Færsluflokkur: Bloggar
11.2.2009 | 19:36
Blómstrandi samkeppni.
Nú er vetur í bæ. Þorrinn yfirstandandi og Góan framundan. Akkúrat þessi tími þar sem pottablómin eiga á hættu að fölna og deyja. Þá grípur maður til þess ráðs að dæla í þau "vítamönum" til að forða þeim frá bráðum bana.
Í minni sveit þótti kælt kartöflusoð allra meina bót og upplögð vítamínbomba fyrir blóm og aðrar lífverur í jurtaríkinu.
En hvað gerist núna? Í Þorrabyrjun rifjast það upp fyrir manninum mínum, að þegar þeir bræðurnir voru litlir, dældi mamma þeirra í þá kartöflusoði, til að forða þeim frá kvefpestum. Og það svínvirkaði. Þeir urðu sprækir sem lækir.
Svo nú eru blessuð elsku blómin mín komin með bullandi samkeppni. Á hverju kvöldi (ef kartöflur hafa verið soðnar) horfir eiginmaðurinn á kólnandi soðið í tekrúsinni, setur upp sitt blíðasta bros og spyr hvort hann megi ekki drekka þetta.
Og þar sem ég hef tamið mér að setja virðingu fyrir líðan og heilsufari lífvera í þessa hefðbundnu forgangsröð: Fyrst menn, svo dýr og síðast plöntur, - þá svara ég alltaf játandi.
Frumburðurinn minn hefur lengi sagt það um móður sína, að hún hafi alveg ótrúlegan hæfileika til að telja sér í trú um að allt sem hún ákveður að sé hollt fyrir hana sé gott (þetta sagði hún fyrst þegar hún horfði á mig drekka hitaveituvatnið með bros á vör).
Ég held að eiginmaðurinn sé farinn að smitast af þessum hæfileika mínum. Það er ekki einleikið hvað hann brosir blítt þegar hann kyngir síðasta sopanum af kartöflusoðinu, - fullviss um að nú sé hann orðinn hraustari en ég veit ekki hvað, - og að ekkert muni bíta á honum framar.
Hins vegar horfi ég vandlega framan í hann á hverjum morgni og spyr mig hvort hann sé nokkuð farinn að grænka. Þegar hann kemur heim á kvöldin, er ég ekki frá því að hann sé farinn að blómstra.
Hugsið ykkur bara.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.2.2009 | 16:41
Minningargrein.
Ása vinkona mín var jörðuð í dag. Eini "gallinn" við okkar vináttu var akkúrat þetta sem nú er orðin staðreynd: Ef ég ætlaði að standa við það að verða allra kellinga elst, eða svo gott sem, - þá var fyrirséð að yrði Ásulaus í langan tíma, - út af þessum tæpum 40 árum sem voru á milli okkar.
Ég skrifaði minningargrein um hana, sem ég sendi mbl fyrir viku síðan. En það er greinilega verið að jarða óvenjumargt fólk í dag. Alla vega er mikið af minningargreinum - og við þær allar stendur að fleiri greinar birtist síðar. Mín grein er ein þeirra sem bíða. Þess vegna ætla ég að leyfa mér að birta hana hérna í staðin, - á sjálfan jarðarfarardaginn. Hér kemur Mbl.greinin:
Klukkan var að verða hálf níu eitt kvöldið þegar ég trítlaði niður til Ásu og sagðist eiga miða á ákveðna tónleika klukkan níu. "Já þessa tónleika langar mig á! Mig langaði ekkert á tónleikana sem vinkona mín reyndi að fá mig á í gær, en þessa langar mig á" sagði Ása. Nokkrum mínútum seinna var hún komin í rauðu úlpuna og með varalitinn. Við skemmtum okkur vel það kvöld.
Og því fer fjarri að þetta kvöld hafi verið einsdæmi. Ása var nefnilega ekki bara góð vinkona mín, - hún var líka selskapsdaman mín. Við vorum listaspírur með sama smekk. Hvort sem það voru tónleikar, myndlistarsýningar, bókmenntakvöld, bíó eða leikhús, - ég vissi alltaf að Ásu langaði það sama og mig. Og við fórum svo sannarlega oft saman út að skemmta okkur.
Svo var hún næstum alltaf tilkippileg með engum fyrirvara. Ég man bara eftir einu skipti sem hún var það ekki: Ég hringdi einn laugardaginn og sagðist eiga boðskort á myndlistaropnun. "Æ ég er eitthvað drusluleg" sagði Ása. "En ef þú færð miða á danska jazzistann sem spilar í þjóðleikhúsinu á mánudagskvöldið, þá bara ligg ég í bælinu þangað til". Á mánudagskvöldinu var hún eiturhress og við skemmtum okkur konunglega með Nils Henning og félögum.
Það voru ekki bara listviðburðirnir sjálfir sem við nutum saman, heldur naut ég þess alltaf að vera með Ásu. Hún var svo einstaklega skemmtileg. Alltaf að lauma út úr sér gullkornum. - T.d. eitt sinn er við vorum á seinustu stundu á einhvern listviðburðinn - og Ása sveiflaðist til vinstri og hægri þegar ég keyrði hringtorgið á Hringbrautinni: "Þú keyrir alltaf eins og bankaræningi á flótta" sagði mín þá hin rólegasta.
En við vorum ekki bara eins og þeytispjöld út um allar trissur. Við bjuggum lengi í sama húsi - og þá fannst okkur stundum óþarfi að sjóða tvær ýsur í tveimur pottum á sitt hvorri hæðinni. Auk þess var einstaklega dýrmætt fyrir mig að fá að hreiðra um mig í sófanum hjá henni þegar þannig lá á mér, - hún kannski bara að horfa á sjónvarpið - og hvorug í stuði til að spjalla.
En við vorum svo sannarlega oft í stuði til að spjalla. Okkur skorti aldrei umræðuefni. Báðar með sama áhugann á pólitík og öðrum landsmálum og heimsmálum, - náttúrulækningum og ýmsu sem viðkom heilsu og lífsstíl, - listum og menningu, - og bara svo ótal mörgu.
Því miður kynntist ég Ásu ekki fyrr en á efri árum, en mér finnst hún hljóti að vera fremst meðal þeirra sem vaxa að visku með árunum. Hún var einstaklega sterkur karakter og merkileg kona.
Það er svo merkilegt, að við fundum aldrei fyrir þessum tæpum 40 árum sem voru á milli okkar. Við vorum bara vinkonur. Virkilega góðar og nánar vinkonur. Auðvitað breyttust samskiptin á allra seinustu árum þegar minnið og hreyfigetan minnkaði hjá Ásu, en hún var mér alltaf jafn einstaklega dýrmæt.
Ég sakna hennar og syrgi hana sárt.
Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa kynnst henni og fengið að njóta hennar dýrmætu vináttu.
Guð blessi minningu Ásu vinkonu og styrki alla þá sem hennar sakna.
Laufey Waage.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.2.2009 | 20:26
Hraðakstur.
Það viðurkennist hér með opinberlega, að ég er ein þeirra fjölmörgu Íslendinga sem hafa oftar en einu sinni og oftar en tvisvar framið ákveðið lögbrot. - Við erum hér að tala um brot á reglum um hámarkshraða.
Tökum dæmi:
Á hvítasunnudag fyrir tæpum 7 árum vorum við á leið í fermingarveislu uppi í Borgarfirði. Í miðjum Hvalfjarðargöngunum grípur mig skyndilega sú hugsun; að lögreglan sé örugglega með radarmælingar á þessum slóðum, þessa umferðarmiklu helgi. Hún gæti jafnvel verið komin með eftirlitsmyndavélar í sjálfum göngunum.
Og hvað gerir maður þegar slík hugsun grípur mann? Jú, - maður snarhægir á sér. En ekki Laufey Waage. Það hentaði henni ekki. Á þessu augnabliki var hún nefnilega að leggja af stað upp úr göngunum með stappfullan bíl af fólki og þurfti því að gefa í, svo að bíllinn missti ekki dampinn á miðri leið. Og þá fékk hún auðvitað þennan líka ófagra myndavélaglampa í augun. Og það hvorki með varalit né bros á vör.
Eftir þetta lét eiginmaðurinn ekkert tækifæri ónotað til að gera grín að þessu. Sagði að það væri ekki á valdi nokkurs manns, nema hans elskulegu eiginkonu, að keyra eldgamlan Daihatsu Charade, stappfullan af fólki, á ólöglegum hraða UPP úr Hvalfjarðargöngunum.
Nokkrum vikum seinna fór eiginmaðurinn akandi norður í land. Ég ákvað að fylgja honum úr hlaði, - og heimsækja frænku mína í Borgarfirði í leiðinni. Við vorum því á sitt hvorum bílnum.
Þegar við komum að göngunum, var ég auðvitað á undan. MJÖG meðvituð um radarmyndavélina hugsanlegu. Ég er ekki komin nema rétt hálfnuð niður göngin, þegar ég sé myndavélina. "Ja klókir eru þeir að færa vélina" hugsa ég og tek bílinn úr gír og læt hann renna. Ég var sloppin, - en eiginmaðurinn fyrir aftan mig hafði örugglega ekki áttað sig á þessu. Það hlakkaði því í mér - og vantaði sko ekki bros á vör, - þegar mín rann á fullri ferð niður göngin.
En WHAT!?! Hvaða rosa blossi var þetta allt í einu?!? - Eru þeir með aðra myndavél?!?
Brosið snarhvarf af minni. - Þetta var ekki fyndið.
Svo kom auðvitað í ljós að eiginmaðurinn slapp. Eins og alltaf. Enda leyfi ég honum frekar sjaldan að keyra. Alla vega ef við erum að flýta okkur.
Lifið heil. - Og keyrið varlega.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.2.2009 | 11:53
Völd eða þjónusta.
Það fór dáldið fyrir brjóstið á mér að heyra í fréttum í gærkvöldi að ný ríkisstjórn væri KOMIN TIL VALDA. Ekki það að ég sé ósátt við stjórnarskiptin. Ég hefði reyndar helst kosið ópólitíska "fagmannastjórn" fram að kosningum í vor. - En fyrst að bráðabirgðastjórnin þarf endilega að vera flokkspólitísk, - þá er þetta langskársti kosturinn. Svo ég leyfi mér að óska landsmönnum öllum til sjávar og sveita til hamingju með nýju ríkisstjórnina.
En það er auðvitað orðalagið "komin til valda" sem fer fyrir brjóstið á orðhengils-sérvitringnum mér. Ráðherraembættin eru nota bene EMBÆTTI, - og orðið embætti er dregið af orðinu ambátt. Og ekki nóg með það, - heldur er enska orðið yfir ráðherra; minister, - sem þýðir þjónn, eða sá sem ráðinn er til ákveðinnar ÞJÓNUSTU.
Og það er mergurinn málsins: Hlutverk ráðherra er að ÞJÓNA landi og lýð!! - ekki að beita VALDI. Mikið vildi ég óska að þau hefðu það í huga þessar elskur.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.1.2009 | 21:21
Sorg og söknuður.
Mjög góð vinkona mín dó í dag.
Ég er að reyna að segja við sjálfa mig; að fyrst við lifum nú við þá einu staðreynd að eitt sinn skuli hver deyja, - þá sé nú gott að fá að lifa hraust í rúmlega 91 ár, - og deyja svo í svefni, án undanfarandi veikinda.
Og auðvitað er það rétt.
En ég er bara sorgmædd.
Og ég ætla bara að leyfa mér að vera það um stund. Ég er að reyna að segja ekki við sjálfa mig, að ég hefði nú getað búist við þessu og að ég hefði nú átt að heimsækja hana oftar undir það síðasta. Það dregur ekki úr sorginni, nema síður sé.
Auðvitað er ég sorgmædd vegna þess að þessi vinkona var mér svo einstaklega dýrmæt. Bæði var hún merkismanneskja og frábær í alla staði, - og svo var vinátta okkar svo einstök og náin. Ekki síst þegar á það er litið að hún var næstum 40 árum eldri en ég.
Að sakna og syrgja, - hlýtur að vera merki um það, að maður hafi átt eitthvað dýrmætt. Og það átti ég svo sannarlega í þessari yndislegu vinkonu minni.
Ég sakna hennar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.1.2009 | 12:20
Össur lengst til hægri?!?
"Hva!?! - er Össur kominn lengst til hægri?" hrópaði eiginmaðurinn þegar hann leit út um eldhúsgluggann í morgunn.
Þegar maður kemur að rauða húsinu við hafið, - þá er minn inngangur til hægri, en ráðherrainngangurinn til vinstri.
Eitthvað hlýtur ráðherrann - eins og gefur að skilja - að hafa komið seint heim í gærkvöldi, - og ekkert stæði verið laust fyrir framan hans inngang. - Svo ráðherrabílnum var lagt lengst til hægri.
Þess má geta að það er "míns eigins" ektamaki sem vanalega leggur í stæðið lengst til hægri. Og skiljanlega undraðist hann skyndilega hægrisinnun ráðherrans, þegar hann sá kött í bóli bjarnar.
Ég legg mínum eðal-Yaris alltaf hinu megin við hornið, - lengst til vinstri að sjálfsögðu. - Þó hann sé blár.
Næst kaupi ég mér rauðan bíl.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.1.2009 | 12:35
Áfram Óli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.1.2009 | 21:57
Loksins.
Til hamingju Ísland
Loksins eitthvað að gerast.
Hvað verður næst?
Spennandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.1.2009 | 12:55
Eitthvað að gerast?
Verð að viðurkenna að nú er örlítið fúlt að vera bundin við kennslu næstu klukkustundirnar, - loksins þegar eitthvað virðist vera að gerast í íslenskum stjórnmálum. Verð að bíða eftir fréttum kl. 18.00.
Ég VEIT þó núna, að það er stórtíðinda að vænta. Öðruvísi en 6.október síðastliðinn þegar ég kom algjörlega grunlaus heim úr vinnunni um kl. 18.25 og vissi ekkert af hverju eiginmaðurinn sat við sjónvarpið og starði á "Geirharð" á skjánum (eins og flestir íslendinar höfðu þá gert í nokkrar klukkustundir. - Sumir hverjir grátandi).
Ég vissi það heldur ekki fyrr en seint um kvöld, - að hluti af miðbænum mínum brann einn daginn, á meðan ég var grunlaus við mín kennslustörf.
Það vill til að vinnan mín er skemmtileg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2009 | 11:07
Fallegur kjóll.
Ég er ekki ein af öllum þessum konum sem hafa gaman af að versla. Síst af öllu hef ég gaman af að kaupa föt á sjálfa mig. Þá sjaldan sem ég geri tilraunir til þess, kem ég langoftast tómhent út, - hafandi séð ekkert nema ofsoðna sláturkeppi í spegli mátunarklefans.
Maðurinn minn er hins vegar dáldið í fatakaupadeildinni. Ég hef stundum haft lúmskt gaman af þeim viðsnúningi á hefðbundnum kynjahlutverkum. Til dæmis sendi ég svohljóðandi sms, þegar við hjónin vorum í rómantísku sumarleyfi við Gardavatnið á Ítalíu fyrir nokkrum árum: Sit á yndislegri jazzbúllu með rauðvínsglas í hendi, meðan eiginmaðurinn kíkir í búðir.
Ég hef stundum notið góðs af nefi míns ástkæra fyrir fatabúðum. T.d. einn daginn þegar við hjónin vorum á leið á kaffihús - og hann rekur augun í skilti sem bendir á fatamarkað - og dregur mig inn með sér. Þar var verið að selja kjóla frá saumastofu sem starfrækt var fyrir nokkrum áratugum - og voru kjólarnir verðlagðir eftir aldri, - þeir elstu dýrastir.
Kjóllin á myndinni var í ódýrasta flokki, þar sem ekki var vitað frá hvaða tíma hann væri. Úr ekta ull, hnausþykkur og góður - og alveg minn stíll. Svo ég keypti hann og sé ekki eftir því.
Í gærkvöldi fór ég í honum í æðruleysismessu. Fór úr loðkápunni og fleygði henni í bekkinn, því fallegi kjóllinn er svo hlýr og góður. Við stóðum upp á endann stóran hluta messunnar, - þ.e. meðan við vorum að syngja. Ég naut mín vel í fallega kjólnum, - ein af þeim fáu sem ekki voru í yfirhöfn.
Þegar ég fer í kápuna að messu lokinni, sé ég að konurnar í bekknum á bak við mig eru skælbrosandi. Ég brosi auðvitað á móti. - Alltaf svo einlæg og notaleg stemmning í þessum æðruleysismessum.
Þegar ég er komin heim og farin úr kápunni, tek ég eftir einhverri áberandi misfellu á kjólnum. Og svo annari og annari. - Og út um allt. Ónei!!, - þetta eru samhnýttir endar, - Og þykkir saumar á hliðunum. "Ég er í úthverfum kjólnum" hrópa ég yfir mig. "Það fer ekkert á milli mála" segir eiginmaðurinn, - "hann er eins og illa ryksugað gólfteppi".
Ég segi bara eins og Dúddi rótari: Ég get aldrei komið á billann aftur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)