Um kristni, trú og kirkju

Eftirfarandi forystugrein eftir undirritaða birtist í hálfsársriti Óháða safnaðarins, sem borið var til safnaðarmeðlima í dag:

Skilgreining mín á Kristni, trú og kirkju er þessi: Ef þú trúir að til sé máttur þér æðri, sem getur jafnvel stjórnað lífi þínu betur en þú sjálfur, þá ertu trúaður. T.d. eru flestir 12 spora iðkendur trúaðir, þó sumir þeirra séu hvorki kirkjuræknir né skráðir í trúfélag. Trú hefur ekkert með trúarbrögð að gera. Ef þú leitast við að lifa á þann hátt sem Jesú Kristur boðaði með orðum sínum og gjörðum, þá ertu kristinn. Sú boðun gekk fyrst og síðast út á náungakærleika. Þeir sem sýna náunganum kærleika í orði og verki, eru því kristnir. Svo einfalt er nú það. Því miður er til fólk, bæði hér á landi og erlendis, sem hrópar hátt á torgum að það sé kristið, en hegðar sér í hrópandi andstöðu við það sem Kristur boðaði. Þau dæmi eru sorglega mörg og fæla allt of marga frá kristnum samfélögum. T.d. þegar Bush var endurkjörin forseti BNA. Þá voru fyrirsagnir fjölmiðla á þessa leið: Kristnin í heiminum hefur sigrað. Hvernig geta menn sem standa fyrir stríðsrekstri, morðum og pyntingum gefið út yfirlýsingar um Kristni. En hvað er þá kirkja? Kirkja er hvorki bygging né stofnun. Kirkja er hópur fólks sem kýs að rækta trúarlíf sitt í ákveðnu samfélagi. Mér hefur alltaf þótt vænt um íslensku þjóðkirkjuna. Hún hefur sannarlega gert margt gott fyrir einstaklinga og þjóðina. En því betur sem ég kynntist henni, sá ég hversu mikil stofnun hún er. Með ýmsum þeim göllum sem stofnanir hafa. Og það sem skipti mestu máli: Stofnun sem leggur meiri áherslu á gamlar hefðir en náungakærleika og fordómalausa virðingu fyrir manneskjum. Stofnun sem vill frekar láta satt kjurrt liggja en að taka heiðarlega á óþægilegum málum. Þess vegna kaus ég fyrir nokkrum árum að yfirgefa þá stofnun. Óháði söfnuðurinn lá beint við. Ég hafði þá um skeið verið virk í söfnuðinum, m.a. haldið utan um 12 spora starfið. Í kirkjuna okkar streymir fólk sem vill rækta anda sinn og bæta líf sitt með hversdagslegum hætti. Við erum svo heppin að hafa alþýðlegan prest sem laðar fólk að kirkjunni. Prest sem talar beint til fólks án þéringa og óþarfa rituals. Prest sem hlustar á alla með opnum kærleiksríkum huga og af virðingu. Í kirkjuna okkar er gott að koma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góð færsla hjá þér Laufey mín, sammála flestu sem þú segir þarna.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.1.2011 kl. 16:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband