Færsluflokkur: Bloggar

Klukk.

Sara vinkona mín Vilbergsdóttir var að klukka mig.
Þetta er víst leikur sem gengur út á það að ég á að lýsa sjálfri mér í 8 liðum - og klukka síðan átta moggabloggvini mína, sem eiga þá að gera slíkt hið sama.
Vandræði mín felast í því að ég á bara 3 moggabloggvini - og það er búið að klukka þá alla.
Því legg ég til. að allir þeir sem lesa þetta, taki klukkið til sín, svo bara gjöriði svo vel elskurnar, - fyrstu 8.
Hins vegar er ég ekki í nokkrum vandræðum með að lýsa mér í 8 liðum.
Ég er t.d:
1) Íðilfögur,
2) Óhemjuskemmtileg,
3) Bráðgreind,
4) Vinnuþjarkur,
5) Listfeng með afbrigðum,
6) Hvers manns hugljúfi,
7) Meistarakokkur,
8) Sérdeilis smekkvís.
Það er verst að 8 atriði duga enganvegin til að lýsa jafnvel kostum búinni konu og mér. Ef fleiri atriði væru í boði gæti ég til dæmis tínt til, að ég er afspyrnu hógvær og lítillát, eins og sjá má á ofangreindri upptalningu.
Ætti líklega að fara á sjálfstyrkingarnámskeið, til að auka sjálfsálitið.

Sumarbúðir og eigið afmæli.

Stíflugerð með húsiErðanú! Mín rétt nýbyrjuð að blogga, þegar hún fer úr bænum, og það norður á hjara veraldar, þar sem hvorki er farsímasamband né nettenging. Og ég þorði ekki að láta lesendur vita af því fyrirfram, - það var búið að hræða mig svo mikið með því að óprúttnir steliþjófar leituðu í bloggheimum að fólki sem tilkynnti fjarveru sína - ryddust heim til þeirra og létu greipar sópa.

Annars finnst mér ekki alveg passa að kalla þennan stað hjara veraldar. Ég sem hef löngum og góðum stundum dvalið í Fljótavík í Sléttuhreppi (í sama hreppi og Hornbjarg og Aðalvík). Þar er hvorki rafmagn né rennandi vatn og þangað ferðast fólk yfirleitt á  bátum (lendingaraðstaða erfið - engin bryggja), nema það tengist minni fyrstu tengdafjölskyldu og fari fljúgandi.

En aftur til nútíðar. Sá yndislegi staður sem ég dvaldi á síðustu vikuna heitir Hólavatn. Þar eru sumarbúðir KFUM - og hann er nú ekki meiri "hjari" en svo, að maður er rúman hálftíma frá Akureyri - á fólksbíl.

Sólarlag Hólavatni Þarna vorum við hjónin semsagt að vinna síðustu viku. Stjúpsynir mínir og ömmustrákurinn voru með okkur. Vinnan var skemmtileg og dvölin unaðsleg. Þetta er alveg einstaklega ljúfur og notalegur staður. 

Veðrið var allan tímann eins og best verður á kosið. Og þá er ég ekki bara að tala um sólskinið og blíðuna, heldur líka þessa unaðslegu hlýju þéttu logn-rigningu, sem kom síðdegis á fimmtudag og fram á kvöld. Þá fyrst fór ég í göngutúr - í uppáhaldsveðrinu mínu. 

Fyrsta vinnudaginn átti ég afmæli. Það kom mér virkilega notalega á óvart, að þrátt fyrir nútíma sambandsleysi, fékk ég helling af afmælisóskum. Heilar 7 upphringingar frá ættingjum og vinum, sem höfðu grafið upp símanúmerið í sumarbúðunum og hringdu í - þið vitið - svona stóran svartan síma - með númeri sem byrjar á 4. Flestir sungu afmælissönginn fyrir mig. Svona er ég nú rík. Ég get ekki ímyndað mér meira ríkidæmi en að eiga skemmtilega, heilbrigða og hugulsama ættingja og vini.

Í tilefni dagsins bakaði ég skúffuköku með nammi á handa sumarbúðastrákunum og svo sykur- og hveitilausa gulrótarköku handa mér og öðrum þeim sem vildu. Ammaliskaka 020707Skreytti hana með 51 beri, - eitt fyrir hvert ár. Algjört gúmmulaði. 

Svo fékk ég nokkra pakka. M.a. spennusögubækur, kort með "út að borða"-loforði, og svo þennan líka glæsilega græna kjól, sem sonur minn valdi alveg sjálfur úti í Stokkholmi.

Ég var svo heppin, að kvöldið sem við komum aftur bæinn var vinkona mín með partý, svo það var ekki leiðinlegt að geta mætt í splunkunýjum kjól.

Ykkur finnst það kannski ekki frásagnarvert að kona mæti í partý í splunkunýjum kjól, - en í mínu tilfelli er það samt þannig. Ég er nefnilega ein af þeim sárafáu konum í veröldinn, sem finnst leiðinlegt að versla, og ég geri fátt skelfilegra en að reyna að finna föt á sjálfa mig. Þess vegna er það mér einstakt gleðiefni þegar ég eignast flík, sem ég er ánægð með, hvort sem ég kaupi hana sjálf, eða fæ hana gefins.

LW í ammaliskjólHérna kemur loksins af mér í nýja kjólnum í partýinu (ég reyndi að blaðra og blaðra þangað til ég gat sett aðra mynd inn). 

Þetta var hið skemmtilegasta partý - fullt af skemmtilegu fólki og frábær matur. Sara partýhaldari er líka alveg moldrík - á alveg meiri háttar skemmtilega ættingja og vini.

Úps, kominn tími til að skunda út á Leifsstöð að sækja stúlkubarnið sem er að koma frá Stokkholmi.

Nóg að sinni. 


Af jómfrú og gæsum.

Jómfrú 30Alla laugardaga yfir sumartímann fer ég á jazzinn á Jómfrúnni, ef ég er í bænum og ef ekkert ennþá skemmtilegra er að gerast hjá mér. Dagurinn í dag var enginn undantekning. Jóel og félagar voru góðir, og rauðsprettan klikkaði ekki frekar en vanalega.

Þegar ég svo hjólaði heim aftur, var Austurvöllurinn orðinn fullur af gæsum og steggjum. Þegar ég svo hjólaði aftur þar fram hjá klukkan að halla í 7, voru gæsir og steggir farnir að flæða út yfir varnargarða Austurvallar. Það var greinilega verið að steggja og gæsa stóran hluta þess stóra hóps sem valdi 07.07.07 sem brúðkaupsdag.

En sorry - ég bara hafði ekki geð í mér til að smella mynd af þeim. Mér bara finnst í allt of mörgum tilfellum þessi ósiður ganga út yfir allan þjófabálk. Ég hef heyrt af tveimur konum sem hættu við að giftast sínum tilvonandi út af steggjarugli. Í öðru tilfellinu var tilvonandi brúðgumi sendur frá Reykjavík til Akureyrar, það sem súludansmey í pappakassa beið hans uppi á hótelherbergi. 

Tæpum tveimur dögum fyrir brúðkaup sonar míns, sendu vinirnir hann - í nafni steggjunar - inn í boxhring, þar sem fílefldur boxkennari barði úr honum jaxl og braut nokkur rifbein. Það vill til að sá brúðgumi er hetja, sem lét ekki sjá á sér kvalasvip, þegar hann stóð aftur og aftur upp fyrir hátt í 200 brúðkaupsgestum í kirkjunni. 


Ammali.

PallapönsurÍ gær skein sólin á svalirnar hjá mér, eins og hún er svo dugleg við um þessar mundir þessi elska. Ég lá þar eins og slytti þangað til Sara kom í kaffi og þröngvaði mér loksins inn í bloggheimana. Það tók auðvitað smá tíma að kenna þeirri gömlu að feta sig fyrstu skrefin.

Degi var því verulega tekið að halla, þegar ég loksins fór úr "skautbúningnum", skellti mér í aðeins siðsamlegri spjarir og hjólaði upp í Hlíðar með afmælispakka handa Páli tengdasyni. Ég elska ammali, og læt sko ekki hafa þau af mér. Ef afmælisbarnið sjálft heldur ekki upp á það, þá geri ég það bara sjálf, með einum eða öðrum hætti. Ég held til dæmis alltaf upp á afmæli sonar míns, þó hann hafi ekki sjálfur verið viðstaddur þau uppáhöld í ein 14 ár.

En í gær var ég svo heppin, að sólin var líka hátt á lofti í Skaftahlíðinni,  svo afmæliskaffið var bara rétt að byrja þegar ég mætti klukkan langt gengin í 7. Og Berglind nýtekin við pönnukökubakstrinum af Páli sjálfum. Þau bökuðu ekta Pallapönsur, sem eru þykkari en venjulegar ömmupönsur, en þynnri en þær amerísku. Með sýrópi.


Naflastrengurinn.

Ásbjörg og GyðaÉg er í hörkuvinnu með sjálfa mig þessa dagana. Sem gengur aðallega út á að slaka á naflastrengnum á milli mín og dóttur minnar - vera áhyggjulaus og láta mér líka vel með það. Ég er svo heppin að eiga heilbrigðustu og yndislegustu unglingsstúlku í heimi. Ég hef allar ástæður til að treysta henni algjörlega, og vil að sjálfsögðu leyfa henni að njóta lífsins með vinum sínum. Málið er bara það að fólk á þessum aldri vill helst njóta lífsins saman langt fram á nótt um helgar - en þá er mannlífið víða villimannslegt, og umhverfið jafnvel stórhættulegt. Mín sefur því ekki mikið um helgar á meðan stúlkan ætlar "eftir smá" að labba heim - í gegnum miðbæinn nota bene - við búum í 101.

En síðustu daga hef ég verið að minna mig á að hver og einn verði að fá að þroskast þar sem hann er staddur, - t.d. myndu unglingar ekki þroskast eins og þau þurfa ef þau hefðu ekki hugrekki til að ganga í gegnum miðbæinn að nóttu og allt það. Það er bráðnauðsynlegt að æfa sig í að detta ekki í helvítisgjána, eins og Ronja ræningjadóttir.

Ég er með stúlkuna í æfingaakstri um þessar mundir - og hún yrði ekki góður bílstjóri ef hún væri jafn hrædd og ég. Sem betur fer er hún hugrökk og dugleg - og verður örugglega góður bílstjóri.Við fórum út á land nýlega, þar sem ég æfði hana m.a. í að fara út í lausamölina og bregðast rétt við.  Stuttu seinna reyndi á það, bíllinn fór sjálfur út í lausamöl, dansaði smá, en stúlkan tæklaði dæmið af mikilli snilld. Hjartað í mér stoppaði smá stund, tók feilpúst og ég veit ekki hvað. En stúlkan sagði sallaróleg "Þetta var gaman". Einföld setning sem sagði mér mikið. Ásbjörg að keyra

Og nú gekk ég svo langt að leyfa henni að fara einni til útlanda með vinkonu sinni (sú mynd kom fyrst, en hefði auðvitað átt að koma núna, - ég læri bráðum á þetta). Reyndar fóru þær beint í faðminn á Dóru tengdadóttur sem ber ábyrgð þarna úti. En þær fóru einar í flug og einar í lest niðrí miðbæ Stokkholms þar sem Dóra tók á móti þeim. Og belíf itt or nott; þetta var næturflug - og ég svaf bara ótrúlega vel á meðan. Sleeping


Flutningar og útskrift.

Berglind superwoman.Eitt af því sem til tíðinda hefur borið í þessum mánuði, er að Berglind mín flutti búferlum með sína 4-5 manna fjölskyldu. Þau fengu nýju íbúðina afhenta 15.júní, fluttu 15.júní og skiluðu gömlu íbúðinni 15.júní (sama ár). Sumir halda að þetta sé ekki hægt, en það vill til að Berglind erfði skipulagssnilldina frá móður sinni (mátti ekki minna vera, fyrst ég sveik hana um krullurnar), þannig að þetta gekk ótrúlega vel upp.

Ekki nóg með það: Daginn eftir útskrifaðist hún sem ljósmóðir og lét sig ekki muna um að halda þessa líka fínu útskriftarveislu í nýja húsinu. Dóttir mín Súperkonan.

Eins og sést hikaði hún ekki við að keyra sendibílinn sjálf, eins og hún hafði nefnt í nýlegu sjónvarpsviðtali sem hugsanlegan atvinnumöguleika.

Fleiri myndir af flutningum og útskrift má sjá á: flickr.com/photos/laufeywaage (ég læri bráðum að búa til link). 


Loksins, loksins!

SunsetLoksins loksins er mín farin að blogga. Löngu tímabært að svona vel máli farin og bráðskemmtileg kona láti í sér heyra. Auk þess sem líf hennar er yfirleitt bráðmerkilegt og viðburðaríkt.

En þetta er bara prufa, í engu samræmi við þessa fallegu sólarlagsmynd. Mjög líklegt að ég breyti þessu bulli fljótlega, svo engum ofbjóði nú hógværðin og lítillætið.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband