétur hinn háóði mætti á staðinn og dreif okkur hjónin með sér á "jazz"-tónleika á Gauknum. Ég setti jazz í gæsalappir, því þetta var mjög óhefðbundinn jazz - rokkaður og eiginlega óflokkanlegur. Frumlegur og bráðskemmtilegur. Öll tónlistin frumsamin. Meðal hljóðfæra sem leikið var á, var risastór mjallhvít "lúðrasveitartúba", öðru nafni súsafónn.

Það gladdi líka mitt kvennlega hjarta að kontrabassaleikarinn var kona. Allt of sjaldgæf sjón og heyrn. Nei, þessi mynd er ekki af henni, heldur af Hugo Rassmunsen hinum danska (tekin á jazzhátíð í Köben). Hljómsveit kvöldsins var líka dönsk, og í Danmörku er jazzmenningin svo frábær; konur spila jazz á hin ýmsu hljóðfæri, börn alast upp við að hlusta á vandaðan jazz, og fleira yndislegt.

Lifið heil. 


Verslunarmannahelgin - nema hvað?

Adam með stjörnuljósÉg er nú orðin svo gömul sem á grönum má sjá, samt hef ég aðeins þrisvar farið út úr bænum um verslunarmannahelgina. Og fyrri skiptin tvö eru varla marktæk sem slík.

Fyrst fór ég á þjóðhátíð í Eyjum 1977. Þá fólst ómarktækið í því, að ég var næstum ekkert í Herjólfsdalnum sjálfum. Við gistum í barnaskólanum á staðnum, hvers fyrir aftan við Mallý systir lágum í sólbaði og hlustuðum á Ríó-tríóið æfa romm-og-kóka-kóla. Þeir gistu semsagt í næstu skólastofu við hliðina á okkur. Svo vörðum við töluverðum tíma í svifdrekaflug, en tilefni þessarar Eyjafarar var einmitt sú að þáverandi eiginmaður var fenginn til að sýna svifdrekaflug og ég fór bara með eins og hver önnur eiginkona. Þá flaug ég meira segja ein og sjálf í fyrsta og eina skiptið í slíku flygildi - í Eldfellinu hinu nýja, sem þótti mjúkt til nauðlendingar fyrir líttreynda stúlkukindina. Áður hafði ég bara verið svifdreka-"farþegi". Nei reyndar ekki bara það, - við svifdrekaflug þáverandi eiginmanns lék ég oftast lyftu. Keyrði hann og svifdrekann upp á fjöllin, sem hann síðan sveif niður af. 

Snorri og fjNæsta verslunarmannahelgarútihátíðin mín var "Bindindismótið í Galtalæk" 2002, eða Blindfylliríismótið í Alkalæk, eins og Pétur vinur minn kallar það. Ég verð að viðurkenna að Pétur er ekki að ýkja með þeirri nafngift. Drykkjuskapurinn var það mikill og almennur, að ég hugsaði með mér: Ef þetta er bindindismót, hvernig í ósköpunum er þá fylleríismót? 

Ég fékk frítt fyrir mig og dóttur mín, gegn því að vinna eina eða tvær vaktir í þjónustumiðstöðinni. En þar sem rigningin var frekar þétt og stöðug alla helgina, þá fór ég ekkert út úr þjónustumiðstöðinni, nema rétt til að sofa í rennblautu tjaldinu.

Bínó með stjörnuljósEn núna um helgina fór ég semsagt á mína þriðju hátíð - og sú stóð nú aldeilis undir nafni sem hátíð. Sæludagar í Vatnaskógi kallast hátíðin sú - og þetta voru sko virkilegir sæludagar. Þaðan eru þessar stjörnuljósamyndir (mín alltaf svo ýkt í formálunum, sem koma myndunum ekkert við). Hafi einhver haldið að ég hafi ruglast svona hressilega og dregið fram myndir frá síðustu áramótum, þá er það rangur misskilningur.

Þar var ekki einn einasti maður með kaupfélagspilsner, hvað þá sterkara. En stuðið og stemmningin var þvílíkt unaðsleg. Frábær dagskrá, og mórallinn algjört æði.

Eins og fram hefur komið, er mín - af gefnum tilefnum - komin með hálfgerða, ef ekki algerða tjaldfóbíu. Þess vegna var hún sniðug og pantaði herbergi í aðal-sumarbúðaskála þeirra Skógarmanna með góðum fyrirvara (við ætluðum líka í Vatnaskóg í fyrra, en hættum við að gista, því okkur leist ekki á að tjalda í rigningunni

Af bryggju að kapelluÞað var snarbrjálaður vindur á laugardeginum, en það skyggði ekki á gleðina. Svo ég hugsaði auðvitað með mér: Fyrst það er svona gaman í brjáluðum vindi, þá hlýtur alltaf að vera gaman (ég hlýt að fá frítt inn næst út á þessa góðu auglýsingu).

Af öðrum fjölskyldumeðlimum er það helst, að sonur minn "Drullusokkurinn" stóð fyrir Evrópumeistaramóti í mýrarbolta á Ísafirði, eins og sjá má í Blaðinu frá því á fimmtudaginn og eflaust í fleiri fjölmiðlum. Sem minnir mig á að ég þarf að yfirfara sjónvarpsdagskrár helgarinnar á netinu.

Lifið heil.


"Þórs-Þórs-Þórsmerkurferð"

Brú ÞórsmörkÉg var 10 ára þegar ég fór fyrst í Þórsmörk. Með foreldrum mínum og systkynum og heilu átthagafélagi. Svo fór ég ekkert aftur fyrr en ég var 45 ára, á fertugsafmæli Héðins bróður (lesendur hljóta að vera farnir að halda að ég hugsi ekki um neitt nema afmælisdaga).

En semsé þarna fyrir 6 árum var ég í tjaldi og það rigndi alla helgina. Þétt og hlý lognrigning, sem er að vísu uppáhaldsveðrið mitt. Ég verð þó að viðurkenna, að þó sú ferð hafi verið verulega skemmtileg og sýnt mér og sannað að Þórsmörk er alltaf yndisleg, þá er eiginlega ekki hægt að fara í tjaldútilegu á Íslandi. Það er að segja ekki fyrir mig, því ég vil getað farið í langar og góðar gönguferðir úti í náttúrunni, sama hvernig viðrar og svo

Göngustígur Þórsmörkþurrkað af mér í húsi. Auk þess er ég orðin svo öldruð og lasburða, að ég verð helst að sofa í almennilegu rúmi.

Þess vegna var það, að ég tók fagnandi auglýsingu frá Kynnisferðum (nei ég er ekki á prósentum hjá þeim) í sumarbyrjun, með fyrirsögninni: Þú þarft hvorki að eiga jeppa né tjald til að komast í Þórsmörk. Þar var getið um ýmsa gistimöguleika, t.d. smáhýsi, með eldhúsi og svefnherbergi fyrir 5 manns.

Svo mín pantaði 1 stk. smáhýsi og fór í sína 3ju Þórsmerkurferð ásamt sínum heittelskaða. 4 dagar og 3 nætur núna í vikunni.

Við mættum á BSÍ vel fyrir hálf níu á sunnudagsmorguninn - ætluðum sko ekki að missa af rútunni. Á Selfossi var tilkynnt 10 mínútna pissustopp, en á Hvolsvelli var tilkynnt 20 mínútna stopp, en jafnframt að þeir sem ætluðu í Þórsmörk (en ekki að Skógum) ættu að setja farangurinn sinn í rútuna við hliðina, og fara með henni.

SveppurVið skildum þetta auðvitað sem svo, að 20 mínútna stoppið ætti við um okkur Þórsmerkurfara, svo við keyptum okkur langloku og drykk sem við lögðumst með í grasið. Mín horfði auðvitað niður að Bergþórshvoli í sögulegri náttúruskoðun, en eiginmaðurinn snéri í mig baki aldrei þessu vant - og var því fyrir tilviljun með augun á rútunni.

"Hún er að fara" hrópaði hann skyndilega. "Hver" spurði ég, með hugann við Hallgerði og Bergþóru. "Þetta er rútan okkar" sagði hann og rauk á fætur og hljóp af stað. Það vill til að mín er þekkt fyrir snögg snarviðbrögð, svo að á augabragði var ég komin fram úr honum með sótavatnið upp úr glasinu í allar áttir. Við hlupum meðfram rútunni og hrópuðum alveg brjálað.  Kínversk kona, greinilega óvön svona óhemjugangi, vakti athygli bílstjórans á þessum brjálæðingum og hann var svo elskulegur að stoppa og hleypa okkur upp í. Sjúkket. Ég held ég hafi ekki náð andanum fyrr en við Seljalandsfoss.

Hannes í hlíðÞórsmörk var yndisleg. Smáhýsið í Húsadalnum stóð alveg undir væntingum. Það var að vísu ekki með prívat salerni eins og pissudúkkan ég (a.m.k. tvisvar á nóttu) hefði helst viljað. "Það er í 17 skrefa fjarlægð" hafði stúlkan á skrifstofunni upplýst okkur um. Ég verð að segja að stúlkan sú hlýtur að vera ansi kloflöng, ég tók þetta í tæpum 40 skrefum. en þetta var nú samt hið besta mál.

Við fórum auðvitað í langar og góðar gönguferðir á hverjum degi, eins og mín hafði planað. Uppáhaldsveðrið mitt alla daga. Ýmist súld eða skúrir eða hvort tveggja. Við vorum samt svo heppin að blotna mest lítið á göngu, en nutum þess hins vegar að hlusta á regnið á þakinu, meðan við lágum upp í rúmi með

Bláber Þórsmörkgóða bók kvölds og morgna. Uppáhaldstónlistin mín er rigningin á þakinu. 

En vegna þessarar unaðslegu súldar eru myndirnar ekki sérlega skírar. Samt mesta furða er það ekki?

Við gengum meðal annars yfir í Langadal, upp á Valahnjúk, á Slyppugilshrygg, í Slyppugil og fleira skemmtilegt. Svo létum við líða úr lúnum líkömum í nýju lauginni (heita pottinum) í Húsadalnum. Fórum líka í gufu, sem er nýkomin.

Verð að geta þess að lokum, að ef við þangað til síðasta daginn vann ég öll skröbblin og öll rommíin. Það var ekki fyrr en á síðasta sólarhring að ég leyfði mínum ástkæra að vinna, svo

Landmannalaugar-skiltihann kæmi nú glaður með mér heim.

Svo kom ég mátulega heim til að halda upp á afmæli Söru vinkonu við Austurvöll (nei hún býr ekki við Austurvöll - við nutum afmælisdagsins hennar þar í svo brjálaðri blíðu að við fengum næstum því sólsting og sólbruna).

Fleiri myndir á flickr.com/photos/laufeywaage (verð að læra að búa til link).

Njótið verslunarmannahelgarinnar heima eða heiman.  

 


Af kirkjugarðsheimsókn og Dalmatíu-ávexti.

Mamma við Sigguleiði.Í fyrradag hefði Sigga frænka orðið 68 ára, ef hún hefði ekki dáið fyrir fimm og hálfu ári síðan. Ég er víst orðin fræg fyrir að halda upp á afmæli fjarstaddra, en ég viðurkenni samt ekki að ég haldi upp á afmæli látinna. Að minnast þeirra með því að mæta með blóm í kirkjugarðinn er allt annað (þó maður fari á kaffihús á eftir, eða í ísbúðina - nema hvort tveggja sé, eins og hjá okkur mömmu í fyrradag). 

Ég segi auðvitað að ég sé bara að fara með mömmu, hún vill auðvitað mæta með blóm í kirkugarðinn á fæðingardegi systra sinna. Það er alltaf gott veður þegar við "mætum í afmæli" Siggu frænku, en Þuríður - hin systir mömmu sem er dáin - var fædd 28.desember, og við höfum oft næstum brotið á okkur tær og hæla, þegar við spörkum gaddfreðnum snjónum ofan af hennar leiði.

Afa-og ömmuleiðiAnnars finnst mér kirkjugarðsheimsóknir yfirleitt ánægjulegar. Friðsælar og notalegar, og garðarnir fallegir. Ég verð að skjóta því að, að kirkjugarðsferðir okkar mömmu hafa oft verið skrautlegar, því minni mömmu ( t.d."það er örugglega í þessari röð, ég man eftir þessum krana"), stangast oft á við ratvísi mína. En í fyrradag setti ég undir þennan leka; hringdi í Kirkjugarða Reykjavíkur og fékk númerin á leiðum systranna frá Akbraut (þeirra sem dánar eru) og líka föðurafa míns og ömmu - og mín er snillingur í að rata eftir korti.

Eftir kirkjugarðsgöngutúrinn bauð mamma í kaffi og meððí á Thorvaldsen, og svo í ísbúðina eftir kvöldmat.

Og ekki nóg með það: daginn eftir fórum við hjónin aftur á Thorvaldsen í enn einni brjáluðu blíðunni. Ætluðum bara að fá 

Drekaávöxturokkur kaffi, en svo stóðst ég ekki freistinguna og pantaði mér ávaxtatríó. Ég hélt ég væri bæði fróð og reynd í ávaxtafræðunum, en þarna var borinn á borð fyrir mig ávöxtur, sem var bleikur að utan, með grænum hornum, en að innan var hann eins og Dalmatíuhundur. Og mín vissi bara ekkert í sinn haus.

Auðvitað spurði ég þjónustustúlkuna, en hún hafði ekki hugmynd, og bauðst ekki til að spyrja. Þá urðu gestirnir á næsta borði ennþá forvitnari en ég, pöntuðu sama rétt hjá annari þjónustustúlku og spurðu hana hvað þessi ávöxtur héti. Hún vissi heldur ekkert í sinn haus, en þessir gestir voru ekki bara forvitnari en ég, heldur líka frakkari, og fóru þess á leit við stúlkuna að hún kannaði málið. Hún gerði það, og eftir langa og stranga rannsóknarvinnu, gat hún upplýst okkur öll um að bleika Dalmatían héti Drekaávöxtur.

Beikonvafðar kjúklingabringur.Nema hvað: Áður en ég byrja að gúffa í mig Dalmatíu-drekanum, sem bragðaðist virkilega vel (dáldið líkt kíví), hringdi Sara vinkona og vildi endilega fá mig í kósíkvöld, með poppi og dvd. Þegar hún heyrði að ég spurði minn ástkæra hvort ég mætti fara út að leika, var hún svo elskuleg að segja að hann mætti alveg koma líka, ef hann fílaði stelpustuðið, sem hann auðvitað þáði með þökkum.

Ég var svo rétt að kyngja síðast Dalmatíu-drekabitanum, þegar hún hringdi aftur þessi elska og spurði: Komið ekki bara líka í kvöldmat líka? Ég gæti t.d. eldað beikonvafðar kjúklingabringur í rjómasósu. Við héldum það nú - sjaldan hef ég flotinu neitað.

Þetta varð auðvitað unaðslegt kvöld. Maturinn hreinasta lostæti, eins og Söru sjókokki var trúandi til, og við stútuðum þremur örbylgjupoppkornspokum yfir frábærri sænskri verðlaunamynd; Sem á himni.

Lifið heil. 


Stórvirkar vinnuvélar.

DvergasteinsframkvæmdirBak við húsið mitt er leikskóli. Rétt áður en ég ætla að vakna á morgnana, rumska ég við mærrið í hliðinu, þegar þau mæta í skólann sinn þessar elskur. Svo berast lífsmörkin þeirra inn um gluggan minn, með tilheyrandi desibilum, meira eða minna allan daginn. Bara yndislegt. Yndislegur hluti af mannlífinu. Líka þegar gleðilætin og önnur læti yfirgnæfa minn eigin píanóleik.

Ég verð samt að viðurkenna, að það var mér nokkurt tilhlökkunarefni, að vita til þess, að þau færu í frí um leið og ég yrði í fríi heima hjá mér. Þá kæmi upp staðan sem kom upp á sama tíma og í fyrra, að morgunn eftir morgunn vaknaði ég klukkan rúmlega 10, alveg undrandi á því að A-manneskjan ég gæti sofið svona lengi.

Nema hvað. Fyrsta sameiginlega frímorguninn okkar, vakna ég í bítið, við hljóð í stórvirkum vinnuvélum og gott betur. Ægileg grjóthljóð - eins og verið væri að brjóta niður stærðar steinhús - kepptust við að yfirgnæfa hljóðin í vinnuvélunum, með góðum árangri. Og þannig hefur það verið nokkra morgna. 

Í gærmorgunn mætti ég með myndavélina á staðinn, til að vita hvað væri eiginlega um að vera - hvort jafna ætti hverfið við jörðu og mitt hús með. En ég fékk ekkert tækifæri til brussuláta og almennilegrar afskiptasemi, því vinnumaðurinn sem var fyrir svörum var svo yfirmáta elskulegur og almennilegur, og leiddi mig í allan sannleikann um framkvæmdirnar: Þeir væru bara að breyta landslagsarkitektúrnum örlítið, þ.e. færa til grjóthleðsluna.

vegabréfÍ miðri síðustu setningu varð ég fyrir nettu áfalli. Síminn hringdi, og mér datt í hug að það væri vinkona mín, sem var búin að boða komu sína stundvíslega þá. Nei nei, það var stúlkubarnið mitt sem hringdi frá Leifstöð, hvaðan hún er að leggja af stað til Tenerife ásamt vinnuveitenda sínum og hennar fjölskyldu. 

"Mamma ég gleymdi VEGABRÉFINU mínu" sagði hún hálfhlæjandi. Hjartað í mér stoppaði eitt sekúntubrot. Ég kem meðða sagði ég og rauk af stað. Mér hefur greinilega gengið of vel að slaka á naflastrengnum, því þetta er í fyrsta sinn sem ég spyr ekki; ertu örugglega með vegabréfið, greiðslukortið, hlaðinn símann og bókunarnúmerið? Alveg eins og pabbi minn spurði alltaf í gamla daga; ertu örugglega með vegabréfið, gjaldeyri og farseðil? Það eina sem breytist ekki, er að vegabréfið er alltaf það bráðnauðsynlegasta.

Um leið og ég var komin í 4.gír, hringdi ég í vinkonu mína og tilkynnti seinkunn af þessum ástæðum, en um þegar ég lagði á, hringdi stúlkubarnið og sagði að vinkona hennar og væri að leggja af stað útá Leifstöð. "Þau bíða útá gangstétt, geturðu snúið við til þeirra"? Ég snéri á punktinum og þau tóku vegabréfi. Eru semsagt á Reykjanesbrautinni núna - og ég ætla að reyna að slaka á þrýstingnum.


Á Gljúfrasteini.

LaxnesbíllEftir að hafa sótt tengdadótturina í Leifstöð, - þ.e. unglingurinn með æfingaakstursleyfið keyrði, - ég bara sat í, þeystum víð hjónin á gítartónleika að Gljúfrasteini. Arnaldur Arnarson var að spila.

Við vorum á síðustu stundu (aldrei slíku vant) og supum hveljur þegar við sáum bílafjöldann fyrir utan. Við hoppuðum út úr bílnum nær hálfum ofan í skurði, - og sem við hlaupum heim hlaðið, mætum við konu sem segir: Þið getið strax snúið við, það er stappfullt og algjörlega uppselt. Og haldiði ekki að minn maður, sjálfur gítarnördinn, sem var búinn að hlakka þessi lifandi skelfing til þessara tónleika, hafi snúið við á staðnum.

"Komdu" hvæsti ég með hraði, og tók strikið inn. Minn elti. 

Arnaldur"Megum við ekki standa í ganginum"? spurði ég stúlkuna í afgreiðslunni, og beið ekki eftir svari, heldur dró inn með með gítarnördinn, sem ætlaði að fara að skoða þvöguna í ganginum á tölvuskjá hjá stúlkunni í afgreiðslunni.

Tónleikarnir voru góðir, og mátulega stuttir fyrir gömlu konuna sem stóð upp á endann. Ég hefði ekki mátt hugsa til þess að vera næstu daga í nánu sambandi við eiginmanninn umframkominn af sorg yfir að hafa misst af þessum tónleikum.

En það var líka alveg einstaklega notalegt að koma að Gljúfrasteini. Andinn einstaklega góður, fallegt bæði innan dyra og utan, og eitthvað svo líkt því sem ég hafði ímyndað mér (já, ég var að koma þangað í fyrsta sinn).

En áður en ég hætti, verð ég að vekja athygli á því merkilegasta á jazzinum á Jómfrúnni í gær. Tónleikarnir voru með bestu tónleikum sumarsins, en það sem strax vakti athygli mína voru

Grænir jazzskórþessir eiturgrænu skór Tómasar R Einarssonar. Maður á auðvitað ekki að segja svona, því tónlistin var virkilega góð, en samt - bara svona til gamans. 

Úps, ég er víst á leið í kvöldmessu. Bjarni vinur minn með sína fyrstu messu eftir hálfs árs námsleyfi.

Lifið heil. 


"Sjáið tindinn, þarna fór ég"

Hengill 5Mikið ofboðslega er ég heppin, að búa á fallegasta landi í heimi. Og ekki bara því fallegasta fyrir augað, heldur á landi þar sem maður fær notið þess að ferðast gangandi um alla þessa fallegu staði. Ég elska gönguferðir úti í náttúrunni - og í hverri slíkri gönguferð hugsa ég: Af hverju geri ég þetta ekki oftar. 

Já það merkilega er að maður þarf oftast eitthvað sérstakt, eða einhvern sérstakann, til að ýta við sér. Nú í fyrradag tók Pétur vinur minn hinn háóði að sér að vera sá hinn sérstaki. Sendi mér sms og minnti mig á kvöldgöngu á Hengilsvæðinu. Við hjónin skelltum okkur í gönguskóna með þvílíkum hraði, að við gleymdum bæði göngustöfum og nesti. Þar að auki hélt ég að kvartbuxur, ullarbolur og hjólapeysa væru hámarksflíkur á þessu unaðslega sumarkvöldi.

Hengill 4En ég var varla komin út úr bílnum, við rætur Hróðmundartinda, þegar ég uppgötvaði að mér var allt of kalt. Ég sá ekki fram á að mér tækist að ganga mér til hita, en var svo heppin, að Pétur hinn háóði hafði sína utanyfirflík bundna um mittið - og ég var svo almennileg að bjóðast til að "geyma" hana fyrir hann. Eftir að ég klæddist henni leið mér vel. En maðurinn minn þurfti auðvitað að minna mig á, að kvöldklæðnaður fólks í íslenskum sumarútilegum, er kraftgalli.

Þetta var unaðsleg kvöldganga. Mátulega löng, bæði í kílómetrum og klukkustundum talið, og hæfileg hækkun. Já talandi um hækkun: Ég hef einstaka ánægju af fjallgöngum, er þrekmikil og dugleg miðað við aldur, menntun og fyrri störf - og finn aldrei fyrir lofthræðslu. Samt vantar alveg í mig þennan metnað, sem segir; ég verð að komast upp á toppinn, aðallega til að geta sagt "sjáið tindinn, þarna fór ég", eins og segir í kvæðinu. Það veitir mér fullkomna hamingju að rölta um í fjallshlíðum, upp og niður hina og þessa hóla og hæðir - og njóta náttúrunnar. Ég hef t.d. oft gengið upp í Esjuna - mishátt - einu sinni næstum upp á topp - en aldrei alveg. Og ég er bara alsæl með það. 

Hengill 1Sem minnir mig á, að fyrir tveimur árum fór ég  til Kaupmannahafnar í 5. eða 6. sinn - og þá sá ég Hafmeyjuna í fyrsta sinn. Og það var algjör tilviljun. Við hjónin ætluðum ekkert í neina sérstaka Hafmeyjuskoðun. Vorum bara í stuði til að hjóla aðeins lengra - og allt í einu blasti hún við okkur þessi elska. 

Sömu sögu hef ég að segja frá Osló. Ég var stödd þar í þriðja sinn þegar ég sá Holmenkollen í fyrsta skipti - og það fyrir algjöra tilviljun. Settist á huggulegt útikaffihús (sem ég geri mjög gjarnan - sérstaklega í útlöndum), tilheyrandi fjallahóteli sem þáverandi mágkona mín vann á - og þá bara blasti hann við, sjálfur Holmenkollen.

Hengill 6En aftur á Hengilsvæðið. Ástæðan fyrir því að ég fór að tala um skort minn á toppametnaði, var líklega sú, að í þessari ferð var ég ekki alltaf fremst í flokki og fyrst upp á alla tinda, eins og oft áður, - einfaldlega vegna þess að ég var svo hugfangin af fegurðinni. Stóð bara og starði - og tók helling af myndum, sem hér sést smá sýnishorn af. 

Ég biðst afsökunnar á að hafa látið heilan dag og tvær nætur líða áður en ég skrifaði þessa "dagbókarfærslu". Blogg er víst annað nafn á opinberri dagbók, - ekki "fyrradagsbók". En ástæðurnar  eru þær að eftir eldfjallameðferð gærdagsins, fórum við hjónin upp í Vatnaskóg, með viðkomu á Hótel Glym (þar hafði þessi elska pantað borð fyrir 2, - tókst heldur betur að koma sinni á óvart) - og komum ekki heim fyrr en löngu eftir miðnætti.

TánöglNú kann einhver að hafa hrokkið við, þegar ég nefndi eldfjallameðferð. Málið er það, að við Sara vorum dáldið farnar að fíla okkur minni háttar, af því að við höfðum aldrei prófað neins konar spa, eins og almennilegar miðaldra konur hafa langa og góða reynslu af. Létum því loksins verða af dekurdeginum, sem við byrjuðum að plana fyrir tveimur árum. 

Ég ætla ekkert að orðlengja það, því Sara er búin að blogga um það. Bendi ykkur bara á að lesa bloggið hennar. Þið bara smellið á nafnið hennar, á bloggvinalistanum hér til vinstri á síðunni.

Biðst bara afsökunnar á þessu stílbroti, að setja mynd af stóru tánni á sjálfri mér innan um allar þessar fallegu myndir af Hengilsvæðinu. En svona kemur maður ekki úr sinni fyrstu fótsnyrtingu er það? 

Sólsetur 17.07Ég fæ mig bara engan veginn í það að slá botninn í þessa færslu með þessari tásumynd. Skelli því í lokin inn þessari mynd sem ég tók af himninum fyrir framan húsið mitt á þriðjudagskvöldið. Oft er hann fallegur, en nú náði fegurð himinsins frá hafi og langt upp fyrir húsið mitt.

Minnir mig á myndina sem Tommi frændi tók af nákvæmlega þessum stað, kvöldið sem afi minn dó, fyrir 20 árum. Þá hafði ég enga hugmynd um að ég ætti eftir að búa hér. 

Lifið heil. 


Nýjar íslenskar.

Kartöflur nýjarÍ dag var einn af mínum árlegu hátíðisdögum. Nei, það átti enginn afmæli, hvorki nærstaddur né fjarstaddur. Ég er svo heppin að sjá stórhátíðartækifæri í því sem sumum finnst hversdagslegt - og nýti mér þau tækifæri óspart til stórhátíðarhalda.

Og í dag var svo sannarlega ástæða til að gleðjast og fagna. Nýjar íslenskar kartöflur komnar í búðir. Og hvenær borðar maður virkilega mikið af kartöflum með smjöri? Jú auðvitað með saltfiski. Mmmmmm. Svo nú ligg ég afvelta af seddu - og nýt þess að melta hvorki meira né minna en 14 nýjar íslenskar, ásamt saltfiski og smjöri. Verði mér að góðu. 

 Í gær bauð ég hinns vegar mér og yngri dóttur minni í grill til Grill í Skaftahlíð þeirrar eldri. Fjölskyldu hennar fannst hugmyndin frábær -  og stuttu seinna fékk ég sms frá henni: Komiði með sundföt, það er komin sundlaug í garðinn okkar. Við mættum með sundfötin, borðuðum úti í garði og skelltum okkur svo í sundlaugina, sem glittir í á bak við matarborðið.

Í alvöru, ég hefði aldrei getað trúað því, að svona ódýris plastsundlaug gæti virkað svona vel fyrir fullorðna. Hún rúmar fullt af fólki - og við Berglind vorum sammála um að við hefðum aldrei verið í þægilegri heitum potti - og höfum við þó prófað þá marga og notið þeirra flestra til hins ítrasta.

Þegar ég loksins hafði mig upp úr pottinum og heim til mín, klukkan að verða miðnætti, skartaði jökullinn sínu fegursta, jökullinneins og svo oft um  þessar mundir. Og ekki bara jökullinn, auðvitað er það himinninn sjálfur sem býður mér upp á heimsins fegurstu "málverkasýningu" oft á hverju kvöldi um þessar mundir.

Fyrir þá sem ekki vita, skal þess getið til útskýringar, að ég bý við Ánanaustið - svo út um stofugluggann minn er þetta stórkostlega útsýni: Esjan, Gróttan og á milli þeirra; Snæfellsnesið, Akranes og Mýrarnar. Að ógleymdu sjálfu hafinu, sem ég elska út af lífinu. Og yfir öllu saman þessi unaðslega fegurð himinsins. 

En svo ég haldi áfram með matseðla okkar mæðgnanna, þá Krukkukrás á Thorvaldsenleyfðum við okkur þann munað á laugardagskvöldið, að borða á útiveitingastað við Austurvöll. Thorvaldsen heitir staðurinn. Það var alveg kominn tími til að við nýttum okkur blíðviðrið til þess arna. Og við nutum þess svo sannarlega.

Upp úr þessari krukku borðaði ég núðlur með sveppum og öðru góðgæti - og á litlum diskum til hliðar voru risarækjur og humar. Virkilega gómsætt. Stúlkubarnið fékk einstaklega ljúffengt kjúklingasalat.

Já, ég tala bara um okkur mæðgurnar, enda er ég grasekkja í augnablikinu. Ástkær eiginmaðurinn búinn að vera viku í Vatnaskógi, en er væntanlegur heim í kvöld.

Lifið heil. 


Brjóstmynd og bryggjuhátíð.

Bush-feðgarÞað er ekki oft sem svona kurteis og siðprúð kona eins og ég ,gengur að bláókunnri manneskju og segir: Afsakaðu - má ég taka mynd af brjóstunum á þér? En það gerði ég í dag. Ástæðan var sú, að við mér blasti ungur maður í bol með þessari mynd af þeim Bush-feðgum, - og með mjög svo viðeigandi skýringartexta undir.

Það var alveg kominn tími til að einhver vekti athygli á þessari staðreynd. Seinna kjörtímabil Runna yngri senn að renna sitt skeið á enda sem betur fer. Ég man að þegar hann náði kjöri, fórnaði ég höndum og spurði í örvæntingu minni: Hvers á alheimur að gjalda? - heimskur republikani orðinn að valdamesta manni í heimi.

Og þegar hann var endurkjörinn (með naumum minnihluta) logsveið mig í mitt Kristna hjarta, þegar forsíðufréttir flestra fjölmiðla voru: Kristnin í heiminum hefur sigrað. Hvílík öfugmæli. Ég upplifi það sem hræðilega saurgun á því sem mér er heilagt að þessir öfgafullu bókstafstrúar-stríðsglæpamenn skuli telja sig Kristna. Framkoma þeirra er í algjörri andstöðu við þann náungakærleika sem Kristur boðaði.

Bryggjuvarðeldur Best að reyna aðeins að róa sig niður, áður en ég fer á of mikið flug. Það er aldrei að vita hvað gæti gerst ef ég færi að lýsa skoðun minni á þeim skaða sem Runni yngri og hans lið hefur valdið í heiminum. 

En hér kemur mynd af varðeldi í Stokkseyrarfjöru. Þar stendur nú yfir bryggjuhátíð - og þangað skrapp ég í gærkvöldi.

Já ég er frá Stokkseyri. Lengi vel komst ég í vandræði ef einhver spurði mig hvaðan ég væri - og síst af öllu vildi ég kannast við að vera frá Keflavík (þó ég hafi búið þar á grunnskólaárunum). En einu bernskustöðvatilfinningarnar sem ég hef eru til Stokkseyrar. Ég er fædd í Reykjavík, flutti eins og hálfs árs til Stokkseyrar, bjó í Keflavík 6-16 ára, því næst 9 ár á Ísafirði og hef svo búið í Reykjavík síðustu 25 árin. Ég er semsagt Reykvíkingur frá Stokkseyri.

Asparfrjó Vér höfuðborgabúar höfum í blíðunni síðustu daga búið við óvanalega ofankomu. Þetta eru asparfrjó, umvafin frjóull. Þau svífa allt í kring um okkur eins og snjókorn. Ótrúlega mikið af þeim alls staðar. Þegar ég gekk upp Fishersundið í gær, sá ég að þau höfðu safnast saman í blómabeðum eins og snjóskaflar. Var sem betur fer með myndavélina á mér. 

Njótið lífsins. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband