Sólbaðssaga

Fyrir nokkrum færslum síðan lofaði ég ykkur að koma með gamlar sögur. Nú er komið að því. Segjum að ástæðan sé sú að frú Laufey sé orðin svo settleg, pen og yfirveguð, að frásagnarverður flumbrugangur sé ekki lengur daglegt brauð. - Því þurfi að grípa til eldri sagna.

Mér datt í hug ein góð þegar ég sá á baksíðu mbl í dag mynd af gömlu góðu sólbaðsbekkjunum í Vesturbæjarlauginni. Þar undum við okkur löngum og góðum stundum eftir að við fluttum suður (á Ísafirði var/er bara innilaug). Á sólríkum dögum tókum við með okkur nesti svo við gætum verið lengi. Þess ber að geta að undirrituð var á þessum tíma tágrönn og með snöggan drengjakoll. Þau fáu aukakíló sem stundum komu fóru bara á magann, en ekki á mjaðmir, brjóst og læri, eins og hjá flestum ungum konum. Og að sjálfsögðu sólaði maður sig á skautbúningnum einum saman (geymdi upphlutinn hjá nestinu).

Einkasonurinn var nýlega 4ra ára þegar saga þessi gerðist og frumburðurinn 5 árum eldri. Þau vildu líka fá sólbaðsbekk, en ég vissi að þau yrðu mest í lauginni svo þau fengu einn bekk saman til að skiptast á með. Þið sem notuðuð þessa bekki munið væntanlega að þeir sem vildu hafa hærra undir höfðinu settu annan endann á bekknum upp í gluggakistu.

Þennan dag gerist það að þegar drengurinn kemur upp úr lauginni til að leggjast í sólbað, vill hann að ég taki bekkinn úr gluggakistunni. Ég geri það og hann leggst en líkar það ekki og vill fá bekkinn aftur upp í gluggakistu. Rúmlega sextugur karl sem lá við hliðina á okkur - rís þá upp við dogg og segir: Hvaða vesen er þetta á þér strákur, - ákveddu bara hvernig þú vilt hafa þetta í eitt skipti fyrir öll svo bróðir þinn þurfi ekki endalaust að vera að færa bekkinn fyrir þig.

Það sló spennuþrunginni þögn á alla nærstadda.
"Hvaða bróðir minn?" spurði drengurinn.
"Er þett' ekki bróðir þinn sem er með þér þarna?" spurði karlinn og nikkaði í áttina til mín.
"Nei þetta er mamma mín" sagði drengurinn.

Sólbaðsgestir héldu niðr´í sér andanum.
Sá gamli hikaði eitt augnablik en brölti svo á fætur og hélt orðalaust inn í búningsklefann án þess að líta til hægri eða vinstri.

Um leið og hann var kominn inn um dyrnar sprakk ég úr hlátri.
Sem betur fer fyrir aðra sólbaðsgesti sem þorðu loks - ekki bara að anda - heldur líka skellihlæja.

Fleiri gamlar sögur væntanlegar.

Góða helgi gott fólk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hahahaha ekki bregst þér bogalistinn í frásögnunum Laufey mín.  Frábær saga.  Takk mín kæra. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.11.2011 kl. 11:04

2 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Hahahahaha

Margrét Birna Auðunsdóttir, 26.11.2011 kl. 15:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband