Færsluflokkur: Bloggar
16.1.2009 | 21:49
Komin að vestan.
Jæja þá er ég búin að fara vestur að knúsa nýja ömmudrenginn, - og komin heim aftur, með slatta af myndum auðvitað.
Drengurinn er óhemjufagur og yndislegur í alla staði. Þegar ég mætti á staðinn (Sjúkrahúsið á Ísafirði) lá hann í vöggunni sinni - og hafði legið þar rólegur í tvo klukkutíma.
En ég fékk að sjálfsögðu strax að taka hann í fangið. -Og þar var hann non stop í rúman sólarhring, nema rétt á meðan ég skrapp í hádegismat, kvöldmat, - og svo til að sofa yfir blánóttina.
Og auðvitað tókst mér að spilla honum. Um nóttina, meðan ég svaf eins og steinn heima hjá þeim, - vildi ömmudrengurinn bara kúra hjá mömmu sinni, í hennar rúmi (á sjúkrahúsinu).
Meðan ég sat og horfði á hann í fangi mér, sagði tengdadóttirin; ég á ekkert í þessu barni. Þá sagði ég auðvitað; en ég á allt í þessu barni, hann er alveg eins öll mín börn, - og sérstaklega líkur pabba sínum.
Ég sagðist áðan hafa haft hann stöðugt í fanginu. Auðvitað voru það örlitlar ýkjur (ekki miklar þó). Náðarsamlegast "leyfði ég" honum að fara á brjóst hjá sinni eigin móður. Svo gat ég heldur ekki alfarið neitað pabbanum, - sem tekst engan vegin að leyna því hvað hann er hrifinn af þessum frumburði sínum (og þeirra beggja). Og það má hann svo sannarlega vera.
"Hann er beinlínis fullkominn" sagði ég nokkrum sinnum.
Ég gæti sagt heilmargt fleira um þennan nýjasta fjölskyldumeðlim, - en vil ekki ofbjóða ykkur með taumlausri hrifningu minni og hamingju.
En ég er auðvitað takmarkalaust þakklát fyrir það hvað hann er heilbrigður og frábær - og hvað allt gengur stórkostlega vel með hann. Það er ekki sjálfgefið.
Eini gallinn er auðvitað hvað þau búa langt í burtu.
En á móti kemur, að ég er svo heppin að "gömlu" ömmubörnin búa hér í næsta hverfi, - svo ég hitti þau reglulega - og hef alltaf haft yndislega gott samband við þau.
Ríkasta amma í heimi óskar ykkur góðrar helgar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.1.2009 | 16:06
Ömmugleði.
Í dag klukkan 12.02 fæddist lítill ömmudrengur á Ísafirði. 16,5 merkur, sem er léttara en við bjuggumst við, þar sem mamman vó um 19 merkur við fæðingu og pabbinn (sonur minn) tæpar 20 merkur. Drengurinn fæddist eftir 41 viku meðgöngu, sem okkur finnst líka frekar stutt meðganga miðað við foreldrana, sem bæði voru í móðurkviði í 42 vikur (sonur minn rúmlega það). Fæðingin gekk mjög vel og öllum heilsast vel.
Ég fylltist að sjálfsögðu ómótstæðilegri löngun til að hoppa upp í næstu vél. Ég reyndi að róa mig, en löngunin bara óx, þangað til ég sagði við sjálfa mig: Laufey hættu þessu rugli og farðu.
En þá var klukkan 15.07, - og seinni vélin í dag fór í loftið klukkan 15.15. Svo ég var of sein. En ég er búin að bóka far með fyrstu vél í fyrramálið.
Dæli inn myndum þegar ég kem til baka (á föstudaginn).
Oooooh, ég er svo takmarkalaust hamingjusöm og glöð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
12.1.2009 | 23:29
Meðgöngufriður.
Ég hef gengið með 3 börn. Frumburðinn í 40 vikur, einkasoninn í 42 vikur (eða rúmlega það) og heimasætuna í 41 viku. Þetta voru yndislegar meðgöngur, fæðingarnar gengu mjög vel og börnin eru hvert öðru stórkostlegra.
Það var bara eitt sem ekki var yndislegt í þessu sambandi, - heldur beinlínis óþolandi. Um leið og áætlaður fæðingartími nálgaðist, varð ekki flóafriður fyrir fólki, sem þótti greinilega ekki gaman að sjá mig af því að ég var greinilega ennþá ólétt. Og það var dembt á mig endalausum leiðindaspurningum á borð við: Hvenær ætlarðu eiginlega að fara að eiga þetta barn?
Þetta var sérstaklega áberandi á 42ja vikna meðgöngunni. Þó drengurinn væri mjög stór og löngu skorðaður niðrí grind, - og þó að ég þyrfti að setjast á hækjur mér til að hvíla mig á leiðinni út í kaupfélag (ca.300 metra leið), - þá leið mér mjög vel. - Alveg þangað til ég kom inn í kaupfélagið. Þá dundu á mér athugasemdirnar.
Og síðustu vikurnar áður en heimasætan fæddist, mætti ég í skólann kát og hress á hverjum degi. En alltaf var mér heilsað með hneykslunartóni í orðunum: Hva!! ertu mætt? - Ekkert að gerast? Hressleikinn snar-rann af mér og ég sagði með uppgerðarbrosi "Gaman að sjá þig líka", þó mig langaði mest að öskra.
Og nú eiga sonur minn og tengdadóttir von á sínu fyrsta barni um þessar mundir. Sónardagarnir voru 6. og 8. janúar, - og strax á síðasta ári var byrjað að spyrja. Ég þori varla að hringja í vini og ættingja, því flestir heilsa mér með orðunum; er barnið fætt? Og sumir bæta við "ég spái því að það fæðist níunda" eða "kannski að það komi fyrir miðnætti" og fleira í þeim dúr.
Og nú erum við bara að tala um árásirnar á mig. Getiði ímyndað ykkur hvernig það er hjá ungu hjónunum sjálfum? Ég hringdi síðast í tengdadóttur mína 2.janúar, - ég bara þori ekki að bætast í hóp þeirra sem eru alltaf að hringja. Ég hringdi reyndar í son minn fyrir helgi og sagðist svona í framhjáhlaupi (erindið var annað) treysta því að ég yrði látin vita þegar fæðingin færi af stað.
Ef ég væri í þeirra sporum, þá væri ég búin að gefa út yfirlýsingu þess efnis; að þeim sem voguðu sér að spyrja, - yrði umsvifalaust kippt út af listanum yfir þá sem verða látnir vita þegar barnið fæðist (nei ég hafði ekki kjark til þess þegar ég stóð í þessum sporum sjálf).
Afsakið pirringinn, - vonandi fæ ég útrás fyrir hann með þessum skrifum. Ég vil nefnilega ekki láta neitt eyðileggja þessa yndislegu eftirvæntingu, sem fylgir því að eiga von á barni, - eða barnabarni. Ég er löngu farin að elska þetta barn út af lífinu, - og hlakka virkilega til að hitta það, - en ég veit að það væsir ekkert um það í móðurkviði. Og ég vil ekki að þessi ungu hjón búi við álíka árásir og ég bjó við á sínum tíma.
Ég lofa að láta vita hér á síðunni um leið og barnið er fætt. Ekki spurning. Ooooo ég hlakka svo til .
Lifið heil.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.1.2009 | 16:43
Ættarmót og vinnsluminni.
Í fyrradag - 9.janúar - voru 100 ár síðan móðuramma mín fæddist. Af því tilefni dreif ég afkomendur hennar og fylgifiska upp í Vatnaskóg á fjölskyldumót yfir helgina. Þetta var þrælgaman og vel heppnað, - enda ekki við öðru að búast. - Þeir sem eru náskyldir mér, hljóta að vera afspyrnuskemmtilegir.
Þið eruð líklega hissa á að ég skuli ekki láta myndir af mótinu fylgja með pistlinum. Skýringin er sú, að allt jólafríið og alla síðustu viku sat ég nokkra klukkutíma á degi hverjum (smá ýkjur - ekki miklar) við að eyða myndum úr tölvunni minni, sem sat á þeim eins og ormur á gulli, - ekki aldeilis til í að sleppa þeim. iPhoto-forritið sem ég nota fyrir myndirnar mínar virðist hafa endalaus backup-kerfi, - þannig að ég þurfti að eyða hverri mynd minnst 17 sinnum (líka smá ýkjur - en ekki miklar). Af og til fór svo allt í baklás og margliti boltinn rúllaði endalaust.
Ég neyddist því til að fara á Epla-verkstæðið og kvarta. Epla-drengurinn sagði að ég þyrfti að kaupa megabæts-kubb og setja í tölvuna, til að auka vinnsluminnið úr 50-eitthvað í 120-eitthvað. Ég spurði auðvitað hvort ég gæti ekki látið 50-eitthvað vinnsluminni duga, ef ég næði myndunum niður í sama fjölda og þegar 50-eitthvað vinnsluminnið var upp á sitt besta.
En Epla-drengurinn sagði að svona gömul tölva þyrfti einfaldlega á meira vinnsluminni að halda en ný tölva. Gömul tölva hvað!?! - Hún er rétt tæplega þriggja ára. Alltaf sama ruglið í ykkur af einnota-kynslóðinni, - langaði mig mest að segja við drenginn. Ákvað þó að hafa hann góðan og gera eins og hann sagði mér. Það er til lítils að ráðfæra sig við til þess gerða sérfræðinga, nema maður brjóti odd af oflæti sínu og taki mark á þeim.
Allar svona einnota-kynslóðar-ráðfæringar fá mig til að hugsa til hennar frænku minnar, sem neitaði að skilja af hverju ekki var hægt að gera við ísskápinn hennar, sem hafði staðið sig eins og hetja allan hennar búskap, - 50 ár eða svo. Að viðgerðarmaðurinn skildi láta sér detta í hug að hann væri bara kominn á aldur.
Best að fara að ganga frá farangri helgarinnar - og taka niður jólaskrautið.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.1.2009 | 14:49
Pylsupartý.
Ég vissi að ég hefði gifst mér yngri manni. En að hann gengi í barndóm á hverjum afmælisdegi, bara til að vekja athygli á því hvað hann er miklu yngri en ég, - það er dáldið illa gert gagnvart mér, - er það ekki?
Fyrir tveimur árum, - daginn sem hann varð fertugur, vildi hann fá skúffuköku með kremi. Ég kom honum skemmtilega á óvart, með því að fá tengdasoninn til að föndra gítar úr tveimur skúffukökum (hann er í smíðum á myndinni, það á eftir að setja strengi og fleira).
Í dag vill hann svo hafa pylsupartý. Og af því að ég er svo einstaklega jákvæð og elskuleg eiginkona, þá sagði ég auðvitað að hugmyndin væri stórkostleg.
Ég gleymdi reyndar að spyrja hann hvort hann vildi frekar hafa íspinna eða sleikjó í eftirmat. En það verður semsagt pylsupartý í rauða húsinu við hafið í dag, - á 42ja ára afmælisdegi húsbóndans.
Neðri myndin sýnir drenginn minn (vin hans og heimasætuna) í pylsupartýinu sem hann hélt í sumar þegar hann varð þrítugur.
Ja hérna, - drengir eru og verða drengir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.1.2009 | 10:04
Erfidrykkja.
Ég var við jarðarför í gær. Fyrsti píanókennarinn minn og náin samstarfskona til margra ára var að missa manninn sinn. Athöfnin var mjög falleg. M.a. voru sungin 3 lög eftir son þeirra hjóna (sem líka var vinnufélagi minn). Falleg lög, mjög vel flutt af Scola Cartorum.
En það sem mig langar að vekja athygli ykkar á er erfidrykkjan. Ég hef alltaf verið mjög svo fylgjandi erfidrykkjum. Það er nánast nauðsynlegt eftir svona athafnir að fólk geti hist og spjallað saman smá stund áður en það fer aftur til síns heima. Og hvað er þá meira viðeigandi en kaffi? Þetta séríslenska félagslega fyrirbæri.
En mér hafa alltaf (já, líka þegar ég var virkur sætindafíkill) ofboðið hnallþóruhlaðborðin í erfidrykkjum. Að aðstandendur (eða e-r þeim velviljaðir) skuli þurfa að kasta vinnu og peningum í þessar ofboðslegu veitingar, sem engum er til góðs að gúffa í sig.
Það sem mér þótti til fyrirmyndar í gær, var að fyrir utan kaffi og vatn (og te að mig minnir), þá var bara boðið upp á konfektmola. Kleinur finnst mér hefðu líka komið til greina, - þá meina ég í staðin fyrir konfektið, ef einhverjir hefðu þurft smá fyllingu í magann (og það þarf ekki tertudisk og gafla fyrir kleinu).
Svo voru engin dúkuð borð, heldur bara slatti af stólum, - en flestir kusu að standa í litlum hópum. Og ég gat ekki betur séð en að allir væru mjög sáttir.
Vildi bara vekja athygli á þessu, til fyrirmyndar fyrir aðra.
P.s. myndin er síðan í sumar, en ekki frá í gær.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.1.2009 | 20:45
Smámunapirringur.
Gleðilegt nýtt ár kæru lesendur.
Einhvern tímann gat ég þess hér á síðunni, að ég ætti auðvelt með að gleðjast yfir litlu. Sem er satt og rétt. En ég á það líka til - svona einstöku sinnum, - að pirrast yfir litlu. Tökum dæmi:
Þegar ég brá mér ofan í heita pottinn í sundlauginni í dag, voru þar fyrir 2 menn. Annar íslenskur en hinn kínverskur (eða af kínversku bergi brotinn). Sá íslenski segir við þann kínverska (sem greinilega var honum ókunnugur): On Iceland we hava little bombs you know, we set them on fire, and they make a big noise you know, and we call them kínverjar. You are kínverji and we call that little bombs kínverji. Hinn er kurteis og reynir að milda dónaskap hins íslenska, með því að segja: I know what you mean. In China we maka lot of fireworks, and that must be why you call some fireworks that name. En sá íslenski lét ekki staðar numið, heldur hélt áfram að hjakka aftur og aftur í orðunum: You are kínverji, and we call that little bombs kínverjar.
Þangað til ofan í pottinn kemur kínversk kona með dóttur sína. Þá spyr íslenski maðurinn strax: Is this your wife? Og fer svo að tala við barnið: What´s your name? Barnið réttir upp 4 fingur, eins og íslensku 4ra ára börnin gera. Ég geri veikburða tilraun til að stöðva dónaskap landa míns, með því að brosa blítt til stúlkunnar og segja: Fjögra ára. Þá snýr sá íslenski sér að mér og fer að útskýra eins og fyrir heimskum krakka, að hann hafi verið að spyrja hvað hún héti, en ekki hvað hún væri gömul. Svo hélt hann áfram að rekja garnirnar úr mæðgunum á sinni lélegu og dónalegu ensku (hann gerði augljóslega ráð fyrir að 4ra ára kínversk stúlka skildi og talaði ensku). Mæðgurnar hristu höfuðin brosandi, skildu greinilega ekki orð. Og fjölskyldufaðirinn gerði rétt í að túlka ekki.
Um leið og fjölskyldan fór upp úr pottinum, - greinilega búin að fá nóg af yfirheyrslum og öðrum dónaskap, kemur frönsk kona ofan í pottinn. Og íslenski kallinn byrjar á dónalegum og persónulegum yfirheyrslum yfir henni. Ég hugsaði mig um í örfáar sekúndur: Á ég að hella mér yfir kallinn með skömmum, eða yfirgefa pottinn. Kaus það síðarnefnda.
Ef þið kæru lesendur áttið ykkur ekki nú þegar á því, - þá er pirringur minn þríþættur:
Að Íslendingar skuli alltaf að gera ráð fyrir að allir útlendingar tali ensku.
Að sumir Íslendingar skuli gefa sér rétt til að hella sér yfir útlendinga með persónulegum yfirheyrslum - og jafnvel dónaskap (sem viðkomandi íslendingar - fatta oft ekki að er dónaskapur, af því að enskan þeirra er svo léleg).
Æ nú datt úr mér þriðja atriðið (en fúlt, það var örugglega eitthvað greindarlegt).
Ég tek það fram, að mér finnst mjög gaman að taka þátt í almennum umræðum í heita pottinum. En þá erum við ekki að tala um persónulega ágengni við einn eða neinn, heldur blandar sér hver sem vill í almennar umræður. Það er tvennt ólíkt.
Þegar ég er að klæða mig, kemur kona inn í klefann (gæti verið pólsk) og biður nærstadda konu aðstoðar, á nokkuð góðri íslensku. Sú kona fer umsvifalaust að tala við hana á ensku. "Ég bara tala íslensku" segir þá sú (líklega) pólska, - og snýr sér að mér. Ég aðstoðaði hana á einfaldri íslensku og hún brosti blítt og þakkaði mér kærlega með sama hætti.
Afsakið tuðið elskurnar. Pirringurinn fer að öllum líkindum úr mér um leið og ég er búin að ýta á Vista og birta.
Ef ég iðrast eftir á, - þá segjum við bara að ég hafi verið með jólaneyslufráhvarfseinkenni.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.1.2009 | 16:00
Áskorun til íslendinga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.12.2008 | 16:13
Afrek ársins.
Ég er svo hrikalega egósentrísk, - að þegar ég velti upp spurningunni; hvað var nú merkilegast á árinu? - þá dettur mér ekki í hug að tilgreina einhverja heimsviðburði eða landsviðburði (enda eru aðal-landsviðburðir ársins bara hundleiðinlegir), heldur koma "míns eigins" persónulegu afrek fyrst upp í hugann.
"Á nú enn einn ganginn að fara að monta sig af hjólreiðunum", hugsa nú einhver ykkar. Nei nei, ég skal alveg sleppa því. Ykkur hinum finnst kannski stórmerkilegt að kona á sextugsaldri skuli hafa hjólað langt út á land, - og það oftar en einu sinni, - en ég er bara svo ótrúlega fitt og flott og í frábæru formi, að ég tel slíkt ekki til stórafreka (já já, hógværðin og lítillætið á sínum stað).
Nei - mitt stærsta afrek er að hafa horft á mína fyrstu og einu "seríu". Á seinni árum hef ég bæði verið sorgmædd en hneyksluð fyrir hönd æsku landsins, sem les sig ekki lengur í svefn á kvöldin, heldur horfir á einn þátt af einni af seríunum sem þau eiga í bókahillunni.
En í vor eignaðist bókabéusinn ég sína fyrstu og einu seríu. 33 þætti (100 mínútur hver) um sjálfan Inspector Morse. Og er búin að horfa á þá alla.
Nú haldiði líklega að ég sé endanlega orðin snarklikkuð, - að telja slíkt og þvílíkt til afreka. En afrekið fólst ekki bara í að horfa sér til skemmtunar. Heldur byrjaði ég síðan upp á nýtt, með orðabók, glósubók og pásutakkann á fjarstýringunni að vopni, - og er hálfnuð með þá umferð. Semsagt mitt prívat og persónulega enskunámskeið.
Þetta hefur verið bráðskemmtilegt. Nema hvað ég verð að viðurkenna, að ég hef sjaldan fílað mig jafn heimska. Ég er að upplifa á eigin skinni, hið forkveðna, - að því yngri sem þú ert, þeim mun betur gengur þér að læra tungumál. Ég er viss um að ef 10 ára barn mundi eyða jafn miklum tíma og ég í tungumálanám á viku hverri, - þá mundi það barn bæta við sig 10 eða 20 sinnum meiri orðaforða en ég er að gera. Ekki beint uppörvandi fyrir konu sem vandist því í grunnskóla að vera alltaf með hæstu meðaleinkun yfir árganginn.
En nú er ég orðin nógu þroskuð til að hætta að rífa mig niður. Ég held ótrauð áfram þó hægt gangi.
Ég biðst forláts á að taka bara eitt persónulegt dæmi út úr öllu því unaðslega sem ég hef upplifað á árinu. Auðvitað er ég þakklátust fyrir allar þær yndislegu stundir sem ég hef átt með góðu fólki, - bæði fjölskyldu og vinum, - nýjum vinum og gömlum. Ástarþakkir öll sömul.
Og ég hlakka til nýja ársins og spennandi tækifæra sem bíða handan við hornið.
Gleðilegt nýtt ár elskurnar. - Takk fyrir allar gerðir af samskiptum á árinu sem er að líða.
Bloggar | Breytt 2.1.2009 kl. 14:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
30.12.2008 | 21:08
Jólarapport.
Aðfangadagur: Skaftahlíðarslektið og stjúpsynirnir komu í jólagraut (rice á l'amande á fínu máli) í hádeginu. Tveir aðalréttir (rjúpa og hamborgarahryggur) fyrir okkur þrjú um kvöldið. Eftir matinn fékk ég smá snert af mínum árlega ótta um að nú mundi það kannski gerast í fyrsta sinn á æfinni; að ég fengi öngva bók í jólagjöf. Óttinn reyndist ástæðulaus að vanda. Ég fékk tvær. Er komin vel á veg með þá fyrri; Petite Anglaise. Hún er góð.
Jóladagur: Árlegt hangikjöts- og spilaboð hjá mömmu. Einstaklega vel heppnað.
Annar í jólum: Nýja vestfirska kvótaspilið í Skaftahlíðinni. Mjög skemmtilegt.
Þriðji í jólum: Bræður eiginmannsins og þeirra frír mættu í kvöldmat í rauða húsið við hafið. Gott kvöld.
Fjórði í jólum: Mamma mætti í hádegissúpu, spil (sjá mynd) og kirkjugarðsferð.
Fimmti í jólum: Hjólaði upp í Tryggingastofnun með tveggja ára samsafn af lækna og tannlæknareikningum. Þetta er stórafrek!! í hvert sinn sem ég geri það, - alltaf mjög ofarlega á frestunarlistanum (mætti halda að ég kærði mig ekki um endurgreiðslu). Stjúpsynirnir mættu á staðinn, - verða fram yfir áramót.
Sjötti í jólum: Búin að sitja allan daginn við tölvuna og eyða myndum. Ótrúleg Kleppsvinna. Það er eins og ég hafi aldrei kveikt á myndavélinni fyrir minna en 75 myndir af því sama. Og gert það vægast sagt ansi oft. Tölvan orðin gott betur en yfirfull. Svo þarf ég að eyða öllum þessum myndum aftur og aftur, - þær virðast hafa save-ast í mörgum back-up-möppum. Svo er eins og það sé endalaus biðlisti af myndum sem bíða eftir plássi - og mæta á staðinn þegar ég held að ég sé komin niður í ásættanlegan fjölda. Ég þori varla að segja það (ég er hrædd um að mínir nánustu hoppi hæð sína af kæti); - en ég held að nú verði gert gott hlé á ljósmyndunaræði mínu, - sem staðið hefur í ca. 3 ár.
Njótið áramótanna og lifið heil.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)