31.12.2010 | 16:03
Annáll ársins
Þó bloggfærslum hafi fækkað skammarlega í seinni tíð, get ég ekki látið hjá líða að rifja upp helstu atburði ársins nú á sjálfan gamlársdaginn.
Eins og sannri miðaldra konu sæmir er ég uppteknust af öllum gleðistundunum með afkomendum mínum og öðrum fjölskyldumeðlimum.
Og þar stendur upp úr gleðidagurinn mikli þegar heimasætan útskrifaðist sem stúdent frá MR. Ég á örugglega aldrei eftir að gleyma augnablikinu þegar rektor tilkynnti um dúx ársins.
Og ánægjustundirnar eru fleiri. Afkomendur mínir eru heimsins mestur gleðigjafar - og ég er svo stálheppin að þau vilja hitta mig oft og reglulega. Ég hef meira að segja fengið þann yngsta sendan "með frímerki" frá Ísafirði til að dvelja dögum saman í ömmuhúsi. Svo á ég eiginmann sem heldur ekki vatni yfir stórfengleikum mínum - og umber gallana mína með aðdáunarverðu jafnaðargeði.
Einn "lítill hlutur" kemur þó alltaf upp í hugann þegar ég hugsa um ánægjulegustu atburði ársins. Þið munið kannski eftir þessum litlu fölgrænu miðum sem við gátum fyllt út og sent til þeirra sem við höfðum tekið eða vildum taka okkur til fyrirmyndar. Ég fékk þannig miða. - Og tárast af gleði í hvert sinn sem ég hugsa um hann. Kannski af því að ég met sendandann einstaklega mikils - og gat alls ekki gefið mér það fyrirfram að viðkomandi liti á nokkurn hátt upp til mín. - Um leið er enginn ofar á blaði yfir þá sem ég gæti óskað mér að vera til fyrirmyndar.
Í maí fékk ég símtal frá gömlum góðum vini, sem kennir við Stóru-Vogaskóla. Hann tjáði mér að þar á bæ væri áhugi á að stofna vísi að tónlistarskóla innan grunnskólans ef rétta manneskjan fyndist. Og til að gera langa sögu stutta, þá fór ég í viðtal við skólayfirvöld og var ráðin á staðnum.
Mér líkar alveg óhemju vel í þessari nýju vinnu minni. Eitt af því ánægjulega er að fá að taka þátt í uppbyggingarstarfi á niðurskurðartímum. Alveg magnað að mæta einlægri jákvæðni og þakklæti þegar maður mætir með nýtt vinnuframlag á þannig tímum.
Nýja vinnan hafði þó einn óæskilegan fylgifisk. Mér fannst líka svo gaman á hinum vinnustaðnum, að ég tímdi ekki að skera hana niður nema að mjög takmörkuðu leyti. Var því í allt of mikilli vinnu nú á haustmisseri. Hélt mér væri það í lófa lagið af því ég er soddan reynslubolti. Hélt ég gæti nýtt mér reynsluna og þyrfti því ekki að vera með 100% kennsluundirbúning og þyrfti ekki að vera á útopnu í öllum kennslustundum.
- Sem var auðvitað algjör sjálfsblekking. Undirrituð er bara einu sinni þannig gerð að hún alltaf á útopnu - og nennir öngvu hálfkáki.
Því fór sem fór. Svo bregðast krosstré sem önnur tré - og undirrituð lennti á sjúkrahúsi á háannatíma, með sterkan grun um kransæðastíflu. Fór í hjartaþræðingu og allan pakkan, en útskrifaðist með díagnósu Saxa læknis; þú ert lélegur sjúklingur; aldrei neitt almennilegt að þér.
Kom út af Lsp í hjúts þakklætiskasti. Í mörg ár hef ég verið meðvituð um alla þá sem hafa komið frá lækni með bakflæðistöflur upp á vasann, en dáið úr kransæðastíflu stuttu seinna. Svo er ég að öllum líkindum með slæmt bakflæði, en af því að ég er í áhættuhópi vegna ættarfylgju, fæ ég þessa frábæru þjónustu, þar sem möguleikar á kransæðastíflu eru útilokaðir.
Þakklæti mitt beindist ekki síður að minni yndislegu fjölskyldu og vinum. Magnað að finna þessa einlægu og óeigingjörnu ást og umhyggjusemi.
Og ég tók þessa uppákomu sem viðvörun. Ég er greinilega orðin of gömul fyrir allt of mikla vinnu. Svo ég sagði upp á einum vinnustað og verð því í eðlilegu kennsluhlutfalli á vormisseri. Ætti því að hafa tíma og orku til að blogga oftar.
Óska ykkur öllum gleðilegs árs og þakka fyrir allt og allt eins og maðurinn sagði.
Lifið heil.
Athugasemdir
Fallegur pistill hjá þér, mamma mín. Hugsum til ykkar þar sem árið rennur á enda. Takk fyrir allt og allt, fyrr og síðar. Þú ert til fyrirmyndar :-)
Berglind (IP-tala skráð) 31.12.2010 kl. 21:35
Elsku Laufey - góður pistill. Gleðilegt ár til þín og þinna.
Ingibjörg (IP-tala skráð) 1.1.2011 kl. 13:30
Gleðilegt ár elsku Laufey frænka mín, þetta er góður pistill og mikið er ég glöð yfir því að þú ert búin að skera niður vinnu. Og enn glaðar er ég yfir því að hjartað þitt er í góðu lagi. Vonandi færir nýja árið þér gleði og hamingju.
Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 1.1.2011 kl. 20:47
Þú ert heppin kona, og uppskerð eins og þú sáir.
Dóra Hlín (IP-tala skráð) 6.1.2011 kl. 12:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.